Bankar í þágu samfélags

Höldum bönkunum í samfélagslegri eigu

Birtist í Smugunni  29. maí 2009

Óheft einkaeign fjármagns er samfélagsleg meinsemd. Ólýðræðisleg yfirráð yfir fjármagninu skerða lýðræðið verulega. Í samanburði við það er misvægi atkvæða milli  kjördæma tittlingaskítur. Lýðræðisumbætur, sem ekki taka á þessum vanda, eru hálfkák.

Sjaldan hefur þessi lýðræðishalli verið jafn greinilegur og að undanförnu, hvort sem litið er til Íslands eða heimsins alls: skipulag bæja miðast við hagsmuni fyrirtækjanna, sókn einstaklinga eftir hámarksgróða skekur heilu byggðarlögin, tvær verslanakeðjur umbreyta skipulagi matvöruverslunarinnar, lítill hópur manna ræður nær öllum fjölmiðlum, allskyns menningarstarfsemi verður meira og minna háð framlögum auðmanna – á undanförnum árum var nánast hægt að tala um einkavæðingu fjárveitingavaldsins.

Og nú, þegar stjórnvöld leitast við að reisa hagkerfi Íslands við eftir kollsteypu þess – vegna einkavæðingar bankanna, segja sumir, þá eru það handhafar fjármagnsins sem valda stöðugum vandræðum, og þó er tilhneiging til að fela þá og persónugera fjármagnið: áhættusækið fjármagn, þolinmótt eða óþolinmótt fjármagn, fjármagnið flýr land. Jafnframt verður fjármagnið náttúrukraftur, það streymir, það þarf að virkja það, en þó tekst aldrei að ná almennilegum tökum á því, það líkist frekar vindum loftsins en jökulám. En fjármagnið  er hvorki sjálfstæð persóna né óháður náttúrukraftur, það er verkfæri manna, verkfæri sem fáir ráða yfir og nota til að skara eld að sinni köku.

Nýfrjálshyggjan ekki læknuð


Varla var ríkið búið að taka yfir bankana í fyrrahaust og þar með þjóðnýta tapið en farið var að tala um nauðsyn þess að selja þá aftur. Furðu fáir hafa orðið til að andmæla þessu, það er eins og nýfrjálshyggjan sitji enn eins og mallandi veira í þjóðinni. Þeir sem lengst eru til vinstri leyfa sér að tala um að ríkið haldi kannski einum banka. Annars virðast flestir sammála um að það sé ekki í verkahring ríkisins að reka banka.

Fæstir rökstyðja það, þetta er einskonar ritningargrein, en sumir vísa þó með hryllingi til þess þegar bankarnir voru undir hæl stjórnmálaflokkanna sem skiptu með sér áhrifum og nýttu í þágu flokkgæðinga meðan almenningur þurfti nánast að leggjast á hnén fyrir framan bankastjórana til að særa út smálán. Sömu menn segja svo, þegar bent er á að einkavæðing bankanna eigi stærstan þátt í efnahagshruninu, að það hafi bara verið vegna þess hvernig staðið var að einkavæðingunni og hvernig bankarnir voru reknir. En rétt eins og hægt er að haga einkarekstri á ýmsan hátt, þá er líka hægt að haga samfélagslegum rekstri á ýmsan hátt. Og ríkisrekstur er ekki eini valkosturinn við einkarekstur, þar má líka hugsa sér ýmis form samvinnurekstrar án gróðasjónarmiða.

Ég ætla ekki að leggja til að hver einasta króna á sparireikningum landsmanna verði þjóðnýtt eða sett undir stalínískt eftirlit. Ég ætla heldur ekki að leggja til að ríkið taki yfir öll fyrirtæki og komi í veg fyrir allt einkaframtak. Þvert á móti. Það er einmitt hin óhefta einkaeign á fjármagni og yfirráð einkaaðila yfir því sem hafa leikið einkaframtakið verst hér á landi sem annars staðar. Stórfyrirtækin hafa sölsað undir sig hvert sviðið af öðru og rutt framtakssömum einstaklingum – eða hópum – úr vegi þannig að einkaframtakið hefur í æ ríkari mæli orðið að einkaframtaki hinna fáu.

Hagnaður einstaklinga má ekki ráða


En starfsemi banka er að því leyti sérstök að þar er eingöngu sýslað með fjármagn. Og yfirráðum yfir fjármagni fylgir vald. Þess vegna eiga fjármálastofnanir og fyrirtæki að vera í einhverskonar samfélagslegri eigu og lúta lýðræðislegri stjórn og eftirliti. Hagnaðarsjónarmið einstaklinga mega alls ekki ráða rekstri þeirra. Og almenningur, sem felur þeim sparifé sitt til vörslu eða fær hjá þeim lán til nauðsynja, verður að geta treyst þeim.

Með opinberum eða samfélagslegum rekstri bankanna vinnst tvennt: Annarsvegar er dregið úr þeim lýðræðishalla sem einkayfirráð yfir fjármagninu veldur. Hinsvegar er þá hægt að reka bankana út frá sjónarmiðum almannaþjónustunnar, sem tekur fyrst og fremst mið af almannahagsmunum í stað gróðasjónarmiða sem ýta undir fjármálabrask og valda efnahagslegum óstöðugleika og á endanum bankakreppum. En verði hagnaður skilar hann sér til samfélagsins, enda kemur hann þaðan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Smjerjarmur

Ja við skulum endilega lata folk eins og Helga Hjörvar, Arna Pal og Kolbrunu Halldorsdottur stjorna bönkunum.  Þessi fyrirgreiðslubankar hafa gefið svo afskaplega goða raun. 

Smjerjarmur, 30.5.2009 kl. 11:25

2 identicon

Gott innlegg hjá þér í umræðuna, mikilvægt að hafa í huga "samfélagslega ábyrgð bankanna."

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband