13.11.2007 | 14:40
Er ekki nóg komið?
Það fer nú að verða ansi þreytandi þetta auðkýfingalið hérna. Ég skrapp í matartímanum út af vinnustaðnum mínum hérna við Tryggvagötuna til að líta framkvæmdirnar bakvið Hafnarhúsið. Og það sem þar er búið að setja upp til að hýsa brúðkaup Baugsparsins er ekkert venjulegt tjald heldur hreinasta stórhýsi sem er sett á almannasvæði, bílastæði hafnarmeginn við Hafnarhúsið. Þetta munu vera 15-20 bílstæði, sem þýðir að meðan þetta brúðkaupshús stendur þarna eru að staðaldri 15-20 manns í meiri bílstæðavanda en ella. Stæðið er frátekið fyrir brúðhjónin í 14 daga. (það kemur svo sem ekki við mig persónulega ég tek bara strætó, en hvenær taka auðkýfingarnir strætó á leigu þannig að almenningur verði bara að koma sé milli staða á nnnan hátt?) Að auki lokar húsið aðgangi að Grafíksafninu þannig að listamenn, sem þar ætluðu að setja upp sýningu og hafa undibúið hana lengi, þurfa að fresta opnuninni í viku. Framkvæmdastjóri bílastæðasjóðs segir að bílastæði séu leigð út hér og þar um borgina fyrir ákveðna atburði og nefnir sem dæmi Airwaves hátíðina, en í því tilviki hafi þó stæðin aðeins verið lokuð í einn sólarhring. Það er þó ólíku saman að jafna, almennan menningarviðburð eða einkasamkvæmi. Þó svo auðkýfingurinnn borgi 400 þúsund fyrir þetta, þá er alls ekki sjálfgefið að einhverjir auðmenn eigi endalaust að geta keypt upp almannasvæði eða almannagæði. Er ekki nóg komið?
Sjá nánar: http://www.visir.is/article/20071112/FRETTIR01/71112064
Athugasemdir
Ég fylgist nú ekki vel með prívatmálum þessa liðs, en er þetta ekki Björgúlfur yngri, ekki Baugsmenn? Svo er þetta auðvitað rétt hjá þér- nú er einhvern veginn nóg komið!
María Kristjánsdóttir, 13.11.2007 kl. 16:00
Nei, þetta eru Baugsmenn - Bónus og Hagkaup. En þetta er auðvitað bara birtingarmynd á svo miklu stærra máli, máli sem er í gangi um allan heim. Almannarýmið er skert. Verslunarmiðstöðvarnar eru ekki almannarými í sama skilningi og verslunargötur eða markaðstorg, þær eru í einkaeign. Auðmenn kaupa upp lönd og vötn og opinberar stofnanir. Það sem við kostuðum úr sameiginlegum sjóðum er í boði auðmanna - þ.e.a.s að því leyti sem hver borgar ekki fyrir sig. Þetta, að leggja bílastæði og gangstéttir undir einkasamkvæmi er bara við bót við allt hitt. Reclaim the Streets! Viva la Revolución!
Einar Ólafsson, 13.11.2007 kl. 16:27
Si!Si! Hér í Bryggjuhverfinu er alls ekki ljóst hvort hverfið til heyrir Björgun eða Borgarskipulagi. Björgun kemur og setur upp suma hluti og lagar? Stæði og götur eru sumar í einkaeign? Vissirðu þetta?
María Kristjánsdóttir, 15.11.2007 kl. 15:12
Það kemur mér fátt á óvart í þessum efnum. Þróun í þessa átt er nefnilega örari en almenningur getur fylgst með. Mér dettur reyndar í hug, María, af því að þú ert með tengil á Naomi Klein, að mig minnir að hún komi eitthvað inn á þetta með baráttuna fyrir almannasvæðið, vörn þess, í bók sinni, Logo.
Einar Ólafsson, 16.11.2007 kl. 17:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.