Við fórum tvö saman í 12 daga ferð um Serbíu í september 2007. Hér hef ég tekið saman svolitlar upplýsingar sem gætu kannski nýst öðrum sem vilja ferðast til og um Serbíu. Þetta er líka vistað á http://notendur.centrum.is/~einarol/serbiuferd.html
Ferðahandbók
Áður en við fórum tókst okkur ekki að finna neina ferðahandbók um Serbíu, hvorki í búðum né bókasöfnum. Og það tókst raunar ekki fyrr en við fórum í bókabúð í Belgrad. Þar fengum við ágæta bók á ensku. Vonandi mun hún fara að fást í bókabúðum og á bókasöfnum hér, en annars er ráðlegt að panta sér hana, t.d. gegnum Amazon. Bókin heitir:
Serbia. The Bradt Travel Guide eftir Laurence Mitchell. Útgefandi: Bradt Travel Guides. Ný útgáfa kom í júlí 2007, en við vorum með 1. útgáfu frá 2005.
Upplýsingar á netinu
Sjá hér að neðan.
Aðkoma og tungumál
Ekki hefur verið sérlega mikið um erlenda ferðamenn í Serbíu um langt skeið. Reyndar voru aðrir hluta Júgóslavíu meiri ferðamannalönd meðan hún var. Tilboð fyrir ferðamenn eru því tiltölulega fábreytt, en það er þó að breytast. En það er líka að mörgu leyti gaman að ferðast um slóðir þar sem lítið er um túrista og því full ástæða til að ferðast um Serbíu áður en það breytist. Þrátt fyrir þetta er að mörgu leyti mjög létt að ferðast um Serbíu ef maður er tilbúinn til að treysta svolítið á sjálfan sig, enda er gestrisni mikil, þægilegt viðmót og hjálpsemi.
Þótt almennt sé ekki mikil kunnátta í ensku eru allir tilbúnir til að reyna að skilja og gera sig skiljanlega. Oft má líka bjarga sér með þýsku ef maður þekkir einhver orð í því máli. Rétt er að hafa í huga að í Serbíu er notað kyrilískt letur, þótt latneskt letur sé líka algengt. Gott er að hafa við höndina blað með þýðingu stafanna yfir á latneskt letur. Það má finna víða á netinu, t.d. hér: http://home.unilang.org/wiki3/index.php/Serbian_alphabet.
Í flestum bæjum er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, en ekki alls staðar mjög beisin. Í Belgrad er hana að finna neðanjarðar á göngugötunni Knez Mihailova, rétt ofan við Repúblika-torgið (Trg Republike). Þar er m.a. hægt að fá frítt handhægt kort yfir borgina. Einnig eru upplýsingamiðstöðvar á járnbrautastöðinni og flugvellinum.
Ráðlegt er að leita uppi Repúblika-torgið fyrst af öllu, því að þaðan liggja allar leiðir um miðborgina. Þar skammt frá er ágæt bókabúð sem hefur m.a. bækur á ensku, IPS við Knez Mihaila 6. Snjallt er að fara þangað sem fyrst og spyrja um bókina A Guide to the Serbian Mentality eftir Momo Kapor. Með fyrrgreinda ferðahandbók og þessa bók í farteskinu er maður ansi góður.
Peningar og hraðbankar
Í Serbíu heitir myntin dinar. Í janúar 2008 jafngilti 1 serbneskur dínar 1,15 íslenskum krónum. Hraðbanka er víða að finna sem taka bæði Visa og MasterCard, en vissara er að taka út reiðufé og hafa á sér því að ekki er allsstaðar hægt að borga með korti og hraðbanka er ekki finna hvar sem er.
Leiðin og áfangastaðir
Við komum með lest frá Þýskalandi til Belgrad og vorum þar fáeinar nætur. Síðan ferðuðumst við með rútum milli borga hring um Serbíu. Við slepptum því að fara inn í Kósovó, þar eð ástandið þar var talið fremur ótryggt á þeim tíma.
1. dagur: Komið til Belgrad snemma morguns.
2. dagur: Belgrad
3. dagur: Dagsferð til Novi Sad. 1 ½ klst.
4. dagur: Belgrad.
5. dagur: Belgrad - Ni. 3 klst.
6. dagur: Dagsferð til Skopje í Makedóníu. 4-5 klst. (Þetta var reyndar alltof löng dagsferð, ferðin sjálf samtals um 9 klst. Hluti af þeim tíma var þó töf á landamærum, en það var líka venjuleg töf.)
7. dagur: Ni - Kraljevo. Rúmar 4 klst.
8. dagur: Kraljevo - Novi Pazar. 3 ½ klst.
9. dagur: Novi Pazar - Užice. 4 ½ klst.
10. dagur: Užice - Belgrad. 4 klst.
11. dagur: Belgrad.
12. dagur: Belgrad. Farið frá Belgrad að kvöldi.
Þessi ferð gaf ágætt yfirlit yfir Serbíu, en hins vegar dvöldumst við hvergi nema hluta úr degi að undanskildri Belgrad, þar sem við voru fjóra heila daga og náðum að kynnast tiltölulega vel. Auðvelt væri að gera meira úr ferðinni með því að lengja hana um nokkra daga og dveljast lengur á einhverjum stöðum. T.d. væri hægt að hafa lengri viðdvöl í Ni og fara til Skopje og dveljast þar yfir nótt. Einnig er auðveld dagleið til Sofiu í Búlgaríu en á sama hátt þyrfti þá að gista þar. Síðan væri hægt að taka aukadag í hvaða bæ sem er. Novi Pazar er forvitnilegur bær að því leyti að hann er einna austurlenskastur" af þessum bæjum. Eflaust er margt að sjá þar í kring. Vestast í Serbíu, þar sem leið okkar lá frá Novi Pazar til Užice, er hálendi og víða mjög fagurt. Á þeirri leið eru tveir bæir helstir, frekar litlir þó, Prijepolje og Nova Varo. Sá síðarnefndi er í rútuleið, en sé farið um Prijepolje þarf að taka lest áfram. En á leiðinni milli Nova Varo og Užice er Zlatibor, hálendi sem er vinsælt til sumarleyfisferða og reyndar líka til vetrarferða og skíðaiðkunar. Þar er eflaust hægt að finna gistingu og eyða nokkrum dögum. Frá þessu svæði er líka stutt yfir til Svartfjallalands eða Bosníu og Hersegóvínu. Í Zlatibor er töluvert um svokallaðan þorpatúrisma, sjá http://www.villageadventure.co.yu/. Meiri upplýsingar má fá með því einfaldlega að leita á vefnum undir orðunum village tourism serbia. Lengri dvöl í Užice gæfi sennilega líka ýmsa möguleika.
Að ferðast með rútum
Mjög auðvelt er að ferðast um Serbíu í rútum. Rútuferðir eru frekar tíðar og mjög ódýrar. Fargjaldið var milli 100 og 200 dínara miðað við hvern klukkutíma sem ferðin tók. Rétt er að athuga að auk fargjaldsins þarf venjulega að greiða sérstakt gjald fyrir þjónustuna á rútustöðinni, og er það innifalið í ofangreindu verði. Rúturnar eru raunar mjög misjafnar að gæðum, sumar nýjar og þægilegar, aðrar gamlar og sjúskaðar.
Þessi ferðamáti getur verið skemmtilegur þar sem maður ferðast með innfæddum og á þeirra hátt. En hann krefst þess að farangur sé ekki mjög mikill, og best er raunar að hafa bakpoka. Hins vegar er óþarfi að spara sér leigubíla, nema maður vilji frekar axla sinn poka og ganga, því að leigubílar eru mjög ódýrir. Við reyndum ekki að taka bílaleigubíl, en eflaust er hægt að ferðast milli bæja í rútu og leigja sér svo bíl til skoðunarferða út fyrir bæinn.
Gisting
Gisting er mjög ódýr. En gæði hótela eru líka mjög misjöfn og stærstu hótelin ekki endilega best. En hótelum er að fjölga og einnig gistiheimilum. Ekki er mikið um heimagistingu, eitthvað mun þó vera um hana í tengslum við þorpatúrismann.
Í Belgrad fórum við fyrst á stórt hótel í miðbænum, Hótel Slavija. Það er um tuttugu hæða bygging byggð upp úr 1960. Það var ríkisrekið og mun vera tengt hinu ríkisrekna flugfélagi Jat Airways. Það er skemmst frá að segja að það var í mikilli niðurníðslu, þannig að við hypjuðum okkur þaðan eftir eina nótt. Á okkar mælikvaða var gistingin þó ekki dýr, 4052 dínarar fyrir tveggja manna herbergi með morgunverði. Þó var hæsta verð sem við greiddum fyrir gistingu þær 11 nætur sem við voru í Serbíu. Í stað þess fundum við gistiheimili skammt frá járnbrautastöðinni og rútustöðinni og í göngufæri við miðbæinn, Corner Hostel (http://www.cornerhostel.com/). Þetta var nýtt gistiheimili á annarri hæð í gömlu fjölbýlishúsi, tvö herbergi með tveimur rúmum hvort í kojum og eitt herbergi með sex rúmum í kojum, sameiginlegt bað og eldhús þar sem hægt var að tylla sér. Þetta var mjög snyrtilegt, rekið af ungu fólki, vingjarnlegu og hjálpfúsu, mjög ákjósanlegur gististaður fyrir ungt fólk, en það fór líka mjög vel um okkur þarna þótt allir aðrir þar væru á aldur við börnin okkar. Þar kostaði nóttin fyrir tveggja manna herbergi 2615 dínara.
Í Ni gistum við á fyrri nóttina á Hótel Ambassador við aðaltorgið. Það er svipað og Hótel Slavija, frá svipuðum tíma í kassalaga háhýsi. Það var líka í niðurníðslu en þó skárra. Fyrir tveggja manna herbergi greiddum við 3670 dínara með morgunverði. Seinni nóttina gistum við á gistiheimili rétt við rútustöðina og markaðinn. Þetta er mjög snyrtilegt gistiheimili og staðsetningin góð fyrir svona rútubílaferðalanga. Tveggja manna herbergi kostaði 3600 dínara. Í Kraljevo gistum við í hóteli utarlega í bænum, Hótel Đerdan (http://www.djerdan.co.yu/), skammt frá hinu fornfræga Žiča-klaustri. Þetta er lítið hótel og mjög snyrtilegt mitt í stjálbýlu íbúðarhverfi þar sem kindur og geitur ganga í görðunum. Þarna er líka veitingahús með ágætum mat. Því miður glötuðum við reikningnum, en verðið var eitthvað svipað og annars staðar. Í Novi Pazar gistum við í stærsta hóteli bæjarins, Hótel Vrbak. Það á það sammerkt með Hótel Slavija og Hótel Ambassador að vera orðið dálítið snjáð en þó ekki í sömu niðurníðslu og Hótel Slavija. Það er eins og þau byggt einhvern tíma á mektarárum Júgóslavíu en þá er líkingin upptalin því að arkitektúrinn er gerólíkur og það er einhvern veginn ekki hægt að láta vera að gista þar allavega eina nótt. Og það er svo sem ekki dýrt ævintýri því að við borguðum 2200 dínara fyrir tveggja manna herbergi með morgunverði. Í flestum stærri bæjum virðist vera eitt svona aðalhótel og í Užice er það Hótel Zlatibor sem gnæfir yfir miðbæinn. En þar var unnið að endurbótum þannig að við fengum inni á Hótel Palas, sem einnig er í miðbænum, svolítið lúið en þó viðunandi. Það borguðum við 2480 dínara fyrir tveggja manna herbergi og morgunverð.
Veitingastaðir
Í Serbíu verður maður ekki svangur. Gnótt er af veitingahúsum, skyndibitastöðum og bakaríum auk kaffihúsa, en í Serbíu er mikil kaffihúsamenning. Eitthvað er af útibúum frá alþjóðlegum skyndibitakeðjum, en þau þvælast ekki fyrir manni og þarflaust að leita til þeirra. Í Belgrad er hægt að finna veitingahús af ýmsu tagi, en annars eru algengust veitingahús sem bjóða upp á hefðbundinn serbneskan mat og skemmtilegast er að leita þangað. Maður ber svo sem ekki mikið skynbragð á hvað er á matseðlinum, hvort sem hann er með kyrilísku eða latnesku letri, en þá er upplagt að spyrja þjóninn ráða. Þetta eru oft miklir kjötréttir og vel útilátnir. Ekki er ástæða til að spara við sig að borða á góðum veitingahúsum því að bæði matur og vín er ódýrt. Fyrir dýrindis máltíð fyrir tvo með flösku af víni borguðum við frá 2000 til 3500 dínara. Oftast er manni borið vín frá Svartfjallalandi, en einnig er hægt að fá ágæt vín frá Serbíu og Makedóníu.
Í Belgrad er sjálfgefið að leita uppi Skadarlija sem er Skadarska-gata ásamt næsta nágrenni. Þar eru veitingahús í röðum hvert öðru betra og á kvöldin ganga þar um tónlistarmenn og spila og syngja fyrir gesti. Við borðuðum fyrst á Tri Seira (Þrem höttum) og vorum ekki svikin en síðast á Dva jelena (Hreindýrunum tveim) og það var virkileg hátíð. Annað veitingahús annars staðar í borginni, sem er sjálfsagt að fara á, er staður sem kallast Spurningamerkið" (Znak Pidanje) eða reyndar bara ? og er við Kralja Petra-götu (Kralja Petra I) númer 6. Fyrst þegar inn er komið virðist þetta bara vera hverfiskrá, en matsalurinn er þar inn af. Og ef maður vill hverfa ofan í hámeninngarlegan kjallara er hægt að leita upp Rithöfundaklúbbinn (Klub književnika) við Francuska-götu 7. Ekki láta deigan síga þótt hvergi sjáist utan á að um veitingahús sé að ræða, gangið bara inn og leitið.
Fari maður til Ni er upplagt að fá sér að borða í gamla tyrkneska baðhúsinu (hamam), sem er rétt við markaðinn rétt utna við miðbæinn. Í Užice var okkur bent á tvö veitingahús skammt frá miðbænum, við götuna Karlja Petra I, milli Dosiljeva-götu og Il Proleterska-götu og hét annað Konak en hitt Aleksandar. Við borðuðum á því fyrrnefnda, það var öðrum þræði hverfiskrá en maturinn ágætur. Í Novi Pazar eru mörg veitingahús án vínveitinga enda mikið þar af múslímum. Þar lentum við reyndar á mjög hversdagslegu veitingahúsi, Ukus, skammt fyrir neðan Alem Akeh moskuna og borðum þar ágæta grænmetis- og kjötkássu með vatni og kostaði fyrir okkur tvö samtals 400 dínara.
Árstíminn
Að mörgu leyti var ágætt að vera í Serbíu í september. Við sáum varla aðra útlenda ferðamenn nema ungmennin sem gistu á sama gistiheimili í Belgrad. En veðrið var svolítið rysjótt, rigndi af og til og var þá svalt. Kannski er betra að vera heldur fyrr á ferð.
Fleiri upplýsingar:
National Tourist Organization of Serbia: http://www.serbia-tourism.org/
Novi Sad: http://www.novisadtourism.org.yu/
Belgrad: http://www.belgradetourism.org.yu/
Ni: http://www.nistourism.org.yu/
Kraljevo: http://www.jutok.org.yu/
Užice: http://www.turizamuzica.org.yu/
Zlatibor: http://www.zlatibor.org/ og http://www.zlatibor.com/
Þorpatúrismi: http://www.villageadventure.co.yu/.
Ýmsar upplýsingar og gisting:
http://www.hotels.co.yu/
http://telenetholidays.com/
http://www.serbia-visit.com/
Wikipedia: Tourism in Serbia
Wikitravel: Serbia (http://wikitravel.org/en/Serbia)
Ágætar upplýsingar um Serbíu og flesta stærri bæi og héruð þar má finna á Wikipedia.
Sjá nánar Dagbók úr ferð um Serbíu í september 2007.