St.Rv. ályktar: Launafólk ber ekki ábyrgð á kreppunni

Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar var haldinn í gær, 19. mars. Fundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:

 Ályktun I

Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, haldinn 19. mars 2009, ályktar: Í yfirlýsingu, sem Evrópusamtök verkalýðsfélaga (ETUC) sendu frá sér í lok febrúar, segir að óviðundandi sé að launafólk beri byrðar af efnahagshruni, sem það beri enga ábyrgð á heldur sé framkallað af blygðunarlausri græðgi fjármálafyrirtækja og fjárglæframanna. Fundurinn tekur undir þetta og krefst þess að stjórnvöld hraði sem mest aðgerðum til varnar kjörum almennings og beiti öllum tiltækum ráðum til þess. Meðal nauðsynlegra úrræða má nefna:

  • Standa vörð um heimili og afkomu almennings og stöðva stöðuga hækkun skulda og afborgana.
  • Tryggja atvinnu, treysta rekstrargrundvöll fyrirtækja og hrinda í framkvæmd þjóðhagslega hagkvæmum og atvinnuskapandi verkefnum.
  • Standa vörð um velferðarkerfið og opinberan rekstur almannaþjónustu og jafna kjörin.
  • Koma á árangursríku regluverki, sem komi í veg fyrir að aftur verði snúið til þess spilavítiskapítalisma, sem hefur einkennt efnahagslífið mörg undanfarin ár, og taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum í þá veru.
  • Hraða rannsókn á fjármálahruninu og aðdraganda þessi og gera allt sem hægt er til að ná aftur því sem rænt hefur verið af almenningi.

Fundurinn hvetur verkalýðshreyfinguna til að veita stjórnvöldum stuðning og ekki síður aðhald til þessara verka. Jafnframt er hvatt til þess að ekkert verði gefið eftir í kjaramálum né gengið að frestun kjarasamninga nema tryggt sé að það sé aðeins til bjargar atvinnulífinu en ekki hagnaðar fyrir atvinnurekendur og fjármagnseigendur. Bókhald fyrirtækja verður að vera opið og launaleynd og hverskyns tekju- og eignaleynd afnumin með öllu.

Ályktun II

Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, haldinn 19. mars 2009, hvetur alla vinnuveitendur félagsmanna til þess að virða kjarasamninga og forðast að skerða kjör starfsmanna sinna, enda er almennt ekki um hálaunastörf að ræða. Jafnframt hvetur fundurinn jafnt yfirmenn sem almennt starfsfólk til að standa þétt saman og sýna hvert öðru stuðning á þessum tímum, þegar margir þurfa að takast á við fjárhagslega erfiðleika og jafnvel atvinnumissi fjölskyldumeðlima.

Yfirlýsingu ETUC, sem vitnað er til, má finna hér:

http://www.etuc.org/a/5895

http://www.etuc.org/a/5871

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Betur má ef duga skal..ekki bara nóg að tala..það þarf að framkvæma..fljótt.

TARA, 21.3.2009 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband