18.1.2008 | 14:47
Miðbærinn - meðhöndlist með varúð
Eftirfarandi bréf sendi ég oddvitum meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur í dag:
Ágæti borgarstjóri og aðrir oddvitar borgarstjórnar Reykjavíkur.
Ég tek mér stutt hlé frá vinnu minni fyrir Reykjavíkurborg á þessu föstudagssíðdegi til að skrifa ykkur stutt bréf. Ástæðan er að ég hef áhyggjur af miðborg Reykjavíkur. Reyndar bý ég ekki í Reykjavík heldur Kópavogi og hef svo sem áhyggjur af skipulagsmálum þar, en það er önnur saga og aðrar aðstæður. En ég er alinn upp í Reykjavík, sæki vinnu í Reykjavík og vinn hjá Reykjavíkurborg, hef vinnustað í miðborginni, nánar tiltekið í Grófarhúsi við Tryggvagötu og auk þess tel ég að Miðborg Reykjavíkur komi öllum landsmönnum við.
Miðborgin hefur þróast í áranna og aldanna rás sem eðlilegt er. Það er ekkert óeðlilegt við það - og meira og minna allt í lagi - að mikill hluti upphaflegra bygginga hefur horfið og nýjar komið í staðinn. En við þurfum að huga að því hvort ekki komi að því að þá þróun þurfi að stöðva, eða hægja verulega á henni og setja undir skýra stefnu og stjórn.
Miðborg Reykjavíkur er að mörgu leyti einstök. Í Evrópu eru flestar borgir miklu eldri og bæjarmynd í líkingu við þá, sem við höfum hér, finnst vart annars staðar. Haldi þróunin áfram þannig að gömul húsin verði rifin eða flutt burtu verður lítið eftir af þessari bæjarmynd. Við getum auðvitað valið það að víkja henni alveg frá og byggja upp nýjan miðbæ. En ég vil það ekki og mig grunar að það sé ekki í takt við þróunina, sem sagt að við sýnum komandi kynslóðum litla tillitsemi með því.
Ég hef ekki bara áhyggjur af Laugavegi 4 og 6, það er bara toppurinn á ísjakanum, eins og einhver sagði. Reyndar eru þau hús sérlega mikilvæg af því að þau eru leifar af elsta hluta helstu verslunargötu borgarinnar.
Ég hef líka áhyggjur af Naustreitnum, af svæðinu kringum Þórsgötu og svæðinu þar sem á að byggja listaháskóla. Listaháskóli á þessum stað er að mörgu leyti góð hugmynd, en hversu mikið verður raskið við það? Í sambandi við það vil ég benda á, að það eru ekki bara hús frá 19. öld sem hafa varðveislugildi, og ekki heldur bara hús sem eru merkileg í sjálfu sér". Öll hús eru hluti af þróunarsögu borgarinnar og hluti af þeirri mynd, sem er ástæða til að varðveita. Því þarf að fara afar varlega í að rífa eða fjarlægja þau hús sem nú eru. T.d hefur þegar verið alltof mikið rifið norðan Hverfisgötu. Þess vegna tel ég mikilvægt að reyna að nýta sem mest þau hús sem fyrir eru á svæðin, auðvitað með nauðsynlegum breytingum (en þó hóflegum) og endurbótum. Listaháskóli verður að vera sérstaklega lifandi og sveigjanleg stofnun og því ætti hann að geta lagað sig að aðstæðum, og verður raunar að gera það ef hann á að byggjast upp á þessum stað. Ef hann getur það ekki, þá verður hann bara að fara annað.
Ég bið líka um að farið verði varlega á Barónsreitnum, þótt þar ætti auðvitað að vera búið að byggja fyrir löngu. Ekki stóra verslunarmiðstöð, slíkt höfum við í Kringlunni og Smáralind, hér þarf annað.
Ég hef líka áhyggjur af næsta nágrenni við vinnustað minn, þ.e. Tryggvagötunni. Ég bið ykkur: ekki rífa húsin sem eftir standa við Tryggvagötu. Auk þess sem rífa á á Naustreitnum svokallaða skilst mér að húsin á móti Hafnarhúsinu, sem nú hýsa veitingahús, eigi að víkja. Þessi hús þykja kannski ekki merkileg, en þetta eru falleg hús á sinn hátt og sérstök og skapa sérstaka götumynd. Látið mig vita það, ég hef gengið hjá þeim alla vinnudaga í meira en sjö ár.
Með vinsemd og virðingu,
Einar Ólafsson, starfsmaður Borgarbókasafns Reykjavíkur.
(afrit sent Torfusamtökunum)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.