Jörðin snoðuð

Eftir síðustu tilfæringar hjá Strætó, þegar allar leiðir voru settar á hálftíma frest, fann ég upp á því að ég kæmist á réttum tíma í vinnuna með því að ganga heiman frá mér úr Trönuhjalla í Kópavogi niður í Mjódd í stað þess að taka vagninn við Nýbýlaveg. Þetta er lengri ganga en á móti kemur meiri hreyfing og auk þess notaleg gönguleið. Leiðin liggur um undirgöng undir Nýbýlaveg og síðan um gróið land milli Smiðjuhverfisins og Reykjanesbrautar og svo undir hana um undirgöng. Dálítill niður frá umferðinni en í þessu gróna landi hafa mér til augnayndis verið að spretta allskonar blómjurtir. Eftir að hafa rennt yfir kreppufréttirnar í dagblöðunum með morgunkaffinu hefur þessi göngutúr lyft anda mínum ofurlítið og þá ekki síst villtur blómgróðurinn: smári, gulmaðra, hvítmaðra, hundsúrur, maríustakkur, rauðsmári, blóðberg og svo er umfeðmingsgras að skríða meðfram gangstígnum með bláu blómin sín. Í gærmorgun var svo allt orðið gult, litlu fíflarnir, hvað heita þeir, undafíflar eða eitthvað svoleiðis, höfðu skyndilega blómstrað. Ekki veitti mér af þessari upplyftingu villiblómanna í morgun, en æ, þá höfðu sláttumennirnir farið þar um. Engin blóm, bara snoðuð jörðin, eins og henni hefði verið refsað fyrir lauslæti. Þó höfðu sláttumennirnir hlíft umfeðmingsgrasinu. Þökk fyrir það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Þá er auðvitað orðið svo stutt eftir í vinnuna að þú bara röltir restina. Omissir af strætóslökuninni.

Einshverstaðar verða túnfíflin að vera

Kristbjörn Árnason, 17.7.2009 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband