Vopnaframleiðendur efla liðsandann á Hilton Nordica hóteli í Reykjavík

Eftirfarandi grein birtist á Friðarvefnum 30. október.

30. október 2007

eurofighter Hér munu nú vera staddir á hinu nývígða Hilton Nordica hóteli um þrjátíu háttsettustu yfirmenn vopnaframleiðslufyrirtækisins BAE. Vísir hefur séð sóma sinn í að flytja af þessu fréttir í dag og hefur meðal annars leitað álits formanns SHA Stefáns Pálssonar:

„Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segist ekkert sérlega hrifinn af veru forsvarsmanna BAE hér á landi. „Þetta eru að mínu mati mun hættulegri menn en þeir sem hugðust taka þátt í hinnu miklu klámráðstefnu,“ segir Stefán sem minnir á að hópur manna úr klámiðnaðinum sem hugðist koma í hópeflisferð hingað til lands hætti við vegna viðbragða almennings. „Ég minnist þess sérstaklega að þegar klámráðstefnumálið kom upp fór þáverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fram á það við lögreglu að hún rannsakaði hvort þeir aðilar væru viðriðnir lögbrot í heimalöndum sínum. Má maður þá ekki spyrja hvort ekki sé jafnvel enn frekara tilefni til hins sama nú,“ spyr Stefán.“

Samkvæmt upplýsingum Vísis eru þessir yfirmenn BAE hér í liðstyrkingu (team building) og verða fram á föstudag. Þetta eru yfirmenn „land armaments“ deildar fyrirtækisins, en sú deild hefur umsjón með framleiðslu á vopnum sem nýtast á landi, svo sem skriðdreka, stórskotalið, byssur og skotfæri. Vísir hefur reyndar eftir John Suttle, starfsmannastjóra fyrirtækisins, að fyrirtækið framleiði bara varnarbúnað: „Ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að við erum aðallega í því að framleiða búnað sem ver hermenn gegn árásum. Slagorð okkar er: Við verjum þá sem verja okkur.“

Þetta fyrirtæki heitir BAE Systems. Höfuðstöðvar þess eru á Englandi en samkvæmt heimasíðu þess er framleiðsla þess fyrst og fremst á sviði varna og geimtækni í lofti, á landi og legi (defence and aerospace systems in the air, on land and at sea). Þetta er þriðja stærsta fyrirtæki heims á þessu sviði og hið stærsta í Evrópu, starfsmenn þess eru um 96 þúsund. Það varð til árið 1999 við samruna tveggja breskra fyritækja, Marconi Electronic Systems (MES), sem var dótturfyrirtæki The General Electric Company plc (GEC) og British Aerospace (BAe). Það hefur að undanförnu lagt áherslu á að auka starfsemi sína í Bandaríkjunum og er nú sjötta stærsta fyrirtæki þar á sínu sviði. Í frétt Vísis kemur reyndar fram að Reykjavík hafi orðið fyrir valinu fyrir þetta hópefli yfirmannanna vegna staðsetningar hennar milli Englands og Bandaríkjanna. Árið 2000 keypti BAE Lockheed Martin Aerospace Electronic Systems og nú er talað um hugsanlega sameiningu BAE og helstu vopnaframleiðslufyrirtækja Bandaríkjanna, svo sem Boeing, General Dynamics, Lockheed Martin og Raytheon. Auk Bandaríkjanna og Bretlands eru Ástralía, Saudi-Arabía, Suður-Afríka og Svíþjóð meðal helstu starfstöðva BAE, en fyrirtækið á meðal annrs hluti í Saab og Bofors í Svíþjóð.

Mannréttinda- og friðarsamtök hafa gagnrýnt BAE. Sumir viðskiptavinir BAE eru ekki vandir að virðingu sinni þegar kemur að mannréttindamálum og má þar nefna Indónesíu, Saudi-Arabíu, Zimbabwe og Ísrael. Fyrirtækið hefur líka verið sakað um spillingu í viðskiptum, mútur og undirferli og hefur breska spillingarskrifstofan, Serious Fraud Office (SFO), rannsakað viðskipti fyrirtækisins í sex löndum, Tanzaníu, Tékklandi, Katar, Rúmeníu, Suður-Afríku og Chile. Árið 2005 birti breska blaðið Guardian fréttir um að fyrirtækið hefði greitt Pinochet, fyrrum einræðisherra Chile, háar fjáhæðir fyrir að liðka fyrir viðskiptum þar. Þá þykja viðskipti þess í Saudi-Arabíu einnig vafasöm. Einnig hefur fyrirtækið komið að framleiðslu kjarnavopna.

Það er auðvitað ósvífið hjá starfsmannastjóra fyrirtækisins að reyna að gera það sakleysislegt með því að segja það bara framleiða búnað sem ver hermenn gegn árásum. Svo fremi það sé ekki bara að framleiða skotheld vesti eða eitthvað í þá veru, þá verður auðvitað ekki greint milli þess búnaðar sem er til varnar og árása, enda sést það glöggt um leið og maður kynnir sér eitthvað starfsemi fyrirtækisins að það er bara venjulegur vopnaframleiðandi. Og Guðmundur Brynjólfsson lýsir þeim ágætlega á bloggsíðu sinni í dag: „Vopnaframleiðendur eru í mínum huga ekki venjulegir iðnrekendur, ekki vélvirkjar eða rafvirkjar sem hafa fundið upp „patent“ og brotist til álna, ekki saklausir „faktoríu“ eigendur sem eru góðir við hundinn sinn í verki og ömmu sína í orði. Vopnaframleiðendur eru siðlausir gróðapungar - standa nærri morðingjum að mannvirðingu - heldur neðar þó.“

Það var uppi fótur og fit hér í fyrra þegar klámframleiðendur hugðust halda ráðstefnu eða hópefli hér. Þáverandi borgarstjóri gagnrýndi það og Hótel Saga sá sóma sinn í að úthýsa klámliðinnu. Vopnaframleiðendur ættu auðvitað að vera jafnóvelkomnir. Friðarsúlan í Viðey ætti auðvitað að vera tákn um að slíka menn viljum við ekki hingað í tengslum við starf þeirra.


Mynd:
BusinessWeek. Myndatexti: „BAE makes the Eurofighter Typhoon in partnership with EADS and Alenia.“
Þetta er sennilega dæmigerður varnarbúnaður.

Fréttir Vísis:
Umdeildir vopnasalar funda á Íslandi
Vopnaframleiðendurnir óttast ekki mótmæli Íslendinga
Klámkóngar fengu fimm millur frá Hótel Sögu


Wikipedia

Heimasíða BAE

Corporate Watch UK

CorpWatch

Sjá líka
Blogg Guðmundar Brynjólfssonar
Vangaveltur Vésteins Valgarðssonar

Nýrri fréttir og umfjöllun:
Ekkert athugavert við vopnaráðstefnu - Fréttablaðið, 31. okt. 2007 04:00

Stöð 2 - hádegisviðtalið - Stefán Pálsson

Blogg:

Vopnasala frekar en klám
Hönnuðir dauðans
Hópefli vopnaframleiðenda, sálsjúkir kaldastríðshermenn og tillitssöm siðanefnd
Femínistar og VG hjúpa sig þagnarmúr og mynda sér ekki skoðun!
Klámráðstefna VS Fundur Vopnasala - Hræsni á metkvarða!
Frábært siðgæði
Vopnaframleiðendur, klámframleiðendur og fleira


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Góð og þörf grein  og takk fyrir linka.

Georg P Sveinbjörnsson, 7.11.2007 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband