26.6.2008 | 18:04
Af raunum strætófarþega og hjólreiðamanns
Eftirfarandi bréf sendi ég bæjarfulltrúum Kópavogs í tölvupósti að kvöldi 24. júní. Þegar það er sett inn á þetta blogg síðla dags 25. júní hef ég fengið vinsamleg svör frá Gunnsteini Sigurðssyni og Hafsteini Karlssyni. Nokkru seinna barst svar frá Ómari Stefánssyni.
Kópavogi 24. júní 2008
Til bæjarráðs og fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs
Ég leyfi mér að vekja athygli bæjarstjórnar Kópavogs á athyglisverðri aðstöðu sem strætisvagnafarþegum er búin við skiptistöð Strætó við Digranesveginn á Kópavogshálsi. Og vík þá aðeins að öðru í leiðinni, sem þó er kannski ekki á færi Kopavogsbæjar eins.
Í aðdraganda síðustu bæjarstjórnakosninga komu fram ýmis gylliboð til virkilegra og hugsanlegra strætisvagnafarþega, svo sem litlar strætóskutlur, sem áttu að skutlast um Kópavog, en aldrei urðu að veruleika, og frítt í strætó fyrir suma, sem rættist. Kostnaðurinn við það kemur nú fram í sparnaði og niðurskurði á ferðum svo að allir vagnar ganga einungis á hálftímafresti, sem getur gert manni svolítið önugt að nýta strætó. Segja má að þetta sé dálítið öfugsnúið þegar búið er að leggja mikið í að hvetja fólk til að taka strætó og eldsneytisverð gæti ýtt enn frekar undir þá viðleitni. Það mætti kannski heyrast meira í strætisvagnafarþegum, en fæstir þeirra hafa þó aðgang að ræðustólum, hljóðnemum eða prentvélum. Æðistór hópur talar raunar brogaða íslensku en vinnur því meir.
Nú mun vera nálægt eitt ár síðan útbúið var dýrindis bílastæði á brúnni nýju við Digranesveginn, sem er reyndar lítt nýtt. Um leið þrengdist gangstéttin talsvert svo að nú rúmar hún rétt einn meðalþybbinn strætófarþega, en við þessa gangstétt stoppa þrír vagnar til að skipta á milli. Treðst þá hver framhjá öðrum, sem tekst nú svo sem með tilitssemi yfir sumartímann, en getur orðið nokkuð myndrænt á veturna þegar skaflar eru og jafnvel svell. En sé einhver með barn í vagni, eða þó ekki sé nema lítilli kerru, geta þessi strætóskipti orðið meira en bara myndræn.
Nú er sem sagt um það bil ár síðan þessi gangstétt skrapp saman í einbera rönd, en á sama tíma hefur risið hæsta hús landsins þarna niðri í dalnum sunnanmegin og heilt hringtorg lagt inn í stofu í blokk í dalnum norðanmegin íbúunum hreint að óvörum, svo fátt eitt sé nefnt af snaggarlegum framkvæmdum í bænum. Götur eru breikkaðar fyrir bílaumferðina, en gangstéttin við skiptistöðina á brúnni á Kópavogshálsinum heldur áfram að vera hinn mjói vegur dyggðarinnar. Vera má að bæjarstjórn Kópavogs þyki virðingarvert að feta þann veg.
Ég sendi hér með bæjarfulltrúum til glöggvunar mynd af þessum dyggðarinnar vegi.
Virðingarfyllst,
Einar Ólafsson
Trönuhjalla 13
Í framhaldi af þessu er kannski við hæfi að birta grein sem var send Fréttablaðinu snemma í júní en hefur ekki enn birst:
Strætó til fortíðar
Um nokkurt skeið hef ég verið stórnotandi strætó. Keypti mér síðastliðið haust níu mánaða kort fyrir rúmlega 30 þúsund krónur. Með því að fara flesta daga með strætó í og úr vinnu og nokkrar ferðir að auki reiknast mér til að hver ferð hafi kostað u.þ.b. 75 krónur. Ég hef bara verið nokkuð ánægður strætónotandi og haldið margar ræður yfir vinum mínum um hversu gott sé að taka strætó, ódýrt miðað við einkabílinn, afslappandi að sitja og þurfa ekki sjálfur að keyra, hressandi að labba út á biðstöðina í stað þess að stinga sér beint inn í einkabílinn. Auðvitað hentar þetta mönnum misvel, strætóleiðirnar liggja misvel við heimili og vinnustað, og sumir þurfa að snúast ýmislegt sem önugt er að gera með strætó. Og stundum finnst mér okkur strætófarþegum sýnd svolítil óvirðing og skilningsleysi. Stjórnmálamenn smjaðra fyrir okkur, eða kannski frekar hugsanlegum farþegum framtíðarinnar, en við sjáum í gegnum það: cappucino í strætó, nettenging, upphituð strætóskýli o.s.frv., en meðan svona er hjalað er víða óviðunandi aðstaða á biðstöðvunum, í heilt ár hefur verið tæplega metersbreið gangstétt á skiptistöðinni á Kópavogshálsi þar sem farþegar troðast hver framhjá öðrum og barnakerra kemst ekki fyrir, engir bekkir fyrir utan Hlemm, baklausir steinbekkir við Mjódd - tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest! Framhalds- og háskólanemum boðið frítt í strætó - gott svo langt sem það nær, en ég fyrir mitt leyti kýs frekar hóflegt gjald og almennilega þjónustu.
Og þá komum við að því: Þegar við erum í þann veginn að fá fleiri til að nota strætó, umræðan hefur verið vekjandi, ég held jafnvel að ég hafi merkt heldur fjölbreyttari hóp farþega að undanförnu, sumarið er að koma, kannski hugsa einhverjir, ja, nú er veður til að taka stætó, en, - ó, þá er strætó allt í einu bara á hálftíma fresti! Úps! - ég verð annað hvort 20 mínútum of snemma eða tíu mínútum of seinn, - ég þarf að bíða í 20 mínútur eftir að vinnu lýkur, ég verð að eyða 40 mínútum aukalega bara af því að mér datt í hug að taka strætó sem er alltaf verið að hvetja mig til að nota. Nei, sorrý, þetta er ekki að virka, - svo notað sé nútímamál. Þetta er ekki nútímaskipulag, allavega ekki framtíðarskipulag. Og jafnvel ég, gamall stórnotandi strætó, mundi sennilega fara að nota bílinn ef einhver bílastæði væri að fá nálægt mínum vinnustað.
Og í kjölfar þessara hugleiðinga um strætó og farþega hans kemur hér
reynslusaga hjólreiðamanns
Nú datt mér í hug að taka fram nýviðgert reiðhjólið, sem hefur verið lítið notað síðan það bilaði fyrir þremur árum, og hjóla í vinnuna, úr Trönuhjalla í Kópavogi niður í Tryggvagötu í Reykjavík. Drjúgur spölur sem ég hjólaði þó oft á árum áður. Leiðin var greið, þó ekki fyrstu árin, en batnaði umtalsvert, einkum Reykjavíkurmegin eftir að R-listinn tók við þar. Leiðin lá þá niður í Fossvogsdalinn, vestur hann, yfir göngubrúna á Kringlumýrarbraut, með Öskjuhlíðinni sunnan við kirkjugarðinn, fram hjá Loftleiðahótelinu og gamla Flugvallarveginn norður á Hringbrautina og svo sem leið liggur niður í Tryggvagötu. 8,7 kílómetrar samkvæmt útreikningi á borgarvefsjá.
Ég óttaðist að byggingarframkvæmdir Háskólans í Reykjavík hefðu skaðað þessa leið, en mér til ánægju er stígur ofan við byggingarlóðina ósnertur, að vísu svolítið upp í móti, en látum það vera. Kom svo niður á nýja Flugvallarveginn og svo að afleggjara þar sem ég fór forðum og kallaði gamla Flugvallarveginn. Þar er skilti sem stendur á Valsheimilið eða eitthvað svoleiðis. Nú var eitthvað breytt, gamli sprungni malbikaði vegurinn horfinn þar sem ég mætti stundum erlendum hótelgestum á leið milli hótelsins og miðborgarinnar. Þessi í stað skæklaðist ég krókóttan malarveg og kom svo upp á stórt gróft malarplan, sem væntanlega á að malbikast sem bílastæði, og yfir það - og svo var ekki meir, nema brattur kantur og hálfgerð ófæra yfir á gangbraut neðan við nýju Hringbrautina, þar sem ég komst svo upp á göngubrú yfir þennan miðbæjarátóban.
Það á að leggja mikið fé í að breikka hjóla- og göngubrautirnar þarna úr Fossvogi vestur á Seltjarnarnes, en það virðist hafa gleymst að sumir eiga leið yfir í miðbæinn, af því að sumir nota hjólið til að komast í vinnu en ekki bara til huggulegheita með sjávarsíðunni. Ég veit satt að segja ekki hvaða leið ég á nú að velja í vinnuna (eða hvaða leið fyrrnefndir hótelgestir ganga - bein leið þarna er 480 m en krókurinn upp á Bústaðaveg er 1010 m og hjólreiðamann munar um það), eða hvort ég hætti bara við þetta, en þetta er ákaflega lýsandi: Mikið fé (tugir milljarða) er lagt í að gera bílaleiðirnar sem greiðastar, en hjólreiðamaðurinn veit aldrei hverju hann á von á þrátt fyrir sífelldan vaðal um mikilvægi reiðhjólsins. Þetta er ósköp svipað og strætófarþegar þurfa að búa við: Smjaður og huggulegt blaður á yfirborðinu en tillitsleysi og virðingarleysi í raun.
Athugasemdir
Ég tók strætó í 1 ár (af því að það var frítt) og er búin að gefast upp og keypti bíl fyrir alla peninga mína.
Það verður frítt fyrir nemendur áfram í vetur en mér finnst virkilega ekki taka því. Maður veit aldrei hvort strætó mæti á réttum tíma eða 20 mín og seint svo ekki sé talað um að strætó hættir að ganga kl 24 og gengur á klst fresti á sunnudögum. Hlægilegt en engu að síður grátlegt.
Silla (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 15:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.