16.10.2008 | 23:13
Getum við endurheimt þýfið – eða hvernig getum við það?
Það verður æ ljósara, sem sumir sögðu, en margir vildu ekki trúa, að ævintýrirð mikla var ekkert annað en þjófnaður, að hinn ævintýralegi gróði, auðurinn mikli, varð ekki til úr engu fyrir snilli einhverra fjármálamanna, heldur er hann þýfi. Þegar fólk er að tapa stórum upphæðum, sem það hefur unnið sér inn á heiðarlegan hátt og lagt smám saman til hliðar, þá gufa þær ekki upp. Þessi sparnaður, þetta sem venjulegt launafólk, fólk með lítil fyrirtæki, námsmenn, eru að tapa nú og munu tapa á næstunni, eru ekki innantómar tölur heldur raunveruleg verðmæti sem fólk hefur unnið eða á eftir að vinna sér inn í sveita síns andlits.
Sú spurning vaknar: hvers vegna eru þjófarnir ekki teknir og settir handjárnaðir í gæsluvarðhald? Því miður var þetta löglegur þjófnaður. Ríkisstjórnir og Alþingi höfðu skapað lagalegt umhverfi fyrir þetta. Samt er þetta þjófnaður. Hér vaknar áhugaverð spurning: eru lögin réttlát? Ef ekki, er hægt að snúa til baka? Getum við sagt að lagasetningin hafi verið glæpsamleg og getum við sagt að það hafi verið glæpsamlegt að nýta sér lögin? Er siðferðið æðra lögunum? Ef svo er, hver dæmir þá hvaða siðferði er rétt? Er kannski sá almenningur, sá meirihluti kjósenda sem kaus þá stjórnmálamenn sem settu lögin og réðu ferðinni, hinn endanlegi sökudólgur? En hvað um minnihlutann? Á hann að hefna sín á meirihlutanum?
Þess eru auðvitað mörg dæmi að löglegu athæfi hafi verið snúið við á afturvirkan hátt. Það getur gerst í byltingum. Einhverjir sem ráða segjast hafa lögin sín megin, en staðan verður óþolandi fyrir einhverja sem gera uppreisn og þeir sem áður réðu missa völd sín og eignir. Reyndar verða byltingar oftast þar sem lýðræðinu er ábótavant á okkar mælikvarða. En hversu virkt og fullkomið er lýðræði okkar þar sem sumir hafa meiri völd, fjármuni og áhrif en aðrir? Hefur ekki verið bent á að alltaf var haldið frá almenningi upplýsingum sem lágu þó fyrir og voru ekki einu sinni leyndarmál?
Eigum við að gera byltingu og gera þýfið upptækt? Eða er hægt að gera það án byltingar? Við getum kosið nýtt þing og fengið nýja stjórn, ríkisvaldið og löggjafarvaldið er formlega það sama, þótt skipt sé um menn. Getur þetta sama ríkisvald og löggjafarvald, sem var þegar þjófnaðurinn fór fram innan ramma laganna, krafist þess að þýfinu verði skilað?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.