Brýnum stéttarfélögin

Birtist í Fréttablaðinu 12. janúar 

 

Með hruni íslenska fjármálakerfisins afhjúpaðist það sem líklega má kalla mesta arðrán Íslandssögunnar. Og almenningur heimtar réttlæti, krefst rannsóknar á glæpnum, kallar eftir afsögn þeirra stjórnmála- og embættismanna sem sköpuðu skilyrði fyrir glæpinn og hylmdu yfir hann, krefst þess að þeir sem hlut áttu verði dregnir til ábyrgðar og heimtar að ránsfengum verði skilað. Í meira en þrjá mánuði hafa þúsundir manna komið saman á Austurvelli auk fjölda annarra samkomna og mótmælaaðgerða. En það er ekki hlustað á almenning, láti hann í sér heyra er hann kallaður skríll. En almenningur á sér samtök, nærri því hver einasti launamaður er í stéttarfélagi.

 

Meginverkefni stéttarfélaganna er að standa vörð um kjör félagsmanna sinna - og lágmarka arðránið. Og stéttarfélögin hafa afl, sameinuð hefur verkalýðshreyfingin mikið afl ef hún virkjar það. Stéttarfélögin mega ekki standa á hliðarlínunni meðan almenningur safnast saman á sjálfsprottnum fundum. Vissulega sitja þau ekki aðgerðalaus. Stéttarfélögin hafa meðal annars verið að gera kjarasamninga undanfarið ár og nú er framundan víðtækt samráð um launa- og kjarastefnu fram á næsta ár og gengur undir nafninu þjóðarsátt. Þessir samningar munu óhjákvæmilega mótast mjög af því efnahagslega neyðarástandi sem ríkir í landinu og það verður lagt mjög fast að verkalýðshreyfingunni að fara varlega, það verður vísað til drauganna tveggja, ótryggs atvinnuástands og verðbólgu.

Og vissulega þarf verkalýðshreyfingin að verjast þessum draugum, en hún má ekki heldur láta þá glepja sér sýn, hún má ekki horfa framhjá því að launafólk ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins og henni ber að lágmarka arðránið. Verkalýðshreyfingin verður að ganga til þessara samninga með skýr markmið sem kristallast í þrennu: að tryggja atvinnu, verja velferðarkerfið og koma í veg fyrir að kreppunni verði velt yfir á herðar launafólks. Í því felst meðal annars krafa um uppgjör á því sem gerðist og að allra ráða verði beitt til að ránsfengnum verði skilað.

Það er hamrað á að nú verði allir að standa saman, þjóðarsátt. En það er brýnt að muna eftir beittasta vopni verkalýðshreyfingarinnar, verkfallsvopninu. Við skulum reyna að ná þjóðarsátt um launa- og kjarastefnu, en ef sú stefna á að ganga út á að launafólk og alþýðan almennt eigi að bera kostnaðinn af kreppu auðvaldsins en ræningjarnir að sleppa meira og minna, ja, hvenær ef ekki þá er rétt að beita verkfallsvopninu? Félagsmenn í stéttarfélögum, brýnum félögin, brýnum forystuna, brýnum vopnin!

 

Sjá einnig á þessari bloggsíðu:

St. Rv. krefst þess að ránsfengnum verði skilað

Kjarasamningar - enn skal ítrekað: verkalýðurinn ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins!

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar krefst kjarasamninga og rannsóknar á hruni efnahagslífsins




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Brýnum hvert annað!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 12.1.2009 kl. 15:29

2 Smámynd: Einar Ólafsson

Að ég tali nú ekki um það, félagi, mikið rétt!

Einar Ólafsson, 12.1.2009 kl. 16:40

3 Smámynd: Hlédís

Einar!  Hvað ER til ráða - nú er verk-lýðs-forystan er komin á fimmföld verkamannalaun? Svo við tölum ekki um lífeyrissjóða-greifana!

Þetta gengur ekki upp!

Hlédís, 12.1.2009 kl. 21:04

4 Smámynd: Hlédís

Forystan er vanhæf.  Horfumst í augu við það Nú þarf ALVÖRU-byltingu.

Hlédís, 12.1.2009 kl. 21:08

5 Smámynd: Einar Ólafsson

Hlédís mín, við sögðum þetta líka í Fylkingunni í gamla daga, og þóttum heldur betur hrokafull. En við leituðumst samt við að starfa innan verkalýðsfélaganna, við mættum á fundi og rifum kjaft. Af hverju? Jú, af því að við vorum í þessum félögum (sum okkar  kannski bara út af sumarvinnunni) ásamt öðru launafólki. Við skipulögðum reyndar líka Rauða verkalýðseiningu utan við og þvert á stéttarfélögin. En stéttarfélögin eru miklu meira en bara forystan, þau eru líka félagarnir sem í þeim eru, þótt þeir séu á „venjulegum“ tímum ósköp óvirkir. En nú er almenningur að verða virkur. Og þá á hann að vera virkur allsstaðar, ekki bara bara með því að klappa ræðumönnum á Austurvelli lof í lófa. Þannig gerum við aldrei alvöru byltingu. Stéttarfélögin eru ekki eini vettvangurinn. En stéttarfélögin eru verkfæri þótt bitlaus séu (líka Læknafélagið, ef útí það er farið). Og betra er að hafa bitlausan hníf en engan, því að bitlausan hníf má brýna. Auðvitað þurfum við að gera alvörubyltingu, þó ég taki nú undir það! Brýnum vopnin, brýnum hvert annað, eins og Heimir segir, brýnum stéttarfélögin og brýnum forystuna – eða skiptum um hana ef hún er of deig .

Einar Ólafsson, 12.1.2009 kl. 22:14

6 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Fullur salur í Háskólabíó

Bloggað um fréttina

Vel er mætt á

Anna Ragna Alexandersdóttir, 13.1.2009 kl. 03:12

7 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

D-sæti var autt

Anna Ragna Alexandersdóttir, 13.1.2009 kl. 03:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband