Almenn póstþjónusta á að vera í höndum opinberrar stofnunar

 

 

Jón Bjarnason þingmaður VG og Guðmundur Oddsson varaformaður stjórnar Íslandspósts hafa verið að skrifast á í blöðunum um málefni Íslandspósts. Jón hefur gagnrýnt niðurskurð á þjónustu Íslandspósts en Guðmundur snýst til varnar. Guðmundur skrifaði grein í Fréttablaðið 12. september (http://www.visir.is/article/20080912/SKODANIR03/464307768/-1/SKODANIR) til að svara gagnrýni Vinstri grænna, Jón svarar Guðmundi í Morgunblaðinu 20. september (sjá http://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/entry/652440/?t=0) og Guðmundur svarar svo Jóni aftur í Morgunblaðinu 26. september.

 

Þessi skoðanaskipti eru nokkuð merkileg, einkum þó málfutningur Guðmundar. Hann gerir lítið úr málflutningi Jóns og Vinstri grænna: „Einkum eru það félagar í VG sem farið hafa mikinn og gildir þá einu hvaða forsendur liggja á bak við þessar ákvarðanir Íslandspósts [lokun póstafgreiðslustaða og fækkun póstburðardaga á landsbyggðinni], því tilgangurinn helgar meðalið hjá félögum í VG.,“ segir hann í fyrri grein sinni, og: „Ég man ekki eftir að þingmaðurinn, Jón Bjarnason, hafi stutt nokkurt framfaramál þann tíma sem hann hefur setið á þingi,“ segir hann í seinni grein sinni. Þannig afgreiðir hann málflutning Jóns og Vinstri grænna eiginlega sem ómálefnalegt nöldur. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir, eða leiðir hjá sér, í hverju gagnrýnin felst. Það sést á því að hann notar í raun sér til varnar það sem deilan snýst um.

 

„Ef það er markaðshyggja [að reka fyrirtækið vel],“ segir hann, „þá er ég markaðshyggjumaður. En Jón Bjarnason hefur ekki áhyggjur af rekstri Íslandspósts...“ Hann tekur undir með Jóni að Íslandspóstur eigi að þjóna öllum landsmönnum, en upplýsir jafnframt að eigandi Íslandspósts, sem er íslenska ríkið, geri þá kröfu að fyritækið skili sér 190 milljónum króna í arð á árinu 2009. Ákvörðun um niðurskurð er svar við þessu, „þar ráða engir duttlungar för.“

 

„Mér finnst það óhugnanlegt sjónarmið hjá þingmanninum,“ segir Guðmundur, „að ef ríkið á eitthvert fyrirtæki þá skipti engu máli hvernig það er rekið heldur eigi það einungis að þjóna öllum landsmönnum. Hvers vegna má ekki reka ríkisfyrirtæki með hagnaði?“

 

Í þessum orðum kristallast ágreiningurinn. Auðvitað gerir hann Jóni upp það sjónarmið að engu máli skipti hvernig fyrirtækið er rekið, málið snýst ekki um það heldur hitt, hvort það sé frumskylda þess að þjóna öllum landsmönnum. Gagnrýnendurnir segja: Póstþjónustan er grunnþjónusta þar sem allir eiga að sitja við sama borð og það er á ábyrgð opinberra aðila, ríkisins, að sjá til að þessi þjónusta sé fullnægjandi. Sá er tilgangur stofnunarinnar eða fyrirtækisins en ekki að skila arði, enda sækir það auðvitað arðinn í vasa eigenda sinna sem eru sú þjóð sem það á að þjóna. Ef fyrirtækið skilar arði er eðlilegast að hann sé nýttur til þess annað hvort að lækka þjónustugjöldin eða bæta þjónustuna.

 

Það má kannski deila um hvort það séu framfarir að setja arðsemiskröfuna í fyrsta sæti og láta þjónustuna stýrast af henni. Sumir telja það bara einfaldlega ekki framfarir.

 

En í lok fyrri greinar Guðmundar birtist kannski kjarni málsins: „Í ársbyrjun 2011 fellur einkaréttur Íslandspósts á dreifingu bréfa niður og þá verður fyrirtækið að vera tilbúið að keppa við samkeppnisaðila á jafnréttisgrunni. Ef Íslandspóstur nær ekki þeim markmiðum sínum, gæti ég trúað, að þá fyrst mætti landsbyggðin hafa áhyggjur af þjónustunni.“

 

Kannski er Íslandpóstur að reyna að gera sitt besta til að þjóna hlutverki sínu innan þess ramma arðsemis og verðandi samkeppni sem fyrirtækinu er settur. Auðvitað á rekstur allra opinberra fyrirtækja og stofnana að vera eins góður og ódýr og hægt er. En spurningin á fyrst og fremst að snúast um: hvert á þjónustustigið að vera? Það á að vera viðmiðið, það á að vera ramminn. Síðan á að reka starfsemina á eins ódýran og hagkvæman hátt og hægt er, og það ættu góðir stjórnendur að geta gert án þess að hafa yfir sér svipu arðsemiskrafna og samkeppni, enda tekur Guðmundur undir það með Jóni að Íslandspóstur eigi að þjóna öllum landsmönnum, og hann gerir það, segir hann [um það er auðvitað deilt], en ekki vegna þess að hann sé í 100% eigu ríkisins, heldur vegna þess að hann hafi metnað til þess.

 

Það er nefnilega það. Auðvitað á almenn póstþjónusta bara að vera á höndum opinberrar stofnunar með metnaðarfulla stjórnendur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband