22.10.2008 | 00:04
Alþjóðlega fjármálakreppan: sögulegt tækifæri til umsköpunar
Það vill kannski gleymast svolítið - eðlilega - að það er ekki bara fjármálakreppa á Ísandi heldur víða um heim, þótt ofmælt sé að öll okkar vandræði stafi af alþjóðlegu kreppunni.
Í síðustu viku komu fulltrúa nokkurra samtaka/stofnana frá Evrópu og Asíu saman í Beijing í Kína á fundi sem kallaður var Asia-Europe People's Forum, en þetta er í sjöunda sinn sem slíkur fundur er haldinn (sjá einnig á vefsíðu Transnational Institute). Meðal þessara samtaka eru Transnational Institute í Amsterdam, Focus on the Global South í Bangkok og Institute for Global Research and Social Movements í Rússlandi
Á fundinum var meðal annars sett saman skjal með tillögum um hvernig bregðast megi við hinni alþjóðlegu fjármálskreppu og hefur það verið birt undir heitinu: The global economic crisis: An historic opportunity for transformation, eða Alþjóðlega fjármálakreppan: sögulegt tækifæri til umsköpunar. Skjalið er aðgengilegt á vefsíðunni Casino Crash - casinocrash.org og þar er jafnframt hægt að skrá stuðning sinn við það.
Ég vísa áhugasömum lesendum á enska útgáfu skjalsins, en nefni hér örfáar tillögur úr því:
- Full félagsvæðing (socialisation) bankanna, ekki bara þjóðnýting tapsins.
- Gegnsæi í fjármálakerfinu.
- Eftirlit þings og almennings með bankakerfinu.
- Félagslegar og umhverfislegar forsendur fyrir lánastarfsemi.
- Almannasparisjóðir (citizen investment funds).
- Loka öllum skattaskjólum (skattaparadísum). (Þetta er víst til umræðu hjá forystumönnum ESB núna).
- Alþjóðlegt skattakerfi.
- Skattur á fjármagnsfærslur í ágóðaskyni (Tobin-skattur).
- Draga verulega úr hernaðarútgjöldum.
- Stöðva einkavæðingu almannaþjónustu.
- Stuðla að stofnun lýðræðislegra almenningsfyrirtækja undir eftirliti þings, sveitarstjórna eða verkalýðsfélaga, til að tryggja atvinnu.
- Hafa eftirlit með eða styrkja framleiðslu vara sem teljast til grunnþarfa.
- Banna allt brask með grundvallarmatvæli.
- Fella niður skuldir þróunarlandanna.
- Leggja smám saman niður Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðkiptastofnunina.
- Stuðla að svæðisbundinni efnahagslegri samvinnu milli ríkja.
- Einn kafli er sérstaklega um umhverfismál.
- Lögð verði áhersla á fæðuöryggi og sjálfbæra matvælaframleiðslu.
- Stöðva hverskyns áætlanir um að minnka réttindi verkafólks.
- Launajafnrétti kynjanna verði tryggt.
Athugasemdir
Heyr heyr! Þessar hugmyndir ríma við fund Rauðs vettvangs annað kvöld.
Vésteinn Valgarðsson, 22.10.2008 kl. 11:43
Það er svo makalaust að fylgjast með því hvernig kommúnistar fyllast eldmóði vegna þessa gjaldþrots nýfrjálshyggjunnar.
Ég bjó og lærði í Austur-Þýskalandi í rúmt ár og lærði þar mína lexíu.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.10.2008 kl. 13:16
Guðbjörn, heldur þú að einhver sé að stinga upp á að stofna Austur-Þýskaland hér á Íslandi?
Vésteinn Valgarðsson, 22.10.2008 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.