Orðræða um orðræðu

Birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2008.  Sjá líka gamla grein eftir mig, „Þjóðernisstefna, Evrópuhyggja og ýmsar tegundir alþjóðahyggju“, sem birtist í Þjóðviljanum árið 1990.

 „Orðræðugreining nýtur hylli í félagsvísindum í dag,“ segir Magnús Árni Magnússon í grein í Morgunblaðinu 27. júlí. Hann fjallar síðan um þá orðræðu sem mótaðist í sjálfstæðisbaráttunni á 19. og 20. öld og gerir ágæta grein fyrir þeirri mýtu sem að baki liggur. „Inn í þessa orðræðuhefð tala stjórnmálamenn á Íslandi og hafa gert meira og minna í 150 ár,“ segir hann og það hafi „þótt vænlegt til árangurs að mála andstæðinga sína óþjóðlega og hefur því vopni verið óspart beitt, t.a.m. í umræðum um varnarmál og inngönguna í NATO og nú hin síðari ár Evrópumál.“ Meðan þessi hópur tali skv. 150 ára gamalli hefð tali Evrópusinnar skv. hálfrar aldar orðræðuhefð Evrópusamrunans.

Það er fróðlegt að skoða þá orðræðu sem Magnús hefur hér uppi, orðræðu sem hefur skotið upp kollinum að undanförnu einkum í umræðunni um Evrópusambandið. Í þessari orðræðu eru andstæðingar ESB-aðildar einhvers konar þjóðernissinnar sem eru staðnaðir í úreltri orðræðu byggðri á mýtu sem varð til í tengslum við sjálfstæðisbaráttuna. En þetta er í rauninni að verulegu leyti líka mýta.

Vissulega nota sumir andstæðingar ESB-aðildar sem og NATO-andstæðingar þessa gömlu orðræðu sjálfstæðisbaráttunnar, en langt í frá allir. Fyrir nærri fjórum áratugum urðu átök í hreyfingu herstöðva- og NATO-andstæðinga þegar ungir róttæklingar höfnuðu orðræðu þjóðernisstefnunnar (sem þó hafði aldrei verið einráð á þeim vettvangi) og settu andheimsvaldastefnu og alþjóðahyggju í öndvegi. Ef við horfum til gagnrýnenda og andstæðinga ESB úti í Evrópu, þá verður seint sagt að hópar trotskíista, ungra anarkista og margra annarra sem hafa skipulagt mótmæli gegn leiðtogafundum ESB og haft uppi mótmæli gegn „Evrópuvirkinu“ svokallaða (Fortress Europe) verði kenndir við úrelta þjóðernisstefnu, né heldur verkalýðsfélög sem hafa barist gegn skerðingum á réttindum launþega og tilskipunum um þjónustuviðskipti og þess háttar.

Hér á Íslandi hafa margir andstæðingar ESB-aðildar líka lagt áherslu á markaðsvæðinguna og nýfrjálshyggjuna, sem þeir telja einkenna ESB, meðan aðrir eru uppteknir af hreinum efnahagslegum hagsmunum. Og jafnvel þegar ESB er hafnað vegna ótta við skerðingu á sjálfstæði, þá vegur þar oft þyngra áhyggjur af þeim lýðræðishalla, sem margir telja að einkenni ESB, en stöðnuð orðræða sjálfstæðisbaráttu 19. aldarinnar. Andstaðan gegn ESB tengist oft andstöðunni gegn hnattvæðingunni og nýfrjálshyggjunni sem margir telja að ógni lýðræðinu og færi völdin í hendur yfirþjóðlegra fyrirtækja. Aðrir telja hins vegar að eina svarið við þessari þróun sé að ganga í ESB enda verði raunverulegt fullveldi smáríkja eins og Íslands og Noregs mjög takmarkað í hinum hnattvædda heimi. Þegar að er gáð einkennist orðræðan nú kannski sáralítið af hinni gömlu orðræðuhefð sjálfstæðisbaráttunnar þótt greina megi einhver litbrigði hennar í bland. Og má vera að hálfrar aldar gömul orðræðuhefð Evrópusamrunans sé orðin jafnúrelt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þurfum við nokkuð að ganga í ESB til að afsala okkur fullveldinu (ef það gerist)? Er ekki nóg að afhenda alþjóðlegum auðhringum orkuauðlindirnar okkar eins og unnið er að sleitulaust af yfirvöldum?

Og það á silfurfati.

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.8.2008 kl. 14:51

2 Smámynd: Einar Ólafsson

Það er mikið rétt, spurningin um fullveldi snýst ekki bara um ESB.

Einar Ólafsson, 15.8.2008 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband