Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar krefst kjarasamninga og rannsóknar á hruni efnahagslífsins

Kjarasamningar Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar við Reykjavíkurborg og fleiri aðila runnu út 31. október. Viðræður milli St.Rv. og Reykjavíkurborgar hófust 30. september en hafa gengið ákaflega hægt að undanförnu. Á fulltrúaráðsfundi í félaginu 11. nóvember voru líflegar umræður og eftirfarandi ályktanir samþykktar:

 

Ályktanir af fundi fulltrúaráðs Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Ályktun

Fundur stjórnar og fulltrúaráðs Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, haldinn þriðjudaginn 11. nóvember 2008, skorar á  Reykjavíkurborg að ganga hið allra fyrsta til samninga við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.

Félagsmenn í Starfsmannafélagi  Reykjavíkurborgar eru í hópi þeirra sem ekki hefur verið gerður kjarasamningur við á þessu ári en nú þegar hafa verið gerðir kjarasamningar við stærsta hluta á vinnumarkaði.

Næg er óvissa starfsmanna við þær aðstæður sem ríkja í landinu þó ekki bætist við bið eftir að gengið verði frá samningum.

Við krefjumst þess að gengið verði frá kjarasamningum þannig að félagsmenn fái greidd laun  eftir nýjum kjarasamningi frá 1. desember nk.

Ályktun

Við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi er mikilvægara en nokkru sinni að jafna kjörin í landinu og styrkja innviði samfélagsins. Tryggja þarf fulla atvinnu og efla alla grunnþjónustu.  Öflugt velferðarkerfi gerir okkur kleift að standa af okkur áföllin og með samstöðu og samheldni mun þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum. Forsenda samstöðunnar er hins vegar jöfnuður og félagslegt réttlæti. Kjarabilið hefur farið ört breikkandi, þar með talið kynbundið launamisrétti. Á því þarf að taka af festu.

Á liðnum árum hafa fjármálamenn og stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja skuldsett samfélagið á óábyrgan og siðlausan hátt og nýtt sér til þess þær aðstæður sem stjórnvöld hafa skapað.

Fulltrúaráð St.Rv. hafnar því alfarið að almennt launafólk verði látið bera allan herkostnaðinn af óráðsíu og bruðli undanfarinna ára. Almennt launafólk ber ekki ábyrgð á þeirri kreppu sem nú dynur yfir og flestir, þ.á.m. félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, nutu í engu hins svokallaða góðæris í formi launaskriðs eða annarra beinna kjarabóta.

Fulltrúaráð St.Rv. krefst ítarlegrar rannsóknar sem leiði í ljós hverjir eru ábyrgir fyrir hruni efnahagslífsins. Þá þarf að leiða í ljós hvernig fjármunum þjóðarinnar hefur verið sóað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

hvað er til ráða

Jón Snæbjörnsson, 13.11.2008 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband