Ekki ábyrgð verkalýðsins

Dreifum vinnunni, styttum vinnutímann

Birtist í Smugunni 3. júní 2009

Skopmynd teiknarans Halldórs í Morgunblaðinu 29. maí var umhugsunarverð. Myndin sýnir strák sem segist nú bara vera lítill strákur, enginn hagfræðingur, en hann heldur að þetta eigi eftir að reddast og heldur uppi blaði merktu „Kreppan 2008“ og á því er listi með orðunum „matur“, „menntun“, „húsnæði“, „orka“, „bílar“ og fleira. Aftan við þann dálk eru tveir aðrir, annar með yfirskriftina „nóg“, yfir hinum stendur „ekki nóg“. Og allsstaðar er krossað í fyrri dálkinn. Á gólfinu liggur samskonar listi merktur „Kreppan 1929-1933“ og þar eru allir krossar í seinni dálknum, „ekki nóg“.

Það er þarft verk hjá teiknaranum að halda þessu til haga. Kreppan stafar ekki bara af því að braskarar og útrásarvíkingar hafi framið á okkur stærsta þjófnað Íslandssögunnar, þótt við skulum ekki gera lítið úr því. Hér var líka stunduð uppbygging og innflutningur sem fór langt fram úr greiðslugetunni. Við erum með nánast nóg af öllu í landinu, við bara skuldum sumt af því.

Dreifum vinnunni

Það er lítil þörf á byggingum íbúða- og skrifstofuhúsnæðis á næstunni. Það þýðir að störfum í byggingariðnaði fækkar. Verslun dregst líka saman, væntanlega mest með innfluttan varning, t.d. bíla. Það er gott að því leyti að það sparar gjaldeyri. En störfum fækkar.

En það er ýmislegt annað sem krefst áfram sama mannafla. Ýmis konar þjónusta heldur áfram. Einnig allskyns framleiðsla til útflutnings og á ýmiskonar neysluvörum, svo sem matvælum og ýmsu öðru, þ.e.a.s. ef fyrirtækin í þeim greinum geta starfað áfram.

Atvinnuleysi kostar mikið. Atvinnulausir þurfa að lifa eins og aðrir, þeir fá atvinnuleysisbætur og hugsanlega félagslega aðstoð, auk þess sem búast má við að atvinnuleysi valdi ýmsum öðrum kostnaði, svo sem vegna félagslegra vandamála og sjúkdóma.

Það er því mjög mikilvægt, hreint efnahagslega, að halda atvinnuleysi niðri. Því ætti að gera allt sem hægt er til að halda allskyns þjónustu gangandi, bæði opinberri og annarri. Að fækka störfum í þeim greinum er glapræði. Það sem sparast með því tapast að miklu leyti aftur í atvinnuleysisbætur og annan kostnað vegna hinna atvinnulausu og auk þess er viðbúið að niðurskurður á sumri þjónustu og opinberri starfsemi, svo sem í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og félagslegri þjónustu valdi auknum kostnaði þegar frá líður.

Nú er auðvitað svo að mönnum verður ekki einfaldlega svissað úr einu starfi í annað, atvinnulaus byggingaverkamaður fer ekki að kenna eða stunda sérhæfð heilbrigðisstörf. En bent hefur verið á að hægt væri að leggja nú áherslu á ýmiskonar viðhald, sem kannski hefur verið setið á hakanum. Síðastliðið haust bárust fréttir af því að nemar í bifvélavirkjun hafi hrökklast frá námi á Akureyri vegna þess að aðstöðu skorti. Við eigum nú bílaflota sem dugar sennilega í mörg ár, en að því kemur að þessir bílar þarfnast viðgerðar. Kannski kemur nú að því að hætt verði þeirri sóun að endurnýja bílana eftir örfá ár og farga þeim gömlu. Þess í stað verði reynt að láta þá endast heldur lengur með viðgerðum. Þannig ætti nú að mennta bifvélavirkja í stórum stíl, kannski sumir þeirra sem eru að missa vinnuna núna hefðu áhuga á slíkri menntun.

En að auki er sú leið að dreifa vinnunni meira með því að stytta vinnutímann. Styttri vinnutími er kjarabót og kannski gæti stytting hans komið á móti launahækkunum. Kannski fyrirtækin mundu spara meira á því hreinlega að segja upp fólki, en á móti kemur að atvinnuleysisbætur sparast og þann sparnað mætti nota til að styrkja stöðu fyrirtækjanna. Stytting vinnutímans þýðir líka að margir þurfa þá á minni þjónustu að halda, t.d. styttri tíma fyrir börnin í leikskóla.

Og vel að merkja, auðvitað ætti að nýta bensínskattinn nýja til að efla almenningssamgöngur, sem mundi veita mörgum þann valkost að spara bílinn og bensínkaup, draga úr innflutningi bensíns og, síðast en ekki síst, draga úr atvinnuleysi meðal bílstjóra.

Þessar leiðir verða auðvitað ekki farnar nema í samráði allra aðila, atvinnurekenda, stéttarfélaga, ríkis og sveitarfélaga.

Dreifum tekjunum

Ef stéttarfélögin sætta sig við hóflegar kjarabætur, þótt á móti kæmi styttri vinnutími, þá er líka grundvallaratriði að allt bókhald fyrirtækjanna verði opið og öll laun og tekjur verði uppi á borðinu. Það hlýtur líka að vera skilyrði fyrir opinberri aðstoð við fyrirtækin, hvernig svo sem henni yrði hagað.

Það er ekki nóg að dreifa vinnunni. Það þarf líka að dreifa tekjunum. Það mætti hugsa sér, þó ekki væri nema sem kreppuráðstöfun, að setja sér það viðmið að hæstu nettólaun, þ.e. að frádregnum skatti, í fyrirtækjum og stofnunum yrðu aldrei hærri en tvöföld lægstu nettólaun. Þetta næði til allra starfsmanna, einnig stjórnenda, og líka á einhvern hátt til eigenda varðandi arðgreiðslur. Ef forstjórinn hefði t.d. 600 þúsund að frádregnum skatti, þá yrðu lægstu laun í fyrirtækinu aldrei lægri en 300 þúsund eftir skatt. Að öðrum kosti yrðu laun forstjórans að lækka.

Hjá Reykjavíkurborg, þar sem ég starfa, er lægsti launataxti sem nú er borgað eftir 150.203 kr. Af þessum launum fara 13.671 kr. í skatt. Eftir standa 136.532 kr. Svo eru menn að væla yfir hóflegum hátekjuskatti! Að vísu eru fáir á þessum allra lægstu töxtum, en það er líka fólk sem þarf að lifa – og hefur sama rétt og aðrir á mannsæmandi lífi. Sjálfur er ég, háskólamenntaður starfsmaður í hæsta launaþrepi hjá Reykjavíkurborg, á launataxta sem gefur 289.617 kr. á mánuði, skattur 65.533, laun eftir skatt 224.084 kr. Ég er sem sagt með 64% hærri nettólaun en sá lægsti hjá Reykjavíkurborg. Ég segi ekki að ég hafi það neitt ósköp gott á þessum launum árið 2009 og finnst óþarfi að gefa neitt eftir meðan aðrir eru með margfaldar tekjur á við mig, en ég skrimti, allavega betur en þeir lægst launuðu. Verkalýðurinn ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins, síst þeir lægst launuðu og valdaminnstu. Ef það er kreppa, þá verða hinir betur stæðu bara að gefa eftir. Svo einfalt er það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill Einar.

Það sem er að bögga mig er hvað atvinnurekendur og samtök þeirra ætla að fá að komast undan uræðunni og ábyrgðinni eina ferðina enn.Hvenær á að henda þeim út úr lífeyrissjóðunum?Hvenær verður gerð sú krafa í samningum að þeir taki á sig hluta vandans með t.d. þeirra eigin launalækkun eða skattahækkun? Afhverju er þetta ekki viðrað núna í samningagerð eða hefur það verið gert?

Margrét (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband