Þingið greiði atkvæði - til þess er það

Ég skil ekki þetta ESB-vesen varðandi stjórnarmyndun.

Þarf endilega að hafa eitthvað um það í stjórnarsáttmála? Er ekki einfaldast að þeir sem vilja sækja um aðild beri upp tillögu um það á Alþingi og svo bara ráði meirihluti þingsins? Er það ekki lýðræðislegast? Það er svo hægt að hafa það annað hvort þannig að þingið taki afstöðu beint til aðildarumsóknar eða hvort eigi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingið sjái sem sagt um þetta og þar með er hægt að drífa í að mynda stjórn og snúa sér að þeim aðkallandi verkum sem bíða. Og svo sætta stjórnarflokkarnir sig bara við niðurstöðuna, hver sem hún verður, og stjórnin framkvæmir það sem þingið ákveður.

 Þetta hlýtur að vera lýðræðislegra og eðlilegra en að Samfylkingin nýti sér stöðuna í samfélaginu til að þröngva Vinstrigænum til einhvers sem þau eru ósátt við - nú, eða öfugt, ef einhver vill orða það svo.

 


mbl.is Evrópumálið sett í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Ef þetta væri bara svona einfalt.

"Vandinn kemur utanfrá" segir Eiríkur Bergmann í bloggfærslu sinni í dag. Hann er bæði Samfylkingarmaður og Evrópusinni, svo ekki skáldar hann upp hindranir að gamni sínu.

ESB hefur sínar vinnureglur. Þeir fara ekki í aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðu sinni. Þó Alþingi segði já þá væri ríkisstjórn S og VG klofin. Samninganefnd ESB býður ekki upp á hjáleið fyrir slíka ríkisstjórn.

Haraldur Hansson, 27.4.2009 kl. 18:49

2 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Sem segir nokkuð um hversu lýðræðisleg samtök ESB er.

Björgvin R. Leifsson, 27.4.2009 kl. 19:37

3 Smámynd: Einar Ólafsson

Þakka þér fyrir þessar upplýsngar, Haraldur. Ef þetta er svona, þá er þetta auðvitað tómt mál að tala um. Hvort sem VG gengur að kröfu Samfylkingar um að fara í aðildarviðræður eða ekki, þá liggur það samt ljóst fyrir að flokkurinn er á móti aðild. Það er alveg kristaltært.

"Evrópusambandið getur ómögulega hafið aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðunni til aðildar. Ríkisstjórnin verður einfaldlega að standa heilshugar að umsókninni til þess að hún verði tekin alvarlega í Brussel." Svo mælir Eiríkur. Landfundur VG í mars var heilshugar í andstöðu sinni við aðild. Því breytir hvorki Samfylkingin né þingflokkur VG.

Einar Ólafsson, 27.4.2009 kl. 19:39

4 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Ég er nú sammála þér Einar,maður hélt nú að þessi aðferð væri nó,en Haraldur fer nú með rétt mál,ríkisstjórnin verður að hafa samið um þetta og hafa þetta í stjórnarsáttmálanum sínum,en ég skil ekki þessi vandræði,??auðvita eiga þeir að ræða við ESB,við verðum að vita hvað er í þessum pakka,??hvort við eru að afsala okkar auðlindum eða getum samið um þau,hvort við þurfum að láta öll völd til ESB,Ég er nú ekki hlynntur ESB,miða við það sem maður hefur heyrt,??en maður getur lítið tjáð sig um málefni,þegar maður veit ekki hvað er í þessum pakka,svo það er í lagi að fara í viðræður,mjög gott að annar flokkurinn er mótfallin ESB,en vill samt skoða þennan pakka,þá koma bæði rökin fram,þeirra sem gagnrýna hann og þeirra sem eru hlynntir honum,svo verður mesta vinnan hjá þeim að upplýsa okkur um kosti og galla,áður en þjóðin tekur ákvörðun um inngöngu í ESB eða hætta við,en ég veit að Haraldur er nú nokkuð kunnugur þessum ESB-málum.en við verðum nú að vona að það komi fljótt í ljós hvort þessi ríkisstjórn nær saman eða ekki,Það er nú annar möguleiki í stöðinni,sem betur fer,en það eru svo mörg mál sem þarf að taka á fljótt,(annað en þetta ESB-vitleysa,það má nú bíða,fyrst að bjarga fólkinu og atvinnuleysinu,takk fyrir,)Þetta þarf helst að vera komið á hreint fyrir fimmtudaginn. Gleðilegt sumar.

Jóhannes Guðnason, 27.4.2009 kl. 19:44

5 identicon

Mér finnst þingræðið gleymast í þessu. Segjum nú sem svo að ríkisstjórnin ákveði að leggja málið til hliðar og leyfa þinginu bara að taka afstöðu. Segjum svo að á Alþingi samþykki meirihluti (ekki ríkisstjórnarmeirihluti) að ganga skuli til viðræðna við ESB. Þá ber ríkisstjórninni að ganga í það mál. Hvað er ríkisstjórnin? Eru það flokkarnir VG og Samfylkingin í heild sinni? Eru það þingflokkar þessara flokka? Nei, ríkisstjórnin eru fulltrúar sem meirihluti Alþingis velur og þeim ber að framfylgja vilja þingsins. Ekki öfugt (eins og reyndar hefur verið raunin). Ef meirhluti þingsins ákveður þetta, hvers vegna ætti ESB þá að hafna viðræðum við fulltrúa þess þings?

Þetta er náttúrulega ekki svo einfalt. En fjandakornið, auðvitað er það vilji þings sem á að skipta máli en ekki ríkisstjórnar. Þingið er verkkaupinn og ríkisstjórnin verktakinn.

Hjörtur Einarsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 21:27

6 Smámynd: Einar Ólafsson

Einmitt - kannski ekki svo einfalt - en ætti að vera það.

Einar Ólafsson, 27.4.2009 kl. 21:58

7 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með hvernig ýmsir Samfylkingarmenn hafa komið fram þessa síðustu daga. Svona hótunar og skilyrðastíll sem svo kannski leiðir til einhverrar skiptimyntar- var eitthvað sem ég vonaðist að hyrfi núna út úr pólitíkinni. En ég alltaf jafn barnaleg. Ég vil ekkert norrænt velferðarsamfélag ég vil nýtt Ísland skapað af nýjum hugmyndum okkar sjálfra. En það er auðvitað til of mikils mælstst . Allt skal vera við hið sama.

María Kristjánsdóttir, 27.4.2009 kl. 23:45

8 Smámynd: Einar Ólafsson

Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta.

Varðandi norræna velferðarsamfélagið, þá er það kannski með því skárra í þessari kapítalísku veröld, en mér finnst einhver veginn að við ættum að setja markið hærra - og vera frumlegri, þannig að vinstri menn og umhverfissinnar í Skandinavíu geti einhvern tíma horft út úr kapítalismanum og misréttinu þar og sagt: Asskolli eru þeir að gera skemmtilega hluti uppi á Íslandi.

Einar Ólafsson, 28.4.2009 kl. 09:22

9 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það má hugsa sér að skipa ríkisstjórn utan þings og láta hana svo eftir að framkvæma vilja þingsins.

Héðinn Björnsson, 28.4.2009 kl. 10:38

10 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sambandið milli þings og ríkisstjórnar er ekki á grundvelli verkkaupa og verktaka.

Um er að ræða framkvæmdavald og löggjafarvald.  Þingið setur lög en ríkisstjórnin stýrir landinu í samræmi við þau lög sem sett eru á Alþingi.  Ríkisstjórn situr hins vegar með stuðningi Alþingis.

Það er því ekki þingsins að fara í viðræður við ESB um aðild.  Þingið breytir hins vegar þeim lögum, þ.m.t. stjórnarskrá sem til þarf til að hægt sé að ráðast í aðildarviðræður.  Ríkisstjórnin tekur síðan við boltanum og framkvæmir.

Ef annar meirihluti flokka á Alþingi ákveður að sækja um aðild þvert á vilja ríkisstjórnarinnar þá er ríkisstjórnin í raun fallin og önnur þarf að taka við.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.4.2009 kl. 11:53

11 Smámynd: Einar Ólafsson

Kannski er þetta svona. En mætti ekki hugsa sér þetta öðruvísi:

 

Tveir flokkar vilja mynda stjórn af því að þeir eru sammála um meginmálin. Þó er eitt mikilvægt mál sem ekki næst samstaða um. Þá er samið um að vera ósammála um það, þannig að sá flokkur sem vill halda málinu fram leggur það fyrir þingið, sem tekur afstöðu. Báðir flokkar skuldabinda sig til að hlýta niðurstöðu þingsins og standa saman að framkvæmd hennar. Í þessu tilviki annað hvort aðildarumsókn eða þjóðaratkvæðgreiðslu um aðildarumsókn eftir því hvora leiðina þingið mundi kjósa – eða að gera ekki neitt, ef það er niðurstaða þingsins. Hvers vegna ætti ríkisstjórnin að falla, ef hún sættir sig við að framkvæma vilja þingsins?

Einar Ólafsson, 28.4.2009 kl. 13:02

12 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta er auðvitað möguleiki ef flokkarnir ná saman um þessa málsmeðferð, það er alveg rétt.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.4.2009 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband