Íhaldsöm róttækni, nútímavæðing og fúakofar

Á UNDANFARINNI öld þótti það nokkurt last að vera kallaður íhaldsamur. Einn stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, mátti sæta því að vera uppnefndur „íhaldið". Það skýtur því nokkuð skökku við, að þeir sem helst börðust fyrir varðveislu Bernhöftstorfunnar fyrir hartnær fjörutíu árum tilheyrðu margir þeim hópi sem kenndur var við róttækni, og var það reyndar líka skammaryrði í munni sumra. Það þótt hins vegar í meira lagi íhaldsöm afstaða að vilja vernda þessa fúakofa, nútíminn kallaði á að þeir vikju fyrir nýtísku glæsihúsum. Framtíðarsýn hinna íhaldssömu róttæklinga hefur þó sannað sig og fáir eru þeir nú sem amast við Bernhöftstorfunni. Þótt svokallaðir róttæklingar hafi kannski borið hitann og þungann í þeirri baráttu höfðu þeir líka stuðning einstaklinga úr röðum hins svokallaða „íhalds".

Margir töldu að eftirleiðis þyrfti ekki jafn hatramma baráttu í húsfriðunarmálum. En undir aldarlok varð mjög í tísku að vera sem „nútímalegastur". Hugtakið nútímavæðing varð til, en í því felst meðal annars að helst skuli engu eirt sem geti hamlað hverskyns vexti og er þó alkunna að ekki er allur vöxtur góðkynja, stundum veldur hann hreinlega banvænum æxlum. Það var á þessum gróskutíma nútímavæðingar sem Reykjavíkurlistinn steypti „íhaldinu" af valdastóli í Reykjavík. R-listinn gerði margt gott en var stundum einum of hallur undir nútímavæðingu og er eitt æxlið sem af henni leiddi orðið ansi sýnilegt í Skuggahverfinu í Reykjavík. Og þetta æxli virðist vera illkynja og ætla breiða úr sér upp yfir Hverfisgötu og allt upp á Laugaveg og tjóar ekki þótt „íhaldið" sé aftur komið til valda ásamt Framsóknarflokknum, sem oft hefur verið kallaður íhaldsamastur ef ekki afturhaldsamastur allra flokka en hefur á undanförnum árum nútímavæðst öðrum flokkum fremur. Nei, íhaldsamir eru þeir kallaðir sem vilja vernda gömul hús við Laugaveginn en „íhaldið" er jafnnútímalegt og R-listinn var, framfarirnar felast enn í tortímingu gamalla húsa nema þegar dramatískir eldvoðar hræra við tilfinningunum.

Hugtökin „íhaldsemi" og „róttækni" eru í ljósi sögunnar mótsagnakennd. Hugtakið „nútímavæðing" virðist hins vegar nokkuð einfalt, í því skiptir nútíminn einn máli, fortíðin er hvort sem er liðin, framtíðin takmarkast við uppskerutímann, handan hans er tóm. Nú skal byggt, nú skal rifið og byggt, nú skal fyllt út í fjöru og byggt, nú skal byggt og byggt. Þessi hugsun virðist ráðandi um allar trissur, í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, að ekki sé nú talað um óbyggðirnar. Í Reykjavík og Kópavogi er íhaldið svokallaða við völd með litla nútímavædda íhaldsflokkinn Framsókn sér við hlið. Mætti ég kannski benda þessum valdhöfum á að gera uppnefnurum sínum skömm til og sýna að í íhaldsemi getur falist hin besta framtíðarsýn. Varðveisla gamalla húsa við Laugaveginn eða varfærnisleg umgengni á Kársnesinu í Kópavogi yrðu þeim kannski til virðingarauka seinna meir, ef það er þeim nokkurs virði.

Birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2007


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband