Góðærinu er ekki lokið

birtist einnig á ogmundur.is

 

- af því að það var ekkert góðæri. Góðæri er þegar vel árar þannig að hægt er, vegna veðurfars eða annarra náttúrulegra skilyrða, að afla vel, hvort sem er til sjávar eða sveita, án þess að ganga á auðlindina. Og skynsamir menn leggja þá fyrir til mögru áranna.

 

Hið svokallaða góðæri undanfarinna ára var blekking. Það var ekkert til að leggja fyrir. Það byggðist ekki á meiri fiskafla, meiri uppskeru til sveita eða meiri framleiðslu í verksmiðjum. Okkur var sagt að það væri verið að skapa auð, en þessi auður var ekkert annað en síhækkandi tölur sem hringsóluðu á rafrænan hátt milli tölvukerfa banka og fjármálafyrirtækja. Og þó urðu þessar tölur að auði í höndum útvalinna manna í lykilstöðum. En þessi auður var ekki nýr auður, hann kom ekki úr neinni framleiðslu og því síður af himnum ofan. Hann var sjálftekið lán og reyndar þýfi.

 

Það hlaut að koma að skuldadögum. Og nú skulu þeir borga sem minnst nutu blekkingarinnar, sem ekki eyddu um efni fram, heldur unnu sína vinnu af samviskusemi og heiðarleika. Og unglingarnir og börnin, vinnuafl framtíðarinnar.

 

Góðærið var þjófnaður. Á árum áður var notað orðið arðrán, sem þýðir að arðinum af vinnu almennings er rænt. Það er það sem gerðist.

 

Hefur eitthvað tapast? Engin hús hafa brunnið í eldsvoðum eða hrunið í jarðskjálftum. Enginn hefur sett jarðskálftana í sumar í samhengi við það sem nú dynur yfir. Eldgos hafa ekki lagt lönd í eyði. Það hefur ekki orðið uppskerubrestur eða aflabrestur, engin snjóflóð hafa eyðilagt mannvirki og langt er liðið frá meiriháttar skipsskaða. Ekkert hefur eyðilagst. En margir hafa tapað þótt ekkert hafi brunnið, hrunið eða sokkið.

 

Það er jafnrangt að líkja kreppunni við náttúruhamfarir og kalla undanfarandi tímabil góðæri. Kreppa er í raun skuldadagar, þegar skuldum braskaranna og arðræningjanna er velt yfir á alþýðuna. Í kreppunni nær arðránið hámarki, þá er farið í vasa almennings og arðinum af vinnu hans stolið til að borga sýndargróða undanfarinna ára, sem var í raun fyrirfram nýttur ránsfengur. Hið svokallaða góðæri og kreppan eru í raun tvö stig í arðránsferlinu.

 

Kreppur eru ekki náttúruhamfarir. Þær eru kannski óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalismans. En kapítalisminn er ekki náttúruafl, hann er samfélagskerfi og samfélagskerfum er hægt að breyta eða bylta.

 

 


Þá fyrst opni almenningur pyngjur sínnar...

Þá er það hin megin krafan og hún er þessi: Þeir sem komu okkur út í þetta fen eiga að axla ábyrgðina, þeir eiga að borga.
Þá fyrst opni almenningur pyngjur sínar að,
allar hallirnar,
allar snekkjurnar,
öll fótboltaliðin,
og allar þoturnar hafa verið seldar og allir felureikningarnir á Cayman eyjum, Kýpur  og á Ermasundi  hafa verið tæmdir
og að S-hópar einkavinavæðingarinnar  hafa skilað ránsfeng sínum tilbaka.
Þetta hlýtur að verða krafa verkalýðshreyfingar og forsenda þess að gengið verði til einhvers sem kalla megi þjóðarsátt.
Og er ég þá ekki byrjaður að ræða hina pólitíska ábyrgð. Einnig hún kallar á uppgjör. Uppgjör á milli stjórnmálaflokka og innan stjórnmálaflokka."

 

 Úr ræðu Ögmundar Jónassonar á ársfundi ASÍ 23. október.

 

Munið undirskriftasöfnunina:

Ég sem Íslendingur neita að greiða skuldir útrásarmanna og heimta að eignir þeirra verði frystar!

http://www.petitiononline.com/skuldir/petition.html


Hvað með eignarrétt okkar hinna?

„Það er voðalega erfitt að afturkalla það sem er búið og gert, því þá ertu farinn að skerða eignarréttinn." Pétur Blöndal í DV 23. okt. 2008 í umræðum um hvort eiga að frysta og gera upptækar eigur útrásarvíkinganna.

Hvað með eignarrétt okkar hinna?

Hvað eignarrétt okkar sem höfum verið að borga í lífeyrissjóð? Eða séreignasjóðina, sem geta skerst um allt að 30% eftir því hvaða leið var valin.

Hvað með þá sem voru ginntir, m.a. af ríkisstjórninni, til að kaupa sér svolítil hlutabréf?

Hvað með þá sem bara lögðu inn á vissa bankareikninga samkvæmt vinsamlegum ráðleggingum þjónustufulltrúanna?

Og svo framvegis...

Eða er eignarrétturinn bara fyrir suma?

 

Munið undirskriftasöfnunina:

Ég sem Íslendingur neita að greiða skuldir útrásarmanna og heimta að eignir þeirra verði frystar!

http://www.petitiononline.com/skuldir/petition.html

 

 


Ég neita að borga skuldir auðmanna

Ég fékk sent skeyti þar sem mér var bent á þennan undirskriftalista: Ég neita að borga skuldir auðmanna -

http://www.petitiononline.com/skuldir/petition.html

Þetta er tímabær, sjálfsögð og nauðsynleg yfirlýsing. Þökk þeim sem hafði frumkvæði að þessu. Ég hef þegar skráð mig og hvet sem flesta til þess.

 


Varnir Íslands upp á náð Kínverja?

Eftirfarandi grein birtist á Friðarvefnum 22. október

 

Frétt í Morgunblaðinu 22. október hófst svo: „Íslendingar munu fagna áramótunum með hefðbundnum hætti. Það geta þeir þakkað kínverska flugeldaframleiðandanum Zhang Zong Lin, sem séð hefur Landsbjörg fyrir flugeldum um marga ára skeið. Hann ákvað að lána Landsbjörg fyrir flugeldunum vegna þess óvissuástands sem ríkir. Landsbjörg býst við minni sölu en undanfarin ár og hefur pantað minna magn en áður.“

Á vef Landsbjargar er sagt að flugeldasalan sé mikilvægasta einstaka fjáröflun flestra björgunarsveita landsins og í sumum tilfellum standi hún undir nær öllum rekstri einstakra björgunarsveita.

Björgunarsveitirnar byggja á sjálfboðaliðastarfi en engu að síður bera þær ýmislegan og umtalsverðan kostnað. En á sama tíma og þær þurfa að fjármagna þennan kostnað að 70-95% (sja visir.is 27.12.2007) með sölu flugelda og eyða dýrmætum tíma sjálfboðaliða sinna í þessa fjármögnun, þá rekur íslenska utanríkisráðuneytið Varnarmálastofnun fyrir 1500 milljónir króna á ári og NATO-ríki senda hingað orrustuþotur nokkrum sinnum á ári auk árlegra heræfinga, og allt kostar þetta formúu.

Þær raunverulegu ógnir sem steðja að íbúum Íslands, fyrir utan fjárglæfra og aðra glæpastarfsemi, er af völdum náttúrunnar, veðurs, jarðskjálfta og eldgosa. Og liðið sem kemur okkur til varnar og bjargar er fyrst og fremst björgunarsveitirnar auk landhelgisgæslu, lögreglu og sjúkra- og slökkvuliða.

Meðan meira en hálfur annar milljarður fer í gagnslausa stofnun og gagnlausar orrustuflugvélar og hersveitir, þá þarf hið raunverulega varnarlið okkar, björgunarsveitirnar, að bjarga fjárhag sínum með flugeldasölu. Og það er kaldhæðnislegt að þær skuli vera komnar upp á náð kínverskra bísnissmanna þegar fjárglæframennirnir eru búnir að koma Íslandi á kaldan klaka vegna skorts á vörnum gegn þeim.

Það má því segja að varnir Íslands séu komnar upp á náð Kínverja. Og það á sama tíma og útlit er fyrir að efnahagslíf Íslands sé upp á náð Rússa komið.

Í framhaldi af þessu er kannski ekki úr vegi að birta líka ályktun Samtaka hernaðarandstæðinga sem birtist á Friðarvefnum 17. október:

Samtök hernaðarandstæðinga fagna orðum starfandi utanríkisráðherra um að heimsóknir breskra herþotna verði afþakkaðar á næstunni og hvetja íslensk stjórnvöld til að hætta alveg að bjóða hingað erlendum her. Vandséð er hvernig stjórnvöld gætu réttlætt að sóa fjármunum í uppihald hermanna sem koma hingað til að sinna fánýtum æfingum.

Nú þegar raunveruleg ógn steðjar að Íslandi hefur sést hversu gagnslaust það er fyrir þjóðina að tilheyra NATO, bandalagi sem beinist gegn andstæðingi sem ekki er lengur til. Aldrei hefur verið ljósara að NATO-aðild Íslands er kostnaðarsamt dútl sem gerir ekkert til að tryggja öryggi og hag þjóðarinnar.


Alþjóðlega fjármálakreppan: sögulegt tækifæri til umsköpunar

 

Það vill kannski gleymast svolítið - eðlilega - að það er ekki bara fjármálakreppa á Ísandi heldur víða um heim, þótt ofmælt sé að öll okkar vandræði stafi af alþjóðlegu kreppunni.

 

Í síðustu viku komu fulltrúa nokkurra samtaka/stofnana frá Evrópu og Asíu saman í Beijing í Kína á fundi sem kallaður var Asia-Europe People's Forum, en þetta er í sjöunda sinn sem slíkur fundur er haldinn (sjá einnig á vefsíðu Transnational Institute). Meðal þessara samtaka eru Transnational Institute í Amsterdam, Focus on the Global South í Bangkok og Institute for Global Research and Social Movements í Rússlandi

 

Á fundinum var meðal annars sett saman skjal með tillögum um hvernig bregðast megi við hinni alþjóðlegu fjármálskreppu og hefur það verið birt undir heitinu: The global economic crisis:  An historic opportunity for transformation, eða Alþjóðlega fjármálakreppan: sögulegt tækifæri til umsköpunar. Skjalið er aðgengilegt á vefsíðunni Casino Crash - casinocrash.org og þar er jafnframt hægt að skrá stuðning sinn við það.

 

Ég vísa áhugasömum lesendum á enska útgáfu skjalsins, en nefni hér örfáar tillögur úr því:

 

  • Full félagsvæðing (socialisation) bankanna, ekki bara þjóðnýting tapsins.
  • Gegnsæi í fjármálakerfinu.
  • Eftirlit þings og almennings með bankakerfinu.
  • Félagslegar og umhverfislegar forsendur fyrir lánastarfsemi.
  • Almannasparisjóðir (citizen investment funds).
  • Loka öllum skattaskjólum (skattaparadísum). (Þetta er víst til umræðu hjá forystumönnum ESB núna).
  • Alþjóðlegt skattakerfi.
  • Skattur á fjármagnsfærslur í ágóðaskyni (Tobin-skattur).
  • Draga verulega úr hernaðarútgjöldum.
  • Stöðva einkavæðingu almannaþjónustu.
  • Stuðla að stofnun lýðræðislegra almenningsfyrirtækja undir eftirliti þings, sveitarstjórna eða verkalýðsfélaga, til að tryggja atvinnu.
  • Hafa eftirlit með eða styrkja framleiðslu vara sem teljast til grunnþarfa.
  • Banna allt brask með grundvallarmatvæli.
  • Fella niður skuldir þróunarlandanna.
  • Leggja smám saman niður Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðkiptastofnunina.
  • Stuðla að svæðisbundinni efnahagslegri samvinnu milli ríkja.
  • Einn kafli er sérstaklega um umhverfismál.
  • Lögð verði áhersla á fæðuöryggi og sjálfbæra matvælaframleiðslu.
  • Stöðva hverskyns áætlanir um að minnka réttindi verkafólks.
  • Launajafnrétti kynjanna verði tryggt.

 

 


Jú, sumir sáu þetta fyrir

 

Ég var hérna um daginn að rifja það upp að sumir hafi séð það fyrir sem forsætisráðherra var hulið, og vitnaði þá til stjórnmálamanna úr stjórnarandstöðu. En það voru ekki bara þeir. Á vetrarhátíð í Reykjavík 27. febrúar 2008 var svokallað ljóðaslamm á Borgarbókasafninu og þar flutti 15 ára stúlka, Halldóra Ársælsdóttir, frumortan texta sem hún kallaði Verðbréfadrengurinn:


Getum við endurheimt þýfið – eða hvernig getum við það?

Það verður æ ljósara, sem sumir sögðu, en margir vildu ekki trúa, að ævintýrirð mikla var ekkert annað en þjófnaður, að hinn ævintýralegi gróði, auðurinn mikli, varð ekki til úr engu fyrir snilli einhverra fjármálamanna, heldur er hann þýfi. Þegar fólk er að tapa stórum upphæðum, sem það hefur unnið sér inn á heiðarlegan hátt og lagt smám saman til hliðar, þá gufa þær ekki upp. Þessi sparnaður, þetta sem venjulegt launafólk, fólk með lítil fyrirtæki, námsmenn, eru að tapa nú og munu tapa á næstunni, eru ekki innantómar tölur heldur raunveruleg verðmæti sem fólk hefur unnið eða á eftir að vinna sér inn í sveita síns andlits.

 

Sú spurning vaknar: hvers vegna eru þjófarnir ekki teknir og settir handjárnaðir í gæsluvarðhald? Því miður var þetta löglegur þjófnaður. Ríkisstjórnir og Alþingi höfðu skapað lagalegt umhverfi fyrir þetta. Samt er þetta þjófnaður. Hér vaknar áhugaverð spurning: eru lögin réttlát? Ef ekki, er hægt að snúa til baka? Getum við sagt að lagasetningin hafi verið glæpsamleg og getum við sagt að það hafi verið glæpsamlegt að nýta sér lögin? Er siðferðið æðra lögunum? Ef svo er, hver dæmir þá hvaða siðferði er rétt? Er kannski sá almenningur, sá meirihluti kjósenda sem kaus þá stjórnmálamenn sem settu lögin og réðu ferðinni, hinn endanlegi sökudólgur? En hvað um minnihlutann? Á hann að hefna sín á meirihlutanum?

 

Þess eru auðvitað mörg dæmi að löglegu athæfi hafi verið snúið við á afturvirkan hátt. Það getur gerst í byltingum. Einhverjir sem ráða segjast hafa lögin sín megin, en staðan verður óþolandi fyrir einhverja sem gera uppreisn og þeir sem áður réðu missa völd sín – og eignir. Reyndar verða byltingar oftast þar sem lýðræðinu er ábótavant – á okkar mælikvarða. En hversu virkt og fullkomið er lýðræði okkar þar sem sumir hafa meiri völd, fjármuni og áhrif en aðrir? Hefur ekki verið bent á að alltaf var haldið frá almenningi upplýsingum sem lágu þó fyrir – og voru ekki einu sinni leyndarmál?

 

Eigum við að gera byltingu og gera þýfið upptækt? Eða er hægt að gera það án byltingar? Við getum kosið nýtt þing og fengið nýja stjórn, ríkisvaldið og löggjafarvaldið er formlega það sama, þótt skipt sé um menn. Getur þetta sama ríkisvald og löggjafarvald, sem var þegar þjófnaðurinn fór fram innan ramma laganna, krafist þess að þýfinu verði skilað?


Launafók ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins.

 

 

Þegar menn horfðu með aðdáun á mennina sem höfðu keypt upp banka, símafyrirtæki, flugfélög og fleira og tókst einhvern veginn að búa til slíkan stórgróða að ekkert viðlíka hafði sést í þessu landi, þá varð mér að orði að þessir peningar hefðu ekki dottið ofan af himninum né heldur æxluðust þeir úr nánast engu með því að láta þá hringsóla í einhverjum hlutabréfahringekjum.

 

Einhverjir hefðu unnið fyrir þeim, einhverjir aðrir en þeir sem hefðu slegið eign sinni á þá. Kannski væru þeir reyndar ekki allir til í raun og veru, að hluta væru þeir lítið annað en tölur á einhverjum rafrænum þeytingi milli tölvukerfa fyrirtækja, banka og kauphalla, þeir væru öllu frekar táknræn auðæfi eða hugsanleg auðævi ef þau yrðu leyst út á réttum tíma. En eitthvað var raunverulegt, alla vega það sem fór í þoturnar og afmælisveislurnar eða brúðkaupsveislurnar með stórstjörnunum og hótelum í Karíbahafinu eða lúxusbíla, glæsihús, jarðir og ég veit ekki hvað.

 

Það mátti allavega ljóst vera, að þegar sýndarauðurinn raungerðist í allskyns lúxus, þá væri það auður sem einhverjir hefðu svitnað undan, eða áttu eftir að svitna undan. Og það kom í ljós þegar hrunið kom. Roskinn maður seldi einbýlishúsið, sem hann hafði komið sér upp á langri starfsævi, og keypti hlutabréf fyrir andvirðið af því að honum hafði verið talin trú um að hann mundi lifa betur af arðinum. Allt tapaðist, en hvert? Gufaði húsið upp eins og svitinn sem hafði myndast við að byggja það? Gufuðu öll þau auðævi upp, sem litlu hluthafarnir höfðu aflað sér með áralöngu striti, þegar hlutabréfin urðu verðlaus? Hvað varð um þann lífeyri sem fólk var búið að vinna fyrir og leggja í lífeyrissjóði sem nú skerðast? Hvað verður um þau raunverulegu verðmæti sem unga fólkið verður að vinna upp í framtíðinni vegna gengistapsins á námlánunum eða vaxtahækkana á íbúða- og bílalánum?

 

Var allt þetta fólk búið að sóa og sukka meðan á góðærinu stóð? Nei ætli það, það urðu ekki allir jafnvel varir við góðærið. Það voru ekki allir á sama báti meðan á góðærinu stóð. Og það verða ekki heldur allir á sama báti eftir að því er lokið.

 

Nú verða allir að standa saman, er sagt, launafólk má ekki fara offari í launakröfum, við verðum öll að taka á okkur svolitla kjaraskerðingu. Það má vera að við verðum að fara varlega um skeið til að ekki kreppi enn meir að. En það er fráleitt að tala um einhverja þjóðarsátt sem gengur út á að almenningur, venjulegt launafólk, borgi það sem aðrir sólunduðu. Launafók ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins.


„Enginn sá fyrir þann storm....“

 Sumir segja að vandamálin núna stafi bara af ófyrirsjáanlegum ytri aðstæðum. Allir vissu að góðærið mundi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á síðastliðinn vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu,“ sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni 2. október: 

 Sjá http://www.althingi.is/altext/raeda/136/rad20081002T195255.html 

Það þá kannski ekki úr vegi að minna nú á grein eftir formann og varaformann VG sem birtist í Morgunblaðinu og víðar 14. mars síðastliðinn:  http://www.vg.is/kosningar/nr/3286 

Þar er farið yfir efnahagsmálin og bent á leiðir til úrbóta. Meðal annars er minnt á að í mars 2005, sem sagt fyrir þremur og hálfu ári, fluttu þingmenn VG þingsályktunartillögu um aðgerðir til að tryggja efnhagslegan stöðugleika. Ekki er að sjá að þessi tillaga hafi verið tekin til umræðu. Í greinargerð með tillögunni segir m.a.: 

„Á Íslandi ríkir nú skeið ójafnvægis í efnahagsmálum. Við búum við einhverja mestu þenslu sem riðið hefur yfir fyrr og síðar, viðskiptahalli með tilheyrandi erlendri skuldasöfnun er geigvænlegur og verðbólga á uppleið. Forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru við það að bresta. Geysihátt raungengi krónunnar skapar útflutnings- og samkeppnisgreinum mikla erfiðleika. Skilyrði til nýsköpunar í almennu atvinnulífi eru afar erfið við þessar aðstæður og áhugi innlendra fjárfesta beinist að útlöndum. Þrátt fyrir þetta heldur ríkisstjórnin óbreyttri siglingu hvað varðar áherslu á áframhaldandi og frekari uppbyggingu erlendrar stóriðju og hefur lögfest stórfelldar þensluhvetjandi skattalækkanir langt fram í tímann. Við þensluhvetjandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar bætist svo ástandið í fjármálaheiminum. Það einkennist af útlánaþenslu og miklu innstreymi erlends lánsfjár vegna mikils vaxtamunar, en hvort tveggja er að vextir hér eru háir og vextir í löndunum umhverfis okkur í lágmarki. Greiðari aðgangur að lánsfé á svo aftur sinn þátt í miklum hækkunum á fasteignamarkaði með tilheyrandi áhrifum á þróun verðlags eins og nánar verður vikið að síðar.


     Nokkurn veginn sama er á hvaða mælikvarða er litið, þenslumerki sjást um allt þjóðfélagið. Hinu svokallaða góðæri er þó vissulega misskipt, bæði milli einstaklinga og landshluta. Þegar mikill og vaxandi viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun er höfð í huga má spyrja hvort frekar sé um að ræða veislu sem slegið er lán fyrir en raunverulega aukna verðmætasköpun á traustum grunni.“ 

Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=131&mnr=666 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband