Vinstristjórnin stefnir að einkavæðingu bankanna

Fjármálastofnanir eru ein af grunnstoðum samfélagsins

Birtist í styttri útgáfu í Smugunni 24. júní 2009

3. desember 1999 var tekið til umræðu á Alþingi stjórnarfrumvarp um sölu á 15% hlut í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Í ræðu um frumvarpið sagði formaður hinnar nýstofnuðu Vinstrihreyfingar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, meðal annars:

„Kenningar eru settar fram án þess að þær þurfi að rökstyðja, því meiri einkavæðing því betra. Alltaf er talið af hinu góða að koma hlutunum úr eigu ríkisins án tillits til aðstæðna eða hver á í hlut. Þannig er þetta mál rekið. Enginn greinarmunur er gerður á fyrirtæki í samkeppni, prentsmiðju eða ferðaskrifstofu, sem ríkið seldi hér á árum áður og var að mörgu leyti eðlilegur hlutur, eða hvort komið er að undirstöðufjármálastofnunum þjóðarinnar, fjarskiptastofnunum eða jafnvel stofnunum í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Þetta er kredda, ofstæki ættað úr smiðju Margrétar Thatcher og hennar líkra" (leturbreyting mín).

 

Einkavæðingarstefna vinstristjórnarinnar

Rúmum 9 árum seinna, 1. apríl 2009, var Steingrímur J. Sigfússon enn formaður Vinstrihreyfingarininar - græns framboðs, en jafnframt var hann þá orðinn fjármálaráðherra. Þá voru hinir einkavæddu bankar hrundir og rústirnar komnar í hendur ríkisins. Þann dag er sagt í vefmiðlinum Visir.is að þá um morguninn hafi hann í svari við fyrirspurn sjálfstæðismanna á fundi í fjárlaganefnd sagt „engin áform um einkavæðingu bankanna." Dregur þó kannski aðeins úr, því haft er eftir honum orðrétt: „Og alls ekki með sama hætti og árið 2002. Sú hörmungarsaga verður ekki endurtekin."

22. júní 2009 mælti hann svo sem fjármálaráðherra fyrir frumvarpi til laga um Bankasýslu ríkisins. Í vefmiðlinum Mbl.is 23. júní er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra „að ríkið eigi ekki að eiga bankana deginum lengur en nauðsynlegt sé vegna endurskipulagningar þeirra" og stefnt sé „að því að búið verði að einkavæða bankana aftur" þegar Bankasýsla ríkisins verði lögð niður eftir fimm ár.

Þessa stefnu má reyndar lesa út úr frumvarpinu.

Í 4. grein frumvarpsins, lið i, segir um fyrirhuguð verkefni Bankasýslu ríkisins: „Að gera tillögur til fjármálaráðherra um hvort og hvenær tilteknir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum verða boðnir til sölu á almennum markaði..." og í lið j „Að undirbúa og vinna tillögur um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum."

Samkvæmt 9. grein er gert ráð fyrir að stofnunin hafi „lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður," og í athugasemd með þessari grein er sagt: „Ekki er ætlunin að þetta fyrirkomulag verði til frambúðar heldur ráðgert að ríkið losi um eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum þegar tækifæri gefst og að eignarráð og eftirlit með eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum sem hugsanlega verða áfram á hendi ríkisins eftir þessi tímamörk verði með hefðbundnum hætti." Sem sagt: hugsanlega verða einhverjir eignarhlutar skildir eftir.

Þessi stefna, að einkavæða bankana, hugsanlega að einhverjum eignarhlutum undanskildum, er áréttað víðar í athugasemdum við frumvarpið.

 

Hlutverk og eðli fjármálastofnana

Það var munurinn á afstöðu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna til einkavæðingar bankanna að síðarnefndi flokkurinn var á móti einkavæðingunni en sá fyrrnefndi einungis á móti aðferðinni við einkavæðinguna. Væntanlega á nú að standa einhvern veginn öðru vísi að einkavæðingunni og verður nú æ minna sem greinir þessa tvo flokka að.

En hefði ekki verið tækifæri nú til að greina hlutverk og eðli fjármálastofnana og síðan út frá því að móta stefnu um hvernig eignarhaldi og rekstri er best fyrirkomið?

Mín meining er að fjármálastofnanir séu ein af grunnstoðum samfélagsins, eins og við sjáum best af því að endurreisn fjármálakerfisins er forgangsatriði hjá stjórnvöldum. Fjármálastofnanir sinna mikilvægri grunnþjónustu í samfélaginu. Þær veita athafnalífi almennings og fyrirtækja ákveðna grunnþjónustu og þær taka fé þeirra til geymslu og veita þeim lán. Slíkar stofnanir eiga ekki að hafa að markmiði hámarksarð einstaklinga (hluthafa) heldur á að reka þær á félagslegum grundvelli með hagsmuni samfélagsins og einstakra viðskiptavina að leiðarljósi.

Bankarnir sýsla með peninga, geyma þá, lána, flytja. Mikilvægt markmið fyrirtækja í einkaeigu, einkum og sér í lagi stórfyrirtækja sem eru í eigu hluthafa, sem eingöngu eiga hlut í fyrirtækinu vegna gróðavonar, en ekki til dæmis vegna áhuga á bankastarfsemi, er að hámarka hagnað. Þótt sú viðleitni skapi kannski ákveðinn kraft, þá hefur hún líka sínar neikvæðu hliðar, ekki síst hjá fjármálastofnunum þar sem fjármálabrask er nærtæk leið til hagnaðar. Slíkur hagnaður er í raun ekki annað en gripdeildir í það fjármagn sem bankarnir hafa aðgang að umfram aðra.

Af þessum sökum er mikilvægt að bankarnir séu reknir á félagslegum grunni þar sem almannahagsmunir eru í fyrirrúmi. Vissulega er hægt að setja einkareknum bönkum ýmsar skorður með regluverki en tilhneigingin verður eigi að síður að setja hagsmuni hluthafanna í fyrirrúm - og liðka svo regluverkið þeim í hag.

 

VG hefur aldrei samþykkt að einkavæða bankana

Hefði ekki verið nær að gera ráð fyrir því í frumvarpinu að þessi Bankasýsla starfaði meðan verið væri að vinna að framtíðarskipan bankamála og taka sér tíma í það. Ef niðurstaðan yrði, eftir slíka skoðun, að rétt væri að einkavæða bankana, þá væri það á grundvelli mótaðrar stefnu sem tæki mið af framtíðarhagsmunum samfélagsins. En ég er hræddur um að margir kjósendur núverandi stjórnarflokka hafi ekki ætlast til að það yrði eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar að lögfesta 5 ára áætlun um einkavæðingu bankanna.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem lögð var fyrir flokksráðsfund VG 10. maí, er hvergi getið um að fyrirhugað sé að einkavæða bankanna þó ýjað sé að þeim möguleika að einkaaðilar komið að einhverju leyti að rekstri banka: „Jafnframt mun ríkisstjórnin marka skýra eigendastefnu þar sem fram komi framtíðaráherslur ríkisins sem eiganda bankanna og hvernig henni verður framfylgt. Markmið þess er að styrkja faglegan, gagnsæjan og traustan grunn undir aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu. Meðal annars verði kveðið á um hvernig eignarhaldi bankanna verður hagað, hugsanlegri eignaraðild erlendra kröfuhafa og sýn á dreift eignarhald á bönkunum til framtíðar."

Í ályktun landsfundar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs 20.-22. mars 2009 var ekki sagt beint að allir bankar skyldu vera í almannaeigu en lagt til að „ríkisbönkunum verði fækkað með sameiningu og verði hluti bankakerfisins í eigu ríkisins til að tryggja hagsmuni almennings" og ennfremur að „bankarnir móti sér samfélagslega ábyrga stefnu."

Mér finnst ekki ólíklegt að einhverjir flokksmenn vildu fá að ræða það áður en formaður flokkins leggur fram frumvarp um einkavæðingu bankana. Seint verður sagt að reynslan af einkavæðingu bankanna hvetji til stefnubreytingar flokksins í þessum efnum. Við skulum vona að þetta frumvarp verði ekki samþykkt fyrir boðaðan flokksráðsfund 28.-29. ágúst.

 

Umræður á alþjóðavettvangi um fyrirkomulag bankastarfsemi

Víða um heim eru í gangi umræður um breytt fyrirkomulag bankastarfsemi og fjármálakerfa. Ég er ekki svo kunnugur þeim umræðum að ég geti farið í saumana á þeim. En ég get t.d. bent á ályktun sem gerð var í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu í Beijing í Kína um miðjan nóvember síðastliðinn, Asia-Europe People's Forum, undir heitinu „Alþjóðlega fjármálakreppan: sögulegt tækifæri til umsköpunar".   Þar er bent á eftirfarandi atriði varðandi starfsemi fjármálafyrirtækja:

  • Full félagsvæðing (socialisation) bankanna, ekki bara þjóðnýting tapsins.
  • Gegnsæi í fjármálakerfinu.
  • Eftirlit þings og almennings með bankakerfinu.
  • Félagslegar og umhverfislegar forsendur fyrir lánastarfsemi.
  • Almannasparisjóðir (citizen investment funds).

 

Almenningur fái bankana upp í fórnir sínar

Ef einhverjir einkaaðilar hér á landi ráða yfir svo miklu fjármagni að þeir geti keypt bankana, þá má kannski spyrja: Væri ekki nær að gera þetta fjármagn hreinlega upptækt án þess að afhenda handhöfum þess bankana fyrir það, meðan hluti tekna venjulegs launafólks, öryrkja og ellilífeyrisþega er gerður upptækur með ýmis konar aðgerðum í skatta- og lífeyrismálum, verðhækkunum, niðurskurði og frestun umsaminna kauphækkana, jafnvel kauplækkunum, án þess að nokkuð komi í staðinn annað en óljós von um að landið rísi einhvern tíma í framtíðinni?

Væri ekki nær að gera fjármuni stóreignamannanna upptæka en láta almenning halda bönkunum sem smáþóknun upp í fórnir hans?

Sjá einnig grein mína Bankar í þágu samfélags hér á síðunni og í Smugunni 29. maí 2009.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Þakka þarfa og góða grein, kæri Einar!

Hlédís, 24.6.2009 kl. 20:26

2 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Dittó!

Fylgi þér vel alveg fram að síðasta kaflanum því það fellur um sjálft sig að ætla að taka eitthvað ófrjálsri hendi (ekki komast allir í efni eftir óheiðarlegum leiðum) til að ná fram réttlæti. Hvar ætlarðu að draga mörk ríkidæmisins? Að gera rangt til að gera rétt er ekki endilega leiðin. Það er alvarlegt vandamál að þeir peningar sem verið er að heimta af fólki voru til að byrja með alls ekki til.

Hinsvegar getur rangt stundum verið rétt í raun, en það er aðeins flóknara mál:)

Þakka fyrir greinina.

Rúnar Þór Þórarinsson, 24.6.2009 kl. 21:30

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk Hlédís fyrir að benda mér á þessa fínu grein Einars, sem kemur mér ekki á óvart, þegar hann á í hlut. Steingrími líður svo vel í ráðherrastólnum að hann er orðinn eins og kamelljón og það er nær ómögulegt að sjá mun á honum og Samfylkingarliðinu.

Ég hef alltaf haft mikið álit á Steingrími, kannski vegna þess að hann er besti ræðumaður alþingis en nú átta ég mig á að hann er samtryggingastjórnmálamaður. "Svo bregðast krosstré sem önnur tré"  Ég held að Steingrímur misreikni sig þarna. Almenningur er ekki upprifinn yifir EB og því síður Icesave. Ögmundur hefur vaxið í sínu starfi og sama má segja um nýliða eins og Guðfríði, Lilju og Ásmund. Vonandi fær þetta fólk stuðning í flokknum við sín sjónarmið. 

Sigurður Þórðarson, 24.6.2009 kl. 22:15

4 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Hafið samt í huga að Steingrímur er ekki einvaldur. Það er enginn keisari.

Svo ég komi með smá málsvörn, þá er vel hægt að einkavæða bankana rétt. Þið hljótið að viðurkenna það. Það er stórhættulegt að setja bankana undir stjórnmálamenn bara á annan hátt.

Það þarf eftirlit, aðhald, mjög dreifða eignaraðild, starfsramma o.s.fr.v.

Rúnar Þór Þórarinsson, 25.6.2009 kl. 12:39

5 Smámynd: Einar Ólafsson

Takk fyrir athugasemdirnar Rúnar Þór.

Ég skil athugasemd þína við síðustu klausuna. Það er vissulega hægara sagt en gert að framkvæma þessa hugmynd. Það má auðvitað spyrja hvar eigi að draga mörk ríkidæmisins, en svo er eignarétturinn líka varinn í stjórnarskrá, 72. gr.: "Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. "

En ég er nú kannski frekar að benda á þetta misræmi i réttindum borgaranna: eignarrétturinn er varinn í stjórnarskránni, en mannsæmandi tekjur eru hvergi varðar, afkoman er ekki varin nema skv. gr. 76: "Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika." Þetta segir svo sem ekki meir en að tryggt skal að fólk geti skrimt. Þess vegna er mjög einfalt að ganga á kjör lífeyrisþega og láglaunafólks hvort sem almenningsþörf krefur eða ekki en á eignir er ekki hægt að ganga, hversu miklar sem þær eru, nema almenningsþörf krefji og þá komi fullt verð fyrir.

Einar Ólafsson, 25.6.2009 kl. 18:42

6 Smámynd: Hlédís

 Takk, Einar.

Ekki veitir af að benda á einmitt þetta.

Hlédís, 26.6.2009 kl. 18:09

7 Smámynd: Fríða Eyland

Góð grein og fræðandi, takk fyrir

Fríða Eyland, 29.6.2009 kl. 19:41

8 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Hversu mikinn lúxus (ég held að allir þurfi eitthvað slíkt, ekki bara að komast af) finnst þér að eigi að tryggja þeim sem falla undir 76. grein og hversu langt finnst þér að megi ganga að fólki sem ekkert amar að og getur unnið á fullu til að skaffa hinum?

Ég er ánægður með velferðarkerfið þótt ég njóti einskis góðs af því. Hinsvegar er ansi hart að geta ekki leyft sér nokkurn hlut og vera að láta hirða af sér meiri pening hlutfallslega en áður, sérstaklega ef aðrir eiga að fá að sleppa við hnífinn.

Svo við ég nota tækifærið og bannfæra nýfrjálshyggju sjálfstæðis- og framsóknarflokkanna síðustu 20 ár.

Rúnar Þór Þórarinsson, 30.6.2009 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband