15.10.2007 | 16:32
Fjallagrasapólitík
Eftirfarandi brag og inngang að honum hef ég fengið leyfi höfundar til að birta:
Fyrir síðustu kosningar varð Bjarna Harðarsyni tiðrætt um fjallagrasapólitík. Þó hann sjálfur hafi fengið nýsköpunarhugmynd sem byggð er á gömlum menningararfi, sem sagt fjallagrasapólitík. Draugasetrið er ekki síðri hugmynd en að setja á fót vatnsverksmiðju, hvort tveggja er gott mótvægi við ál- og virkjanapólitík. Bjarni talaði þar gegn sinni eigin hugmynd, talaði gegn sjálfum sér. Best væri fyrir alla, ekki síst hann sjálfan, að hætta á þingi.
Auglýsingar Alcan og Landsvirkjunar hafa birst undir fyrirsögnunum Nýtt og betra álver og Ný og betri virkjun.
Í næstu kosningum mun fjallagrasapólitíkin vinna á, betur en núna í vor. Fjallagrasapólitík er góð.
Fjallagrasapólitík
Fjallagrösin firna góð
oss fjörleysinu varna.
Drykkjarvatnið dreymir þjóð
og draugana hans Bjarna.
Víst er ennþá von á því
að vænkist hagur betur.
Að betri flytji brátt á ný
Bjarni á draugasetur.
Að nýsköpun sé nýt og góð
og náttúran sé fögur
og grandvör þjóðin greind og fróð
um grasafjallasögur.
Um lækjarnið og lambaspörð
ei leitt er þá að tala.
Né fjallagrös og frið á jörð
og fjárbændur að smala.
Þá allir sitja á Alþingi
í ekta grasafléttu,
með vasapela í vettlingi
og væna lamhúshettu.
Í þæfðri brók og þykkum sokk
úr þeli heimaspunnu,
smávegis af sméri úr strokk
þeir smakka að verki unnu.
Hrosshársreipi hratt og létt
þeir hressilega hnýta,
kveða rímur kátt og rétt
og kunna í fleira að líta.
Norður öll og niður strax
þeir nokkur álver senda,
virkjun hætta, vernda lax
og virt skal Þjórsárlenda.
Já, vond ei vistin verður þá
og veröld ei úr skorðum.
Og ennþá gefst þá öllu að ná
er ætluðum við forðum.
K.G.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.