Aðgengi að áfengi og matvöru

 

Eftirfarandi birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2007. Þar sem þessi mál eru nú í mikilli umræðu er við hæfi að rifjahana upp.

 

Sumum er það mikið mál að geta keypt áfengi í matvöruverslunum og líta jafnvel á það sem mannréttindamál. Það sé skerðing á frelsi einstaklingsins að ríkið einoki áfengissölu og haldi henni í sérverslunum. Heimdellingar telja þetta slíkt stórmál að þeir hafa skipulagt aðgerðir í anda borgarlegrar óhlýðni.

Nú hefur áfengisverslunum fjölgað mjög á undanförnum árum. Ég held ég búi við svipaðar aðstæður og flestir aðrir í þéttbýli. Þar sem ég bý er vissulega svolítið úr leið fyrir mig að ná í áfengi, en ekki tiltakanlega, og þar sem ég er ekki dagdrykkjumaður veldur þetta mér sjaldnast vandræðum. Auk þess hefur áfengi ágætis geymsluþol, þannig að það er lítið mál að byrgja sig aðeins upp, eins og margir gera með aðrar vörur þegar þeir fara t.d. í Bónus.

Menn segja stundum sem svo að það sé ófært að geta ekki keypt sér rauðvínsflösku um leið og kjötið. En fáa heyri ég kvarta undan erfiðleikunum við að ná í kjöt með rauðvíninu sem maður á inni í skáp. Fyrir mig er það jafnmikið úrleiðis að ná í kjötið eins og vínið. Hverfisverslunin, sem heitir 10-11, er opin allan sólarhringinn, en ef ég ætla að kaupa eitthvað almennilegt í matinn, þá verð ég fara að jafnlangt og til að kaupa rauðvínið. Þannig er þetta með flestar hverfisbúðir, sem yfirleitt eru annaðhvort 10-11 eða 11-11 búðir. Og það sem fæst er rándýrt.

Mér finnst satt að segja meira um vert að eiga greiðan aðgang að matvöruverslun en áfengisverslum og er þó enginn bindindismaður. En frammistaða einkaframtaksins er ekkert óskaplega góð, aðgengi að góðu kjöti eða fiski er hreint ekki betra en að áfengi. Og þjónustan og fagmennskan í áfengisversluninni er auk þess betri en í hverfisbúðinni. Kannski ætti bara að þjóðnýta matvöruverslunina?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Guð minn almáttugur, Einar, segðu þetta ekki! Sumir kynnu að taka upp á því að grýta þig í hel!

María Kristjánsdóttir, 25.10.2007 kl. 12:45

2 identicon

Ég verð að segja að eftir að ég flutti til Danmerkur á ég alltaf rauðvín, hvítvín, sterkt áfengi og bjór heima hjá mér. Þetta átti ég ekki þegar ég var heima á íslandi! Ástæðan er sú að hér hef ég léttan aðgang að áfengi og það er ódýrt. Í búðinni rétt hjá mér er oft tilboð á kassa af bjór. Ég er að versla mér í matinn á föstudegi og sé þetta tilboð.. hmm.. kanski ég tek einn kassa af bjór með mér til að eiga. Ég myndi aldrei gera þetta heima. Fyrir það fyrsta hef ég aldrei séð tilboð á bjór, fyrir það annað þegar ég fer að kaupa mér áfengi þá veit ég að það er dýrt þess vegna kaupi ég mér bara það sem mér vantar, þó ég þurfi kanski að fara aftur næstu helgi. Það er bara eitthvað við það að strauja kortið fyrir 1500 eða 15.000 í einu.

En allavega ég verð bara að segja að það er þvílikur munur að geta gengið að áfengi hvenær sem er. Ef mig langar í bjór á föstudagskvöldi og á engan get ég bara hoppað út í sjoppu og keypt mér einn bjór. Ég myndi ekki segja þetta nauðsynja hlut en þetta eru þægindi eins og uppþvottavélin;) Reyndar er áfengisdrykkja há hér í Danmörku þannig að þetta er kanski ekki sniðugt. En kanski mætti Ísland og Danmörk finna einhverja millileið. Af hverju ekki að selja léttvín og bjór í búðum á Íslandi?

Kv. Védís

Védís Einarsdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 13:06

3 Smámynd: Einar Ólafsson

Það er nú kannski þetta sem menn eiga við með forvarnargildi þess að takmarka aðgengi að áfengi. Fyrir utan Grænland, sem er sérstak tilfelli, hefur áfengissala alltaf verið langmest í Danmörku af öllum Norðurlöndunum, tvöfalt meiri en á Íslandi árið 1991, meira en þriðjungi meiri 2005. Svipaður munur var á áætlaðri heildarneyslu árið 2005. Aukin neysla þýðir almennt meiri vandamál. Sala í höndum einkaaðila veldur því að ýtt er undir neyslu, aukin neysla þýðir aukna sölu sem þýðir aukinn gróða. Kostnaður af völdum áfengisneyslu lendir á samfélaginu, - heilbrigðisþjónustunni, löggæslunni o.fl. Ef ríkið sér um söluna er auðveldara að stýra henni og hafa eftirlit með henni. Það eru því ýmis rök fyrir því að láta ríkið sjá um söluna. Millistigið, að setja bjór og léttvín í búðir, er ákaflega óhagkvæmt, það er miklu dýrara kerfi og óhagkvæmara að hafa ríkisbúðir sem bara selja sterkt áfengi. En hér hefur reyndar verið farinn millivegur, vínbúðum hefur fjölgað og opnunartíminn lengdur, þannig að aðgengið hefur aukist frá því sem var, þótt það sé ekki það sama og í Danmörku.  En með þessari grein var ég þó fyrst og fremst að gera grín að því sjónarmiði að það sé svo óskaplega óréttlátt að hafa sérstakar ríkisreknar vínbúðir og að það sé svo erfitt að nálgast áfengi út af því. Raunin er sú að aðgengi að ýmsum öðrum vörum er jafnsnúið, hverfisverslanirnar eru lélegar og þú þarft að fara langar leiðir í verslanamiðstöðvar eftir allskyns vörum, jafnvel almennilegu kjöti eða fiski í matinn. Samt er þetta allt frjálst. En þetta er mjög lítið gagnrýnt og það finnst mér svolítið kostulegt.

Einar Ólafsson, 26.10.2007 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband