Frá fyrrum smala við Kálfá

Þegar ég kom heim úr sumarfríi seint í september og heimsótti móður mína sagði hún mér að illa hefði gengið hjá fjallmönnum á ættarslóðum mínum í Árnessýslu og meðal annars hefðu Flóamenn misst fjölda kinda í Kálfá þar sem þær drukknuðu. Kálfá er afskaplega sakleysileg á og alla jafna saklaus, mamma er alin upp í næsta nágrenni við hana og sjálfur þekki ég hana vel frá árlegri sumarvist minni í Gnúpverjahreppi. En sakleysislegustu vatnsföll geta orðið skaðræðisfljót í miklu vatnsveðri. Móðir mín var slegin yfir þessu enda voru hinar löngu haustferðir til smalamennsku inn í óbyggðir alltaf tvísýnar þegar hún var að alast upp fyrir 70 árum. Og enn geta þær verið tvísýnar þótt aðstæður séu orðnar allt aðrar. Það er líka grínlaust fyrir bændur að tapa fjölda fjár á þennan hátt, það er bæði efnahagslegt og tilfinningalegt áfall. Móður minni var því ekki síður brugðið að heyra gert lítið úr þessu í umræðuþætti í Ríkisútvarpinu skömmu seinna, "...átti ekki hvort sem var að slátra þeim?" 

Mér hefur borist svolítill bragur af þessu tilefni frá fyrrverandi smala við Kálfa og birti hann hér með góðfúslegu leyfi höfundar:

 

 

Frá fyrrum smala við Kálfá

 

Í vikulokin er vandaður þáttur

sem virðingar nýtur hjá þjóð.

Fréttir að skoða er frómur háttur

og fráleitt er níð og hnjóð.

 

Dátt var og gaman og dásamlegt þar

yfir drukknuðu fé sem þannig var metið:

Átti ekki að drepa það allt hvort sem var

og éta svo af því mörinn og ketið?

 

Blindfullir stóðu á bakkanum, hvar

menn brenndu á vað heim að kránni.

Svo kepptust þeir við að komast á bar

að þeir káluðu fénu í ánni.

 

Já svona varð fréttin úr sveitinni helst;

- „sveiattan!“ dreifbýlisvargi.

En Lúkas hann lifir og lukka það telst,

að lokið er Lúkasarþvargi.

 

Sem troðfyllti fjölmiðla trúlega, því

að „trendið“ er ekki það sama.

Sko eigandinn sat ekki sveitinni í

með sauðshaus og öllum til ama.

 

-----------------------------------------------

 

Auman fyrir illskukvitt

sem oss vill níða og fleka;

flissaðu skökk í fjárans pytt

með fimm þúsund Lúkasa að reka.

 

Þar einsömlum er att til leiks

ábúandans gesti

með svartan munn í svælu reyks

- en sviðakjamma í nesti!

 

 

Kristín Guðmundsdóttir

 
Höfundur ólst upp við Kálfá og er fyrrum smali

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband