Ríkisstjórnarsamstarf með beisku bragði

Klukkan rúmlega 9 í morgun hófst flokksráðsfundur Vinstri grænna. Fyrir þennan fund var lögð samstarfsyfirlýsing Vinstri grænna og Samfylkingar - yfirlýsing um ríkisstjórnarsamstarf. Eftir miklar umræður var hún samþykkt með meirihluta atkvæða á þriðja tímanum.

Um þessa yfirlýsingu má hafa ýmis orð, hún er auðvitað málamiðlun og í henni er margt gott, ýmislegt sem betur mætti fara og einhvers er kannski að sakna sem þar ætti að vera. Ein ríkisstjórn á ekki - og getur ekki - starfað eftir einhverri fullkominni starfskrá, mörg verkefni ríkisstjórna eru þess eðlis að hún verður að vinna úr þeim eftir því sem aðstæður leyfa. Og því er  það með þessa yfirlýsingu, að þótt inntak hennar sé mikilvægt svo langt sem það nær, þá er hitt jafnmikilvægt hvernig spilað verður úr því.

Eitt mál var það sem helst stóð í mörgum fundarmönnum. Það var ESB-málið. Á landsfundi Vinstri grænna í mars var samþykkt afdráttarlaust að VG teldi „að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins".  Jafnframt sagði í yfirlýsingu fundarins: „Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Margir félagar í VG telja að með þessu hafi fundurinn hafnað því að VG standi að aðildarumsókn, en verði umsókn lögð fram verði niðurstaðan lögð undir þjóðaratkvæði.

Í samstarfsyfirlýsingunni, sem flokksráð VG samþykkti í dag, var sagt eitthvað á þá leið (ég er ekki með hana við höndina þegar ég skrifa þetta), að utanríkisráðherra muni leggja fyrir vorþingið (þ.e. nýhafið þing) tillögu um aðildarumsókn. Síðan er sagt að báðir flokkar virði sjónarmið hins og með því er opnað fyrir að þingmenn VG geti greitt atkvæði gegn tillögunni án þess að setja stjórnarsamstarfið í uppnám.

Þetta er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að VG standi að þessari aðildarumsókn, jafnvel þótt allir þingmenn greiði atkvæði gegn henni. Með þessari yfirlýsingu hefur VG einfaldlega, ásamt Samfylkingunni, falið utanríkisráðherra að leggja tillögu um aðildarumsókn fyrir þingið.

Sjálfur er ég eindregið á móti aðild að ESB og ég tel mótsögn í því fólgna að standa að aðildarumsókn ef ég er fyrirfram á móti aðild, ef ég sem sagt hef ekki trú á því að aðildarviðræður mundu skila einhverju sem ég gæti stutt. Þetta á við um mig persónulega og þetta tel ég að eigi líka að eiga við um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Hér tel ég að Samfylkingunni hafi tekist að þvinga forystu VG til að samþykkja þessa málsmeðferð þar sem stjórnarsamstarf hefði ella ekki verið í boði.

Þetta atriði í samstarfsyfirlýsingunni gat ég ekki samþykkt og greiddi því atkvæði gegn henni. Það var mér svo sem ekki ljúft, því að ég styð ég hana að öðru leyti og þessa ríkisstjórn.

 

Sjá líka: Þingið greiði atkvæði - til þess er það

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Sæll, kæri Einar!

Ég hef enn meiri áhyggjur af ungu (og jafnvel eldri) fjölskyldunum og einnig fyrirtækjum sem eiga að greiða ofreiknuð okurlán í topp til þess að vernda "eignir" bankanna. Finnst bjargráðin þar flókin, ómarkviss og dýr. Helst að lögfræðingar græði á þeim.

Hlédís, 11.5.2009 kl. 09:26

2 Smámynd: Einar Ólafsson

Ég hef áhyggjur af fjölskyldunum sem sitja uppi með okurlán eða búa við atvinnuleysi. Ég hef áhyggjur af atvinnuástandinu, ég hef áhyggjur af því að kapítalistarnir, handhafar fjármagnsins, geta ávalt haft í hótunum sé ekki hlaupið eftir þeirra hagsmunum, ég hef áhyggjur af því að þessi ríkisstjórnin standi ekki í lappirnar gegn gagnsókn kapítalistanna, sem ætla sér að hramsa allt til sín sem þeir hafa misst úr höndum sér, ekki síst bankana. Og ég hef áhyggjur af því að í áhyggjum sínum yfir afkomu heimilanna verði fólk andvaralaust gagnvart gagnsókn kapítalistanna - og gagnvart Evrópusambandsglýjunni.

Einar Ólafsson, 11.5.2009 kl. 11:46

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Að ætla að fara í uppbyggingu á þessu samfélagi án þess að gera eitthvað í því að takmarka vald og stærð fjármagnsvaldsins tel ég að muni valda nýrri byltingu. Flokkur friðarsinnar á Íslandi hefur ekki gengið sérlega vel að reyna að forðast friðarrof á Íslandi. Við verðum bara að vona að það verði til einhverjir leiðtogar í þeirri byltingu sem geta tekið yfir.

Héðinn Björnsson, 11.5.2009 kl. 18:01

4 Smámynd: Hlédís

Ekki jók stefnuræða F-ráðherra bjartsýni. Hún var þokukennd í meira lagi - og frelsun í faðmi EB eina heyranlega hugðarefnið.

Hlédís, 20.5.2009 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband