Þökk sé kröfum og virkni almennings í vetur, búsáhaldabyltingunni, urðu stjórnarskipti og síðan kosningar. Þetta var sjálfsprottin virkni. Hagsmunasamtök almennings, svo sem stéttarfélögin, komu hvergi nærri. Og almenningur mundi ekki heldur eftir þessum samtökum sínum. Fólkið sem safnaðist saman á Austurvelli og víðar nefndi varla stéttarfélögin, ég man ekki eftir nema á einum fundi í Háskólabíói sem forystumenn stéttarfélaganna voru kallaðir til, annað var eitthvað óverulegt. Afl stéttarfélaganna, afl verkalýðshreyfingarinnar var ekki nýtt.
Hin sjálfsprottna hreyfing kyrrðist nokkuð eftir stjórnarskiptin, en hún skilaði sér auðvitað í kosningunum með gjörbreyttu fylgi stjórnmálaflokkanna, einkum miklu fylgistapi þess flokks sem höfuðábyrgð bar á hruninu og mikilli fylgisaukningu þess flokks sem einarðast hafði gagnrýnt þróunina auk mikils fylgis þess nýja framboðs sem spratt upp úr þessari hreyfingu.
En hefur búsáhaldabyltingin skilað meiru? Ætluðum við bara að fá aðra ríkisstjórn sem hagaði sér skár, virti betur reglur lýðræðisins, kæmi okkur yfir kreppuna og dreifði byrðum hennar, byrðum ránsins, jafnar á okkur? Eða viljum við halda áfram og ná þeim sem frömdu ránið, ná ránsfengnum og búa svo um hnútana að slíkt rán verði ekki framið aftur? Það er ansi miklu stærra verkefni en að skipta um stjórn og gera einhverjar umbætur í stjórnsýslunni.
Það verkefni þýðir óhjákvæmilega árekstra, harða árekstra, við auðvaldið. Engin ríkisstjórn ræður við slíkt verkefni nema hún hafi almenning með sér og fæstar ríkisstjórnir leggja í slíkt verkefni nema þær búi við þrýsting frá almenningi. Og í öllu þessu skiptir verkalýðshreyfingin líka miklu máli, stéttarfélögin eiga að standa vörð um kjör almennings og þau þurfa líka að standa sig. Hinir almennu félagar verða að standa að baki forystunni, hvetja hana, knýja á hana, og ganga fram fyrir skjöldu ef því er að skipta, rétt eins og í búsáhaldabyltingunni.
Byltingunni er ekki lokið. Tökum fram pottana og pönnurnar 1. maí, rauða fána og öll spjöldin með þeim kröfum sem enn hafa ekki verið uppfylltar. Fram til baráttu félagar, látum til okkar sjást og í okkur heyra ! 1. maí er baráttudagur - allir dagar eru baráttudagar!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.