Semjum um C Jam Blues

Ég var í gærkvöldi á dýrlegum tónleikum í Iðnó til heiðurs hinum síunga Guðmundi Steingrímssyni áttræðum, sem hefur setið við trommurnar og séð um taktinn í íslensku djassi og dægurlögum í 65 ár. Og hann sat við trommusettið í gærkvöldi og var ekki ellimóður. Yngri menn spiluðu með honum, Gunnar Hrafnsson á bassa, Björn Thoroddsen á gítar, sem ég man eftir kornungum í Stúdentakjallaranum með þeim nöfnum Steingrímssyni og Ingólfssyni, einn af mörgum sem gengu gegnum djassakademíu þeirra, og á píanóið var hollenskur snillingur, Hans Kwakkernaat.

Prógrammið var kannski ekki þaulæft en því meira líf í því. Björn sá um kynningar og gat þess að píanistinn væri hollenskur og það þyrfti svolitlar samningaviðræður um framvindu tónleikana,  „og nú höfum við náð samkomulagi um C Jam Blues".

C Jam Blues Duke Ellingtons (eða Barney Bigards, sem sumir telja hafa samið lagið) hefur verið leikinn inn á ótal hljómplötur, bæði af  hljómsveit meistarans sjálfs og ótal öðrum meisturum. Hlustum á C Jam Blues, þar sem sorgin og sútin eru ofin inni í gáskafullan taktinn og hrist þar til hún gufar upp í yndislegri afslöppun sveiflunnar. Ef við eigum að setja okkur eitthvert markmið, þá ættum við að setja okkur sídjammblús-markmið, sem er einfaldlega það markmið að vera ekki með einhvern rembing og merkilegheit, gróðafíkn og valdagræðgi, heldur finna hina sameiginlegu sveiflu sem hægt er að spinna út frá, hvert á sinn hátt en þó saman, rétt eins og þeir gerðu snillingarnir í Iðnó í gærkvöldi. Og loks verði engar milliríkjadeilur alvarlegri en svo að þær verði hæglega leystar með því að spila C Jam Blues og taka nokkur létt dansspor.

 

http://www.jazzstandards.com/compositions-1/cjamblues.htm

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband