Færsluflokkur: Bloggar

Hvað er eiginlega með þetta ASÍ?

Hvað er eiginlega með þetta ASÍ? Hvernig dettur þeim í hug að vera að þvæla um aðild að ESB þegar þarf að bjarga málunum hér og nú - aðild að ESB er langtímamarkmið ef menn vilja það á annað borð. En heldur verkalýðshreyfingin að aðild að ESB eigi yfirleitt að vera eitthvert langtímamarkmið - hvað er þetta eiginlega? ESB er kapítalískt verkefni, kannski eru fleiri hliðar á því, en þetta er samt grundvallaratriði, það gengur út á að skapa kapítalistunum hagstætt umhverfi og hvað eftir annað hefur verkalýðshreyfingin þurft að stöðva þetta verkefni - hvað með Bolkenstein-tilskipunina og ýmislegt fleira? Það er aldeilis reisn yfir þessu!!

mbl.is Tekist á um ESB-tillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurheimtum þýfið

Í Kastljósi í kvöld var rætt við nokkra almenna borgara og þar sagði
einn nokkuð sem skiptir máli: hann spurði eitthvað á þá leið hvað það
væri mikið sem stjórnendur bankans hefðu rakað saman. Ríkið setti 84
milljarða í dæmið. Stjórnendurnir, núverandi og fyrrverandi, eru búnir
að fá milljónir eða tugi og hundruð milljóna í mánaðagreiðslur og
eingreiðslur og starfslokasamninga og ég veit ekki hvað. Það væri
fróðlegt að leggja þetta allt saman og sjá hvað það hefði nú dugað uppí
þessa björgun og kannski væri sanngjarnt að þeir skiluðu þessu núna,
þeim yrðu reiknuð eðlileg mánaðarlaun upp á fáein hundruð
þúsunda og skiluðu restinni. Því að restin er bara þýfi.

Almenn póstþjónusta á að vera í höndum opinberrar stofnunar

 

 

Jón Bjarnason þingmaður VG og Guðmundur Oddsson varaformaður stjórnar Íslandspósts hafa verið að skrifast á í blöðunum um málefni Íslandspósts. Jón hefur gagnrýnt niðurskurð á þjónustu Íslandspósts en Guðmundur snýst til varnar. Guðmundur skrifaði grein í Fréttablaðið 12. september (http://www.visir.is/article/20080912/SKODANIR03/464307768/-1/SKODANIR) til að svara gagnrýni Vinstri grænna, Jón svarar Guðmundi í Morgunblaðinu 20. september (sjá http://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/entry/652440/?t=0) og Guðmundur svarar svo Jóni aftur í Morgunblaðinu 26. september.

 

Þessi skoðanaskipti eru nokkuð merkileg, einkum þó málfutningur Guðmundar. Hann gerir lítið úr málflutningi Jóns og Vinstri grænna: „Einkum eru það félagar í VG sem farið hafa mikinn og gildir þá einu hvaða forsendur liggja á bak við þessar ákvarðanir Íslandspósts [lokun póstafgreiðslustaða og fækkun póstburðardaga á landsbyggðinni], því tilgangurinn helgar meðalið hjá félögum í VG.,“ segir hann í fyrri grein sinni, og: „Ég man ekki eftir að þingmaðurinn, Jón Bjarnason, hafi stutt nokkurt framfaramál þann tíma sem hann hefur setið á þingi,“ segir hann í seinni grein sinni. Þannig afgreiðir hann málflutning Jóns og Vinstri grænna eiginlega sem ómálefnalegt nöldur. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir, eða leiðir hjá sér, í hverju gagnrýnin felst. Það sést á því að hann notar í raun sér til varnar það sem deilan snýst um.

 

„Ef það er markaðshyggja [að reka fyrirtækið vel],“ segir hann, „þá er ég markaðshyggjumaður. En Jón Bjarnason hefur ekki áhyggjur af rekstri Íslandspósts...“ Hann tekur undir með Jóni að Íslandspóstur eigi að þjóna öllum landsmönnum, en upplýsir jafnframt að eigandi Íslandspósts, sem er íslenska ríkið, geri þá kröfu að fyritækið skili sér 190 milljónum króna í arð á árinu 2009. Ákvörðun um niðurskurð er svar við þessu, „þar ráða engir duttlungar för.“

 

„Mér finnst það óhugnanlegt sjónarmið hjá þingmanninum,“ segir Guðmundur, „að ef ríkið á eitthvert fyrirtæki þá skipti engu máli hvernig það er rekið heldur eigi það einungis að þjóna öllum landsmönnum. Hvers vegna má ekki reka ríkisfyrirtæki með hagnaði?“

 

Í þessum orðum kristallast ágreiningurinn. Auðvitað gerir hann Jóni upp það sjónarmið að engu máli skipti hvernig fyrirtækið er rekið, málið snýst ekki um það heldur hitt, hvort það sé frumskylda þess að þjóna öllum landsmönnum. Gagnrýnendurnir segja: Póstþjónustan er grunnþjónusta þar sem allir eiga að sitja við sama borð og það er á ábyrgð opinberra aðila, ríkisins, að sjá til að þessi þjónusta sé fullnægjandi. Sá er tilgangur stofnunarinnar eða fyrirtækisins en ekki að skila arði, enda sækir það auðvitað arðinn í vasa eigenda sinna sem eru sú þjóð sem það á að þjóna. Ef fyrirtækið skilar arði er eðlilegast að hann sé nýttur til þess annað hvort að lækka þjónustugjöldin eða bæta þjónustuna.

 

Það má kannski deila um hvort það séu framfarir að setja arðsemiskröfuna í fyrsta sæti og láta þjónustuna stýrast af henni. Sumir telja það bara einfaldlega ekki framfarir.

 

En í lok fyrri greinar Guðmundar birtist kannski kjarni málsins: „Í ársbyrjun 2011 fellur einkaréttur Íslandspósts á dreifingu bréfa niður og þá verður fyrirtækið að vera tilbúið að keppa við samkeppnisaðila á jafnréttisgrunni. Ef Íslandspóstur nær ekki þeim markmiðum sínum, gæti ég trúað, að þá fyrst mætti landsbyggðin hafa áhyggjur af þjónustunni.“

 

Kannski er Íslandpóstur að reyna að gera sitt besta til að þjóna hlutverki sínu innan þess ramma arðsemis og verðandi samkeppni sem fyrirtækinu er settur. Auðvitað á rekstur allra opinberra fyrirtækja og stofnana að vera eins góður og ódýr og hægt er. En spurningin á fyrst og fremst að snúast um: hvert á þjónustustigið að vera? Það á að vera viðmiðið, það á að vera ramminn. Síðan á að reka starfsemina á eins ódýran og hagkvæman hátt og hægt er, og það ættu góðir stjórnendur að geta gert án þess að hafa yfir sér svipu arðsemiskrafna og samkeppni, enda tekur Guðmundur undir það með Jóni að Íslandspóstur eigi að þjóna öllum landsmönnum, og hann gerir það, segir hann [um það er auðvitað deilt], en ekki vegna þess að hann sé í 100% eigu ríkisins, heldur vegna þess að hann hafi metnað til þess.

 

Það er nefnilega það. Auðvitað á almenn póstþjónusta bara að vera á höndum opinberrar stofnunar með metnaðarfulla stjórnendur.

 


Þjóðin styður ljósmæður

Þjóðin styður ljósmæður
Austurvelli, 5. september kl. 12.15

Verkfall ljósmæðra er skollið á. Ríkisstjórnin axlar ekki ábyrgð og gerir þar með yfirlýsingar og fyrirheit að engu. Stjórnarsáttmálinn er marklaust plagg. Þarfir barnshafandi kvenna skipta ekki máli og störf ljósmæðra eru lítils virði.

Þó málið varði fyrst og fremst fæðandi konur og hið nýja líf sem þær bera í skauti sér, þá snúast störf ljósmæðra um framtíð þessa lands í heild sinni. Ekkert er mikilvægara en endurnýjun þjóðarinnar. Til að hún geti orðið með eðlilegum hætti verður að tryggja þjónustu ljósmæðra nú og um aldir alda.

Ljóst er að þjóðin stendur með ljósmæðrum. Kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar og flugfreyjur hafa sent frá sér stuðningsyfirlýsingar, auk fjölda félaga- og hagsmunasamtaka. Fram til þessa hafa konur á barneignaraldri verið í framvarðarsveit stuðningsfólks sem er eðlilegt. Nú er þó svo komið að þjóðin öll verður að láta í sér heyra. Öll höfum við fæðst. Mætum á Austurvöll kl. 12.15. og styðjum kjarabaráttu ljósmæðra.

Samstaðan er studd af eftirfarandi samtökum: Femínistafélagi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Flugfreyjufélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, BHM, Læknafélagi Íslands, Kennarasambandi Íslands, Landssambandi Framsóknarkvenna, Vinstrihreyfingunni grænu framboði og Ljósmæðrafélagi Íslands.


Sjálfstæði Suður-Ossetíu, hagsmunir heimsveldanna og hlutverk NATO

Eftirfarandi grein birtist á Friðavefnum (fridur.is) 27. ágúst

Samræmi og samfella í stefnu stórveldanna markast einungis af hagsmunum þeirra. Þessa vegna hafna Bandaríkin sjálfstæði Suður-Ossetíu en tryggja sjálfstæði Kósovo, og þess vegna hafnar Rússland sjálfstæði Tsjetsjeníu og Kósovo en viðurkennir sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkasíu. Heimsvaldastefna Rússlands er hvorki betri né verri en heimsvaldastefna Bandaríkjanna eða Vesturveldanna. Rússland er bara veikara. En það eru Bandaríkin og NATO sem bera meginábyrgðina á þeirri spennu, sem hefur farið vaxandi að undanförnu, með því að þrengja stöðugt að Rússlandi með útvíkkun NATO, bandarískum herstöðvum og hernaðarsamstarfi Bandaríkjanna við nágrannaríki Rússlands, með uppsögn ABM-sáttmálans um takmörkun gagnflaugakerfa og í kjölfar þess uppsetningu gagnflaugakerfis með stöðvum í Tékklandi og Póllandi.

Með hruni Sovétríkjanna og hins kommúníska skipulags austantjaldsríkjanna kringum 1990 vonuðust margir til að þar með losnaði um spennu kalda stríðsins. En gróðahagsmunir auðvaldsins og heimsveldahagsmunir stórveldanna taka ekki tillit til hagsmuna eða friðarvona alþýðu. Í stað þess að leggja NATO niður var það nú eflt og beitt markvisst við að festa í sessi hina nýju heimsskipun sem Bandaríkin boðuðu. Gamla stórveldið Rússland reyndi að halda sjálfstæði sínu og áhrifum en Bandaríkin og NATO flýttu sér að tryggja áhrif sín til austurs og á olíuauðugum svæðum Mið- og Suðvestur-Asíu meðan Rússland var enn veikt eftir umskiptin. Serbía óhlýðnaðist Vesturveldunum eftir upplausn Júgóslavíu og ofbeldi Serba í Kósovo var ýkt hæfilega og notað sem átylla til loftárása. Kósovo var sett undir stjórn NATO og Bandaríkin settu þar upp stóra herstöð, Camp Bondsteel. Síðan var sjálfstæði héraðsins viðurkennt gegn vilja Serbíu og Rússlands. Þegar á allt er litið eru jafnsterk rök fyrir að viðurkenna sjálfstæði Suður-Ossetíu og Kósovo – eða hvort tveggja jafnvafasamt eins og að því er staðið. En meginreglan á að vera að sjálfsákvörðunarrétt þjóða ber að virða eftir því sem hægt er í flókinni veröld.

Athafnir stórveldanna helgast ekki af hagsmunum alþýðunnar. Þeir eru einungis notaðir sem átylla þegar hentar. Átökin í Georgíu nú í ágúst verða ekki slitin úr samhengi við þá spennu sem vaxandi áhrif Bandaríkjanna og NATO í Úkraínu og Georgíu hafa valdið. Í þessum átökum voru íbúar Georgíu og Suður-Ossetíu einungis fórnarlömb. Stjórn Georgíu beitti bandarískum og ísraelskum vopnum til að ráðast inn í Suður-Ossetíu með tilheyrandi eyðileggingu og limlestingum og dauða óbreyttra borgara. Og Rússar spöruðu ekki heldur líf óbreyttra borgara í viðleitni sinni við að verja stórveldishagsmuni sína með innrás í Georgíu. Það er ekki heldur auðvelt að styðja stjórn Suður-Ossetíu, sem að sögn hefur stutt sig við glæpagengi rétt eins og núverandi forseti hins nýfrjálsa Kósovo. Stórveldin eru ekki vönd að vinum.

Í þessu valdatafli stórveldanna, þar sem alþýðan er alltaf fórnarlambið, skipar NATO mikilvægt hlutverk. Í apríl á næsta ári fyllir það sjötta áratuginn. Þessi sextíu ár eru nóg. Nú er kominn tími til að leysa upp öll hernaðarbandalög. Hernaðarbandalög eru ekki til annars en viðhalda köldu stríði – og kalt stríð getur alltaf tekið upp á því að hitna.


Bandarísk eldflaugastöð í Póllandi

Eftirfarandi birtist á Friðarvefnum 14. ágúst

 

Í dag, fimmtudaginn 14. ágúst, náðist samkomulag milli Bandaríkjanna og Póllands um að setja upp í Póllandi herstöð fyrir tíu gagneldflaugar. Þetta er liður í gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna en fyrir rúmum mánuði, 8. júlí, var undirritaður samningur milli Tékklands og Bandaríkjanna um aðstöðu í Tékklandi fyrir radarstöð í þessu kerfi. Mikil barátta hefur verið gegn þessum fyrirætlunum bæði í Póllandi og þó enn meir í Tékklandi. Núverandi stjórn í Póllandi var þó ekki eins samvinnulipur við Bandaríkin og fyrri stjórn og krafðist einhverrar umbunar þannig að Bandaríkin voru farin að þreifa fyrir sér í Litháen, en nú hefur sem sagt gengið saman með ríkjunum.

Grafið undan afvopnun
Auk andstöðu heima fyrir hefur þessi áætlun Bandaríkjanna víða verið gagnrýnd og Rússar hafa andmælt henni kröftuglega, enda telja þeir hana beinast að sér þótt Bandaríkjamenn segi hana beinast einkum gegn Íran. Margir hafa líka gagnrýnt þessa áætlun á þeim forsendum að hún auki spennu milli Bandaríkjanna og Vesturveldanna annars vegar og Rússlands hins vegar og setji í uppnám áætlanir um afvopnun, bæði kjarnorkuafvopnun og almenna. Forsenda þessarar áætlunar var að Bandaríkjamenn sögðu upp hinum mikilvæga ABM-sáttmála um takmörkun gagnflaugakerfa og í kjölfarið tilkynntu Rússar að afvopnunarsamningur um hefðbundinn herafla í Evrópu frá 1990 væri úr gildi fallinn.

Velþóknun íslenskra stjórnvalda
NATO kemur ekki beint að þessum áætlunum Bandaríkjanna en leiðtogafundurinn í Búkarest í vor lýsti velþóknun sinni á henni. Í yfirlýsingu fundarins, sem fulltrúar allra ríkja stóðu að, þ.á.m. forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands, segir að sá gagnflaugabúnaður, sem Bandaríkin hyggjast koma sér upp, sé mikilvægt framlag til verndar bandalagsríkjunum. Í skoðun sé hvernig tengja megi þessar eldflaugavarnir Bandaríkjanna núverandi viðleitni NATO til eldflaugavarna og tryggja að þær verði hluti af framtíðarskipulagi NATO á þessu sviði. Fastaráði NATO (Council in Permanent Session) er falið að þróa slíkt skipulag þannig að það nái til alls þess svæðis bandalagsins, sem ekki verður dekkað af eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna, og skal leiðtogafundurinnn 2009 taka nánari ákvörðun um þá þróun.

Sjá einnig á Friðarvefnum:

Samtök hernaðarandstæðinga leita svara um vígbúnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar
Samkomulag um gagnflaugastöð undirritað í Prag
Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?
Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu
Evrópa án kjarnavopna
Mikil andstaða í Tékklandi gegn fyrirhugaðri gagnflaugastöð
Undirskriftasöfnun gegn bandarískum herstöðvum í Tékklandi

 


Orðræða um orðræðu

Birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2008.  Sjá líka gamla grein eftir mig, „Þjóðernisstefna, Evrópuhyggja og ýmsar tegundir alþjóðahyggju“, sem birtist í Þjóðviljanum árið 1990.

 „Orðræðugreining nýtur hylli í félagsvísindum í dag,“ segir Magnús Árni Magnússon í grein í Morgunblaðinu 27. júlí. Hann fjallar síðan um þá orðræðu sem mótaðist í sjálfstæðisbaráttunni á 19. og 20. öld og gerir ágæta grein fyrir þeirri mýtu sem að baki liggur. „Inn í þessa orðræðuhefð tala stjórnmálamenn á Íslandi og hafa gert meira og minna í 150 ár,“ segir hann og það hafi „þótt vænlegt til árangurs að mála andstæðinga sína óþjóðlega og hefur því vopni verið óspart beitt, t.a.m. í umræðum um varnarmál og inngönguna í NATO og nú hin síðari ár Evrópumál.“ Meðan þessi hópur tali skv. 150 ára gamalli hefð tali Evrópusinnar skv. hálfrar aldar orðræðuhefð Evrópusamrunans.

Það er fróðlegt að skoða þá orðræðu sem Magnús hefur hér uppi, orðræðu sem hefur skotið upp kollinum að undanförnu einkum í umræðunni um Evrópusambandið. Í þessari orðræðu eru andstæðingar ESB-aðildar einhvers konar þjóðernissinnar sem eru staðnaðir í úreltri orðræðu byggðri á mýtu sem varð til í tengslum við sjálfstæðisbaráttuna. En þetta er í rauninni að verulegu leyti líka mýta.

Vissulega nota sumir andstæðingar ESB-aðildar sem og NATO-andstæðingar þessa gömlu orðræðu sjálfstæðisbaráttunnar, en langt í frá allir. Fyrir nærri fjórum áratugum urðu átök í hreyfingu herstöðva- og NATO-andstæðinga þegar ungir róttæklingar höfnuðu orðræðu þjóðernisstefnunnar (sem þó hafði aldrei verið einráð á þeim vettvangi) og settu andheimsvaldastefnu og alþjóðahyggju í öndvegi. Ef við horfum til gagnrýnenda og andstæðinga ESB úti í Evrópu, þá verður seint sagt að hópar trotskíista, ungra anarkista og margra annarra sem hafa skipulagt mótmæli gegn leiðtogafundum ESB og haft uppi mótmæli gegn „Evrópuvirkinu“ svokallaða (Fortress Europe) verði kenndir við úrelta þjóðernisstefnu, né heldur verkalýðsfélög sem hafa barist gegn skerðingum á réttindum launþega og tilskipunum um þjónustuviðskipti og þess háttar.

Hér á Íslandi hafa margir andstæðingar ESB-aðildar líka lagt áherslu á markaðsvæðinguna og nýfrjálshyggjuna, sem þeir telja einkenna ESB, meðan aðrir eru uppteknir af hreinum efnahagslegum hagsmunum. Og jafnvel þegar ESB er hafnað vegna ótta við skerðingu á sjálfstæði, þá vegur þar oft þyngra áhyggjur af þeim lýðræðishalla, sem margir telja að einkenni ESB, en stöðnuð orðræða sjálfstæðisbaráttu 19. aldarinnar. Andstaðan gegn ESB tengist oft andstöðunni gegn hnattvæðingunni og nýfrjálshyggjunni sem margir telja að ógni lýðræðinu og færi völdin í hendur yfirþjóðlegra fyrirtækja. Aðrir telja hins vegar að eina svarið við þessari þróun sé að ganga í ESB enda verði raunverulegt fullveldi smáríkja eins og Íslands og Noregs mjög takmarkað í hinum hnattvædda heimi. Þegar að er gáð einkennist orðræðan nú kannski sáralítið af hinni gömlu orðræðuhefð sjálfstæðisbaráttunnar þótt greina megi einhver litbrigði hennar í bland. Og má vera að hálfrar aldar gömul orðræðuhefð Evrópusamrunans sé orðin jafnúrelt.

 


Einkavæðing, einkarekstur eða hvað?

Myndaður hefur verið hópur á "Facebook" sem heitir Verndum velferðarkerfið - gegn einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þegar þetta er skrifað hafa 445 skráð sig í hópinn. Eftirfarandi greinarstúfur birtist þar á "Discussion board" sem svar við bréfi sem birtist þar.

http://www.facebook.com/group.php?gid=30020968176 

 

 


Í umræðum um einkarekstur og einkavæðingu að undanförnu, einkum í samhengi við heilbrigðiskerfið, hefur borið nokkuð á mismunandi skilningi stjórnmálamanna á þessum orðum. Sumir talsmenn stjórnarflokkanna hafna því algerlega að hugmyndir um breytingar á rekstarformum í heilbrigðiskerfinu eigi nokkuð skylt við einkavæðingu: til að hægt sé að tala um einkavæðingu þurfi að koma til sala á opinberri stofnun, fyrirtæki eða öðrum opinberum eignum til einkaaðila þannig að í kjölfarið komi greiðsluþátttaka almennings og hið opinbera komi hvergi nærri viðkomandi rekstri. Heilbrigðisráðherra segir þetta vera hinn almenna skilning á hugtakinu.

 

Sumir talsmenn stjórnarandstöðunnar segja hinsvegar einkavæðingu vera ferli þannig að t.d. þjónustusamningur án aukinnar greiðsluþátttöku almennings geti verið liður í ferlinu einkavæðing.

 

Við nánari athugum kemur í ljós að orðið einkavæðing, eða samsvarandi orð í öðrum málum (privatization, privatisering...) eru ýmist skilin þröngum skilningi sem bein sala á opinberum eignum eða víðari skilning sem lengra og margbrotnara ferli og virðast fræðimenn frekar nota orðið í þeirri merkingu. Inni í fræðilega umfjöllun koma reyndar ýmis fleiri hugtök, eins og markaðsvæðing, viðskiptavæðing og fleira.

 

Ágreiningurinn sem nú er uppi um hugtakið einkavæðing skýrist ágætlega af orðum breska fræðimannsins Brendans Martins í fyrirlestri sem hann hélt á vegum BSRB árið 1999, Raunhæfar leiðir til að bæta almannaþjónustuna (gefinn út af BSRB 1999), þar sem hann víkur að mismunandi leiðum í einkarekstri á Bretlandi, svo sem framsalsrekstri og einkaframkvæmd. Og hver er ástæðan fyrir því að þessari aðferð er beitt? Jú, ástæðan er m.a.:

 

„... tækifærið sem hún gefur stjórnvöldum til að halda því fram að þau séu eiginlega ekki að einkavæða þjónustu, sem viðkvæm er frá pólitísku sjónarmiði, úr því að eignirnar haldast í eigu ríkisins eða verða eign þess að lokum. [...] En í rauninni er þetta ekki annað en orðaleikur. Það er hægt að einkavæða opinbera þjónustu án þess að einkavæðingin taki til eignarhalds á mannvirkjunum.“ (bls. 9)

 

 

Milli 20 og 30% heilbrigðiskerfisins hafa löngum verið rekin af öðrum aðilum en ríki og sveitarfélögum, þannig að mönnum ætti kannski ekki að bregða við einstökum tilvikum þar sem samið væri við einkaaðila um rekstur einstakra eininga. En í sögulegu og pólitísku samhengi er eðlilegt að nota nú hugtakið einkavæðing þegar rætt er um breytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa unnið markvisst að einkavæðingu og þeirri vinnu lauk alls ekki með myndun núverandi ríkisstjórnar. Það er ljóst að stefnt er að því að færa sem mest í einhverskonar einkarekstur sem einkaaðilar geta á annað borð hagnast eitthvað á.

 

Byrjað var á einfaldri einkavæðingu með sölu bankanna, símans og annarra ríkisfyrirtækja en síðan er leitað inn á svið skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins og annarrar velferðarþjónustu og það hefur raunar verið á döfinni í meira en áratug. Þar verður einkavæðingin miklu flóknari, enda varla gerlegt að selja allt heila klabbið heldur eru bútar einkavæddir eftir því sem henta þykir, ekki endilega með sölu heldur þjónustusamningum eða einhverju slíku. En þessi einkavæðing er líka miklu umdeildari en einkavæðing fyrrnefndra ríkisfyrirtækja og er það talsmönnum ríkisstjónarinnar því mikilvægt að þetta sé ekki kallað einkavæðing. En, eins og Brendan Martin benti á, þá er það í rauninni ekki annað en orðaleikur.

 

Það er vel hugsanlegt að einhver einkarekstur eða þjónustusamningar geti verið hagkvæmir og réttlætanlegir innan heilbrigðiskerfisins en ef litið er til þeirrar einkavæðingarstefnu sem uppi hefur verið og er enn bæði hér og víða annarsstaðar, þá er ástæða til að óttast að þau skref sem verið er að stíga séu liður í frekari einkavæðingu sem á endanum muni frekar taka mið af hagsmunum einkafyrirtækja en almennings. Reynsla af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu (og annarri almannaþjónustu) hefur líka víða verið slæm fyrir almenning þótt undantekningar séu kannski til.

 

Sjá nánari grein um þetta á slóðinni: http://notendur.centrum.is/~einarol/einkavaeding.html

 

 


Skítt með Vodafone

Það er kannski full ástæða til að hætta að skipta við Símann og leita eitthvað annað.

 

Það má reyndar hafa ýmis orð um þessa frjálsu samkeppni símafyrirtækjanna þar sem maður þarf að leggjast í meiriháttar pælingar til að finna út hvað er ódýrast.

 

En hvað sem því líður, þá er ég feginn að vera ekki viðskiptavinur Vodafone núna – þessi auglýsingaherferð „Skítt með kerfið“ og „Pönkaðu upp símann þinn“  - æ, nei.  Mér sýnast stelpurnar á auglýsingamyndunum frekar vera sjálfhverfar glamúrpíur en pönkarar – eins og freku unglingarnir í bankaauglýsingunni um árið hafi klætt sig upp fyrir djammið – hér er ég og þarf ekki að taka tillit neins. Þetta er einhvern veginn dæmigert fyrir kapítalistana þegar þeir ætla að fara að notfæra sér andmenninguna. Í þeirra huga getur andóf aldrei falist í öðru en sjálfhverfri frekju. Sjá annars umfjöllun á Aftöku.


Undirskriftalisti til stuðnings Paul Ramses

http://www.thepetitionsite.com/1/PaulRamses

Við skorum á Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og Hauk Guðmundsson, forstöðumann útlendingastofnunar að snúa Paul Ramses heim til Íslands nú þegar og að um mál hans verði fjallað hér á landi, þar sem fjölskylda hans dvelur.
Við skorum jafnframt á Björn og Hauk að sýna mannúð í verki, en Paul á fjölskyldu hérlendis og var hrifsaður á brott frá mánaðar gömlu barni sínu og eiginkonu aðfaranótt 3. júlí.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband