Fulltrúaráð St.Rv. hafnar því að öll þjóðin hafi spilað með

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundi fulltrúaráðs Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar 14. apríl 2010:

 

Ályktun

Fundur Fulltrúarráðs St.Rv. haldinn 14. apríl 2010 fagnar því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skuli loks vera komin út. Mikilvægt er að hún verði nýtt vel til að gera upp aðdragandann að hruninu og skoða hvað beri að varast í uppbyggingu samfélagsins.

Fundurinn hafnar þeirri kenningu, sem margir bera nú fram, að öll þjóðin hafi spilað meira og minna með. Þótt mikilvægt sé að horfa til alls samfélagsins, þá er slík kenning einungis til þess fallin að breiða yfir ábyrgð þeirra sem hana bera raunverulega, auk þess sem hún vanvirðir þá fjöldamörgu sem aldrei spiluðu með og sem ýmist gagnrýndu opinberlega þá þróun sem var í gangi eða horfðu á með undrun og vanþóknun.

Þróunin sem leiddi til bankahrunsins var margslungin og auk einkavæðingar bankanna og óábyrgs reksturs þeirra voru fjölmörg önnur fyrirtæki einkavædd og unnið að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og öðrum þáttum almannaþjónustu. Markvisst var unnið að markaðsvæðingu alls samfélagsins. St.Rv. ásamt heildarsamtökunum BSRB gagnrýndi þessa þróun allan tímann.

 Meðan hluti þjóðarinnar auðgaðist á tá og fingri og sumir svo undrun sætti þokuðust launakjör almenns launafólks hægt upp á við og margir sátu alltaf uppi með skammarlega lág laun.

St.Rv. hélt uppi ábyrgri baráttu fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna. Nú, þegar laun flestra almennra launamanna hafa farið lækkandi að raungildi frá árinu 2008 og tæpt ár er liðið frá undirritun stöðugleikasáttmálans, horfum við upp á að þeir sem mesta ábyrgð bera á hruninu valsa enn um með fjármagn og fyrirtæki eða sitja í valdastöðum.

Þótt mikilvægt sé að allir taki höndum saman er líka mikilvægt að horfast í augu við að sá hluti þjóðarinnar, sem hefur auðgðast á braski undanfarinna ára, ætlar sér að halda þeim auði og vill endurreisn í sama stíl.

St.Rv. hafnar því að taka á sig byrðarnar meðan arðræningjarnir halda sínu. St.Rv. hafnar endurreisn í gamla stílnum og krefst uppbyggingar samfélags jafnaðar, réttlætis og velferðar fyrir alla.

Ályktun

Fundur Fulltrúarráðs St.Rv. haldinn 14. apríl 2010 lýsir vanþóknun á þeim miklu launa og bónusgreiðslum sem hafa viðgengist innan fjármálakerfisins, fyrirtækja og stofnana íslensks samfélags.  Fulltrúaráð St.Rv. kallar eftir að launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækja og stofnana íslensks samfélags verði hógværar og í samhengi við almenn launakjör.

 http://www.strv.is/frettasida/nr/626/

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband