22.8.2007 | 13:36
Chavez fær eigið tímabelti
Þetta er fyrirsögn lítill fréttar á forsíðu Blaðsins í dag. Þar segir að Venesúela muni taka upp eigið tímabelti um næstu áramót, klukkan verði færð fram um hálftíma. Chavez forseti segi breytinguna muni bæta líðan þjóðarinnar og styrkja hana í námi og starfi, sólin skíni þegar landsmenn fari á fætur. Þetta er spurning um efnaskipti, þar sem heilar mannanna stjórnast af sólarbirtu, er haft eftir forsetanum.
Af og til birtast í fjölmiðlum svona litlar fréttir af Hugo Chavez, forseta Venesúela, fréttir um einhver skringilegheit af hans hálfu eða ámælisvert háttalag fréttir um athafnir hans og stefnu eru venjulega settar í neikvætt samhengi ef þær eru settar í eitthvert samhengi. Fyrir utan svona smáfréttir ýmsar kemur stundum samfelldari fréttaflutningur um átök hans við fjölmiðla (fyrst og fremst eina sjónvarpsstöð) eða viðleitni til að breyta stjórnarskránni þannig að hann geti enn um sinn boðið sig fram til embættis forseta. Svo eru fréttir um þjóðnýtingaráform og þess gætt að geta vandræða sem af þeim hljótast (Fjárfestar flýja frá Venesúela). Allt er þetta sett fram þannig að maðurinn verður mjög tortryggilegur, bakgrunnurinn að átökunum við sjónvarpsstöðina eða ástæður þjóðnýtingaráformanna eru ekki rakin. Við erum aldrei frædd um jákvæð áhrif stjórnarstefnu hans fyrir alþýðuna í Venesúela.
Hvað er eiginlega fréttnæmt við það að til standi að breyta klukkunni í Venesúela? Það kemur ekkert fram í fréttinni lesandinn dregur sennilega þá ályktun að hér sé á ferðinni enn eitt sérviskulegt og einræðislegt tiltæki hjá Chavez. Það hafa ábyggilega aldrei birst fréttir í fjölmiðlum í Venesúela um áhuga íslenska verslunarráðsins (eða viðskiptaráðsins) á að breyta klukkunni á Íslandi á sumrin (eins og víða er gert reyndar er hér sumartími að staðaldri eftir að hætt var að breyta klukkunni fyrir mörgum árum) til að samræma hana vinnutíma í öðrum löndum og með þá aukaástæðu að vinnudagur sumarsins byrjaði einni klukkustund fyrr en nú er og lyki einnig fyrr og þar með nyti fólk sólarinnar, þá daga sem til hennar sést, lengur eftir að komið er heim frá vinnu (http://www.capacent.is/Pages/556?NewsID=50) og eins og ég man eftir að sagt var þegar umræða um þetta stóð sem hæst fyrir nokkrum árum að notalegra yrði að grilla úti. Er þetta ekki eitthvað svipað og Chavez er að tala um, nema hann minnist ekki á grillið? Já, ekki er öll vitleysan eins eða hvað?
Ef maður gúglar svo Chavez á íslensku sést vel hver áhrif þessi fréttaflutningur hefur, margir finna hjá sér þörf til að blogga um Chavez en nánast allt er það fullt af fordómum, vandlætingu og hæðni ef ekki reiði og fyrirlitningu. En hvað vita menn um Chavez og stjórn hans? Hvað veldur þessari neikvæðni í hans garð? Hefur hann ráðist inn í önnur lönd? Hefur hann stutt valdarán í öðrum löndum? Hefur hann sett föðurlandslög sem takmarka borgaralegt frelsi? Hefur hann komið upp fangabúðum víða um heim utan við lög og rétt? Hefur hann afhent fjárplógsmönnum heilsugæsluna, vatnsveituna, rafmagnið, símann og bankana? Hefur hann haft frumkvæði að viðskiptasamningum sem hygla hinum ríku? Eða er það kannski fyrst og fremst þjóðnýtingin sem fer í taugarnar á mönnum, þjóðnýting sem er kannski ekkert róttækari en það sem sósíaldemókratískar og frjálslyndar borgarlegar ríkisstjórnir voru að gera í Evrópu á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina?
Hér eru nokkur dæmi um fréttaflutning af Chavez:
Vísir, 09. jan. 2007: Fjárfestar flýja frá Venesúela:
Örstutt frétt vegna áforma um þjóðnýtingar. Í lokin kemur þetta og er tæpur helmingur fréttarinnar: Chavez talaði víst um meira í ræðu sinni í gær því þar kallaði hann aðalritara Bandalags amerískra þjóða hálfvita" fyrir að hafa gagnrýnt stjórnarhætti sína. Jafnvel Daniel Ortega, sem er verðandi forseti í Níkaragúa og stuðningsmaður Chavez, reyndi í dag að fjarlæga sig frá ræðu Chavez og varaforseti hans sagði enga þjóðvæðingu á döfinni þar í landi.
RÚV: 21.09.2006: Hugo Chavez úthúðar Bush á þingi SÞ:
Hugo Chavez, forseti Venesúela, jós skömmum og svívirðingum yfir Bush Bandaríkjaforseta úr ræðustóli allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í gærkvöld. Bush, ávarpaði þingið í fyrradag og Chavez sagði að þá hefði djöfullinn sjálfur staðið í ræðustólnum. Enn mætti finna brennisteinsfnykinn sagði Chavez og krossaði sig. Hann sagði að Bush hefði talað eins og hann ætti heiminn. Hann þyrfti á geðlækni að halda. Fundarmenn klöppuðu á köflum ákaft fyrir ræðunni.
Fréttablaðið 28. júní 2007:
Frétt um álit bandarísks sálfræðiprófessors á Chavez: prófessorinn segir óöryggi, neikvæða sjálfsdýrkun og þörf fyrir að vera hrósað knýja Hugo Chavez, forseta Venesúela, áfram í að ögra og lenda upp á kant við bandarísk stjórnvöld.
Blaðið 25. júlí 2006:
Frétt um heimsókn Cavez til Hvíta Rússlands þar sem hann hafði hrósað stjórnvöldum þar í hástert.
Jóhann Björnsson var með svipaðar hugleiðingar í bloggi sínu 25. júlí.
http://johannbj.blog.is/blog/johannbj/entry/270453/
Fáeinar upplýsandi greinar hafa birst á íslensku, fyrst og fremst á netinu:
Pétur Ólafsson: Vinstrið í Suður-Ameríku Er nýfrjálshyggjan gjaldþrota? Vefritið, 1. desember 2006
María Kristjánsdóttir:
Sósíalismi hvað?
Nokkrar staðreyndir um Chavez og RCTV
Samfylkingin, Björn Bjarnason, Morgunblaðið og ég
Múrinn:
Mogginn finnur sér kaldastríðsandstæðing
Rice finnur rauðu hættuna í suðri
Vert er að benda á vefinn http://www.venezuelanalysis.com
Athugasemdir
Þannig að Chavez og Vilhjálmur Egilsson eiga það sameiginlegt að vilja færa klukkuna. Mjög góð grein og þörf að vekja athygli á fréttaflutningnum um Venezúela sem er eins og þú nefnir fyrst og fremst í furðufréttastíl. Mér finnst reyndar að við ættum að taka upp réttan tíma og byrja bara að vinna fyrr á morgnana og hætta fyrr á daginn ef okkur langar til að grilla!
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 23.8.2007 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.