Mun Ísland halda áfram þátttöku í starfsemi NATO í Írak?

 

Birtist á Friðarvefnum, fridur.is, 5. júní 2007 

Á fundi Alþingis 4. júní beindi þingmaður VG, Katrín Jakobsdóttir, þeirri fyrirspurn til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hvort þær heimildir, sem fyrri ríkisstjórn veitti til að bandarísk stjórnvöld mættu nýta íslenska lögsögu, lofthelgi og flugvelli til flutninga vegna innrásarstríðsins í Írak, hefðu verið teknar aftur eða til stæði að afturkalla þær.

Svar utanríkisráðherra var svohljóðandi: „Eftir því sem mér er best kunnugt voru þessar heimildir veittar þegar Íslendingar studdu innrásina í Írak og voru þá í gildi um ákveðinn tíma en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur. Það eru auðvitað breyttar aðstæður líka í Keflavík eftir að herinn hvarf af landi brott og nú mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni.“ (Tilvitnun eftir bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis).

„Slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur,“ segir utanríkisráðherra. Þessi yfirlýsing er þýðingarmikil þótt ekki komi fram fram hvenær þær voru felldar úr gildi.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu utanríkisráðherra og yfirlýsingu ráðherrans frá 31. maí um að ríkisstjórn Íslands styðji ekki lengur stríðsreksturinn í Írak væri fróðlegt að fá svör við því hvað sé átt við með því að ríkisstjórnin vilji „leggja lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi,“ eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Eins og kunnugt er hefur NATO verið með starfsemi í Írak, þótt ekki sé um formlega „friðargæslu að ræða“ eins og í Afganistan. Íslendingar hafa tekið þátt í þessari starfsemi, m.a með því að leggja til starfsmenn. Augljóslega er starfsemi NATO ekki óháð hagsmunum Bandaríkjanna þar sem Bandaríkin eru ótvírætt forysturíki í NATO. Því hlýtur það að vera rökrétt framhald af þeirri ákvörðun að hætta að styðja stríðsreksturinn í Írak, að Ísland hætti þátttöku í starfsemi NATO í Írak og beini kröftum sínum að öðrum vettvangi, vettvangi sem er óháður Bandaríkjunum.

Einar Ólafsson

Um starfsemi NATO í Írak, sjá:
„NATO’s assistance to Iraq“ á vef NATO.

„Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann“ á Friðarvefnum 21. mars 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Helgi Hannesson

Sæll félagi og til hamingju með bloggið!

Eitthvað finnst manni þetta furðulegt orðaval hjá yfirmanni utanríkismála - "Eftir því sem mér er best kunnugt...." Gæti þetta kannski verið misskilningur hjá henni, á annað eftir að koma í ljós við nánari eftirgrennslan? Seinni hluti setningarinnar hljómar hins vegar afdráttarlaus: "...en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur."

Hins vegar fær Ingibjörg Sólrún aftur sjóriðu þegar í næstu setningu. "....mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni." Bíðum við, - til skoðunar hjá hverjum? Er hún sem utanríkisráðherra ekki þátttakandi í þeirri skoðun? "Mun það vera til skoðunar..." Er það heldur ekki alveg fullvíst? Hverjir eru það sem véla um þær heimildir? Geir Haarde og Bandaríkjamenn, eða hvað?

Sá vandræðagangur sem er á Samfylkingunni út af Íraksstríðinu birtist í þessu svari - þó auðvitað beri að fagna því að við veitum ekki Bandaríkjamönnum lengur heimild til að flytja tól til drápa í Írak um Keflavík - þ.e.a.s. ef það er þá alveg fullvíst!

Páll Helgi Hannesson, 6.6.2007 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband