Laun skal ákveða með kjarasamningum

Birtist í Fréttablaðinu 16. júni 2010

 Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 2009 segir: „Í nýafstöðnum kosningum veitti meirihluti kjósenda jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að halda áfram og leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis.“ Andi yfirlýsingarinnar er á þá leið að hagsmunir alþýðu verði hafðir að leiðarljósi við endurreisn efnahagskerfisins, svo sem með því að verja velferðarkerfið eftir föngum – það eigi sem sagt ekki að endurreisa óbreytt það kerfi sem hrundi.

 Þannig fer yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar saman við stefnu og markmið verkalýðshreyfingarinnar, að verja kjör alþýðunnar. Hrunið afhjúpaði gífurlegt arðrán  auðstéttar á alþýðu. Gagnvart þessari auðstétt þarf verkalýðshreyfingin að veita stjórnvöldum aðhald en jafnframt verða verkalýðshreyfingin og ríkisstjórnin að taka höndum saman.

 Vísir að slíku samstarfi varð til með stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í júní 2009. Að honum komu reyndar líka Samtök atvinnulífsins, auk ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar, og sáttmálinn ber þess nokkur merki. Þau sögðu sig frá sáttmálanum 22. mars síðastliðinn. Það þarf varla að fara í grafgötur með það að auðstéttinni með samtök sín og verkfæri, svo sem Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Sjálfstæðisflokkinn, er umhugað að grafa undan þessari ríkisstjórn eða í það minnsta hafa einhverja stjórn á henni.

 Eitt af meginatriðum sáttmálans var samkomulag um að ljúka kjarasamningum sem skyldu gilda til nóvemberloka 2010. Í sáttmálanum segir: „Forsendur stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði fyrir gerð kjarasamninga eru að ekki verði gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á. Þetta hindrar þó ekki að sett verði lög sem kalla á breytingar á kjarasamningum enda sé um slíkt samið milli aðila kjarasamnings í framhaldinu.“

 Aðrir aðilar sáttmálans en SA hafa ekki sagt sig frá honum. Það er hins vegar spurning hvort ekki sé kominn tími til að gera nýjan sáttmála milli ríkisstjórnarinnar og hagsmunasamtaka alþýðu, og þá með víðtækari aðild, svo sem Öryrkjabandalagsins. Það er óþolandi að ríkisstjórnin, hvort sem það eru einstakir ráðherrar eða stjórnin í heild, komi með yfirlýsingar um frystingu launa. Vandi almennings er margþættur og það verður að vera sameiginlegt verkefni stjórnvalda og hagsmunasamtaka alþýðu hvernig beri að leysa hann. Laun og lífeyrir er einn þáttur þessa vanda.

 Það má benda á að frá 1. júní 2010 eru lágmarkslaun starfsmanna Reykjavíkurborgar samkvæmt kjarasamningum 170.000 krónur. Líklega er engin fastur starfsmaður á þessum launum, en einhverjir eru þar rétt fyrir ofan og allstór hópur er með laun á bilinu 172-190 þúsund krónur á mánuði. Ætli sumum þætti það ekki ansi knappt til að lifa af. Á að frysta slík laun umyrðalaust?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband