Færsluflokkur: Bloggar

G8 í Japan

 

nog8_593784.jpg

 

 

 

 

http://media.sanpal.co.jp/no-g8/?q=en

imclogo2.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 http://japan.indymedia.org/

 zen_logo.png

 

 

 

 http://g8medianetwork.org/en/

 


Chavez skorar á kolumbíska uppreisnarmenn að láta gísla lausa

Ég ætlaði að setja athugasemd við athugasemd Jóns Vals um þessa frétt, en sá enga leið til þess á blogginu hans. Þótt við séum einstaka sinnum nokkurn veginn sammála, þá erum við ekki sammála hér - eða öllu heldur: hér sýnist mér honum skjátlast, eins og sjá má af frétt Fox-fréttastöðvarinnar bandarísku, sem tæplega verður sökuð um að draga taum Hugo Chavez. Fréttin birtist 9. júní: Chavez Calls on Colombian Rebels to End Struggle, Free Hostages. Sjá www.foxnews.com/story/0,2933,364368,00.html
mbl.is Ingrid Betancourt frelsuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftalisti gegn gagnflaugastöð í Tékklandi

Í Tékklandi hefur að undanförnu verið háð hörð barátta gegn fyrirætlunum um uppsetningu radastöðvar sem á að þjóna fyrirhugðuðu gagnflaugakerfi Bandaríkjanna. Önnur herstöð er fyrirhuguð í Póllandi. Þróun þessa gagnflaugakerfis kemur í kjölfar uppsögn Bandaríkjannaá ABM-sáttmálanum um bann við gagnflaugakerfum, en hann var á sínum tíma talinn mikilvægt skref í kjarnorkuafvopnun. Uppsögn samningsins og þróun gagnflaugakerfisins hefur valdið aukinni spennu milli Rússlands og Bandaríkjanna og NATO, sem hefur litið þessa áætlun Bandaríkjanna jákvæðum augum. Nú er í gangi alþjóðleg undirskriftasöfnun gegn þessum fyrirætlunum og textinn sem skrifað er undir hljóðar nokkurn veginn svona í íslenskri þýðingu:

 „Ég mótmæli uppsetningu bandarískrar herstöðvar í Tékklandi, sem er hluti af gagnflaugakerfi þeirra (National Missile Defense - NMD). Þessar fyrirætlanir ýta undir spennu á alþjóðvettvangi, stuðla að nýju vígbúnaðarkapphlaupi og eru fyrsta skrefið í hervæðingu geimsins og yfirráðum þar. Þar eð tveir þriðju hlutar íbúa Tékklands eru andvígir þessum fyrirætlunum tel ég sanngjarnt að tékkneska þjóðin fái að taka ákvörðun um svo mikilvægt mál með þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 Hægt er að skrifa undir þessa yfirlýsingu á netinu og er vefslóðin þessi:

 http://petice.nenasili.cz/?lang=en

 Sjá nánari umfjöllun á Friðarvefnum.

 


Tekst ESB að eyðileggja íbúðalánasjóð?

Þar sem ég var ekki í fjölmiðlasambandi í gærkvöldi heyrði ég þessa frétt fyrst í hádegisútvarpinu áðan og fannst  ástæða til að segja eitthvað um hana. Leitaði hana upp á mbl.is og sé þá að það hafa verið nokkuð skynsamlegar umræður um þetta hér á moggablogginu auk þess sem benda má á skrif Ögmundar Jónassonar og Jóns Bjarnasonar: http://www.ogmundur.is/annad/nr/3971/

 

Það sem ég vildi þó sagt hafa er þetta:

Það eru auðvitað hagsmunir almennings sem skipta öllu máli, en þeir hagsmunir virðast hins vegar ekki liggja til grundvallar samkeppnisreglum ESB eða þess vegna samkeppnisreglum hér á Íslandi. Á Íslandi, þar sem er bara samfélag fólks eins og gengur og gerist í löndum, getum við þó tekist á um það (eða gátum það fyrir EES) hvaða grundvöllur er lagður að samkeppnisreglum, en ESB er ekki samfélag fólks heldur í raun fyrst og fremst kapítalískt prósjekt eða verkefni sem mörg samfélög eru undirorpin og hagsmunir almennings víkja þar iðulega fyrir hagsmunum auðvaldsins.

 

Þrátt fyrir atlögu bankaauðvaldsins að íbúðalánsjóði virðist ríkja nokkuð almenn sátt í þessu samfélagi um mikilvægi sjóðsins fyrir almannahagsmuni, og þá er það helvíti hart ef þessu kapítalíska prósjekti suður í Evrópu tekst að eyðileggja hann.


mbl.is Gengur gegn ríkisstyrkjareglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af raunum strætófarþega og hjólreiðamanns

Eftirfarandi bréf sendi ég bæjarfulltrúum Kópavogs í tölvupósti að kvöldi 24. júní. Þegar það er sett inn á þetta blogg síðla dags 25. júní hef ég fengið vinsamleg svör frá Gunnsteini Sigurðssyni og Hafsteini Karlssyni. Nokkru seinna barst svar frá Ómari Stefánssyni.

 

Kópavogi 24. júní 2008

Til bæjarráðs og fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs

Ég leyfi mér að vekja athygli bæjarstjórnar Kópavogs á athyglisverðri aðstöðu sem strætisvagnafarþegum er búin við skiptistöð Strætó við Digranesveginn á Kópavogshálsi. Og vík þá aðeins að öðru í leiðinni, sem þó er kannski ekki á færi Kopavogsbæjar eins.

Í aðdraganda síðustu bæjarstjórnakosninga komu fram ýmis gylliboð til virkilegra og hugsanlegra strætisvagnafarþega, svo sem litlar strætóskutlur, sem áttu að skutlast um Kópavog, en aldrei urðu að veruleika, og frítt í strætó fyrir suma, sem rættist. Kostnaðurinn við það kemur nú fram í sparnaði og niðurskurði á ferðum svo að allir vagnar ganga einungis á hálftímafresti, sem getur gert manni svolítið önugt að nýta strætó. Segja má að þetta sé dálítið öfugsnúið þegar búið er að leggja mikið í að hvetja fólk til að taka strætó og eldsneytisverð gæti ýtt enn frekar undir þá viðleitni. Það mætti kannski heyrast meira í strætisvagnafarþegum, en fæstir þeirra hafa þó aðgang að ræðustólum, hljóðnemum eða prentvélum. Æðistór hópur talar raunar brogaða íslensku en vinnur því meir.

Nú mun vera nálægt eitt ár síðan útbúið var dýrindis bílastæði á brúnni nýju við Digranesveginn, sem er reyndar lítt nýtt. Um leið þrengdist gangstéttin talsvert svo að nú rúmar hún rétt einn meðalþybbinn strætófarþega, en við þessa gangstétt stoppa þrír vagnar til að skipta á milli. Treðst þá hver framhjá öðrum, sem tekst nú svo sem með tilitssemi yfir sumartímann, en getur orðið nokkuð myndrænt á veturna þegar skaflar eru og jafnvel svell. En sé einhver með barn í vagni, eða þó ekki sé nema lítilli kerru, geta þessi strætóskipti orðið meira en bara myndræn.

Nú er sem sagt um það bil ár síðan þessi gangstétt skrapp saman í einbera rönd, en á sama tíma hefur risið hæsta hús landsins þarna niðri í dalnum sunnanmegin og heilt hringtorg lagt inn í stofu í blokk í dalnum norðanmegin íbúunum hreint að óvörum, svo fátt eitt sé nefnt af snaggarlegum framkvæmdum í bænum. Götur eru breikkaðar fyrir bílaumferðina, en gangstéttin við skiptistöðina á brúnni á Kópavogshálsinum heldur áfram að vera hinn mjói vegur dyggðarinnar. Vera má að bæjarstjórn Kópavogs þyki virðingarvert að feta þann veg.

Ég sendi hér með bæjarfulltrúum til glöggvunar mynd af þessum dyggðarinnar vegi.

Virðingarfyllst,

Einar Ólafsson

Trönuhjalla 13

kopavogshalsb

Í framhaldi af þessu er kannski við hæfi að birta grein sem var send Fréttablaðinu snemma í júní en hefur ekki enn birst:

Strætó til fortíðar

Um nokkurt skeið hef ég verið stórnotandi strætó. Keypti mér síðastliðið haust níu mánaða kort fyrir rúmlega 30 þúsund krónur. Með því að fara flesta daga með strætó í og úr vinnu og nokkrar ferðir að auki reiknast mér til að hver ferð hafi kostað u.þ.b. 75 krónur. Ég hef bara verið nokkuð ánægður strætónotandi og haldið margar ræður yfir vinum mínum um hversu gott sé að taka strætó, ódýrt miðað við einkabílinn, afslappandi að sitja og þurfa ekki sjálfur að keyra, hressandi að labba út á biðstöðina í stað þess að stinga sér beint inn í einkabílinn. Auðvitað hentar þetta mönnum misvel, strætóleiðirnar liggja misvel við heimili og vinnustað, og sumir þurfa að snúast ýmislegt sem önugt er að gera með strætó. Og stundum finnst mér okkur strætófarþegum sýnd svolítil óvirðing og skilningsleysi. Stjórnmálamenn smjaðra fyrir okkur, eða kannski frekar hugsanlegum farþegum framtíðarinnar, en við sjáum í gegnum það: cappucino í strætó, nettenging, upphituð strætóskýli o.s.frv., en meðan svona er hjalað er víða óviðunandi aðstaða á biðstöðvunum, í heilt ár hefur verið tæplega metersbreið gangstétt á skiptistöðinni á Kópavogshálsi þar sem farþegar troðast hver framhjá öðrum og barnakerra kemst ekki fyrir, engir bekkir fyrir utan Hlemm, baklausir steinbekkir við Mjódd - tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest! Framhalds- og háskólanemum boðið frítt í strætó - gott svo langt sem það nær, en ég fyrir mitt leyti kýs frekar hóflegt gjald og almennilega  þjónustu.

Og þá komum við að því: Þegar við erum í þann veginn að fá fleiri til að nota strætó, umræðan hefur verið vekjandi, ég held jafnvel að ég hafi merkt heldur fjölbreyttari hóp farþega að undanförnu, sumarið er að koma, kannski hugsa einhverjir,  ja, nú er veður til að taka stætó, en,  - ó, þá er strætó allt í einu bara á hálftíma fresti! Úps! - ég verð annað hvort 20 mínútum of snemma eða tíu mínútum of seinn, - ég þarf að bíða í 20 mínútur eftir að vinnu lýkur, ég verð að eyða 40 mínútum aukalega bara af því að mér datt í hug að taka strætó sem er alltaf verið að hvetja mig til að nota. Nei, sorrý, þetta er ekki að virka, - svo notað sé nútímamál. Þetta er ekki nútímaskipulag, allavega ekki framtíðarskipulag. Og jafnvel ég, gamall stórnotandi strætó, mundi sennilega fara að nota bílinn ef einhver bílastæði væri að fá nálægt mínum vinnustað.

Og í kjölfar þessara hugleiðinga um strætó og farþega hans kemur hér

reynslusaga hjólreiðamanns

Nú datt mér í hug að taka fram nýviðgert reiðhjólið, sem hefur verið lítið notað síðan það bilaði fyrir þremur árum, og hjóla í vinnuna, úr Trönuhjalla í Kópavogi niður í Tryggvagötu í Reykjavík. Drjúgur spölur sem ég hjólaði þó oft á árum áður. Leiðin var greið, þó ekki fyrstu árin, en batnaði umtalsvert, einkum Reykjavíkurmegin eftir að R-listinn tók við þar. Leiðin lá þá niður í Fossvogsdalinn, vestur hann, yfir göngubrúna á Kringlumýrarbraut, með Öskjuhlíðinni sunnan við kirkjugarðinn, fram hjá Loftleiðahótelinu og gamla Flugvallarveginn norður á Hringbrautina og svo sem leið liggur niður í Tryggvagötu. 8,7 kílómetrar samkvæmt útreikningi á borgarvefsjá.

Ég óttaðist að byggingarframkvæmdir Háskólans í Reykjavík hefðu skaðað þessa leið, en mér til ánægju er stígur ofan við byggingarlóðina ósnertur, að vísu svolítið upp í móti, en látum það vera. Kom svo niður á nýja Flugvallarveginn og svo að afleggjara þar sem ég fór forðum og kallaði gamla Flugvallarveginn. Þar er skilti sem stendur á Valsheimilið eða eitthvað svoleiðis. Nú var eitthvað breytt, gamli sprungni malbikaði vegurinn horfinn þar sem ég mætti stundum erlendum hótelgestum á leið milli hótelsins og miðborgarinnar. Þessi í stað skæklaðist ég krókóttan malarveg og kom svo upp á stórt gróft malarplan, sem væntanlega á að malbikast sem bílastæði, og yfir það - og svo var ekki meir, nema brattur kantur og hálfgerð ófæra yfir á gangbraut neðan við nýju Hringbrautina, þar sem  ég komst svo upp á göngubrú yfir þennan miðbæjarátóban.

Það á að leggja mikið fé í að breikka hjóla- og göngubrautirnar þarna úr Fossvogi vestur á Seltjarnarnes, en það virðist hafa gleymst að sumir eiga leið yfir í miðbæinn, af því að sumir nota hjólið til að komast í vinnu en ekki bara til huggulegheita með sjávarsíðunni. Ég veit satt að segja ekki hvaða leið ég á nú að velja í vinnuna (eða hvaða leið fyrrnefndir hótelgestir ganga - bein leið þarna er 480 m en krókurinn upp á Bústaðaveg er 1010 m og hjólreiðamann munar um það), eða hvort ég hætti bara við þetta, en þetta er ákaflega lýsandi: Mikið fé (tugir milljarða) er lagt í að gera bílaleiðirnar sem greiðastar, en hjólreiðamaðurinn veit aldrei hverju hann á von á þrátt fyrir sífelldan vaðal um mikilvægi reiðhjólsins. Þetta er ósköp svipað og strætófarþegar þurfa að búa við: Smjaður og huggulegt blaður á yfirborðinu en tillitsleysi og virðingarleysi í raun.

 


Einkavæðingin mallar áfram

Maður þarf ekki að vera haldinn neinni samsæriskenningaráráttu til að sjá mynstrið: ráðherrann sparar við borgina sem lendir í vandræðum með reksturinn og notar það sem afsökun fyrir fela að hann einkaaðilum. Hitt svo annað mál: af hverju ættu einkaaðilar frekar að geta rekið þetta fyrir þessa peninga??? - ef núverandi borgaryfirvöld eru ófær um að reka hjúkrunarheimili á jafnhagkvæman hátt og einkaaðilar að teknu tilliti til hagsmuna notenda, starfsmanna og borgarbúa, þá er kannski full ástæða til að skipta um borgarstjórn - eða hvað? er hún ekki bara vanhæf þessi Jórunn? eða á kannski að bera hagsmuni einhverra fyrir borð? eru kannski hagsmunir einhverra einkafyrirtækja í fyrirrúmi? Er þessi borgarstjórn fyrir þau? Spyr sá sem ekki veit.
mbl.is Áform um breyttan rekstur Droplaugarstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða gegn gagnflaugakerfi í Tékklandi

 Sjá Friðarvefinn, www.fridur.is 

Næstkomandi sunnudag, 22. júní, verður alþjóðlegt átak til stuðnings baráttunni gegn fyrirhugaðri uppsetningu gagneldflauga í Tékklandi, en um 70% Tékka eru andvígir þessum áformum. Tilefnið nú er hungurverkfall baráttumanna í Tékklandi. Nánari upplýsingar er að finna á www.dagurfostu.net.

Í Reykjavík verður sett upp tjald á Lækjartorgi milli klukkan 12 og 6 á sunnudaginn til að minna á þessa baráttu. Þar verður hægt að nálgast upplýsngar og skrá sig á stuðningslista. Ennfremur er undirskriftalisti á netinu: http://petice.nenasili.cz/?lang=en.

Samtök hernaðarandstæðinga hvetja félaga sína og allan almenning til að sýna þessari baráttu stuðning, láta sjá sig á Lækjartorgi og setja nafn sitt á undirskriftalistann á netinu.

poster sciopero 22 ISL

Bandaríkin hafa líka í hyggju að setja upp stöð í Póllandi í tengslum við gagnflaugaáætlun sína. Þar hefur einnig verið mikið andóf gegn þessum áætlunum og nýjustu fregnir herma að viðræður séu milli Bandaríkjanna og Litháen um að setja upp stöð þar ef Pólland bregst.


„Það er okkar að skrifa söguna“

Eftirfarandi grein Einars Ólafssonar birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2008.

Undir þessari fyrirsögn skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra grein í Morgunblaðið 3. júní þar sem hún fjallaði um nýja tíma í öryggis- og varnamálum, hin nýju varnarmálalög og Varnarmálastofnun. Hún gerir mikið úr þeim breytingum sem fylgdu brottför bandaríska hersins: „Ísland sem fullvalda ríki hefur nú óskorað forræði yfir þessum málaflokki, og það er okkar að skrifa söguna.“
Herstöðvaandstæðingar héldu uppi kjörorðinu „Ísland úr NATO, herinn burt“. Bak við þetta slagorð fólst ævinlega krafan um uppsögn varnarsamningsins. Þeim samningi hefur ekki verið sagt upp. Enn er í gildi samningur um að Bandaríkin hafi hér aðstöðu til herstöðva.

Inntak samningsins kemur fram í inngangi hans og 1. grein. Í innganginum segir að NATO hafi „farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til…“ 1. greinin hljóðar svo: „Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður-Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi með þeim skilyrðum sem greinir í samningi þessum. Í þessu skyni og með varnir á svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum, lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.“

Í 7. grein samningsins segir: „Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annaðhvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það.“ Í samningnum er sem sagt gert ráð fyrir, að aðstöðunni sé haldið hér þótt hún verði ekki notuð til hernaðarþarfa. Reyndar ber samningurinn það með sér að Ísland, eða öllu heldur Íslendingar, séu aukaatriði í þessum samningi að öðru leyti en því að þeir leggi Bandaríkjunum og NATO til land undir hugsanlega hernaðaraðstöðu eftir því sem þessir aðilar telja sig þurfa á að halda.

Það má því ljóst vera, að til að sagt verði að Ísland hafi nú óskorað forræði yfir þessum málaflokki, þarf a.m.k. að segja upp varnarsamningnum, sem er réttnefndur herstöðvasamningur, eins og herstöðvaandstæðingar hafa alltaf kallað hann.

Rétt er líka að minna á samkomulag Íslands og Bandaríkjanna frá september 2006 þar sem skuldbindingar ríkjanna samkvæmt varnarsamningnum eru staðfestar og Ísland samþykkir varnaráætlun sem Bandaríkin hafa samið og „gerir ráð fyrir því að varnir Íslands séu tryggðar með öflugum og hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla og að hún sé studd bandarískum hernaðarmætti eftir því sem þörf krefur“. Jafnframt er gert ráð fyrir árlegum heræfingum Bandaríkjanna hér á landi.

Ætli við höfum fullt vald yfir pennanum þegar við förum að skrifa söguna?

Sjá nánar „Hvað felst í herstöðvasamningnum?“.


Utanríkisráðherrann og hernaðarhyggjan

Birtist líka á Friðarvefnum, fridur.is

Í Morgunblaðinu 3. júní birtist grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, undir fyrirsögninni „Það er okkar að skrifa söguna“. Hún segir okkur Íslendinga nú bera í fyrsta skipti sjálfstæða ábyrgð á eigin vörnum og öryggi. Hún getur þess hvergi að varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 er enn í fullu gildi, og hef ég fjallað sérstaklega um það í stuttri grein sem ég sendi Morgunblaðinu og vonast til að hún birtist innan tíðar. Hér verður vikið að öðrum atriðum þessarar greinar.

Útvíkkun öryggishugtaksins

Í grein sinni leggur ráðherrann áherslu á mikilvægi þess að í varnarmálalögunum er „skýrt kveðið á um ábyrgð í málaflokknum, og skilið milli verkefna sem lúta að innra öryggi annars vegar, og ytra öryggi og vörnum og varnarsamskiptum við önnur ríki hins vegar,“ og bendir jafnframt á að hvergi í hinum vestræna heimi sé þessum verkefnum blandað saman.

Þessari áherslu ráðherrans ber að fanga, ekki síst í ljósi þess að á vettvangi NATO hefur verið tilhneiging til að draga úr þessum aðgreiningi. Í því sambandi vekur athygli hversu gagnrýnislaus ráðherrann virðist vera á NATO og þróun þess. Þetta gagnrýnisleysi birtist meðal annars í margtuggnum frasa, sem fyrri utanríkisráðherrar, einkum Halldór Ásgrímsson, báru sér einnig í munn: að öryggishugtakið (stundum er varnarhugtakinu bætt við) sé gjörbreytt og nái nú til miklu fleiri þátta en áður.

Þennan frasa má líklega rekja til þess þegar NATO þurfti að fara að réttlæta tilveru sína eftir lok kalda stríðsins, en í öryggisstefnu (Stratetic Concept) bandalagsins, sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Róm 1991, er lögð áhersla á að ógnana við öryggi bandalagsríkjanna sé ekki fyrst og fremst að vænta frá skipulagðri árás á landsvæði bandalagsins heldur frekar frá efnahagslegum, félagslegum og pólitískum óstöðugleika á ýmsum svæðum, einkum í Mið- og Austur-Evrópu. Síðan hafa ýmsar ógnir bæst við, svo sem skipulögð alþjóðleg glæpastarfsemi, hryðjuverk, hlýnun andrúmsloftsins, skortur á orkugjöfum og hvað sem nöfnum tjáir að nefna. Við allt þetta þarf NATO nú að kljást. Og NATO er farið að sinna friðargæslu og björgunarstörfum í kjölfar náttúruhamfara. Þannig er NATO ekki aðeins að þenjast út fyrir sitt upphaflega landsvæði heldur einnig sitt upphaflega verksvið, yfir á svið lögreglu, almannavarna og björgunasveita auk friðargæslu. Það má því segja að ekki veiti af að skilja milli borgaralegra og varnartengdra verkefna og vonandi tekst þeirri stofnun, sem á að sjá um NATO-tengda starfsemi Íslands, að halda þessu aðskildu.

Nauðhyggja ráðherrans: „af því bara…“

Ráðherrann víkur að þeim sjónarmiðum „að allt starf að ytra öryggi og vörnum Íslands sé ónauðsynlegt, enda sé hér enginn óvinur.“ Einnig víkur hún að gagnrýni á kostnað við íslenska lofteftirlitskerfið og öryggissamstarf Íslands við önnur ríki. Svörum hennar við þessum sjónarmiðum og gagnrýni verður best lýst sem nauðhyggju. „Um fyrra atriðið,“ segir hún, „vil ég segja að í dag er það svo að ríki í okkar heimshluta gæta öryggis síns burtséð frá mögulegri hættu, og byggja upp viðbúnað án þess að hann miði við hefðbundin ríkjaátök.“ Þetta svar þýðir einfaldlega „af því bara.“ Með því er nánast lokað á frekari rökræður. Það er þó ekki úr vegi að líta aðeins á þá frasa sem á eftir koma: „Í dag lúta öryggisþarfir að stórum hluta að vöktun á landhelgi og lofthelgi.“ Við höfum landhelgisgæslu sem hefur verið ætlað að vakta landhelgina og er, að ég hygg, skilgreind sem borgaraleg starfsemi, enda miðast starfsemi hennar ekki við „hefðbundin ríkjaátök.“ Mörgum þykir hinsvegar að notkun orrustuþotna við lofthelgisgæslu beri nokkurn keim af viðbúnaði við „hefðbundnum ríkjaátökum.“

Og áfram heldur ráðherrann: „…þannig felast í loftrýmiseftirliti okkar skýr skilaboð til umheimsins um að Ísland taki fullveldi sitt alvarlega og gæti þess í lofti, á láði og legi.“ Engin vöktun mundi gefa til kynna að viðkomandi svæði væri öllum opið, slíkar aðstæður væru okkur óásættanlegar, „enda fer tómarúm illa saman við öryggi lands og þjóðar.“ Mikið væri nú skemmtilegra er ráðherrann segði: „Auðvitað þurfum við ekki að sýna það með orrustuþotum að við tökum fullveldi okkar alvarlega. Við sýnum það með myndugleika okkar og sjálfstæði á alþjóðavettvangi.“

… í fúlu neti vopnasalanna

Kannski er best að leiða svör við þessu út frá eftirfarandi fullyrðingu ráðherrans: „Öryggisstefna ríkja skilar mestum árangri þegar hún ýtir undir virkt samstarf og traust milli ríkja, og kemur í veg fyrir úreltar staðalmyndir um vini og óvini.“ Undir þetta má sannarlega taka. En því miður fer ríkisstjórn Íslands þveröfugt að með stöðugt virkari þátttöku í NATO og þessu virka loftrýmiseftirliti, flugi orrustuþotna og heræfingum á Íslandi. Bandaríkin eru forysturíki NATO og NATO hefur gengið erinda Bandaríkjanna á Balkanskaga (gleymum ekki bandarísku herstöðinni í Kósovo, Camp Bondsteel), í Afganistan og í Írak. NATO lætur sér vel líka gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna og stendur ásamt þeim að vaxandi vígbúnaði. NATO þenst út til austurs og ögrar Rússum og tekur þátt í ögrandi árásarstefnu Bandaríkjanna gagnvart löndum í vestanverðri Asíu. Stöðug mótsögn ríkir milli samstarfsverkefna á borð við Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace) og vaxandi hervæðingu og útþenslu NATO. Bandaríkin og NATO hafa eftir lok kalda stríðsins alið á staðalmyndum um vini og óvini: það eru Vesturlönd gagnvart Rússum (og Serbum) annars vegar og íslamska heiminum hins vegar. Og með heræfingum Bandaríkjahers og NATO-herja hér á landi og notkun orrustuflugvéla frá NATO er ekki beinlínis verið að lýsa yfir trausti gagnvart Rússum. Þannig vinnur utanríkisráðherrann, með stefnu sinni og athöfnum í varnarmálum, beinlínis gegn þeirri góðu meiningu sem kemur fram í ofangreindum orðum hans.

Við verðum að taka þátt í hernaðarbandalaginu NATO, ljá land undir heræfingar og hafa orrustuþotur á flugi yfir hafinu kringum landið af því að þannig gera grannríkin „burtséð frá mögulegri hættu.“ Það er nauðhyggja ráðherrans. Það er engin tilraun gerð til að greina hvernig hernaðarhyggjan er inngróin í meginstrauma stjórnmálanna. Það er engin metnaður til að andæfa þessari inngrónu hernaðarhyggju. Og það er alger blinda gagnvart sífelldri iðju hergagnaframleiðenda í víðri merkingu þess orðs (það er ekki bara Lockheed og Saab, það eru líka Íslandsvinirnir Bechtel og Alcoa) við að viðhalda þessari hernaðarhyggju og ýta undir hana, þessa hernaðarnauðhyggju, og veiða velmeinandi fólk í net hennar. Það er engin gagnrýni á hin geigvænlegu hernaðarútgjöld, þessa fjármuni sem sogast frá knýjandi velferðarmálum yfir í eyðileggjandi og friðspillandi mátt vopnanna. Það er dapurlegt að horfa á stjórnmálaforingja, sem hófst til vegs á vettvangi kvenfrelsisbaráttunnar og hins frísklega Kvennalista, sprikla í þessu fúla neti, öfgafyllstu birtingarmynd karlveldisins.


Condoleezza Rice ber ábyrgð á pyntingum fanga

 Eftirfarandi birtist á Friðarvefnum 27. maí 

Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna er væntanleg til Íslands næstkomandi föstudag til fundar við utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hvað sem öllu kurteisisvenjum líður við slíkar heimsóknir er full ástæða til að nota tækifærið og krefja gestinn svara við ýmsum áleitnum spurningum, svo sem varðandi þær pyntingar sem bandarísk stjórnvöld beita við yfirheyrslu fanga.

waterL1104 468x493

Condoleezza Rice 5. desember 2005:

Í desember 2005 var Condoleezza Rice í heimsókn í Evrópu. Þá höfðu borist óþægilegar spurningar frá Evrópu, frá Evrópuráðinu, Evrópusambandinu og einstökum löndum, sem vörðuðu vafasamt atferli Bandaríkjanna í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. Áður en hún lagði upp í ferðina frá Andrews-herstöðinni rétt utan við Washington, þar sem einkaþotur Bandaríkjastjórnar hafa aðsetur, gaf hún út yfirlýsingu til að svara þessum spurningum.

Þessi yfirlýsing er merkilegur samsetningur að því leyti að annarsvegar er lögð áhersla á það að bandarísk stjórnvöld fari að lögum, pyntingar séu bannaðar með lögum og því komi pyntingar ekki til greina. Hinsvegar er lögð áhersla á hættuna sem stafar af hryðjuverkamönnum og mikilvægi þess að upp um þá komist, að þeir náist, að hægt sé að fá þá til að veita þær upplýsingar sem þeir hafa og að þeir taki út sína refsingu.

Eftir lýsingu á því hversu hættulegir nútíma hryðjuverkamenn eru sagði Rice:

„Þeir hryðjuverkamenn 21. aldarinnar sem náðst hafa falla ekki auðveldlega að hefðbundnum réttarkerfum varðandi glæpi eða hernað sem þróuðust út frá öðrum þörfum. Við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum. Aðrar ríkisstjórnir standa nú gagnvart þessum vanda.“

Síðan fer hún mörgum orðum um það hversu mjög bandarísk stjórnvöld virða lögin, þar á meðal lög gegn pyntingum. Svo víkur hún að þeirri klemmu stjórnvalda að þurfa annarsvegar að virða lögin og hefðbundin bönn við pyntingum en hinsvegar beri þeim skylda til að vernda borgarana gegn yfirvofandi hættum.

„Af því að stríðið gegn hryðjuverkum gengur út fyrir þau viðmið og fordæmi, sem við höfum haft varðandi átök til þessa, hefur almenningur hjá okkur rætt og tekist á um hvaða lagalegan grundvöll er tilhlýðilegt að taka upp.“

Í þessari yfirlýsingu höfðar Rice til vinaríkja Bandaríkjanna, sem þurfi líka að kljást við þennan vanda, og lýkur yfirlýsingu sinni svo:

„Fjórum árum eftir 11. september spyrja flestir íbúar landa okkar að því hvort við séum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda þá. Ég veit hvernig það er að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort allt hafi verið gert sem hægt er að gera. Svo að nú, fyrir næstu árás, verðum við öll að vega og meta þá hörðu kosti sem lýðræðisleg stjórnvöld standa frammi fyrir. Og við stöndum best gagnvart þessum hættum ef við vinnum saman.“

(Sjá www.state.gov/secretary/rm/2005/57602.htm)

Pyntingar voru leyfðar eftir 2001

Í viðtali við ABC-fréttastofuna bandarísku 11. apríl síðastliðinn sagði George Bush forseti Bandaríkjanna að hann vissi að æðstu ráðgjafar hans í öryggismálum hefðu rætt og tekið ákvörðun um það eftir 11. september 2001 hvernig skyldi standa að yfirheyrslum yfir háttsettum Al Qaeda-mönnum. Þær aðferðir, sem ráðgjafarnir samþykktu, felast meðal annars í höggum, hrindingum, hindrun á svefni og eftirlíkingu á drukknun, sem kallað er á ensku „waterboarding“, og felst í því að vatni er helt ofan í fangann þannig að honum finnst hann vera að drukkna. Meðal þessara háttsettu ráðgjafa voru Dick Cheney, Condoleezza Rice, Donald Rumsfeld, Colin Powell, George Tenet og John Ascroft.

(Sjá einnig frétt í vefútgáfu breska blaðsins Daily Mail)

Condoleezza Rice var í heimsókn í höfuðstöðvum Google í Mountain View í Kaliforníu nú um daginn, 23. maí. Frétt Associated Press frá þessum fundi hefur birst í allmörgum fjölmiðlum (sjá t.d. vefútgáfu Guardian). Á fundinum var hún spurð um þessa drukknunaraðferð við yfirheyrslur. Í svari sínu varði hún harðar yfirheyrsluaðferðir. Hún fullyrti að yfirheyrsluaðferðir eftir 11. september hefðu verið í samræmi við lög og reglur en viðurkenndi að síðan hefðu þessar reglur breyst og lagalegar takmarkanir á meðferð fanga hefðu tekið verulegum breytingum á árunum 2002 til 2003 þegar stjórnvöld hefðu leyft óvægnar aðferðir, þar á meðal nokkrar sem sumir telji pyntingar. Hún neitaði hinsvegar að upplýsa hvaða sérstöku aðferðir hefðu verið leyfðar.

Við væntum þess að utanríkisráðherra Íslands krefji utanríkisráðherra Bandaríkjanna svara um þetta á fundi þeirra næstkomandi föstudag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband