7.11.2007 | 15:43
Októberbyltingin 90 ára
Raunveruleg samfélagsbylting verður aldrei á einum degi. Sjöundi nóvember 1917 var dagurinn sem bolsévíkar tóku völdin. Þótt bolsévíkar hafi á þessum tíma verið fámennur hópur, þá var ekki um að ræða einbert valdarán fámenns hóps. Aðdragandi byltingarinnar var langur og sjálf byltingin hófst með uppreisn verkamanna og hermanna í febrúar 1917. Keisarastjórnin féll og borgaraleg bráðabirgðastjórn var mynduð. En byltingarþróunin hélt áfram, bráðabirgðastjórnin var ekki í takt við hana, réði ekki við ástandið og til varð það sem Lenín kallaði tvíveldi. Önnur stjórn, Pétursborgarráðið (Petrograd Soviet), varð til í takt við byltingarþróunina. Róttækir sósíalistar réðu því. Þróunin var mjög hröð, bolsévíkaflokkurinn var lítill flokkur en skipulagður og hafði skilning á stöðunni og skipulagði valdatökuna, það er að segja þá aðgerð sem batt endi á tvíveldið, sem auðvitað hlaut að taka endi einhvern veginn.
Það er alltaf erfitt að spá um þróunina ef einhverjir atburðir hefðu orðið öðruvísi. Hvað hefði gerst ef bolsévíkar hefðu ekki tekið af skarið í byrjun nóvember 1917. Hefði byltingarþróunin verið stöðvuð með valdi? Verkalýðurinn var meira og minna óskipulagður. Með því að skipuleggja valdatökuna voru bolsévíkar að koma í veg fyrir þann hugsanlega og jafnvel líklega möguleika að byltingin yrði kæfð með ofbeldi. En sagnfræði í þáskildagatíð er ekki góð sagnfræði.
Iðnvæðing var hafin í Rússlandi fyrir byltinguna en kjör alþýðu voru mjög slæm og arðrán mikið. Byltingin varð til þess að hraða iðnvæðingunni og kjör alþýðu bötnuðu. En byltingarstjórnin stóð frammi fyrir gífurlegum erfiðleikum. Ástandið í landinu var slæmt eftir þátttökuna í heimsstyrjöldinni og ekki bætti úr skák að Vesturveldin gerðu innrás í Rússland til að bæla niður byltinguna. Alls tóku fjórtán ríki þátt í þessari innrás. Þetta vill oft gleymast þótt innrásir Sovétríkjanna í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu gleymist seint.
Efnahagsþróuninni fylgdi ekki lýðræðisþróun. Að sumu leyti verður þar að líta til þessarar innrásar og gagnbyltingastarfs sem naut stuðnings Vesturveldanna. Það var styrjaldarástand til að byrja með. Ekki verður þó allt afsakað með því. Það má gagnrýna lýðræðisskilning bolsévíkanna. Þeir voru kannski einum of vissir um að þeir væru handhafar sannleikans sem réttlætti skoðanakúgun. Ástandið ýtti svo undir þetta. Forystumenn bolsévíka, ekki aðeins Stalín heldur líka Lenín, Trotskí og fleiri, hafa verið taldir miskunnarlausir harðstjórar. Þó er hæpið annað en Lenín og Trotskí, og kannski líka Stalín í byrjun, hafi fyrst og fremst haft hag alþýðu í huga þegar þeir gerðust byltingarsinnar. Hafi þeir ætlað að skara elda að sinni köku, þá hefðu aðrar leiðir verið þeim auðveldari. En allir gátu þeir verið miskunnarlausir í hugsjónastarfi sínu, tilgangurinn helgaði oft meðalið. Það er síðan erfitt að greina að eggið og hænuna þegar kemur fram á Stalínstímann. Var Stalín orsök ástandsins eða afleiðing? Eflaust er um víxlverkun að ræða. Stalín skapaði ekki alfarið það ástand sem stjórnartíð hans einkenndist af, að sumu leyti spratt það af einsflokkskerfinu og tortryggni sem hafði grafið um sig frá upphafi gagnvart hugsanlegum gagnbyltingarmönnum. Kerfið úrkynjaðist. Ástandið varð mjög fljótt sjúkt án þess að hægt sé að kenna neinum einum forystumanni um það. Stalín gerði það hinsvegar illt verra. Sleppum þáskildagatíðinni: hvað mundi hafa gerst ef, t.d. ef Trotskí hefði tekið við í stað Stalíns?
Ef við lítum til baka, þá er eðlilegt að margir hafi hrifist af rússnesku byltingunnni í upphafi. Verkalýðsstéttin á Vesturlöndum bjó við mjög bág kjör og arðrán var mikið. Og ekki var ástandið betra hjá alþýðu manna í öðrum heimsálfum. Um allan heim kraumaði byltingarhreyfingin, ekki bara í fámennum byltingarsinnuðum flokkum, heldur meðal alþýðunnar. Það lá við byltingu í Þýskalandi árið 1918, í borgarastyrjöldinni á Spáni 1936 til 1939 voru kommúnistar og anarkistar í fararbroddi gegn Franco. Aðeins tveim áratugum eftir lok fyrri heimstyrjaldarinnar hófst önnur heimsstyrjöld, hálfu verri en hin fyrri. Að henni lokinni sá borgarastéttin á Vesturlöndum þann kost vænstan að samþykkja kröfur alþýðu um styrkara velferðarkerfi. Að sumu leyti var það vegna styrks verkalýðshreyfingarinnar og þar skipti fyrirmynd Sovétríkjanna og hinna nýju sósíalísku ríkja máli, því að þrátt fyrir kúgunina í þessum ríkjum, þá gat verkalýður Vesturlanda líka að vissu leyti horft til þess félagslega kerfis sem þar hafði verið byggt upp. En að vissu leyti hafði borgarastéttin á Vesturlöndum reyndar líka hag af uppbyggingu velferðarríkisins um skeið þar til hún fór að sjá sér meiri hag í að brjóta velferðarkerfið niður og taka að sér að reka þá starfsemi þess sem hægt er að hagnast á. En það er önnur saga.
Það er svolítið merkilegt að það gerist á sama tíma að sósíalísku ríkin líða undir lok og nýfrjálshyggjan verður ráðandi. Staðan í heiminum er mjög nú mjög ólík því sem hún var á fyrstu tveim til þrem áratugunum eftir seinni heimstyrjöldina. Þá var einhverskonar sósíalískt kerfi í stórum hluta heimsins, þjóðfrelsishreyfingar hins svokallaða þriðja heims höfðu sósíalisma meira og minna að leiðarljósi, velferðarríkið virtist standa styrkum fótum víða á Vesturlöndum, sósíalismi og kommúnismi voru stefnur sem þótti ekki tiltökumál að ungt fólk aðhylltist. Nú eru sósíalísku ríkin horfin og flestir eru sammála um að þau hafi verið svo meingölluð að lítil eftirsjá sé að þeim. Hinsvegar hefur hrun þeirra ekki alltaf orðið alþýðunni til hagsbóta. Í Rússlandi sjá margir eftir hinum meingölluðu Sovétríkjum. Það sem áður var sameign almennings hefur lent í höndum fáeinna nýríkra manna. Velferðarkerfið, hversu gallað sem það var, er horfið. Sama hefur gerst á Vesturlöndum. Raunverulegt lýðræði er takmarkað vegna gífurlegra valda tiltölulega fámenns hóps auðmanna eða stórfyrirtækja. Arðrán á heimsvísu er geigvænlegt. Umsvif stórfyrirtækjanna eru ógn við bæði náttúrlegt umhverfi og samfélagið.
Sú gífurlega misskipting auðs og valda og sú hugmyndafræði stöðugs vaxtar og gróða, sem nú er ríkjandi, getur ekki staðist til lengdar. Kannski er þörf á miklu djúptækari breytingum en urðu með byltingum tuttugustu aldarinnar. Því að þrátt yfir allt voru þær ansi takmarkaðar. Grunnhugmyndafræði nítjándu aldarinnar, hin tæknilega rökhyggja, var ríkjandi jafnt í hinum sósíalíska sem hinum kapítalíska heimi tuttugustu aldarinnar. Bylting tuttugustu og fyrstu aldarinnar þarf að komast út fyrir þessa hugmyndafræði. Við þurfum ekki aðeins að læra af mistökum rússnesku byltingarinnar heldur líka af takmörkunum hennar. Hún var í rauninni aldrei nógu róttæk og sennilega gat hún ekki orðið það á þeim tíma.
Sjá nánari pælingar í tveim gömlum greinum:
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil, félagi.
Jóhannes Ragnarsson, 7.11.2007 kl. 22:51
Frábær greining EInar, eins og þér er von og vísa. Smá innskot, ég sá athyglisvert innlegg frá bandaríkjamanni á umræðiþræði um kommúnisma í Afríku á BBC. Þessi aðili sagði að það versta sem honum fannst við hrun Sovétríkjanna var að það hefði landi sínu "leyfi" til að vaða yfir alla heimsbyggðina á skítugum skónum án þess að nokkurt mótvægi væri við því. Held að það sé mikið til í því þó enginn ætti svo sem að gráta Sovétríkin eins og þau voru, kannski frekar Sovétríkin sem áttu að verða (svo ég noti þáskildagatíð!)
Guðmundur Auðunsson, 14.11.2007 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.