Tillögur Vinstri grænna frá 2005-2006 um efnahagslegan stöðugleika

Þingmenn Vinstri grænna lögðu þrisvar fram þingsályktunartillögur um efnhagslegan stöðugleika á árunum 2005-2006.

 Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 1. bindi, bls. 32, segir: „Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra. Hvorki á því ári né því næsta lögðu stjórnvöld með afgerandi hætti að bönkunum að minnka efnahagsreikning sinn.“

 Á bls. 33 er meðal annars að gagnrýnt heimilað hafi verið að stunda fjárfestingarbankastarfsemi samhliða hefðbundinni starfsemi viðskiptabanka, ekki hafi verið brugðist á fullnægjandi hátt við hagsveiflum, ofþenslu og vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu, ákveðið að lækka skatta á þenslutíma og bent er á að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi einnig verið þensluhvetjandi.

 22. mars 2005 var lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga frá þingmönnum Vinstri grænna um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika (þskj. 1014). Þessi tillaga beindist meðal annars að því að ná niður verðbólgu, halda stöðugleika á vinnumarkaði, tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfskilyrði, draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun, viðhalda stöðugleika í fjármálalífinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna.      

 Í því skyni er lagt til að þeim tilmælum yrði beint til Fjármálaeftirlitsins að hugað yrði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, þannig að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapaði ekki hættu fyrir efnahagslífið, og farið yrði yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi. Seðlabanki Íslands íhugi vandlega að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum. Þá var lagt til að fallið yrði frá eða frestað eftir atvikum a.m.k. hluta þeirra almennu skattalækkana sem lögfestar voru fram í tímann í desember 2004. Í staðinn kæmu aðgerðir til að bæta stöðu tekjulægstu hópa samfélagsins og barnafjölskyldna.

 Í greinargerð var bent á að verðbólga væri yfir þolmörkum (hún fór að vaxa þegar kom fram á árið 2004), en það stofnaði kjarasamningum í hættu. Viðskiptahalli færi ört vaxandi og erlendar skuldir færu hækkandi, gengið væri óeðlilega hátt, mikil umsvif byggingarverktaka kölluðu á aukið lánsfé til nýbygginga og ofan á allt þetta bættust svo stórframkvæmdirnar fyrir austan og stækkun álversins á Grundartanga með tilheyrandi virkjunum. Miklu skipti að stjórnvöld sýni við þessar aðstæður einbeittan vilja í verki til þess að skapa á nýjan leik stöðugleika í efnahagsmálum.

 Þessi tillaga var sem sagt lögð fram í mars 2005 en ekki tekin til umræðu.

 Um haustið, í nóvember, lögðu þingmennirnir tillöguna fram aftur nánast óbreytta (þskj. 5). Í greinargerð segir að í aðalatriðum séu aðstæður í efnahagsmálum hinar sömu og voru á útmánuðum nema að enn hefði syrt í álinn. „Fæstir, nema ráðherrar ríkisstjórnarinnar, neita því lengur að aðstæður í efnahagsmálum eru orðnar ískyggilegar, svo ekki sé sagt beinlínis háskalegar.“

 Nú var tillagan þó tekin til umræðu og fór hún fram dagana 13., 17. og 18. október. Fyrsta daginn var málið rætt í 45 mínútur og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tók einn stjórnarliða þátt í þeim. „Ég tel afskaplega mikilvægt að hér á Alþingi sé umræða um efnahagsmál,“ hóf hann ræðu sína. Hann lýsti sig sammála markmiðum tillögunar, „nema kannski það sem segir í síðasta liðnum að jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt. Ég tel ekki að óskaplegt hættuástand ríki í þjóðarbúskapnum eins og hv. þingmaður heldur fram. Það gengur vel í íslensku efnahagslífi og hv. þingmaður talar um að við sem stöndum fyrir ríkisstjórn landsins séum að senda röng skilaboð.“ Steingrímur J. Sigfússon, sem mælti fyrir tillögunni, benti á að margir teldu hina gríðarlegu skuldsetningu varhugaverða, en Halldór gerði lítið  úr henni, ríkissjóður stæði vel, þetta væru skuldir einstaklinga og fyrirtækja og eignir væru á móti. „En ég held að það sé samt rétt að hafa í huga að mikilvægt er að Íslendingar geti tekið þátt í alþjóðavæðingunni. Margir efnast í alþjóðavæðingunni og mikilvægt er að landar okkar séu þar þátttakendur.“ Niðurstaða hans var að „...í öllum aðalatriðum er allt heldur jákvætt í samfélagi okkar sem betur fer.“

 Umræðan hélt áfram 17. október og þá var það Einar Oddur Kristjánsson sem tók þátt í umræðunum af hálfu stjórnarflokkanna. Ræða Einars var nokkuð merkileg, hann tók að mörgu leyti undir með þingmönnum Vinstri grænna um leið og hann gerði lítið úr málflutningi þeirra, taldi hann mótsagnakenndan og einkennast af tvískinnungi og hræsni, einkum vegna þess að krafa um lækkun gengisins mundi óhjákvæmilega skerða kaupmátt. Hann viðurkenndi að óvarlega hefði verið farið en: „Alla forustu í þessu lauslæti hafa íslenskir bankar haft. Þeir hafa verið mjög kærulausir, sérstaklega í launamálum og útlánamálum. Þeir verða að átta sig á stöðu sinni í nýfengnu frelsi, að þeir bera ábyrgð í samfélaginu og geta ekki verið með — jæja, virðulegi forseti — þá hegðun sem þeir hafa sýnt fram að þessu. Þeir bera mikla ábyrgð í þessu opna, frjálsa samfélagi. Þeir verða að gæta sín og þau mistök sem hafa verið gerð á undanförnum missirum, menn verða að horfa til þeirra og gæta þess að láta þau ekki endurtaka sig. Það skiptir okkur öllu máli, vegna þess að Ísland hefur þessa glæsilegu stöðu, að geta haldið áfram sem frjáls og sjálfstæð þjóð, öllum öðrum óháð, að efla atvinnulíf sitt meira og betur en aðrir. Við eigum ótæmandi möguleika í þessu landi. Við þurfum bara alltaf að gæta okkar að vera ekki svona óskaplega — ja, hvað eigum við að segja, virðulegi forseti — vera ekki með þennan óhemjuskap. Þetta er óhemjuskapur sem við Íslendingar eigum að geta komist út úr og vanið okkur af.“

 Í lokaorðum sínum sagði Steingrímur J. Sigfússon: „Þeim mun lengur sem þetta ástand varir þeim mun meiri er hættan á harkalegri brotlendingu, á gengiskollsteypu og verðbólguskoti sem leiði yfir í fjármálakerfið í formi greiðsluerfiðleika o.s.frv. Hitt sem gerir ástandið mjög varhugavert er hin gríðarlega skuldsetning, skuldsetning heimilanna, skuldsetning atvinnulífsins og skuldsetning þjóðarbúsins út á við því að þjóðarbúið og þessir aðilar eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum í gengi og vöxtum vegna þungrar greiðslubyrði af erlendum skuldum. Heimilin eru að vísu sem betur fer ekki í stórum mæli enn farin að taka erlend lán eða lán í erlendri mynt. En lán heimilanna eru nánast að uppistöðu til verðtryggð þannig að um leið og verðbólgan hreyfir sig fer greiðslubyrðin af þeim lánum upp á við og á fulla ferð. Þess vegna er svo mikilvægt að reyna að afstýra þessu þensluástandi, þessu jafnvægisleysi sem allir viðurkenna að er, og að menn fari að reyna að ná tökum á ástandinu, snúa hlutunum við og tryggja að þetta geti aðlagast og komist í eðlileg horf án þess að veruleg brotlending verði.“

 Tveir þingmenn Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson tóku einnig þátt í þessum umræðum og tóku undir með flutningsmönnum tillögunnar. Tillögunni var síðan vísað til síðari umræðu og efnahags- og viðskiptanefndar en dagaði þar uppi.

 En var í meginatriðum sama tillaga lögð fyrir þingið 4. október 2006 (þskj. 14). Hún kom aldrei til umræðu.

 Þingmenn Vinstri grænna héldu þó áfram tuði sínu við lítinn fögnuð og 13. mars 2008 var lögð fyrir þingið frumvarp þeirra til laga um ráðstafanir í efnhagsmálum. Um það urðu talverðar umræður en allt er það efni í aðra grein.

 

Aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. 666. mál þingsályktunartillaga 131. löggjafarþingi.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=131&mnr=666

 

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. 5. mál þingsályktunartillaga 132. löggjafarþingi.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=132&mnr=5

 

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. 14. mál þingsályktunartillaga 133. löggjafarþingi.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=133&mnr=14

 

Ráðstafanir í efnahagsmálum. 486. mál lagafrumvarp 135. löggjafarþingi.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=135&mnr=486


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er svo sannarlega þarft að halda þessu þingskjali frá 2005 á lofti. Þetta var á sínum tíma kallað "svartsýnisraus" og "öfundsýki" út í ríka fólkið. Stjórnvöld hefðu frekar átt að hlusta enda hringdu viðvörunarbjöllurnar hátt á þessum árum "góðæris"

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 18:43

2 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Frábært að sjá þettasvart á hvítu hvernig VG stóð vaktina með formanninninum vakandi.  Þau eiga hrós skilið.

Það er svo aftur á móti jafn sorglegt að sjá hvernig Samfylking hefur ráðið stjórnarsamstarfinu og þeirra áherslur fengið að vera efstar á blaði. 

Því miður voru niðurstöður kosninga samkvæmt þeim áróðri sem haldið var uppi um krónuna. Samfylking var með lausnina á ónýtum gjaldmiðli. 

Fólk trúði því að hrunið væri krónunni að kenna. Sumir trúa því enn.

Vilhjálmur Árnason, 25.4.2010 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband