Strætó

Nú er komið að því að fjalla um strætó. Ég tek strætó flesta virka daga, oftast tvisvar á dag, og stundum um helgar. Mér líkar vel að taka strætó. Það tekur mig heldur lengri tíma að komast á áfangastað en í einkabíl en á móti kemur að ég fæ svolítinn göngutúr til og frá biðstöðinni, ég slappa af í strætó, hef mann sem keyrir fyrir mig og tek gjarnan með mér tímarit eða bók og les. Stundum hitti ég einhvern sem ég þekki. Ég er orðinn málkunnugur fólki sem bíður oft með mér í biðskýlinu. Ég losna við að leita að bílastæði. Og ég spara heilmikinn pening.

 

Ég keypti í haust svokallað S-kort sem gilti frá 1. september til 1. júní, þ.e. níu mánuði. Það kostaði 27 þúsund krónur. Það gerir 98 kr. á dag. Mér reiknast til að ég hafi farið a.m.k. 300 ferðir. Ferðin kostaði skv. því 90 kr. Meðallengd ferðar var u.þ.b. 7 km. Samtals 2100 km. Á bíl sem eyðir 10 l á 100 km í innanbæjarakstri þýðir þetta að ég hefði eytt 210 l af bensíni. Um miðjan vetur kostaði bensínlíterinn u.þ.b. 112 kr. Þessi vegalengd hefði því kostað 23.520 kr. í bensíni. Mánaðarlegur kostnaður við að leggja á gjaldsvæði 3 er u.þ.b. 4000 kr. eða fyrir allan veturinn 9x4000 = 36 þúsund kr. Kostnaður fyrir mig, sem vinn í miðbæ Reykjavíkur, við að fara á bíl hefði því verið u.þ.b. 59.000 kr. Ég sparaði sem sagt 32.000 kr. með því að taka strætó. Þá er ekki talinn viðhaldskostnaður, olíuskipti o.þ.h. Opinberan starfsmann á miðlungslaunum munar um það. Ég hefði auðvitað sparað enn meira með því að reka ekki bíl, en það geri ég og þarf að bera talsverðan kostnað af honum þótt ég noti hann tiltölulega lítið. En kostnaðurinn er minni með minni notkun. Reyndar erum við tvö um bílinn, það er ekki einn bíl á mann í minni fjölskyldu. Þegar ég bjó í Noregi fyrir um 20 árum var tryggingagjaldið á bílnum miðað við hversu mikið var ekið. Það fannst mér snjallt.

Reyndar er ég á því að svona langtímakort í strætó ætti að kosta minna. Það ætti að vera a.m.k. ódýrara en bensínkostnaður á 5 km langri leið miðað við 8-10 ferðir á viku. Kannski 15000 kr. miðað við 9 mánuði. Snjallara væri þó að hafa árskort. Eina af röksemdunum fyrir því að fækka ferðum í sumar er að farþegum fækki svo mikið þegar skólunum lýkur. Nú er það svo að unga fólkið sem er í skólum þarf líka að komast leiðar sinnar yfir sumarið, það fer að vinna og þarf að komast í vinnu auk annars. En það kaupir sér kannski ekki græna eða rauða kortið 1. júní heldur reynir að komast á bíl, foreldrar keyra aukakrók með þau eða félagarnir sem eiga bíl skutlast með þau. Jú, það er einhver samnýting á bílum en væntalega einhverjir krókar og meiri keyrsla. Ef S-kortið hefði nú gilt áfram yfir sumarið, þá mundu kannski einhverjir nota strætó sem ekki gera það ella. Það hefði nú verið flott í stað þess að fækka ferðum að tilkynna: „Ákveðið hefur verið að S-kortið, sem átti að gilda til 1. júni, gildi til 1. september. Með því er ýtt undir notkun á strætó og tryggir viðskiptavinir fá svolitla umbun. Framvegis mun kortið verða árskort og lækka í verði.“ Þetta hefði verið flott!

En hvað var gert? Jú, það voru gerðar allmiklar breytingar á nýja leiðarkerfinu sem tók gildi í júlí 2005. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. Nýtt leiðakerfi þarf reynslu og endurskoðun í ljósi hennar. En þessi breyting nú í vor, sem var ansi mikil og tók til margra leiða, var sáralítið kynnt. Fastir viðskiptavinir áttuðu sig á þessu á síðustu stundu. Jæja, það voru nú kannski tímabundin vandræði. Kannski svolítil óvirðing við mann. En svo allrar sanngirni sé gætt var lítil tilkynning um breytinguna í vögnunum með nokkrum fyrirvara, en hún var lítil og lítt áberandi.

Breytingar á leiðakerfi koma óhjákvæmilega misjafnlega við fólk, fyrir suma er hún til bóta, fyrir aðra er hún til óþæginda. Það er óhjákvæmilegt. Sumar breytingar eru kannski umdeilanlegar eða jafnvel forkastanlegar eins og mér sýnist það vera að hætta ferðum að Vífilsstöðum. Fyrir mig var breytingin til óþæginda, ég er talsvert lengur áleiðinni eftir hana, en ég bjó reyndar við lúxus fyrir hana.

Hitt var verra að ferðum var fækkað. Notkunin er minni á sumrin, var sagt, en við, sem hittumst á hverjum morgni í biðskýlinu á leið okkar í vinnu, við erum tryggir viðskiptavinir, við erum þetta fólk sem alltaf er verið að segja að þurfi að vera meira af. Fyrir utan það að ferðatíminn lengdist fyrir mig, þá er ég nú kominn annaðhvort 20 mínútum of snemma í vinnuna eða 10 mínútum of seint. Hversu lengi verð ég tryggur viðskiptavinur? Hversu lengi verð ég þetta fólk sem þarf að verða meira af? Jú, ég er reyndar sauðþrár og vil ferðast með strætó. Seinþreyttur til vandræða. En mér finnst einhvern veginn að mér sé ekki sýnd mikil virðing.

Þetta kemur ofan á ýmislegt annað. Biðskýlið á Lækjartorgi varð að einhverju öðru. Í vetur þegar ég ætlaði að fara þar inn einhverntíma var það lokað. Þegar ég ætlaði að kaupa rauða krotið þar 1. júní var það lokað. Mér skilst það sé bara opið yfir nóttina af því að það þjónar nú næturlífi Reykjavíkurborgar. Farþegar strætó norpa í alltof litlu glerskýli sem næðir í gegn. Nógu flott með auglýsingum um girnilegan varning! Í Mjódd er skýli með sjoppu, en bekkirnir fyrir utan eru steinsteyptir bekkir baklausir. Bekkirnir inni á Hlemmi voru líka allt í einu orðnir baklausir, það er dálítið langt síðan. Maður húkir þar eins og hrúga. Kannski til að maður sitji þar ekki lon og don og drekki og dópi.

Einhver úr stjórn Strætó sagði að það hafi verið svo og svo mikið tap á Strætó. Þess vegna hafi þurft að spara. En það er ekki rétt að tala um tap. Strætó er ekki ætlað að standa undir sér. Ef ekki er sett nógu mikið fé í reksturinn er ljóst að endar ná ekki saman. Þá þarf að taka afstöðu til þess hvort eigi að auka framlagið eða skerða þjónustuna. Og þjónustu, sem menn segja á hátíðastundu að sé nauðsynleg og fleiri þurfi að nýta, slíka þjónustu á að bæta þótt það kosti eitthvað. Jú, það á að bæta hana haust. Fram til þess geta þeir sem nýta hana bara bitið gras.

Borgarfulltrúar í Reykjavík voru einhvern tíma í fyrra að tala um að það væri rétt að hætta með byggðasamlagið og endurreisa SVR af því að hin sveitarfélögin vildu ekki leggja fé í strætó. Vinstri græn í Kópavogi lögðu til að Kópavogsbúar fengju frítt í strætó, en meirihlutinn gerði bara gys að því. Síðast á bæjarstjórnarfundi nú um daginn. Svo allt í einu, á næsta bæjarstjórnarfundi var tilkynnt að það ætti að verða frítt í strætó fyrir Kópavogsbúa næsta vetur. Framsóknarmenn voru reyndar með kosningatal í fyrra um það að setja upp einhvern sérstakan innanbæjarstætó í Kópavogi. Allir voru voða miklir strætómenn fyrir þær kosningar. Svo er bara ferðum fækkað. Svo er bara tilkynnt að nú verði frítt í strætó. Við, þessi sauðþráu, sem tökum strætó á hverjum degi, við vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið. Ekki af því að það blási úr öllum áttum inn í flottu glerskýlin heldur af því að við vitum aldrei af hvaða átt hann er frá bæjarstjórnunum eða stjórn strætó. Flott að fá frítt í strætó. En mætti ég biðja um aðeins betri þjónustu, jafnvel þótt ég þurfi að borga svolítið fyrir hana.

Í vetur einhvern tíma heyrði ég talað um hvað mislæg gatnamót á Miklubraut / Kringlumýrarbraut ættu að kosta. Ég man nú ekki töluna, en leitaði uppi hvað Reykjavíkurborg setur árlega í strætó. Sú upphæð nemur á 12 árum kostnaðinum við mislægu gatnamótin. Ef framlagið væri hækkað um þriðjung, þá næmi sú hækkun á 36 árum kostnaðinum við gatnamótin. Og þá verða kannski fleiri farnir að nota strætó og dæmið breytt. Við verðum að líta á almenningssamgöngur í samhengi við aðrar samgöngur. Ríkið á að leggja eitthvað í stofnbrautir og þar með í þessimislægu gatnamót. Kannski mætti það framlag í staðinn fara í að styrkja almennigssamgöngurá höfuðborgarsvæðinu. Og fyrir alla muni: ekki leggja niður byggðasamlagið Strætó bs. Samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu verða að vera sameiginlegt verkefni alls svæðisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband