Það er ekki gott að ganga í björg

Eftirfarandi grein birtist í Kópi, málgagni Vinstri grænna í Kópavogi, snemma í desember.

Það verður seint skafið af bæjarstjórnum Kópavogs undanfarin kjörtímabil að þær hafa látið verkin tala, varla samkjaftað, ef svo má segja, og má þá spyrja hvort þar sé allt sagt af miklu viti. Ýmislegt hefur svo sem verið vel gert, þó nú væri, en meirihlutanum er vel treystandi til að tíunda það sjálfur. Og þó er ekki víst að ég tæki undir það allt. 

Á hverjum degi lít ég út um stofugluggann hjá mér yfir í Smárann. Og þar má segja að verkin æpi á mig. Bókstaflega má kannski segja að þau suði á mig æ hærra með hverjum deginn, eða niði, og þessi niður kemur frá Reykjanesbrautinni og Dalveginum þar sem umferðin eykst jafnt og þétt. Laugardag einn snemma í haust í góðu veðri gerði ég mér ferð á Smáratorg af því að mig vanhagaði um eitthvað sem ég hélt að fengist þar. Ég fór gangandi úr Hjallahverfinu, gekk eftir Kópavogsdalnum, og þar má segja að vel hafi tekist til. Lækurinn hjalaði og grasið bærðist í golunni. Svo kom ég að Sorpu, og það var svo sem allt í lagi, en ég fór heldur betur að vakna upp af draumórum mínum þegar ég kom að hringtorginu á Dalveginum við Digranesveginn. Bílarnir æddu og hvæstu og lækjarhjalið varð eins og fjarlægur draumur. Ég komst þó yfir götuna, hugsaði, „svona er að búa í borg", og fann búðina sem ég leitaði að en ekki hlutinn sem mig vantaði. Svo þá var eiginlega ekki um annað að ræða en koma sé yfir í Smáralind. Og ef ég reyni að finna einhverja náttúrulega líkingu, þá var fyrst eins og ég væri staddur á stórgrýttum eyðisandi, ægilegt bjarg slútti yfir og fór hækkandi en handan þess var beljandi jökulá með jakahlaupi. Það var ekki lengur neitt „svona er að búa í borg", heldur bara „hvernig datt mér í hug að fara hingað óvarinn? hvað er ég að gera hér gangandi?" Loks komst ég við illan leik inn í Smáralindina, og þá er maður kannski svolítið eins og genginn í björg, hvort sem það þykir gott eða vont.

Hvernig gat það annars gerst að þetta svæði, Smárinn, varð að þessum óskapnaði? Miðjan, sögðu athafnamennirnir. Miðjan. Hér er miðjan höfuðborgarsvæðisins, hér reisum við verslanir, hér verður miðstöð viðskiptanna. Hingað getur fólk komið akandi úr öllum áttum. Mjög rökrétt. En þetta er líka frekar skjólgott svæði með íbúðabyggð allt í kring, gamli Kópavogur að norðan, Smárarnir í vestri og suðri og Garðabær þar suður af, Lindirnar og Salirnir í austri auk Seljahverfisins í Breiðholti. Kópavogsdalurinn með gönguleiðum sínum liggur þarna norðan við, eins og fyrr segir, og skammt fyrir vestan er Smáraskóli og íþróttasvæðið.

„Hvernig gat þetta gerst?" hugsaði ég, þegar ég kom aftur út úr Smáralindinni (þvílíkt nafn!). Hefði ekki verið jafnrökrétt að hugsa þetta svæði sem vinalega miðju þessara íbúðahverfa, þar sem kannski hefðu þrifist litlar verslanir, veitingahús og skjólgóðar götur í tengslum við göngustígana í Kópavogsdalnum og aðra göngustíga í aðrar áttir. Gróðinn hefði kannski ekki verið jafnskjótfenginn, en sennilega skilað sér að lokum. Reyndar hefði jafnvel mátt hliðra aðeins til þannig að verslunarmiðstöð hefði fengið pláss svolítið lengra upp í brekkunni með tilheyrandi bílastæðum. En risastórar verslunarmiðstöðvar eru bara úreltar. Þegar reynt er að sporna við sívaxandi umferð og mengun er úrelt að þjappa allri verslun saman í stórum kjörnum þannig að allir þurfi að keyra langar leiðir til komast í þær, og jafnvel þótt stutt sé að fara er varla göngufært vegna bílaumferðar og gatnamannavirkja. Og ég held það sé ekki gott að ganga í björg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband