Munið 15. mars!

Útifundur á Ingólfstorgi kl. 13

Mótmælum stríðinu í Írak!
Mótmælum hernaðarhyggju og heimsvaldastefnu!
Stuðlum að friði!


Stöðvum fjöldamorðin á Gaza - útifundur á Lækjartorgi miðvikudaginn 5. mars kl. 12:15

Efnt verður til útifundar á Lækjartorgi í hádeginu á morgun, miðvikudaginn 5. mars klukkan 12:15, til að mótmæla blóðbaðinu á Gazaströnd. Kröfur dagsins eru: Stöðvum fjöldamorðin og rjúfum umsátrið um Gaza. Ræðumenn verða Katrín Fjeldsted læknir og Ögmundur Jónasson alþingismaður. Fundarstjóri er Sveinn Rúnar Hauksson formaður Félagsins Ísland-Palestína.

gazaplakat2

 Fjölmennum!

Látum sem flesta vita af fundinum!


15. mars: Stríðinu verður að linna

Alþjóðlegar aðgerðir gegn Íraksstríðinu dagana 15.-22. mars 2008

sjá nánar á Friðarvefnum

gegnstridi 20. mars verða liðin fimm ár frá því innrásin í Írak hófst. Síðan hefur verið stríðsástand í landinu. Enginn veit hversu margir hafa dáið af völdum stríðsins, en ljóst er tala þeirra hleypur á hundruðum þúsunda. Talið er að af 26 milljónum íbúa í landinu séu um tvær milljónir á flótta innanlands og tvær og hálf utanlands. Innviðir samfélagins eru í rúst. Ástandið versnar með hverjum degi. Stríðinu verður að linna!

Innrásinni var mótmælt með einhverjum einhverjum víðtækustu mótmælaaðgerðum sögunnar. Síðan hafa alltaf verið alþjóðlegar mótmælaaðgerðir kringum 20. mars. Að þessu sinni hafa dagarnir 15. til 22. mars verið valdir og í Reykjavík munu Samtök hernaðarandstæðinga standa fyrir aðgerðum laugardaginn 15. mars kl. 1 eftir hádegi. Nánari upplýsingar verða birtar þegar þær liggja fyrir.

Takið 15. mars frá. Fjölmennum.
Stríðinu verður að linna!

Upplýsingar um aðgerðir erlendis:
www.stopwar.org.uk
www.theworldagainstwar.org
www.unitedforpeace.org
www.motkrig.org
www.nejtilkrig.dk


EKKI ÞÖGN HELDUR AÐGERÐIR

Oft tekur fólk við sér, og það er gott. Oft þarf reyndar dálítið til. En samt. Það varð til öflug umhverfishreyfing. Íbúarnir bregðast við vegna skipulagsmála. Gerræðislegar skipanir í dómarasæti og meirihlutaskipti í borgarstjórn kalla á hávær mótmæli. En oft láta viðbrögðin standa á sér. Risastíflan nær að rísa, gömlum húsum er bjargað á síðustu stundu með ærnum kostnaði. Því miður verður lítt vart við viðbrögð vegna þeirra áfroma sem geta orðið afdrifaríkari en nokkuð annað sem hinar miklu "framfarastjórnir" Sjálfstæðisflokksins hafa hingað til afrekað. Það er einkavæðing heilbriðgðiskerfisins, sem síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti. Því miður eftirlét Samfylkingin sjálfstæðismönnum það ráðuneyti og gerir engar athugasemdir við það sem þar fer fram. Og almenningur nær ekki að fylgjast með - einkavæðingin læðist að. Nú síðast var verið að skipa stjórn Sjúkratryggingastofnunar. Hvað er það? Jú stofnun til að annast kaup á heilbrigðisþjónustu, skv. breytingu á lögum um almannatryggingar, sem voru samþykktar um miðjan des. (Lög nr. 160 20. desember 2007). Fyrirhugað er að bjóða út starfsemi læknaritara. Og sitthvað annað er í bígerð, eða hafið, sem almenningur veit ekkert um. Bloggsíðurnar loga út af borgarstjórn og skipun dómara. Gott og vel. En ekkert um þetta. Samtök heilbrigðisstarfsfólks segja ekkert (sumir eru kannski að vonast til að komast á jötuna, en það verða víst fæstir), samtök sjúklinga segja ekkert, hvað þá almenningur. Það er helst að eitthvað heyrist frá BSRB (ég vil minna á bækling Görans Dahlgren, Opinber eða einkarekin heilbrigðisþjónusta, sem BSRB gaf út sjá pdf-skjal) - auk Vinstri grænna, en þaðan heyrist líka alltof lítið. Ef einhvern tíma var þörf aðgerða, þá er það nú.

Miðbærinn - meðhöndlist með varúð

Eftirfarandi bréf sendi ég oddvitum meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur í dag:

 

Ágæti borgarstjóri og aðrir oddvitar borgarstjórnar Reykjavíkur.

Ég tek mér stutt hlé frá vinnu minni fyrir Reykjavíkurborg á þessu föstudagssíðdegi til að skrifa ykkur stutt bréf. Ástæðan er að ég hef áhyggjur af miðborg Reykjavíkur. Reyndar bý ég ekki í Reykjavík heldur Kópavogi – og hef svo sem áhyggjur af skipulagsmálum þar, en það er önnur saga og aðrar aðstæður. En ég er alinn upp í Reykjavík, sæki vinnu í Reykjavík og vinn hjá Reykjavíkurborg, hef vinnustað í miðborginni, nánar tiltekið í Grófarhúsi við Tryggvagötu og auk þess tel ég að Miðborg Reykjavíkur komi öllum landsmönnum við.

Miðborgin hefur þróast í áranna og aldanna rás sem eðlilegt er. Það er ekkert óeðlilegt við það - og meira og minna allt í lagi - að mikill hluti upphaflegra bygginga hefur horfið og nýjar komið í staðinn. En við þurfum að huga að því hvort ekki komi að því að þá þróun þurfi að stöðva, eða hægja verulega á henni og setja undir skýra stefnu og stjórn.

Miðborg Reykjavíkur er að mörgu leyti einstök. Í Evrópu eru flestar borgir miklu eldri og bæjarmynd í líkingu við þá, sem við höfum hér, finnst vart annars staðar. Haldi þróunin áfram þannig að gömul húsin verði rifin – eða flutt burtu – verður lítið eftir af þessari bæjarmynd. Við getum auðvitað valið það að víkja henni alveg frá og byggja upp nýjan miðbæ. En ég vil það ekki og mig grunar að það sé ekki í takt við þróunina, sem sagt að við sýnum komandi kynslóðum litla tillitsemi með því.

Ég hef ekki bara áhyggjur af Laugavegi 4 og 6, það er bara toppurinn á ísjakanum, eins og einhver sagði. Reyndar eru þau hús sérlega mikilvæg af því að þau eru leifar af elsta hluta helstu verslunargötu borgarinnar.

Ég hef líka áhyggjur af Naustreitnum, af svæðinu kringum Þórsgötu og svæðinu þar sem á að byggja listaháskóla. Listaháskóli á þessum stað er að mörgu leyti góð hugmynd, en hversu mikið verður raskið við það? Í sambandi við það vil ég benda á, að það eru ekki bara hús frá 19. öld sem hafa varðveislugildi, og ekki heldur bara hús sem eru merkileg „í sjálfu sér". Öll hús eru hluti af þróunarsögu borgarinnar og hluti af þeirri mynd, sem er ástæða til að varðveita. Því þarf að fara afar varlega í að rífa eða fjarlægja þau hús sem nú eru. T.d hefur þegar verið alltof mikið rifið norðan Hverfisgötu. Þess vegna tel ég mikilvægt að reyna að nýta sem mest þau hús sem fyrir eru á svæðin, auðvitað með nauðsynlegum breytingum (en þó hóflegum) og endurbótum. Listaháskóli verður að vera sérstaklega lifandi og sveigjanleg stofnun og því ætti hann að geta lagað sig að aðstæðum, og verður raunar að gera það ef hann á að byggjast upp á þessum stað. Ef hann getur það ekki, þá verður hann bara að fara annað.

Ég bið líka um að farið verði varlega á Barónsreitnum, þótt þar ætti auðvitað að vera búið að byggja fyrir löngu. Ekki stóra verslunarmiðstöð, slíkt höfum við í Kringlunni og Smáralind, hér þarf annað.

Ég hef líka áhyggjur af næsta nágrenni við vinnustað minn, þ.e. Tryggvagötunni. Ég bið ykkur: ekki rífa húsin sem eftir standa við Tryggvagötu. Auk þess sem rífa á á Naustreitnum svokallaða skilst mér að húsin á móti Hafnarhúsinu, sem nú hýsa veitingahús, eigi að víkja. Þessi hús þykja kannski ekki merkileg, en þetta eru falleg hús á sinn hátt og sérstök og skapa sérstaka götumynd. Látið mig vita það, ég hef gengið hjá þeim alla vinnudaga í meira en sjö ár.

Með vinsemd og virðingu,

Einar Ólafsson, starfsmaður Borgarbókasafns Reykjavíkur.

(afrit sent Torfusamtökunum)


Ferð um Serbíu

 

Við fórum tvö saman í 12 daga ferð um Serbíu í september 2007. Hér hef ég tekið saman svolitlar upplýsingar sem gætu kannski nýst öðrum sem vilja ferðast til og um Serbíu. Þetta er líka vistað á http://notendur.centrum.is/~einarol/serbiuferd.html

Ferðahandbók

Áður en við fórum tókst okkur ekki að finna neina ferðahandbók um Serbíu, hvorki í búðum né bókasöfnum. Og það tókst raunar ekki fyrr en við fórum í bókabúð í Belgrad. Þar fengum við ágæta bók á ensku. Vonandi mun hún fara að fást í bókabúðum og á bókasöfnum hér, en annars er ráðlegt að panta sér hana, t.d. gegnum Amazon. Bókin heitir:

 

Serbia. The Bradt Travel Guide eftir Laurence Mitchell. Útgefandi: Bradt Travel Guides. Ný útgáfa kom í júlí 2007, en við vorum með 1. útgáfu frá 2005.

 

Upplýsingar á netinu

Sjá hér að neðan.

 

Aðkoma og tungumál

Ekki hefur verið sérlega mikið um erlenda ferðamenn í Serbíu um langt skeið. Reyndar voru aðrir hluta Júgóslavíu meiri ferðamannalönd meðan hún var. Tilboð fyrir ferðamenn eru því tiltölulega fábreytt, en það er þó að breytast. En það er líka að mörgu leyti gaman að ferðast um slóðir þar sem lítið er um túrista og því full ástæða til að ferðast um Serbíu áður en það breytist. Þrátt fyrir þetta er að mörgu leyti mjög létt að ferðast um Serbíu ef maður er tilbúinn til að treysta svolítið á sjálfan sig, enda er gestrisni mikil, þægilegt viðmót og hjálpsemi.

 

Þótt almennt sé ekki mikil kunnátta í ensku eru allir tilbúnir til að reyna að skilja og gera sig skiljanlega. Oft má líka bjarga sér með þýsku ef maður þekkir einhver orð í því máli. Rétt er að hafa í huga að í Serbíu er notað kyrilískt letur, þótt latneskt letur sé líka algengt. Gott er að hafa við höndina blað með þýðingu stafanna yfir á latneskt letur. Það má finna víða á netinu, t.d. hér: http://home.unilang.org/wiki3/index.php/Serbian_alphabet.

 

Í flestum bæjum er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, en ekki alls staðar mjög beisin. Í Belgrad er hana að finna neðanjarðar á göngugötunni Knez Mihailova, rétt ofan við Repúblika-torgið (Trg Republike). Þar er m.a. hægt að fá frítt handhægt kort yfir borgina. Einnig eru upplýsingamiðstöðvar á járnbrautastöðinni og flugvellinum.

 

Ráðlegt er að leita uppi Repúblika-torgið fyrst af öllu, því að þaðan liggja allar leiðir um miðborgina. Þar skammt frá er ágæt bókabúð sem hefur m.a. bækur á ensku, IPS við Knez Mihaila 6. Snjallt er að fara þangað sem fyrst og spyrja um bókina A Guide to the Serbian Mentality eftir Momo Kapor. Með fyrrgreinda ferðahandbók og þessa bók í farteskinu er maður ansi góður.

 

Peningar og hraðbankar

Í Serbíu heitir myntin dinar. Í janúar 2008 jafngilti 1 serbneskur dínar 1,15 íslenskum krónum. Hraðbanka er víða að finna sem taka bæði Visa og MasterCard, en vissara er að taka út reiðufé og hafa á sér því að ekki er allsstaðar hægt að borga með korti og hraðbanka er ekki finna hvar sem er.

 

Leiðin og áfangastaðir

Við komum með lest frá Þýskalandi til Belgrad og vorum þar fáeinar nætur. Síðan ferðuðumst við með rútum milli borga hring um Serbíu. Við slepptum því að fara inn í Kósovó, þar eð ástandið þar var talið fremur ótryggt á þeim tíma.

 

1. dagur: Komið til Belgrad snemma morguns.

2. dagur: Belgrad

3. dagur: Dagsferð til Novi Sad. 1 ½ klst.

4. dagur: Belgrad.

5. dagur: Belgrad - Niš. 3 klst.

6. dagur: Dagsferð til Skopje í Makedóníu. 4-5 klst. (Þetta var reyndar alltof löng dagsferð, ferðin sjálf samtals um 9 klst. Hluti af þeim tíma var þó töf á landamærum, en það var líka venjuleg töf.)

7. dagur: Niš - Kraljevo. Rúmar 4 klst.

8. dagur: Kraljevo - Novi Pazar. 3 ½ klst.

9. dagur: Novi Pazar - Užice. 4 ½ klst.

10. dagur: Užice - Belgrad. 4 klst.

11. dagur: Belgrad.

12. dagur: Belgrad. Farið frá Belgrad að kvöldi.

 

Þessi ferð gaf ágætt yfirlit yfir Serbíu, en hins vegar dvöldumst við hvergi nema hluta úr degi að undanskildri Belgrad, þar sem við voru fjóra heila daga og náðum að kynnast tiltölulega vel. Auðvelt væri að gera meira úr ferðinni með því að lengja hana um nokkra daga og dveljast lengur á einhverjum stöðum. T.d. væri hægt að hafa lengri viðdvöl í Niš og fara til Skopje og dveljast þar yfir nótt. Einnig er auðveld dagleið til Sofiu í Búlgaríu en á sama hátt þyrfti þá að gista þar. Síðan væri hægt að taka aukadag í hvaða bæ sem er. Novi Pazar er forvitnilegur bær að því leyti að hann er einna „austurlenskastur" af þessum bæjum. Eflaust er margt að sjá þar í kring. Vestast í Serbíu, þar sem leið okkar lá frá Novi Pazar til Užice, er hálendi og víða mjög fagurt. Á þeirri leið eru tveir bæir helstir, frekar litlir þó, Prijepolje og Nova Varoš. Sá síðarnefndi er í rútuleið, en sé farið um Prijepolje þarf að taka lest áfram. En á leiðinni milli Nova Varoš og Užice er Zlatibor, hálendi sem er vinsælt til sumarleyfisferða og reyndar líka til vetrarferða og skíðaiðkunar. Þar er eflaust hægt að finna gistingu og eyða nokkrum dögum. Frá þessu svæði er líka stutt yfir til Svartfjallalands eða Bosníu og Hersegóvínu. Í Zlatibor er töluvert um svokallaðan þorpatúrisma, sjá http://www.villageadventure.co.yu/. Meiri upplýsingar má fá með því einfaldlega að leita á vefnum undir orðunum village tourism serbia. Lengri dvöl í  Užice gæfi sennilega líka ýmsa möguleika.

 

Að ferðast með rútum

Mjög auðvelt er að ferðast um Serbíu í rútum. Rútuferðir eru frekar tíðar og mjög ódýrar. Fargjaldið var milli 100 og 200 dínara miðað við hvern klukkutíma sem ferðin tók. Rétt er að athuga að auk fargjaldsins þarf venjulega að greiða sérstakt gjald fyrir þjónustuna á rútustöðinni, og er það innifalið í ofangreindu verði. Rúturnar eru raunar mjög misjafnar að gæðum, sumar nýjar og þægilegar, aðrar gamlar og sjúskaðar.

 

Þessi ferðamáti getur verið skemmtilegur þar sem maður ferðast með innfæddum og á þeirra hátt. En hann krefst þess að farangur sé ekki mjög mikill, og best er raunar að hafa bakpoka. Hins vegar er óþarfi að spara sér leigubíla, nema maður vilji frekar axla sinn poka og ganga, því að leigubílar eru mjög ódýrir. Við reyndum ekki að taka bílaleigubíl, en eflaust er hægt að ferðast milli bæja í rútu og leigja sér svo bíl til skoðunarferða út fyrir bæinn.

 

Gisting

Gisting er mjög ódýr. En gæði hótela eru líka mjög misjöfn og stærstu hótelin ekki endilega best. En hótelum er að fjölga og einnig gistiheimilum. Ekki er mikið um heimagistingu, eitthvað mun þó vera um hana í tengslum við þorpatúrismann.

 

Í Belgrad fórum við fyrst á stórt hótel í miðbænum, Hótel Slavija. Það er um tuttugu hæða bygging byggð upp úr 1960. Það var ríkisrekið og mun vera tengt hinu ríkisrekna flugfélagi Jat Airways. Það er skemmst frá að segja að það var í mikilli niðurníðslu, þannig að við hypjuðum okkur þaðan eftir eina nótt. Á okkar mælikvaða var gistingin þó ekki dýr, 4052 dínarar fyrir tveggja manna herbergi með morgunverði. Þó var hæsta verð sem við greiddum fyrir gistingu þær 11 nætur sem við voru í Serbíu. Í stað þess fundum við gistiheimili skammt frá járnbrautastöðinni og rútustöðinni og í göngufæri við miðbæinn, Corner Hostel (http://www.cornerhostel.com/). Þetta var nýtt gistiheimili á annarri hæð í gömlu fjölbýlishúsi, tvö herbergi með tveimur rúmum hvort í kojum og eitt herbergi með sex rúmum í kojum, sameiginlegt bað og eldhús þar sem hægt var að tylla sér. Þetta var mjög snyrtilegt, rekið af ungu fólki, vingjarnlegu og hjálpfúsu, mjög ákjósanlegur gististaður fyrir ungt fólk, en það fór líka mjög vel um okkur þarna þótt allir aðrir þar væru á aldur við börnin okkar. Þar kostaði nóttin fyrir tveggja manna herbergi 2615 dínara.

 

Í Niš gistum við á fyrri nóttina á Hótel Ambassador við aðaltorgið. Það er svipað og Hótel Slavija, frá svipuðum tíma í kassalaga háhýsi. Það var líka í niðurníðslu en þó skárra. Fyrir tveggja manna herbergi greiddum við 3670 dínara með morgunverði. Seinni nóttina gistum við á gistiheimili rétt við rútustöðina og markaðinn. Þetta er mjög snyrtilegt gistiheimili og staðsetningin góð fyrir svona rútubílaferðalanga. Tveggja manna herbergi kostaði 3600 dínara. Í Kraljevo gistum við í hóteli utarlega í bænum, Hótel Đerdan (http://www.djerdan.co.yu/), skammt frá hinu fornfræga Žiča-klaustri. Þetta er lítið hótel og mjög snyrtilegt mitt í stjálbýlu íbúðarhverfi þar sem kindur og geitur ganga í görðunum. Þarna er líka veitingahús með ágætum mat. Því miður glötuðum við reikningnum, en verðið var eitthvað svipað og annars staðar. Í Novi Pazar gistum við í stærsta hóteli bæjarins, Hótel Vrbak. Það á það sammerkt með Hótel Slavija og Hótel Ambassador að vera orðið dálítið snjáð en þó ekki í sömu niðurníðslu og Hótel Slavija. Það er eins og þau byggt einhvern tíma á mektarárum Júgóslavíu en þá er líkingin upptalin því að arkitektúrinn er gerólíkur og það er einhvern veginn ekki hægt að láta vera að gista þar allavega eina nótt. Og það er svo sem ekki dýrt ævintýri því að við borguðum 2200 dínara fyrir tveggja manna herbergi með morgunverði. Í flestum stærri bæjum virðist vera eitt svona aðalhótel og í Užice er það Hótel Zlatibor sem gnæfir yfir miðbæinn. En þar var unnið að endurbótum þannig að við fengum inni á Hótel Palas, sem einnig er í miðbænum, svolítið lúið en þó viðunandi. Það borguðum við 2480 dínara fyrir tveggja manna herbergi og morgunverð.

 

Veitingastaðir

Í Serbíu verður maður ekki svangur. Gnótt er af veitingahúsum, skyndibitastöðum og bakaríum auk kaffihúsa, en í Serbíu er mikil kaffihúsamenning. Eitthvað er af útibúum frá alþjóðlegum skyndibitakeðjum, en þau þvælast ekki fyrir manni og þarflaust að leita til þeirra. Í Belgrad er hægt að finna veitingahús af ýmsu tagi, en annars eru algengust veitingahús sem bjóða upp á hefðbundinn serbneskan mat og skemmtilegast er að leita þangað. Maður ber svo sem ekki mikið skynbragð á hvað er á matseðlinum, hvort sem hann er með kyrilísku eða latnesku letri, en þá er upplagt að spyrja þjóninn ráða. Þetta eru oft miklir kjötréttir og vel útilátnir. Ekki er ástæða til að spara við sig að borða á góðum veitingahúsum því að bæði matur og vín er ódýrt. Fyrir dýrindis máltíð fyrir tvo með flösku af víni borguðum við frá 2000 til 3500 dínara. Oftast er manni borið vín frá Svartfjallalandi, en einnig er hægt að fá ágæt vín frá Serbíu og Makedóníu.

 

Í Belgrad er sjálfgefið að leita uppi Skadarlija sem er Skadarska-gata ásamt næsta nágrenni. Þar eru veitingahús í röðum hvert öðru betra og á kvöldin ganga þar um tónlistarmenn og spila og syngja fyrir gesti. Við borðuðum fyrst á Tri Sešira (Þrem höttum) og vorum ekki svikin en síðast á Dva jelena (Hreindýrunum tveim) og það var virkileg hátíð. Annað veitingahús annars staðar í borginni, sem er sjálfsagt að fara á, er staður sem kallast „Spurningamerkið" (Znak Pidanje) eða reyndar bara ? og er við Kralja Petra-götu (Kralja Petra I) númer 6. Fyrst þegar inn er komið virðist þetta bara vera hverfiskrá, en matsalurinn er þar inn af. Og ef maður vill hverfa ofan í hámeninngarlegan kjallara er hægt að leita upp Rithöfundaklúbbinn (Klub književnika) við Francuska-götu 7. Ekki láta deigan síga þótt hvergi sjáist utan á að um veitingahús sé að ræða, gangið bara inn og leitið.

 

Fari maður til Niš er upplagt að fá sér að borða í gamla tyrkneska baðhúsinu (hamam), sem er rétt við markaðinn rétt utna við miðbæinn. Í Užice var okkur bent á tvö veitingahús skammt frá miðbænum, við götuna Karlja Petra I, milli Dosiljeva-götu og Il Proleterska-götu og hét annað Konak en hitt Aleksandar. Við borðuðum á því fyrrnefnda, það var öðrum þræði hverfiskrá en maturinn ágætur. Í Novi Pazar eru mörg veitingahús án vínveitinga enda mikið þar af múslímum. Þar lentum við reyndar á mjög hversdagslegu veitingahúsi, Ukus, skammt fyrir neðan Alem Akeh moskuna og borðum þar ágæta grænmetis- og kjötkássu með vatni og kostaði fyrir okkur tvö samtals 400 dínara.

 

Árstíminn

Að mörgu leyti var ágætt að vera í Serbíu í september. Við sáum varla aðra útlenda ferðamenn nema ungmennin sem gistu á sama gistiheimili í Belgrad. En veðrið var svolítið rysjótt, rigndi af og til og var þá svalt. Kannski er betra að vera heldur fyrr á ferð.

 

Fleiri upplýsingar:

National Tourist Organization of Serbia: http://www.serbia-tourism.org/

Novi Sad: http://www.novisadtourism.org.yu/

Belgrad: http://www.belgradetourism.org.yu/

Niš: http://www.nistourism.org.yu/

Kraljevo: http://www.jutok.org.yu/

Užice: http://www.turizamuzica.org.yu/

Zlatibor: http://www.zlatibor.org/ og http://www.zlatibor.com/

 

Þorpatúrismi: http://www.villageadventure.co.yu/.

 

Ýmsar upplýsingar og gisting:

http://www.hotels.co.yu/

http://telenetholidays.com/

http://www.serbia-visit.com/

 

Wikipedia: Tourism in Serbia

Wikitravel: Serbia (http://wikitravel.org/en/Serbia)

 

Ágætar upplýsingar um Serbíu og flesta stærri bæi og héruð þar má finna á Wikipedia.

 

Sjá nánar Dagbók úr ferð um Serbíu í september 2007.

 


Vígvæðing Íslands?

Ég birti hér síðasta hluta áramótagreinar á Friðarvefnum, en á undan fór stutt yfirlit yfir stöðu friðarhreyfingarinnar í heiminum og vaxandi vígvæðingu af hálfu valdamanna.

Vígvæðing Íslands?
Allt þetta hefur haft mikil áhrif hér á landi og má deila um hversu viturlega stjórnvöld hafa brugðist við. Árið 2006 markaði tímamót hér að því leyti að þá hvarf bandaríski herinn á brott frá Íslandi eftir fimmtíu og fimm ára samfellda veru hér. Þetta var fagnaðarefni þótt íslenskir herstöðvaandstæðingar gætu ekki beinlínis hreykt sér af því. Þessi breyting var hluti af endurskipulagningu bandaríska herstöðvakerfisins og því miður þýddi þetta einungis tilflutning hermanna og hergagna í því skyni að þjóna árásargjarnri heimsvaldastefnu Bandaríkjanna enn betur. Þannig er til dæmis beint samhengi milli brottflutnings bandaríska hersins héðan og stækkunar herstöðvarinnar í Vicenza á Ítalíu þó að hermennirnir sem þar bætast við séu fluttir frá herstöðvum í Þýskalandi.

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við brottför bandaríska hersins einkenndust af taugaveiklun og áhyggjum af því að hér myndaðist einhverskonar tómarúm varðandi varnarmál. Viðbrögðin hafa líka dregið dám að þeim ruglanda sem bandarísk stjórnvöld hafa byggt upp varðandi hernaðarleg málefni, ruglanda sem er vísvitandi settur á flot af þeirra hendi, og hugmyndin um stríð gegn hryðjuverkum gegnir þar mikilvægum þætti. Þar er líka um að ræða ógreinilegri mörk milli hernaðarlegra og borgaralegra stofnana sem við höfum séð á undanförnum árum, meðal annars í heræfingum hér á landi. Því miður hefur utanríkisráðherra hinnar nýju ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekið þessa stefnu upp í öllum aðalatriðum. Í skýrslu sinni til Alþingis 8. nóvember sagði utanríkisráðherra að nú skilgreindi NATO sig „ekki lengur sem varnarbandalag heldur fremur sem öryggisbandalag“, og hélt áfram: „Upprunalegt landvarnarhlutverk er enn til staðar en í hnattvæddum heimi hefur áhersla bandalagsins færst á hinar nýju hnattvæddu ógnir.“ Þessar ógnir séu t.d. útbreiðsla kjarnorkuvopna, alþjóðleg glæpastarfsemi, neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð og hryðjuverk.

Á nýliðnu ári hafa verið gerðir samningar um heræfingar erlendra herja hér á landi og flug orrustuþotna nokkurra NATO-ríkja um lofthelgi Íslands. Jafnframt eru ýmis önnur teikn á lofti um aukna hervæðingu Íslands og þar leikur dómsmálaráðuneytið sitt hlutverk auk utanríkisráðuneytisins. Og í fyrsta sinn er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar liður undir heitinu „varnarmál“. Samtals eru áætluð útgjöld Íslands vegna hernaðarlegra málefna ríflega 2,3 milljarðar króna. Það eru líka vonbrigði að hin nýja ríkisstjórn heldur áfram stuðningi sínum við hernaðinn í Afganistan og hefur ekki haft dug til að taka einarðlega til baka stuðning sinn við innrásina í Írak.

Svo allrar sanngirni sé gætt ber þó að geta þess að tilhneigingar hefur gætt hjá síðustu tveimur utanríkisráðherrum að draga friðargæsluna út úr hernaðarlega samhengi. Nýleg tilkynning um varnamálastofnun vekur þó ýmsar spurningar, þó svo opinberlega sé ætlunin með henni að greina í sundur hernaðarlega varnarstarfsemi og borgaralega starfsemi.

Það er dapurlegt að með formann Samfylkingarinnar og fyrrverandi forystukonu og þingkonu Kvennalistans í hlutverki utanríkisráðherra virðist lítil breyting ætla að verða á stefnunni í hernaðarmálum. Í erindi sínu á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu 27. nóvember sagði hún stjórnvöld fylgja mati NATO á nauðsyn íslensks loftvarnarkerfis og reglulegs eftirlits flugvéla bandalagsríkja og að slíku samstarfi væri ekki ætlað að leysa af hólmi varnarsamstarf við Bandaríkin.

Það var raunar ekki við því að búast að í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn yrði aðildinni að NATO sagt upp en í öllum flokkum hafa þó heyrst raddir um að varnarsamningurinn við Bandaríkin frá árinu 1951 væri að öllu eðlilegu runninn sitt skeið. Það væri óskandi að á nýju ári tækist andstæðingum herstöðva og NATO í Samfylkingunni sem og öðrum flokkum að hafa þau áhrif á forystu sinna flokka að farið verði vinna að í fyrsta lagi uppsögn varnarsamningsins við hið árásargjarna heimsveldi Bandaríkin og í öðru lagi uppsögn aðildarinnar að NATO. Ennfremur verði loksins samþykkt margflutt tillaga um „friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja“, eins og sú tillaga heitir sem síðast var flutt á þinginu 1999-2000 af þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þannig mundi Ísland geta gert sig gildandi á alþjóðavettvangi sem friðelskandi og hlutlaust land.

Sú ímynd Íslands hefur fengið styrk á liðnu ári. Í fyrsta lagi ber að fagna því að herstöðvarsvæðið og byggingarnar þar hafa fengið nýtt hlutverk og þjóna nú menntastofnunum, þótt ekki hafi orðið úr að þar yrði sett upp friðarrannsóknarstofnun, eins og lagt var til meðal annars hér á Friðarvefnum. En einnig fékk höfuðborg Íslands, Reykjavík, það hlutverk að hýsa friðartákn í formi ljóssúlu sem lýsir upp á himininn í minningu listamannsins og friðarsinnans John Lennons að frumkvæði ekkju hans, Yoko Ono. Þetta kom í kjölfar stofnunar Friðarstofnunar Reykjavíkur í október 2006. Af því tilefni sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóri: „Ísland er herlaust land og engin hefð er hér fyrir hernaðaruppbyggingu né herrekstri. Því er Reykjavík einstakur vettvangur til viðræðna um friðsamlega úrlausn margvíslegra alþjóðlegra deilumála.“ Þess er að vænta að nýr borgarstjórnarmeirihluti taki undir þess orð og leggi sitt af mörkum að Ísland verði virkilega herlaust land, án aðildar að hernaðarbandalögum og heræfingum og friðlýst fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum eins og samþykkt hefur verið í nær öllum sveitarfélögum á Íslandi, þar á meðal Reykjavík. Sem slíkt gæti Ísland átt erindi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.


Fyrsta sorpstríðið?

Það er stundum sagt að stríð hafi að undanförnu meira og minna snúist um olíu, en í framtíðinni muni þau snúast um vatn. Kannski sorpið eigi líka eftir að verða kveikja átaka í framtíðinni? Er þetta bara forsmekkurinn?
mbl.is Átök í Napólí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri sannleikur varnarmálanna

Rúmt ár er liðið síðan síðustu bandarísku hermennirnir yfirgáfu Ísland og hátt á annað ár síðan Bandaríkjastjórn tilkynnti að herstöðin yrði lögð niður. Þessi ákvörðun tengdist breytingum í alþjóðamálum á undanförnum hálfum öðrum áratug, breyttum áherslum bandarískra stjórnvalda og endurskipulagningu herstöðvakerfis þeirra. Jafnframt hafa orðið breytingar á skipulagi og starfsemi NATO og jafnvel eðli þess. Allt þetta kallar að sjálfsögðu á endurmat á stöðu Íslands og afstöðu Íslendinga til þessara mála, endurmat sem hlýtur að vera bæði pólitískt og tæknilegt, ef svo má segja.

Íslensk stjórnvöld virðast hinsvegar líta svo á að þetta kalli einungis á einhverskonar tæknilega aðlögun. Eiginlega hafi þessar breytingar fært þennan málaflokk af hinu pólitíska sviði eða gefi í það minnsta færi á því. Í munnlegri skýrslu sinni til Alþingis 8. nóv. sl. talaði utanríkisráðherra um mikilvægi þess að „leitast við að byggja upp sammæli Íslendinga um grunnatriði utanríkisstefnunnar ólíkt því sem einkenndi 20. öldina oft og tíðum og það stjórnmálaandrúmsloft sem þá var ríkjandi". Í því skyni hafi verið efnt til opinna funda í háskólunum um erindi Íslands á alþjóðavettvangi. Það er auðvitað ágætt. En í fyrrahaust boðaði þáverandi ríkisstjórn að sett yrði upp öryggismálanefnd með aðkomu allra stjórnmálaflokka á þinginu og núverandi ríkisstjórn ítrekaði það í stjórnarsáttmála. Þeirri nefnd hefur þó ekki verið komið á fót. Hinsvegar kynnti ráðherra það í ræðu sinni að hún hefði skipað starfshóp til að vinna hættumat fyrir Ísland, enda væri það undirstaða haldgóðrar varnarstefnu Íslands til framtíðar.

Miðað við allt sem gerst hefur á þessu rúma ári síðan bandaríski herinn fór er það skrítið að ekki skuli enn hafa náðst að skipa umrædda öryggisnefnd stjórnmálaflokkanna og bendir kannski til að það „sammæli" sem ráðherrann talar um eigi einfaldlega að byggjast á sameiginlegu gagnrýnisleysi núverandi stjórnarflokka gagnvart NATO og þeirri skoðun þeirra að það sé óumbreytanlegt að utanríkisstefna Íslands byggist á aðildinni að NATO og nánu samstarfi við Bandaríkin. Í erindi sínu á fundi Varðbergs og SVS 27. nóv. sagði ráðherrann stjórnvöld fylgja mati NATO á nauðsyn íslensks loftvarnarkerfis og reglulegs eftirlits flugvéla bandalagsríkja og að slíku samstarfi væri ekki ætlað að leysa af hólmi varnarsamstarf við Bandaríkin (Fréttablaðið 28. nóv.).

Það er eins og reynt sé að koma þeirri hugmynd inn hjá þjóðinni að sá ágreiningur, sem var um utanríkismál eða svokölluð varnarmál á tímum kalda stríðsins, eigi sér ekki lengur neinn grundvöll, hann hafi bara snúist um afstöðuna til Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna. Með upplausn Sovétríkjanna og lokum kalda stríðsins stafi hverskyns ágreiningur bara af misskilningi og kreddufestu.

Nú snerist ágreiningur á þessu sviði aldrei nema að hluta um afstöðuna til Sovétríkjanna og æ minna sem á leið. Mér finnst ótrúlegt ef utanríkisráðherra gerir sér ekki grein fyrir því þótt það komi forsætisráðherra kannski á óvart. Ágreiningurinn snerist miklu fremur um afstöðuna til heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, eðlis og hlutverks NATO og svo almennt um afstöðuna til hervalds, hernaðarhyggju, kjarnorkuvopna o.s.frv. Upplausn Sovétríkjanna breyta engu um það né heldur endalok kalda stríðsins. Reyndar hafa þessi tímamót miklu frekar afhjúpað heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og eðli og hlutverk NATO, sem þó var alltaf augljóst hverjum sem vildi sjá. Það er dapurlegt að sumir, sem þá höfðu augun opin, hafa nú lokað þeim.

Eini skoðanamunur utanríkisráðherra og forsætisráðherra virðist vera að hinn fyrrnefndi hefur heldur meiri ímugust á Bush og stjórn hans, sem sé undantekning á lýðræðis- og frelsisbraut Bandaríkjanna, og er þá gleymt Víetnamstríðið og framganga Bandaríkjanna seint á síðustu öld í Mið-Ameríku og raunar svo víða að of langt er upp að telja.

NATO hefur vissulega breyst, en ekki til batnaðar eins og utanríkisráðherra virðist telja. Nú skilgreinir NATO sig „ekki lengur sem varnarbandalag heldur fremur sem öryggisbandalag," segir ráðherrann í skýrslu sinni. „Upprunalegt landvarnarhlutverk er enn til staðar en í hnattvæddum heimi hefur áhersla bandalagsins færst á hinar nýju hnattvæddu ógnir." Þessar ógnir séu t.d. útbreiðsla kjarnorkuvopna, alþjóðleg glæpastarfsemi, neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð og hryðjuverk. Um þetta mætti hafa mörg orð og fleiri en hér rúmast. Má þó minna á að Bandaríkin og NATO hafa oft verið heldur treg í taumi varðandi kjarnorkuafvopnun og aðildin að NATO hefur verið sögð ósamrýmanleg yfirlýsingu um kjarnorkuvopnaleysi Íslands. Þá má spyrja hvort flug orrustuþotna eigi að sporna við afleiðingum loftlagsbreytinga eða vígbúnaður Bandaríkjanna og NATO eigi að draga úr fátækt. Þetta er, segir ráðherrann, til marks um að „öryggishlutverkið sjálft er gjörbreytt". Hér fylgir ráðherrann reyndar línu Bush þar sem öllu er hrært saman til að undirbyggja enn frekari vígvæðingu og skerðingu borgaralegra réttinda. Vonandi sammælast menn seint um það.

Það er ekki gott að ganga í björg

Eftirfarandi grein birtist í Kópi, málgagni Vinstri grænna í Kópavogi, snemma í desember.

Það verður seint skafið af bæjarstjórnum Kópavogs undanfarin kjörtímabil að þær hafa látið verkin tala, varla samkjaftað, ef svo má segja, og má þá spyrja hvort þar sé allt sagt af miklu viti. Ýmislegt hefur svo sem verið vel gert, þó nú væri, en meirihlutanum er vel treystandi til að tíunda það sjálfur. Og þó er ekki víst að ég tæki undir það allt. 

Á hverjum degi lít ég út um stofugluggann hjá mér yfir í Smárann. Og þar má segja að verkin æpi á mig. Bókstaflega má kannski segja að þau suði á mig æ hærra með hverjum deginn, eða niði, og þessi niður kemur frá Reykjanesbrautinni og Dalveginum þar sem umferðin eykst jafnt og þétt. Laugardag einn snemma í haust í góðu veðri gerði ég mér ferð á Smáratorg af því að mig vanhagaði um eitthvað sem ég hélt að fengist þar. Ég fór gangandi úr Hjallahverfinu, gekk eftir Kópavogsdalnum, og þar má segja að vel hafi tekist til. Lækurinn hjalaði og grasið bærðist í golunni. Svo kom ég að Sorpu, og það var svo sem allt í lagi, en ég fór heldur betur að vakna upp af draumórum mínum þegar ég kom að hringtorginu á Dalveginum við Digranesveginn. Bílarnir æddu og hvæstu og lækjarhjalið varð eins og fjarlægur draumur. Ég komst þó yfir götuna, hugsaði, „svona er að búa í borg", og fann búðina sem ég leitaði að en ekki hlutinn sem mig vantaði. Svo þá var eiginlega ekki um annað að ræða en koma sé yfir í Smáralind. Og ef ég reyni að finna einhverja náttúrulega líkingu, þá var fyrst eins og ég væri staddur á stórgrýttum eyðisandi, ægilegt bjarg slútti yfir og fór hækkandi en handan þess var beljandi jökulá með jakahlaupi. Það var ekki lengur neitt „svona er að búa í borg", heldur bara „hvernig datt mér í hug að fara hingað óvarinn? hvað er ég að gera hér gangandi?" Loks komst ég við illan leik inn í Smáralindina, og þá er maður kannski svolítið eins og genginn í björg, hvort sem það þykir gott eða vont.

Hvernig gat það annars gerst að þetta svæði, Smárinn, varð að þessum óskapnaði? Miðjan, sögðu athafnamennirnir. Miðjan. Hér er miðjan höfuðborgarsvæðisins, hér reisum við verslanir, hér verður miðstöð viðskiptanna. Hingað getur fólk komið akandi úr öllum áttum. Mjög rökrétt. En þetta er líka frekar skjólgott svæði með íbúðabyggð allt í kring, gamli Kópavogur að norðan, Smárarnir í vestri og suðri og Garðabær þar suður af, Lindirnar og Salirnir í austri auk Seljahverfisins í Breiðholti. Kópavogsdalurinn með gönguleiðum sínum liggur þarna norðan við, eins og fyrr segir, og skammt fyrir vestan er Smáraskóli og íþróttasvæðið.

„Hvernig gat þetta gerst?" hugsaði ég, þegar ég kom aftur út úr Smáralindinni (þvílíkt nafn!). Hefði ekki verið jafnrökrétt að hugsa þetta svæði sem vinalega miðju þessara íbúðahverfa, þar sem kannski hefðu þrifist litlar verslanir, veitingahús og skjólgóðar götur í tengslum við göngustígana í Kópavogsdalnum og aðra göngustíga í aðrar áttir. Gróðinn hefði kannski ekki verið jafnskjótfenginn, en sennilega skilað sér að lokum. Reyndar hefði jafnvel mátt hliðra aðeins til þannig að verslunarmiðstöð hefði fengið pláss svolítið lengra upp í brekkunni með tilheyrandi bílastæðum. En risastórar verslunarmiðstöðvar eru bara úreltar. Þegar reynt er að sporna við sívaxandi umferð og mengun er úrelt að þjappa allri verslun saman í stórum kjörnum þannig að allir þurfi að keyra langar leiðir til komast í þær, og jafnvel þótt stutt sé að fara er varla göngufært vegna bílaumferðar og gatnamannavirkja. Og ég held það sé ekki gott að ganga í björg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband