25.2.2009 | 16:13
Gef kost á mér í 5.-6. sæti hjá VG í SV-kjördæmi
Ég hef sent kjörstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í suðvesturkjördæmi tilkynningu um að ég gefi kost á mér í 5. til 6. sæti í forvali flokksins 14. mars nk. Ég hef sent út fréttatilkynningu, sem er hér að neðan, og jafnframt tekið saman helstu áherslur mínar og birt hér, auk þess sem þær eru hér fyrir neðan fréttatilkynninguna.
Fréttatilkynning
Einar Ólafsson gefur kost á sér í 5. til 6. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi við kosningar til Alþingis vorið 2009.
Einar er 59 ára gamall bókavörður og rithöfundur, búsettur í Kópavogi. Hann hefur verið virkur á vinstri væng stjórnmálanna síðan um 1970, í Fylkingunni meðan hún starfaði, ýmsum andheimsvaldasinnuðum samtökum og Samtökum hernaðarandstæðinga. Þá hefur hann tekið virkan þátt í starfi stéttarfélags síns, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, og sat um skeið í stjórn BSRB. Hann hefur starfað með Vinstri grænum frá stofnun flokksins. Einar er kvæntur Guðbjörgu Sveinsdóttur geðhjúkrunarfræðingi og á þrjú uppkomin börn.
Einar leggur áherslu á að kreppan er auðvaldskreppa sem almenningur ber ekki ábyrgð á. Nú er brýnast að verja kjör almennings og atvinnu, hraða rannsókn á hruni fjármálakerfisins og beita öllum tiltækum ráðum til að frysta eignir auðmanna og gera þær upptækar. Ef almenningur á að sýna hófsemi í kjaramálum verður að vera tryggt, að þeir sem betur mega taki á sig byrðarnar að sama skapi, bókhald fyrirtækja verður að vera opið og allri leynd launa og annarra tekna verði aflétt. Bankarnir verði áfram í almannaeigu og gegnsæi verði tryggt í fjármálakerfinu. Einkavæðing í almannaþjónustu verði stöðvuð, velferðarkerfið styrkt og auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar. Koma þarf í veg fyrir að stórfyrirtæki sölsi allt undir sig, athafnafrelsi almennings og einstaklinga verði varið gegn þeim, fyrirtækjum í almannaeigu fjölgi. Lögð verði áhersla á fjölbreytni í atvinnumálum um allt land í stað áframhaldandi uppbyggingar stóriðju. Sjálfbær þróun og umhverfisvernd eru lífsnauðsyn. Stefna ber að styttingu vinnutímans. Samvinna er ekki síður mikilvæg en samkeppni, slökun ekki síður en athafnasemi. Ísland verði friðlýst fyrir gereyðingarvopnum og aðildinni að NATO sagt upp. Ísland gangi ekki í ESB. Lögð verði áhersla á alþjóðlegt samstarf, m.a. við að breyta alþjóðlegu fjármála- og skattakerfi í því skyni að takmarka fjármálabrask, flutning fyrirtækja milli landa og vald stórfyrirtækja. Kerfi alþjóðlegra fjármála- og viðskiptastofnana verði umbylt og stefnt að alþjóðlegri samvinnu um fjárfestingar í innviðum samfélaga með hagsmuni almennings og umhverfisvernd að leiðarljósi. Alþjóðlegir samningar um kjör og réttindi verkafólks verði styrktir.
Almenningur ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins
Helstu áherslur Einars Ólafssonar í forvali VG, SV-kjördæmi, í 14. mars 2009
- Kreppan á rætur í auðvaldshagkerfinu
- Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bera pólitíska ábyrgð á kreppunni
- Alþýðan þarf öflugan stjórnmálaflokk
- Virkt og beint lýðræði þarf að styrkja
- Arðránskerfi auðvaldsins þarf að uppræta
- Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar
- Verjum kjörin og atvinnuna, endurheimtum ránsfenginn
- Almenningur taki ekki á sig byrðarnar meðan aðrir sleppa
- Bankana í almannaeigu gegnsæi í fjármálakerfinu
- Stöðvum einkavæðingu í almannaþjónustu auðlindir í þjóðareign
- Fleiri fyrirtæki í eigu almennings, verjum athafnafrelsi einstaklinga og almennings gegn hákörlum, eflum samvinnu ekki síður en samkeppni
- Styttum vinnutímann slökum á, verjum réttinn til letinnar jafnt og réttinn til vinnunnar
- Alþjóðahyggja: alþjóðleg samvinna og viðskipti taki mið af hagsmunum almennings
- Ísland verði friðlýst fyrir gereyðingarvopnum Ísland úr NATO
- Kapítalískar stórríkislausnir Evrópusambandsins eru úreltar
Greinargerð:
Brýnt er að hafa það að leiðarljósi að almenningur ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins.
Kreppan á rætur í auðvaldshagkerfinu
Sú kreppa sem nú ríkir stafar ekki fyrst og fremst af ófullkomnu lýðræði, flokksræði eða flokkakerfinu á Íslandi. Kreppan stafar af því hagkerfi sem við búum við, auðvaldshagkerfinu, og þeirri miskiptingu, arðráni og stéttaskiptingu sem því fylgir. Auðstéttin hóf á heimsvísu sókn til meiri gróða undir lok síðustu aldar, meðal annars með því að sölsa undir sig almannaeigur, og æ meira vald var selt í hendur handhöfum fjármagnsins og stórfyrirtækjanna. Í þeirri miklu gróðasókn var beitt öfgakenndri útgáfu af hugmyndafræði auðvaldsins, frjálshyggjunni.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bera pólitíska ábyrgð á kreppunni
Þessi sókn auðstéttarinnar hófst hér fyrir alvöru með myndun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar árið 1991 og þó sérstaklega með stjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokkinn frá 1995. Hlutverk Sjálfstæðisflokksins er fyrst og fremst að þjóna hagsmunum auðvaldsins og það hefur hann svo sannarlega gert á undanförnum tveimur áratugum, fyrst og fremst með aðstoð hins borgaraflokksins, Framsóknarflokksins, og að nokkru leyti með aðstoð Alþýðuflokksins í upphafi og Samfylkingarinnar undir lokin, enda voru þeir báðir smitaðir af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar eins og sósíaldemókratískir flokkar víða annars staðar. Einungis Vinstrihreyfingin grænt framboð, sem var stofnuð snemma árs 1999, hefur af einurð staðið vörð um hagsmuni almennings.
Alþýðan þarf öflugan stjórnmálaflokk
Flokkakerfið, eins og það er nú, endurspeglar hið stéttskipta samfélag auðvaldskerfisins. Meðan hluti samfélagsins hefur yfirráð yfir fjármagninu og fyrirtækjunum mun hann einnig hafa meiri aðgang að völdum en aðrir og hann mun beita pólitískum tækjum til þess, þar á meðal stjórnmálaflokkum. Mikilvægt er að almenningur hafi einnig öflugan og einarðan stjórnmálaflokk sem berst fyrir hagsmunum hans, ef ekki á byltingarsinnuðum forsendum þá á róttækum umbótasinnuðum forsendum, flokk sem samþættir sósíalíska framtíðarsýn, alþjóðahyggju, umhverfisstefnu, mannréttindi og jafna stöðu kynjanna. Á þeim forsendum tek ég þátt í starfi og þróun VG.
Virkt og beint lýðræði þarf að styrkja
Almenningur á að hafa sem mesta aðkomu að jafnt pólitískri sem efnahagslegri stefnumótun ákvörðunum. Þær mega ekki lokast inni í skrifræðislegum, klíkubundnum og stofnanagerðum stjórnmálaflokkum, verkalýðsfélögum eða öðrum hagsmunasamtökum. Sífellt þarf að leita leiða til að gera stjórnkerfið lýðræðislegra, stefna þarf að endurskoðun stjórnarskrárinnar og mikilvægt er að halda uppi gagnrýni á flokka og samtök alþýðu. En að leggja þessa flokka eða samtök að jöfnu við flokka og samtök auðstéttarinnar er einungis til þessa fallið að færa henni vopn í hendurnar. Misskipting og stéttaskipting auðvaldssamfélagsins mun alltaf takmarka raunverulegt lýðræði. Þótt umbætur í stjórnkerfinu séu mikilvægar, þá verða þær alltaf takmarkaðar meðan auðvaldið er ekki upprætt.
Arðránskerfi auðvaldsins þarf að uppræta
Það er stöðugt verkefni að brjóta niður auðvaldskerfið, kerfi misskiptingar, arðráns og stéttaskiptingar. En sundruð verkalýðsstétt, í víðri merkingu þess orðs, óljós stéttarvitund og hikandi verkalýðshreyfing tefja það verkefni jafnt hér sem á alþjóðavísu. Verkefni okkar hér og nú er að lágmarka þann skaða sem kreppa auðvaldsins veldur almenningi, en jafnframt þarf að horfa fram til þess hvernig hægt er að uppræta þetta arðránskerfi.
Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar
Við núverandi stöðu í stjórnmálum landsins er vænlegast að stefna að ríkisstjórn félagshyggjuflokkanna, Vinstri grænna og Samfylkingar, þótt Samfylkingin hafi flekkað hendur sínar með stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, hentistefnu og gælum við ýmsa þætti nýfrjálshyggjunnar. Hugsanlegt er samstarf við Frjálslynda flokkinn eða nýja flokka/framboð ef til kemur. Sjálfstæðisflokknum verður hins vegar skilyrðislaust að halda frá völdum og aðild Framsóknarflokksins að ríkisstjórn yrði algert neyðarúrræði.
Verjum kjörin og atvinnuna, endurheimtum ránsfenginn
Tvennt er nú mest aðkallandi:
- að verja heimilin í landinu, verja kjör almennings, verja velferðarkerfið og atvinnufyrirtækin.
- að hraða sem mest rannsókn á hruni fjármálakerfisins og orsökum þess og beita öllum ráðum til að frysta eignir auðmanna, ránsfenginn, og gera hann upptækan eða þjóðnýta.
Við þetta skal öllum tiltækum ráðum beitt og duga engin vettlingatök. Verkalýðshreyfingin verður að veita stjórnvöldum stuðning og aðhald við þessi verkefni og beita til þess öllu afli sínu.
Almenningur taki ekki á sig byrðarnar meðan aðrir sleppa
Fráleitt er að verkalýðsstéttin og aðrir hópar alþýðufólks taki á sig ábyrgð og sýni hófsemi í kjaramálum sem býður upp á kjaraskerðingu ef ekki er tryggt að þeir sem betur mega taki á sig byrðarnar að sama skapi. Frestun kjarasamninga verður að vera með því skilyrði að allt bókhald fyrirtækjanna sé opið almenningi, allri launaleynd eða tekjuleynd sé aflétt og klárt sé að gróði af atvinnurekstri eða fjármálastarfsemi skili sér til samfélagsins á einhvern hátt, í formi skatta, með atvinnuuppbyggingu eða á annan hátt.
Bankana í almannaeigu gegnsæi í fjármálakerfinu
Bankarnir eiga að vera áfram í almannaeigu, hvaða form sem yrði á því. Tryggja þarf gegnsæi í fjármálakerfinu og virkt eftirlit þings og almennings með bönkum og fjármálastofnunum. Mikilvægt er að horfa til sérstöðu bankastarfsemi, sem á eingöngu að vera þjónusta við samfélagið og er sem fjármálaþjónusta annars eðlis en önnur þjónusta.
Stöðvum einkavæðingu í almannaþjónustu auðlindir í þjóðareign
Stöðva þarf einkavæðingu í almannaþjónustu. Tryggja ber að auðlindir verði í almannaeigu og fiskkvótanum þarf að koma í hendur þjóðarinnar.
Fleiri fyrirtæki í eigu almennings, verjum athafnafrelsi einstaklinga og almennings gegn hákörlum, eflum samvinnu ekki síður en samkeppni
Samkeppniseftirlit þarf að efla, en huga jafnframt að inntaki þess og tilgangi, setja skorður við stærð einkafyrirtækja og koma í veg fyrir myndun fyrirtækjakeðja. Koma þarf í veg fyrir að stórfyrirtæki ryðji metnaðarfullum smáfyrirtækjum úr vegi þar sem einkarekstur er eðlilegur. Stuðla ber að stofnun lýðræðislega rekinna fyrirtækja í almannaeigu, svo sem samvinnufyrirtækja eða fyrirtækja að öllu eða einhverju leyti í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Samvinna er ekki síður mikilvæg en samkeppni. Auka þarf fjölbreytni í atvinnumálum og efla matvælaframleiðslu, hvort sem er til sjávar eða sveita. Frekari uppbyggingu stóriðju ber að stöðva og gera þarf áætlun um vikjun orkulinda til langs tíma með umhverfisvernd og hagsmuni óborinna kynslóða í huga.
Styttum vinnutímann slökum á, verjum réttinn til letinnar jafnt og réttinn til vinnunnar
Þótt nú sé mikilvægt að standa vörð um atvinnufyrirtækin og stuðla að atvinnusköpun er vert að líta til möguleika á styttingu vinnutímans sem fyrst og hverfa frá þeirri hagvaxtarhyggju sem sífellt knýr á sköpun atvinnu á forsendum aukinnar neyslu og gerviþarfa með tilheyrandi mengun og streitu. Réttinn til letinnar þarf að setja til jafns við réttinn til vinnunnar.
Alþjóðahyggja: alþjóðleg samvinna og viðskipti taki mið af hagsmunum almennings
Brýnt er að horfa ekki einangrað á vandamál hér innanlands enda er kreppan alþjóðleg og um allan heim eru uppi umræður um lausnir á þeim vanda sem hún hefur skapað og um aðra stefnu í samfélags- og efnahagsmálum.
Ný ríkisstjórn þarf að taka höndum saman við framsæknar ríkisstjórnir og önnur öfl erlendis um ýmsar umbætur á alþjóðavísu, svo sem:
- Efla samvinnu milli landa bæði alþjóðlega og svæðisbundna.
- Viðskipti milli landa taki mið af hagsmunum almennings, umhverfisvernd og sjálfbærri þróun.
- Loka öllum skattaskjólum.
- Koma á alþjóðlegu skattakerfi sem kemur í veg fyrir flutning fjármagns og fyrirtækja í hagstæðara skattaumhverfi og dregur úr valdi og umsvifum stórfyrirtækja.
- Gera alþjóðlegt samkomulag um skatt á fjármagnsfærslur í ágóðaskyni (Tobin-skatt).
- Leggja niður í áföngum Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðkiptastofnunina. Þess í stað verði komið á fót alþjóðlegum stofnunum eða einhverjum vettvangi fyrir alþjóðlega samvinnu sem hefur sjálfbæra þróun, jöfnuð og félagslegt og efnhagslegt öryggi fyrir almenning að leiðarljósi.
- Stefnt verði að alþjóðlegu samstarfi við að efla innviði samfélaga með hag almennings og umhverfisvernd að leiðarljósi.
- Lögð verði áhersla á fæðuöryggi og sjálfbæra matvælaframleiðslu.
- Alþjóðlegir samningar um kjör og réttindi verkafólks verði styrktir.
Ísland verði friðlýst fyrir gereyðingarvopnum Ísland úr NATO
Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og öðrum gereyðingarvopnum, lýst herlaust land og aðildinni að NATO verði sagt upp. Ísland hafi frumkvæði að friðlýsingu Norðurlanda, Evrópu og loks Norður-Atlantshafsins.
Kapítalískar stórríkislausnir Evrópusambandsins eru úreltar
Evrópusambandið verður æ meiri tímaskekkja í núverandi mynd, enda byggist það að verulegu leyti á hugmyndum í frjálshyggjustíl um frjálst flæði fjármagns, vöru og þjónustu innan stórríkis, sem fyrst og fremst tryggir olnbogarými fyrir handhafa fjármagnsins en takmarkar áhrif almennings. Aðild að ESB er rökrétt ef við ætlum aftur út í þann straum sem við höfum borist með að undanförnu og láta aðra ráða fyrir okkur.
Athugasemdir
get ekki kosið þig en styð þig nú samt. absólút.
arnar valgeirsson, 26.2.2009 kl. 18:26
Langar að fá þig á þing, Einar! Er von til þess í þessu sæti?
Hlédís, 27.2.2009 kl. 21:18
Styð framboð þitt þó ég geti ekki kosið þig..
TARA, 28.2.2009 kl. 17:26
Hreint og klárt sett fram, svona á fólk að gera grein fyrir því fyrir hvað það stendur. Flott!
ragnheiður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.