27.3.2008 | 14:16
Samhengisleysi í almenningssamgöngum
Í DV í dag er viðtal við ferðaþjónustumann að norðan sem bendir á það hversu önugt það sé fyrir ferðamenn, sem koma fljúgandi til Keflavíkurflugvallar, að komast áfram í flug út á land. Það sé eiginlega óyfirstíganlegt. Og ég get vel ímyndað mér það. Flugrútan fer á Umferðarmiðstöðina og svo að einhverjum hótelum, en einhversstaðar vestarlega á þessu nesi, sem Reykjavík stendur á, er flugstöð innanlandsflugs.
Viðmælandi DV telur því réttast að færa innanlandsflugið til Keflavíkur. En burtséð frá því, þá leiðir þetta hugann að því hversu margt er illa skipulagt hér, ekki síst í sambandi við almenningssamgöngur.
Lengi vel lenti maður suðrundir Nauthólsvík þegar maður tók flugrútuna í bæinn. Þaðan þurfti maður svo að taka leigubíl heim. Heldur lagaðist það þegar hún fór að stoppa við Umferðarmiðstöðina. En Umferðarmiðstöðin er svo ekkert í sérstaklega góðu sambandi við strætó, þó ekki mjög langt upp á gömlu Hringbraut, en eins gott að vera þá ekki með mikinn farangur. Þar fer reyndar leið 15 út í Skerjafjörð, en ég sé nú ekki erlendu túristana baksa við að fara þar á milli nema þá sprækustu unglinga með bakpoka.
Flugrútan stoppar í Hafnarfirði og Garðabæ, en einhvern tíma þegar ég var að koma úr skottúr frá útlöndum með litla handtösku spurði ég bílstjórann hvort ég gæti ekki hoppað af á Kópavogshálsinum svo ég gæti tekið strætó heim, þar sem ég bý í austanverðum Kópavogi. Nei, það var ekki hægt. Ég lenti suðrí Vatnsmýri og þurfti að taka leigubíl til baka þá leið sem ég hafði farið. Það er sjálfsagt hallærislegt að ætla að taka strætó heim þegar komið er frá útlöndum. En ég hefði þá líka getað þegið að taka leigubíl heldur styttri leið. Af hverju fer flugrútan ekki Reykjanesbrautina og kemur við í Mjódd?
Og afhverju var Umferðarmiðstöðin sett út í Vatnsmýri en ekki einhverstaðar nærri miðstöð strætisvagnasamgangna?
Afhverju er flugstöðin í Reykjavík suðrí Skerjafirði, þannig að farþegar þurfa alltaf að fara umferðarþyngstu götu bæjarins nærri á enda og svo áfram suðreftir, í stað þess að hafa hana við austurenda flugvallarins - eða norðurenda hans, nær miðbænum og Umferðarmiðstöðinni og strætóleiðum?
Afhverju í ósköpunum þarf að hafa þetta allt svona óskipulagt, samhengislaust og önugt?
Athugasemdir
Ég held að það sé af því að sama fólkið úr sama floknnum og næstum með sömu genin situr í öllum nefndum á Íslandi - endalaust og áratugum saman.!
Þetta var nú annars kannski ekki mjög góð þjóðfélagsgreining!En það er svo margt önugt þessa dagana!
María Kristjánsdóttir, 27.3.2008 kl. 20:52
Eins og þú nefnir er hægurinn hjá að taka leið 15 frá Umferðarmiðstöðinni að innanlandsfluginu. En upplýsingar um það þurfa að vera aðgengilegar fyrir farþegann. Er ekki pláss fyrir flugrútuna að stoppa við strætóskiptistöðina í Hamraborg,Kópavogi ?
Pétur Þorleifsson , 28.3.2008 kl. 09:37
Mér sýnist starfsmannarúta álversins stoppa þar vandræðalaust. Annars er skiptistöðin í Hamraborginni efni í sérstaka bloggfærslu - ef ekki blaðagrein. En hugsið ykkur ef flugstöðin væri rétt við Umferðarmiðstöðina, innangengt á milli, og stætó stoppaði við dyrnar. Það væri eitthvert vit í því. En ég held að þeir sem skipleggja þetta noti aldrei strætó, einu almenningsamgöngurnar sem þeir nota er flugið og svo leigubílar, þeir þurfa aldrei á þessu samhengi að halda.
Einar Ólafsson, 28.3.2008 kl. 12:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.