Rússar troða illsakir við granna sína

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 6. des. var sagt frá auknum hernaðarumsvifum Rússa. „Rússar láta æ meir til sín taka á hernaðarsviðinu. Í ágúst hófu Rússar reglulegt eftirlitsflug með langdrægum flugvélum út fyrir lofthelgi landsins líkt og á dögum kalda stríðsins. Í haust hófu kafbátar þeirra eftirlitsferðir á Norður-Atlantshafi og nú er komið að Norðurflotanum.“

Síðan sagði fréttamaðurinn orðrétt: „Stjórn Pútíns hefur látið æ meir til sín taka á alþjóðavettvangi og ekki látið segja sér fyrir verkum. Stórauknar tekjur af olíusölu hafa eflt sjálfstraust Rússa og þeir troða illsakir við granna sína. Pútín vill að rússneski björninn geti enn sýnt hrammana en sofi ekki vært í hýði sínu. Útgjöld til heraflans hafa verið stóraukin. Erlendir hernaðarsérfræðingar segja þó fjarri lagi að Rússar séu jafn öflugt herveldi og fyrir fall Sovétríkjanna 1991.“

Það hefur löngum verið siður að nota einhverskonar myndhvörf um Rússland: „rússneski björninn“, og þau bjóða upp á að spinna áfram: „hann sýnir hrammana“ og “sefur ekki vært í hýði sínu“. Rússar eru óargadýr, þeir er ekki siðmenntaðir. Þess vegna er líka allt í lagi að segja að þeir „troði illsakir við granna sína“. Ætli ríkissjónvarpið íslenska hafi gert mikið úr því að sjálftraust Bandaríkjamanna hafi aukist eftir lok kalda stríðins og þeir farið að troða illsakir við önnur lönd?

Mér varð að orði að þarna vantaði fréttaskýringu. Hér kemur hún í stuttu máli:

Rússland hefur um langan aldur verið eitt af stórveldunum og Sovétríkin, þar sem Rússland hafði forystu, var annað tveggja risavelda. Eftir hrun Sovétríkjanna var Rússland áfram stórveldi, en ákaflega lemstrað. Önnur sovétlýðveldi urðu sjálftstæð og gömlu fylgiríkin austantjalds hölluðu sér til vesturs. Varsjárbandalagið var lagt niður.

En ekki NATO. Það fór að þenjast út til austurs. Austantjaldsríkin fyrrverandi eru gengin í NATO auk sovétlýðveldanna fyrrverandi við Eystrasaltið. Áður var Austur-Evrópa milli NATO og Sovétríkjana. Nú er NATO komið sumsstaðar upp að landamærum Rússlands. Það er helst að Úkraína sé á milli en NATO og Úkraína sem og NATO og Georgía hafa verið að þróa tengsl sín að undanförnu auk þess sem Bandaríkin hafa aðstoðað Georgíu við uppbyggingu herafla síns. Þá eru Bandaríkin með herstöðvar í einhverjum af hinu nýju NATO-ríkjum sem og í fyrrum Júgóslavíu og austur í Kirgistan og Úsbekistan.  

Það var ekki nóg með að bandalagssvæði NATO færi að þenjast út til austurs eftir lok kalda stríðins. NATO fór líka að færa starfsemi sína út fyrir bandalagssvæði sitt, en það hafði ekki gerst fyrr og var ekki gert ráð fyrir því í Norður-Atlantshafssamningum. Það hófst með afskiptum NATO af stríðinu í Bosníu 1994 en næsta skref var þó öllu umdeildara, loftárásirnar á Júgóslavíu 1999 í óþökk Rússlands og án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkin hófu líka að ráðast inn í önnur lönd, fyrst Írak 1991, svo Afganistan 2001 og aftur Írak 2003 án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Og NATO hefur komið í kjölfar innrásarliðsins bæði í Afganistan og NATO. Árið 2002 sögðu Bandaríkin upp ABM-samningnum um almennt bann við uppsetningu gagneldflauga gegn langdrægum eldflaugum, sem var mikilvægt skref í kjarnorkuafvopnun, og hefur síðan unnið að uppsetningu gagnflaugakerfis og hefur NATO komið að þeirri áætlun. Uppsagnir Rússa á afvopnunarsamningum hafa komið í kjölfarið.

Ef við horfum á kort sjáum að Rússland er girt af með herstöðvum Bandaríkjanna og NATO allt frá Eystrasalti suður um Evrópu og austur yfir allt til Pakistan auk þess sem NATO og Bandaríkin hafa gert innrásir í þrjú lönd í áttina að Rússlandi. Jafnframt hafa hernaðarútgjöld Bandaríkjanna farið vaxandi og með aðild sinni að NATO hafa sum nýju aðildarríkjanna skuldbundið sig til að auka hernaðarútgjöld sín. Bandaríkin og NATO hafa samráð við Rússa, bjóða þeim stundum að NATO-borðinu, en taka í raun sáralítið mark á þeim. Þannig er sífellt verið að ógna gamla heimsveldinu og jafnframt niðurlægja það.

Hverjir eru að troða illsakir við aðra? Hverjir sýna hrammana? Hverjir æða eins og óargadýra um allar þorpagrundir? Er von nema björninn rumski? Hverslags fréttaflutningur er þetta eiginlega?

Og svo má auðvitað spyrja: Er framferði Bandaríkjana og NATO vel til þess fallið að stuðla að heimsfriði? Hvað erum við yfirleitt að gera í þeim klúbbi?

Vopnasala og stríð

 
dagfari_nov_2007_1Nýlega kom út nýtt hefti af tímariti Samtaka hernaðarandstæðinga, Dagfara. Þetta hefti er nú aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni http://fridur.is/wp-content/skrar/dagfari-nov-2007.pdf Ég leyfi mér hér, með tilvísun til færslunnar hér að neðan frá 2. desember, að vitna í grein eftir einn af ritstjórum Dagfara, Þórð Sveinsson. Hann byrjar a að víkja að orsakasamhenginu milli tiltekinna ákvarðana og gerða annars vegar og illra örlaga fólks af holdi og blóði hins vegar og segir svo: 
Vopnasala og stríð 

Robert Fisk, blaðamaður og friðarsinni, tiltekur dæmi um þetta í bók sinni The Great War for Civilisation (2005) þar sem fjallað er ítarlega um það ófriðarbál sem um langt skeið hefur logað í Miðausturlöndum. Í kafla, sem fjallar um vopnasölu til þessa heimshluta, segir hann frá því hvernig honum tókst að rekja svonefnt „Hellfire“-flugskeyti, sem Ísraelsher notaði við dráp á óbreyttum borgurum, til framleiðenda þess (sjá bls. 761–788). Þessu flugskeyti var skotið úr ísraelskri herþyrlu af stuttu færi á sjúkrabíl í Suður-Líbanon árið 1996, en þá gerði Ísraelsher árásir á landið til að ganga milli bols og höfuðs á Hizbollah-samtökunum. Sjúkrabíllinn var troðfullur af óbreyttum borgurum á flótta. Flugskeyti ð fór inn um afturhurð sjúkrabílsins og sprakk þar innan um litlar stúlkur og nokkra fullorðna. Fjórar stúlkur og tvær konur létu lífið með miklum harmkvælum, en lýsingar sjónarvotta eru hryllilegar.  

Á einu af brotunum úr flugskeytinu má sjá framleiðslunúmer þess. Með þetta brot í farteskinu tókst Fisk að rekja það til þeirra tilteknu verksmiðja þar sem það var búið til og sett saman. Hann ræddi við yfirmenn verksmiðjanna og minnti þá á ábyrgðina sem þeir sem framleiðendur báru á hinum hræðilega dauðdaga fólksins í sjúkrabílnum. Hann sýndi þeim líka ljósmyndir af líkum þess. Þeim varð auðvitað mikið um við að sjá þessar myndir en afneituðu allri ábyrgð á hryllingnum.  

Þeir hafa ef til vill litið svo á að ekki væri hægt að kenna þeim um neitt. Þeir hafi aðeins framleitt vopnið og gætu ekki borið ábyrgð á eftirfarandi notkun þess. En hergögn eru framleidd til að vera notuð í átökum þar sem fólk lætur lífið. Þeir sem framleiða vopnin geta ekki látið eins og þessi beiting vopnanna komi þeim ekki við. Það er orsakasamhengi á milli þess þegar verksmiðja í Bandaríkjunum framleiðir flugskeyti og ísraelsk herþyrla skýtur því síðan á sjúkrabíl fullan af óbreyttum borgurum. Hergagnaverksmiðjan leggur sitt lóð á vogarskálarnar til að gera slíka morðárás mögulega. 
Í framhaldi af þessu víkur Þórður svo að tengslum heræfinga og stríðs með skírskotun til heræfinga NATO hér og voðaverka NATO-herja í Afganistan. Vísa ég þá á  ofangreinda slóð á fridur.is. Grein Þórðar er á bls. 32.

Landsbankinn og Marel í hergagnaframleiðslu

Hvernig er með svokallað samfélagslega ábyrgð fyrirtækja? Það er hægt að styrkja menninguna hist og pist, það er hægt að vera voða fínir frumkvöðlar og allt það, en þegar hagnaðarvonin stjórnar er ekki spurt hvaðan hagnaðurinn kemur. Eftirfarandi birtist á Friðarvefnum 2. des.:

Föstudaginn 30. nóvember birtust tvær litlar en athyglisverðar fréttir í Fréttablaðinu. Hin fyrri bar fyrirsögnina: Eyrir Invest og Landsbankinn gerðu tilboð um að taka yfir Stork N.V. í Hollandi: Taka þátt í hergagnaframleiðslu.

Samkvæmt fréttinni eiga Íslendingar með þessu í fyrsta sinn svo vitað sé með beinum hætti hlut í félagi sem framleiðir hergögn. Um er að ræða iðnaðarsamstæðuna Stork N.V. í Hollandi sem þjónustar hergagnaiðnað og smíðar hluti sem notaðir eru í margvíslegum lofthernaði auk þess að sinna viðhaldi. Eyrir Invest, Marel og Landsbankinn hafa átt í þessu félagi, segir blaðið. Stork N.V. er skipt í fjögur svið, þar á meðal Stork Food Systems og Stork Aerospace. Samkvæmt annarri frétt í sama blaði er stefnt að hlutafjárútboði Marel Food Systems eftir áramótin til að fjármagna kaup félagsins á Stork Food Systems.

Þetta er reyndar ekki alveg ný frétt. Í júlí síðastliðnum birti stjórnarformaður Marel Food Systems yfirlýsingu um að LME, félag í eigu Landsbanka Íslands, Marel Food Systems og Eyris Invest, hafi eignast um 19,50% hlut í Stork N.V. fyrirtækjasamstæðunni. LME er því stærsti einstaki hluthafinn í Stork N.V., segir í yfirlýsingunni (sjá hér). Þannig eiga þessi íslensku fyrirtæki ekki bara hlut í matvælaframleiðslusviði fyrirtækisins heldur fyrirtækinu sjálfu með því sviði sem sinnir hergagnaframleiðslunni.

Það er Stork Aerospace sem sinnir hergagnaiðnaðinum og er lauslega gerð grein fyrir þeirri starfsemi í fyrri frétt Fréttablaðsins:

    „Stork Aerospace framleiðir meðal annars hluti í F-16 orrustuþotur Lockheed Martin, kemur að smíði stéls og fleiri hluta í NH90 herþyrlunni fyrir Eurocopter og smíðar vélarhluta í Tiger-bardagaþyrluna. Þá er hergagnaframleiðandinn Raytheon meðal viðskiptavina Stork, en fyrirtækið kemur meðal annars að gerð skotrörs MK56-eldflaugaskotpallsins. Sömuleiðis framleiðir Stork búnað fyrir hergagnaframleiðandann Thales.

    Í fyrra nam velta Aerospace, hluta Stork N.V., 549 milljónum evra, eða um fimmtíu milljörðum króna. Í framleiðsluhluta Stork Aerospace falla 53 prósent undir loftvarnasvið, en 47 prósent undir borgaralegan flugiðnað. Í þjónustuhlutanum nemur hlutdeild loftvarna hins vegar ellefu prósentum.

    Eignarhaldsfélagið LME hafði safnað að sér 43 prósenta hlut í iðnaðarsamstæðunni Stork N.V. í Hollandi. Með yfirtöku Marels á Stork Food Systems, sem er nú að ganga í gegn, selur LME allan hlut sinn. Eyrir Invest og Landsbankinn, sem áttu LME með Marel, taka þátt í yfirtökutilboði London Acquisition á Stork N.V. Eyrir Invest fer með fimmtán prósenta eignarhlut í London Aquisition og Landsbankinn tíundapart.“

    (www.visir.is/article/20071130/FRETTIR01/111300231)

24 stundir taka fréttina upp laugardaginn 1. desember. Þar er sagt að Marel dragi sig út úr Stork N.V. en eignist eitt dótturfélaga þess, Stork Food Systems. Eyrir og Landsbankinn munu þó áfram eiga í Stork N.V. Þess má geta að Eyrir er nátengt Marel, en einn af aðaleigendum þess, Árni Oddur Þórðarson, er stjórnarformaður Marels. Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems, staðfesti samkvæmt frétt 24 stunda að Marel ætti í Stork Aerospace. „Hinsvegar segir hann fyrirtækið ekki framleiða vopn heldur taki t.d. þátt í framleiðslu á hlutum í orrustuflugvélar.“

Fleiri fréttir um þetta hafa birst í íslenskum fjölmiðlum eins og sjá má ef sett eru inn orðin „marel“ og “stork“ á leitarvélar á netinu. Þar hefur þó yfirleitt ekki verið lögð áhersla á hergagnaframleiðsluna.

Í frétt Fréttablaðsins er getið um þátt Stork í framleiðslu F-16 orrustuþotna Lockheed Martin, sem er einn af mikilvægari hergagnaframleiðendum í Bandaríkjunum, en fyrirtækið hefur átt þátt í fleiri vörum Lockheed Martin eins og sjá má af frétt í Defense Industry Daily 21. nóv. 2005.


Chavez vill aukin völd - eða vill hann kannski bæta kjör alþýðunnar?

Það er alltaf jafnfróðlegt að lesa fréttir af Hugo Chavez forseta Perú.  Fyrirsögn þessarar fréttar er í sjálfu sér rökrétt og eðlileg, fréttin snýst um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem lagt er til að kjörtímabil forsetans verði lengt og aflagðar takmarkanir á hversu oft hann geti verið endurkjörinn. Hins vegar er ekki alveg ljóst hvað felst í því að koma eigi upp sósíalísku hagkerfi. Því miður hefur mér ekki gefist tími til að kynna mér það og reyndar er það auðvitað hart að maður þurfi alltaf að vera að leita sér nánari upplýsinga til að skilja hvað felst í fréttum fjölmiðlanna. Við fáum nefnilega mjög takmarkaðar fréttir um hvað er í gangi í Venesúela. Það kemur frétt af því að Chavez vilji aukin völd, það er fyrirsögnin, en einhversstaðar aftast í fréttinni kemur fram í einni setningu að hann vilji "stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 stundir, efla dýr félagsleg kerfi, efla læsi meðal íbúa landsins og bæta heilsugæslu meðal fátækustu íbúanna". Ég ætla ekki að verja það fyrirvaralaust ef verið er að skerða lýðræði, ritfrelsi og mannréttindi í Venesúela, en mættum við kannski líka fá að heyra um hið jákvæða sem þar er í gangi fyrir snauða alþýðu. Það vill svo til að ég hef eitthvað frétt af því með ráfi um netið, en íslenskir fjölmiðlar eru sparir á þær fréttir, það fær svo sem eina til tvær línur í fréttinni, ef það kemst yfir leitt inn. Skringisögur af Chavez eru hins vegar vinsælar.

 

Fróðleiksfúsum, sem hafa tíma og geta lesið ensku, mætti kannski benda á þetta:

http://www.zmag.org/venezuela_watch.cfm

http://www.venezuelanalysis.com/


mbl.is Chavez vill aukin völd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á leið til ánauðar: Opið bréf til hernaðarandstæðinga

Mig langar til að vekja athygli á eftirfarandi bréfi frá Elíasi Davíðssyni sem birtist á Friðarvefnum:

 

Við erum öll samherjar gegn hernaðarhyggju og hernaði. Þess vegna sperrum við eyrun í hvert skipti sem við höfum heyrt minnst á „varnir“ eða „hervarnir“. Andstæðingar friðar, velferðar og réttlætis breyta stundum um áherslur. Við verðum þá einnig að geta endurskoðað áherslur okkar.

Meðan Sovétríkin voru til, notuðu andstæðingar okkar tilvist Sovétríkjanna til að sanna þörf á öflugum hervörnum fyrir þjóðum Vesturlanda. Áherslur NATO og Vesturlanda voru á sviði vígbúnaðar og hervæðingar. Eftir að Sovétríkin liðu undir lok, urðu Vesturlönd að leita sér að nýjum óvini til að tryggja í fyrsta lagi samstöðu sína (sem bandalag auðvaldsríkja) og í öðru lagi styrk hergagnaiðnaðarins. Óvinurinn fannst, í gervi alheimssamsæris múslimskra hryðjuverkahópa. Þessi óvinur hefur marga „kosti“ umfram sovésku ógnina. Kenningin um þessa ógn byggist á því að hún sé samofin múslimatrú og geti því sprottið fram í huga hvaða múslima sem er. Af þeim ástæðum telja ráðamenn Vesturlanda að þessi ógn sé langvarandi, og að ekki sé unnt að uppræta hana nema með því að íslamstrú breytist. Ógnvaldur þessi mun því tryggja samstöðu auðvaldsríkja út alla öldina, og um leið tekjur allra fyrirtækja sem taka þátt í vörnum gegn þessari ógn.

Þótt hernaðaröflin séu enn að verki og verktakar stríðsrekstrar mali gull, hafa áherslur breyst: Í fyrsta lagi er sjaldnar talað um „hervarnir“ til að réttlæta stefnu NATO, heldur rætt um nauðsyn þess að efla lýðræði í heiminum. Skoða ber aukna samvinnu NATO og Evrópusambandsins í þessu ljósi. Þessi stefna birtist m.a. í aukinni umfjöllun fjölmiðla um mannréttindabrot í Afríku og Asíu, sem á að liðka fyrir stuðningi almennings við stefnu NATO í þriðja heiminum. Í öðru lagi, og það varðar okkur hérna alveg sérstaklega, er rætt um nauðsyn á öryggisráðstöfunum gegn hryðjuverkum, alþjóðlegri glæpastarfsemi, mansali og öðrum fylgifiskum hnattvæðingar. Öryggishugtakið hefur nú bæst ofaná varnarhugtakið. Til að festa öryggishugtakið í sessi þarf að hræða fólk með því að það sé ekki öruggt. Áróðurinn um óöryggi er margbrotinn, en hér verða aðeins nefndar þrjár greinar hans:

  1. Áróður um minnkandi öryggi í heimahúsum. Það eru tvö markmið hér. Annars vegar að fá sem flesta til að kaupa öryggisþjónustu á „markaðnum“ til viðbótar við meintar vanefndir lögreglunnar við að gæta öryggis almennra borgara. Hins vegar að draga úr gagnkvæmu trausti meðal íbúa, sem er auðvitað besta og ódýrasta öryggisvörnin, en dregur úr þörf fyrir umsvif lögreglunnar.
  2. Áróður um minnkandi öryggi á almannafæri. Markmið þessa áróðurs er að sætta íbúa við aukið eftirlit myndavéla á almannafæri og auknar fjárveitingar til löggæslu.
  3. Áróður um hryðjuverkaógnina. Eins og áður er getið, er hryðjuverkaógnin orðin staðgengill Rússagrýlunnar sálugu. Bæði NATO og Evrópusambandið hafa sett baráttuna gegn hryðjuverkum efst á verkefnaskrá sína. Fáir gera sér hins vegar grein fyrir að hryðjuverkaógnin á Vesturlöndum er að miklu leyti tilbúningur. Í flestum Evrópuríkjum hefur aldrei nokkur maður látið lífið í hryðjuverkum. Árið 2006 dó enginn maður í allri Evrópu í hryðjuverkum, en til samanburðar dóu sama ár um 20.000 manns í almennum manndrápum. Sú tala þótti þó ekki sérstaklega ógnvekjandi og varð ekki tilefni til sérstakra ráðstafana á vegum Evrópuríkja. Árið á undan dóu rúmlega 50 manns í London í meintri hryðjuverkaárás, sem margir Bretar telja hafi verið skipulögð af bresku leyniþjónustunni í samvinnu við fyrirtækið Visor Consultants. Það er því ekki tilviljun, að engar tölur um mannfall af völdum hryðjuverka finnast í skýrslum NATO, Evrópusambandsins eða Sameinuðu þjóðanna um hryðjuverkaógnina. Slík blekking á sér varla hliðstæðu í nútímanum.

Frá því á árinu 2004 hafa 8 frumvörp til laga verið lögð fram á Alþingi, sem vísa til hryðjuverkaógnarinnar. Hvergi í athugasemdum með frumvörpunum er vikið að umfangi þessarar ógnar, né skýrt hvers vegna löggjafinn þurfi að skilgreina hryðjuverk sérstaklega þegar öll ofbeldisverk eru þegar refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum. Alþingismenn hafa ekki heldur beðið um forsendur þessara ákvæða. Okkur er stundum sagt að Ísland verði að framfylgja reglum Evrópusambandsins, hvort sem okkur líkar betur eða verr. En þegar leitað er að forsendum Evrópusambandsins fyrir nauðsyn á sérstökum ráðstöfunum gegn hryðjuverkum, kemur maður einnig að tómum kofa. Þar er ekki að finna neinar forsendur, aðeins almennar staðhæfingar um ógn sem ekki er til. Í skugga almennrar trúgirni er verið að læða inn lögum sem gætu orðið lýðræðinu að falli.

Það er því eðlilegt að spurt sé: Hvers vegna er verið að þyrla upp ryki hryðjuverkaógnar, og breyta lögum vegna ógnar sem varla er fyrir hendi? Til að svara þessari spurningu er ekki unnt að einblína á þennan málaflokk einan. Það er nauðsynlegt að átta sig á því að við fall Berlínarmúrsins ákváðu ráðamenn heimsins að koma Nýrri heimsskipan (New World Order) á laggirnar. Það var fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush eldri, sem orðaði þessa stefnu fyrst árið 1991. Í þessari heimsskipan er aðeins gert ráð fyrir einni stjórn, myndaðri af ráðamönnum iðnaðarríkja með Bandaríkin og Bretland í forystuhlutverki. Samræming á stefnu þessara ríkja fer fram innan nokkurra stofnana sem almenningur fær ekki að fylgjast með, þ.m.t. G-8 hópnum, Bilderberg-klúbbnum og Þríhliðanefndinni (Trilateral Commission), svo eitthvað sé nefnt. Í þessum stofnunum leika fáeinir einstaklingar á borð við David Rockefeller, Henry Kissinger og arftaka þeirra lykilhlutverk í að móta langtímastefnu auðvaldskerfisins.

NATO og Bandaríkjunum er ætlað að tryggja öryggi þessa nýja heimskerfis og styrkja yfirráð þess yfir ríkjum sem enn streitast að viðhalda sjálfstæði sínu, en stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðviðskiptastofnunin og ýmsar bankastofnanir, sem fæstir vita um (t.d. BIS í Basel), tryggja óbreytta fjármálastjórn í þágu hinna ríku. Til að tryggja stuðning almennings við þessa stefnu er stjórnvöldum hvers ríkis nauðsynlegt að búa til óvin. Ekkert virkar betur til þess en að búa til goðsögn um djöfullega hryðjuverkamenn sem leynast í gervi saklausra múslima. Ekkert er jafnáhrifamikið og ótti við óáþreifanlega hættu. Auðvelt er að tileinka óþekktum leynisamtökum múslima ásetning og getu til að tortíma heiminum öllum með kjarnorku- eða lífefnavopnum. Með því að valda ótta geta stjórnvöld síðan boðist til að vernda almenning gegn hinni meintu hættu.

Jafnhliða gerir ráðandi stétt heimsins ráð fyrir að almennir borgarar kynnu í framtíðinni að sjá í gegnum blekkingavefinn og hefja skipulegt andóf gegn ríkjandi kerfi. Til þess að kæfa slíkt andóf í fæðingu undirbúa stofnanir auðvaldsins víðtækt eftirlitskerfi með borgurunum. Á vegum vestrænna ríkja, ekki síst Evrópusambandsins, er verið að undirbúa víðtækt eftirlit með borgurunum, á öllum sviðum. Eftirlitskerfi lögreglunnar á tímum nasista og kommúnistastjórna mun þykja viðvaningsverk í samanburði við það sem er nú í smíðum. Verið er að stefna samfélögum okkar í átt að Orwell-ríki, þar sem allar athafnir hvers einstaklings, frá vöggu til grafar, verða skráðar og tiltækar þeim sem valdið hafa. Hér er ekki rými til að tiltaka allar hugmyndir sem eru annaðhvort á teikniborðinu eða þegar komnar til framkvæmda. Flestum er ekki ljóst hve langt á veg við erum þegar komin á leið í þetta framtíðarríki. Þótt margt í þessum undirbúningi fari fram fyrir luktum dyrum, er unnt að finna ógrynni opinberra upplýsinga um þennan undirbúning, m.a. í skjölum Evrópusambandsins.

Hér er listi yfir 23 ráðstafanir sem þegar hafa verið gerðar eða eru í undirbúningi. Sumar þeirra eru þegar orðnar að lögum á Íslandi.

  1. Hervæðing borgaralegra stofnana;
  2. Sérstök hryðjuverkalög með tilheyrandi skerðingu mannréttinda;
  3. Ítarlegar „öryggisráðstafanir“ á flugvöllum;
  4. Víðtæk lög gegn hryðjuverkavá á skipum og í höfnum;
  5. Útvíkkaðar heimildir lögreglunnar til símahlerana;
  6. Eftirlit með tölvupósti og reglur um gagnageymslu netþjóna;
  7. Eftirlit með vefheimsóknum;
  8. Auknar heimildir til húsaleitar;
  9. Leynilegt eftirlit með peningasendingum einstaklinga í gegnum bankakerfið;
  10. Lög sem skylda einstaklinga til að veita bönkum upplýsingar um eigur, skuldir og tekjur;
  11. Söfnun persónuupplýsinga á heilbrigðissviðinu á vegum stórfyrirtækja;
  12. Söfnun upplýsinga um nemendur í miðlæga gagnabanka (á tilraunastigi í Bretlandi);
  13. Upplýsingar um flugferðir einstaklinga, sendar sjálfkrafa til bandarísku leyniþjónustunnar;
  14. Uppsetning eftirlitsmyndavéla á almannafæri;
  15. Uppsetning eftirlitsmyndavéla í skólum og öðrum opinberum stofnunum;
  16. Auknar lagaheimildir til einkarekinna öryggisfyrirtæka;
  17. Stafræn vegabréf;
  18. Söfnun DNA-upplýsinga og fingrafara í alþjóðlegum gagnabönkum;
  19. Alþjóðavæðing lögreglustarfa;
  20. Undanþágur frá lögum handa ýmsum hópum embættis-, lögreglu og hermanna sem kynnu að fremja brot;
  21. Tillögur á vegum ESB um GPS-tæki í bílum, svo lögreglan geti fylgst með ferðum hvers ökutækis og staðsetningu þess;
  22. Þróun tækja sem senda frá sér staðsetningu einstaklinga til gervihnatta og unnt er að festa undir húðinni;
  23. Þróun örsenda sem yrðu byggðir inn í einstökum vörum og gera kleift að fylgja vörunni frá verslun til neytandans.

 

 


Er ekki nóg komið?

Það fer nú að verða ansi þreytandi þetta auðkýfingalið hérna. Ég skrapp í matartímanum út af vinnustaðnum mínum hérna við Tryggvagötuna til að líta framkvæmdirnar bakvið Hafnarhúsið. Og það sem þar er búið að setja upp til að hýsa brúðkaup Baugsparsins er ekkert venjulegt tjald heldur hreinasta stórhýsi sem er sett á almannasvæði, bílastæði hafnarmeginn við Hafnarhúsið. Þetta munu vera 15-20 bílstæði, sem þýðir að meðan þetta brúðkaupshús stendur þarna eru að staðaldri 15-20 manns í meiri bílstæðavanda en ella. Stæðið er frátekið fyrir brúðhjónin í 14 daga. (það kemur svo sem ekki við mig persónulega – ég tek bara strætó, en hvenær taka auðkýfingarnir strætó á leigu þannig að almenningur verði bara að koma sé milli staða á nnnan hátt?) Að auki lokar húsið aðgangi að Grafíksafninu þannig að listamenn, sem þar ætluðu að setja upp sýningu og hafa undibúið hana lengi, þurfa að fresta opnuninni í viku. Framkvæmdastjóri bílastæðasjóðs segir að bílastæði séu leigð út hér og þar um borgina fyrir ákveðna atburði og nefnir sem dæmi Airwaves hátíðina, en í því tilviki hafi þó stæðin aðeins verið lokuð í einn sólarhring. Það er þó ólíku saman að jafna, almennan menningarviðburð eða einkasamkvæmi. Þó svo auðkýfingurinnn borgi 400 þúsund fyrir þetta, þá er alls ekki sjálfgefið að einhverjir auðmenn eigi endalaust að geta keypt upp almannasvæði eða almannagæði. Er ekki nóg komið?

 

Sjá nánar: http://www.visir.is/article/20071112/FRETTIR01/71112064


Októberbyltingin 90 ára

Níutíu ár eru liðin frá þeim degi sem venjulega er talinn dagur rússnesku byltingarinnar. Þessi bylting gaf mörgum von og var að sumu leyti framfaraskref, en hún hafði líka skelfilegar afleiðingar. Þegar við metum þessa byltingu nú níutíu árum seinna og sextán árum eftir að Sovétríkin voru leyst upp (8. desember 1991), þá er mikilvægt að horfa á allt samhengið.

Raunveruleg samfélagsbylting verður aldrei á einum degi. Sjöundi nóvember 1917 var dagurinn sem bolsévíkar tóku völdin. Þótt bolsévíkar hafi á þessum tíma verið fámennur hópur, þá var ekki um að ræða einbert valdarán fámenns hóps. Aðdragandi byltingarinnar var langur og sjálf byltingin hófst með uppreisn verkamanna og hermanna í febrúar 1917. Keisarastjórnin féll og borgaraleg bráðabirgðastjórn var mynduð. En byltingarþróunin hélt áfram, bráðabirgðastjórnin var ekki í takt við hana, réði ekki við ástandið og til varð það sem Lenín kallaði tvíveldi. Önnur stjórn, Pétursborgarráðið (Petrograd Soviet), varð til í takt við byltingarþróunina. Róttækir sósíalistar réðu því. Þróunin var mjög hröð, bolsévíkaflokkurinn var lítill flokkur en skipulagður og hafði skilning á stöðunni og skipulagði valdatökuna, það er að segja þá aðgerð sem batt endi á tvíveldið, sem auðvitað hlaut að taka endi einhvern veginn.

Það er alltaf erfitt að spá um þróunina ef einhverjir atburðir hefðu orðið öðruvísi. Hvað hefði gerst ef bolsévíkar hefðu ekki tekið af skarið í byrjun nóvember 1917. Hefði byltingarþróunin verið stöðvuð með valdi? Verkalýðurinn var meira og minna óskipulagður. Með því að skipuleggja valdatökuna voru bolsévíkar að koma í veg fyrir þann hugsanlega og jafnvel líklega möguleika að byltingin yrði kæfð með ofbeldi. En sagnfræði í þáskildagatíð er ekki góð sagnfræði.

Iðnvæðing var hafin í Rússlandi fyrir byltinguna en kjör alþýðu voru mjög slæm og arðrán mikið. Byltingin varð til þess að hraða iðnvæðingunni og kjör alþýðu bötnuðu. En byltingarstjórnin stóð frammi fyrir gífurlegum erfiðleikum. Ástandið í landinu var slæmt eftir þátttökuna í heimsstyrjöldinni og ekki bætti úr skák að Vesturveldin gerðu innrás í Rússland til að bæla niður byltinguna. Alls tóku fjórtán ríki þátt í þessari innrás. Þetta vill oft gleymast þótt innrásir Sovétríkjanna í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu gleymist seint.

Efnahagsþróuninni fylgdi ekki lýðræðisþróun. Að sumu leyti verður þar að líta til þessarar innrásar og gagnbyltingastarfs sem naut stuðnings Vesturveldanna. Það var styrjaldarástand til að byrja með. Ekki verður þó allt afsakað með því. Það má gagnrýna lýðræðisskilning bolsévíkanna. Þeir voru kannski einum of vissir um að þeir væru handhafar sannleikans sem réttlætti skoðanakúgun. Ástandið ýtti svo undir þetta. Forystumenn bolsévíka, ekki aðeins Stalín heldur líka Lenín, Trotskí og fleiri, hafa verið taldir miskunnarlausir harðstjórar. Þó er hæpið annað en Lenín og Trotskí, og kannski líka Stalín í byrjun, hafi fyrst og fremst haft hag alþýðu í huga þegar þeir gerðust byltingarsinnar. Hafi þeir ætlað að skara elda að sinni köku, þá hefðu aðrar leiðir verið þeim auðveldari. En allir gátu þeir verið miskunnarlausir í hugsjónastarfi sínu, tilgangurinn helgaði oft meðalið. Það er síðan erfitt að greina að eggið og hænuna þegar kemur fram á Stalínstímann. Var Stalín orsök ástandsins eða afleiðing? Eflaust er um víxlverkun að ræða. Stalín skapaði ekki alfarið það ástand sem stjórnartíð hans einkenndist af, að sumu leyti spratt það af einsflokkskerfinu og tortryggni sem hafði grafið um sig frá upphafi gagnvart hugsanlegum gagnbyltingarmönnum. Kerfið úrkynjaðist. Ástandið varð mjög fljótt sjúkt án þess að hægt sé að kenna neinum einum forystumanni um það. Stalín gerði það hinsvegar illt verra. Sleppum þáskildagatíðinni: hvað mundi hafa gerst ef, – t.d. ef Trotskí hefði tekið við í stað Stalíns?

Ef við lítum til baka, þá er eðlilegt að margir hafi hrifist af rússnesku byltingunnni í upphafi. Verkalýðsstéttin á Vesturlöndum bjó við mjög bág kjör og arðrán var mikið. Og ekki var ástandið betra hjá alþýðu manna í öðrum heimsálfum. Um allan heim kraumaði byltingarhreyfingin, ekki bara í fámennum byltingarsinnuðum flokkum, heldur meðal alþýðunnar. Það lá við byltingu í Þýskalandi árið 1918, í borgarastyrjöldinni á Spáni 1936 til 1939 voru kommúnistar og anarkistar í fararbroddi gegn Franco. Aðeins tveim áratugum eftir lok fyrri heimstyrjaldarinnar hófst önnur heimsstyrjöld, hálfu verri en hin fyrri. Að henni lokinni sá borgarastéttin á Vesturlöndum þann kost vænstan að samþykkja kröfur alþýðu um styrkara velferðarkerfi. Að sumu leyti var það vegna styrks verkalýðshreyfingarinnar og þar skipti fyrirmynd Sovétríkjanna og hinna nýju sósíalísku ríkja máli, því að þrátt fyrir kúgunina í þessum ríkjum, þá gat verkalýður Vesturlanda líka að vissu leyti horft til þess félagslega kerfis sem þar hafði verið byggt upp. En að vissu leyti hafði borgarastéttin á Vesturlöndum reyndar líka hag af uppbyggingu velferðarríkisins um skeið þar til hún fór að sjá sér meiri hag í að brjóta velferðarkerfið niður og taka að sér að reka þá starfsemi þess sem hægt er að hagnast á. En það er önnur saga.

Það er svolítið merkilegt að það gerist á sama tíma að sósíalísku ríkin líða undir lok og nýfrjálshyggjan verður ráðandi. Staðan í heiminum er mjög nú mjög ólík því sem hún var á fyrstu tveim til þrem áratugunum eftir seinni heimstyrjöldina. Þá var einhverskonar sósíalískt kerfi í stórum hluta heimsins, þjóðfrelsishreyfingar hins svokallaða þriðja heims höfðu sósíalisma meira og minna að leiðarljósi, velferðarríkið virtist standa styrkum fótum víða á Vesturlöndum, sósíalismi og kommúnismi voru stefnur sem þótti ekki tiltökumál að ungt fólk aðhylltist. Nú eru sósíalísku ríkin horfin og flestir eru sammála um að þau hafi verið svo meingölluð að lítil eftirsjá sé að þeim. Hinsvegar hefur hrun þeirra ekki alltaf orðið alþýðunni til hagsbóta. Í Rússlandi sjá margir eftir hinum meingölluðu Sovétríkjum. Það sem áður var sameign almennings hefur lent í höndum fáeinna nýríkra manna. Velferðarkerfið, hversu gallað sem það var, er horfið. Sama hefur gerst á Vesturlöndum. Raunverulegt lýðræði er takmarkað vegna gífurlegra valda tiltölulega fámenns hóps auðmanna eða stórfyrirtækja. Arðrán á heimsvísu er geigvænlegt. Umsvif stórfyrirtækjanna eru ógn við bæði náttúrlegt umhverfi og samfélagið.

Sú gífurlega misskipting auðs og valda og sú hugmyndafræði stöðugs vaxtar og gróða, sem nú er ríkjandi, getur ekki staðist til lengdar. Kannski er þörf á miklu djúptækari breytingum en urðu með byltingum tuttugustu aldarinnar. Því að þrátt yfir allt voru þær ansi takmarkaðar. Grunnhugmyndafræði nítjándu aldarinnar, hin tæknilega rökhyggja, var ríkjandi jafnt í hinum sósíalíska sem hinum kapítalíska heimi tuttugustu aldarinnar. Bylting tuttugustu og fyrstu aldarinnar þarf að komast út fyrir þessa hugmyndafræði. Við þurfum ekki aðeins að læra af mistökum rússnesku byltingarinnar heldur líka af takmörkunum hennar. Hún var í rauninni aldrei nógu róttæk – og sennilega gat hún ekki orðið það á þeim tíma.

Sjá nánari pælingar í tveim gömlum greinum:

Sósíalisminn: hugmynd sem var?

Upphaf og hnignun sósíalískrar menningar


Vopnaframleiðendur efla liðsandann á Hilton Nordica hóteli í Reykjavík

Eftirfarandi grein birtist á Friðarvefnum 30. október.

30. október 2007

eurofighter Hér munu nú vera staddir á hinu nývígða Hilton Nordica hóteli um þrjátíu háttsettustu yfirmenn vopnaframleiðslufyrirtækisins BAE. Vísir hefur séð sóma sinn í að flytja af þessu fréttir í dag og hefur meðal annars leitað álits formanns SHA Stefáns Pálssonar:

„Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segist ekkert sérlega hrifinn af veru forsvarsmanna BAE hér á landi. „Þetta eru að mínu mati mun hættulegri menn en þeir sem hugðust taka þátt í hinnu miklu klámráðstefnu,“ segir Stefán sem minnir á að hópur manna úr klámiðnaðinum sem hugðist koma í hópeflisferð hingað til lands hætti við vegna viðbragða almennings. „Ég minnist þess sérstaklega að þegar klámráðstefnumálið kom upp fór þáverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fram á það við lögreglu að hún rannsakaði hvort þeir aðilar væru viðriðnir lögbrot í heimalöndum sínum. Má maður þá ekki spyrja hvort ekki sé jafnvel enn frekara tilefni til hins sama nú,“ spyr Stefán.“

Samkvæmt upplýsingum Vísis eru þessir yfirmenn BAE hér í liðstyrkingu (team building) og verða fram á föstudag. Þetta eru yfirmenn „land armaments“ deildar fyrirtækisins, en sú deild hefur umsjón með framleiðslu á vopnum sem nýtast á landi, svo sem skriðdreka, stórskotalið, byssur og skotfæri. Vísir hefur reyndar eftir John Suttle, starfsmannastjóra fyrirtækisins, að fyrirtækið framleiði bara varnarbúnað: „Ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að við erum aðallega í því að framleiða búnað sem ver hermenn gegn árásum. Slagorð okkar er: Við verjum þá sem verja okkur.“

Þetta fyrirtæki heitir BAE Systems. Höfuðstöðvar þess eru á Englandi en samkvæmt heimasíðu þess er framleiðsla þess fyrst og fremst á sviði varna og geimtækni í lofti, á landi og legi (defence and aerospace systems in the air, on land and at sea). Þetta er þriðja stærsta fyrirtæki heims á þessu sviði og hið stærsta í Evrópu, starfsmenn þess eru um 96 þúsund. Það varð til árið 1999 við samruna tveggja breskra fyritækja, Marconi Electronic Systems (MES), sem var dótturfyrirtæki The General Electric Company plc (GEC) og British Aerospace (BAe). Það hefur að undanförnu lagt áherslu á að auka starfsemi sína í Bandaríkjunum og er nú sjötta stærsta fyrirtæki þar á sínu sviði. Í frétt Vísis kemur reyndar fram að Reykjavík hafi orðið fyrir valinu fyrir þetta hópefli yfirmannanna vegna staðsetningar hennar milli Englands og Bandaríkjanna. Árið 2000 keypti BAE Lockheed Martin Aerospace Electronic Systems og nú er talað um hugsanlega sameiningu BAE og helstu vopnaframleiðslufyrirtækja Bandaríkjanna, svo sem Boeing, General Dynamics, Lockheed Martin og Raytheon. Auk Bandaríkjanna og Bretlands eru Ástralía, Saudi-Arabía, Suður-Afríka og Svíþjóð meðal helstu starfstöðva BAE, en fyrirtækið á meðal annrs hluti í Saab og Bofors í Svíþjóð.

Mannréttinda- og friðarsamtök hafa gagnrýnt BAE. Sumir viðskiptavinir BAE eru ekki vandir að virðingu sinni þegar kemur að mannréttindamálum og má þar nefna Indónesíu, Saudi-Arabíu, Zimbabwe og Ísrael. Fyrirtækið hefur líka verið sakað um spillingu í viðskiptum, mútur og undirferli og hefur breska spillingarskrifstofan, Serious Fraud Office (SFO), rannsakað viðskipti fyrirtækisins í sex löndum, Tanzaníu, Tékklandi, Katar, Rúmeníu, Suður-Afríku og Chile. Árið 2005 birti breska blaðið Guardian fréttir um að fyrirtækið hefði greitt Pinochet, fyrrum einræðisherra Chile, háar fjáhæðir fyrir að liðka fyrir viðskiptum þar. Þá þykja viðskipti þess í Saudi-Arabíu einnig vafasöm. Einnig hefur fyrirtækið komið að framleiðslu kjarnavopna.

Það er auðvitað ósvífið hjá starfsmannastjóra fyrirtækisins að reyna að gera það sakleysislegt með því að segja það bara framleiða búnað sem ver hermenn gegn árásum. Svo fremi það sé ekki bara að framleiða skotheld vesti eða eitthvað í þá veru, þá verður auðvitað ekki greint milli þess búnaðar sem er til varnar og árása, enda sést það glöggt um leið og maður kynnir sér eitthvað starfsemi fyrirtækisins að það er bara venjulegur vopnaframleiðandi. Og Guðmundur Brynjólfsson lýsir þeim ágætlega á bloggsíðu sinni í dag: „Vopnaframleiðendur eru í mínum huga ekki venjulegir iðnrekendur, ekki vélvirkjar eða rafvirkjar sem hafa fundið upp „patent“ og brotist til álna, ekki saklausir „faktoríu“ eigendur sem eru góðir við hundinn sinn í verki og ömmu sína í orði. Vopnaframleiðendur eru siðlausir gróðapungar - standa nærri morðingjum að mannvirðingu - heldur neðar þó.“

Það var uppi fótur og fit hér í fyrra þegar klámframleiðendur hugðust halda ráðstefnu eða hópefli hér. Þáverandi borgarstjóri gagnrýndi það og Hótel Saga sá sóma sinn í að úthýsa klámliðinnu. Vopnaframleiðendur ættu auðvitað að vera jafnóvelkomnir. Friðarsúlan í Viðey ætti auðvitað að vera tákn um að slíka menn viljum við ekki hingað í tengslum við starf þeirra.


Mynd:
BusinessWeek. Myndatexti: „BAE makes the Eurofighter Typhoon in partnership with EADS and Alenia.“
Þetta er sennilega dæmigerður varnarbúnaður.

Fréttir Vísis:
Umdeildir vopnasalar funda á Íslandi
Vopnaframleiðendurnir óttast ekki mótmæli Íslendinga
Klámkóngar fengu fimm millur frá Hótel Sögu


Wikipedia

Heimasíða BAE

Corporate Watch UK

CorpWatch

Sjá líka
Blogg Guðmundar Brynjólfssonar
Vangaveltur Vésteins Valgarðssonar

Nýrri fréttir og umfjöllun:
Ekkert athugavert við vopnaráðstefnu - Fréttablaðið, 31. okt. 2007 04:00

Stöð 2 - hádegisviðtalið - Stefán Pálsson

Blogg:

Vopnasala frekar en klám
Hönnuðir dauðans
Hópefli vopnaframleiðenda, sálsjúkir kaldastríðshermenn og tillitssöm siðanefnd
Femínistar og VG hjúpa sig þagnarmúr og mynda sér ekki skoðun!
Klámráðstefna VS Fundur Vopnasala - Hræsni á metkvarða!
Frábært siðgæði
Vopnaframleiðendur, klámframleiðendur og fleira


Aðgengi að áfengi og matvöru

 

Eftirfarandi birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2007. Þar sem þessi mál eru nú í mikilli umræðu er við hæfi að rifjahana upp.

 

Sumum er það mikið mál að geta keypt áfengi í matvöruverslunum og líta jafnvel á það sem mannréttindamál. Það sé skerðing á frelsi einstaklingsins að ríkið einoki áfengissölu og haldi henni í sérverslunum. Heimdellingar telja þetta slíkt stórmál að þeir hafa skipulagt aðgerðir í anda borgarlegrar óhlýðni.

Nú hefur áfengisverslunum fjölgað mjög á undanförnum árum. Ég held ég búi við svipaðar aðstæður og flestir aðrir í þéttbýli. Þar sem ég bý er vissulega svolítið úr leið fyrir mig að ná í áfengi, en ekki tiltakanlega, og þar sem ég er ekki dagdrykkjumaður veldur þetta mér sjaldnast vandræðum. Auk þess hefur áfengi ágætis geymsluþol, þannig að það er lítið mál að byrgja sig aðeins upp, eins og margir gera með aðrar vörur þegar þeir fara t.d. í Bónus.

Menn segja stundum sem svo að það sé ófært að geta ekki keypt sér rauðvínsflösku um leið og kjötið. En fáa heyri ég kvarta undan erfiðleikunum við að ná í kjöt með rauðvíninu sem maður á inni í skáp. Fyrir mig er það jafnmikið úrleiðis að ná í kjötið eins og vínið. Hverfisverslunin, sem heitir 10-11, er opin allan sólarhringinn, en ef ég ætla að kaupa eitthvað almennilegt í matinn, þá verð ég fara að jafnlangt og til að kaupa rauðvínið. Þannig er þetta með flestar hverfisbúðir, sem yfirleitt eru annaðhvort 10-11 eða 11-11 búðir. Og það sem fæst er rándýrt.

Mér finnst satt að segja meira um vert að eiga greiðan aðgang að matvöruverslun en áfengisverslum og er þó enginn bindindismaður. En frammistaða einkaframtaksins er ekkert óskaplega góð, aðgengi að góðu kjöti eða fiski er hreint ekki betra en að áfengi. Og þjónustan og fagmennskan í áfengisversluninni er auk þess betri en í hverfisbúðinni. Kannski ætti bara að þjóðnýta matvöruverslunina?


Fjallagrasapólitík

 Eftirfarandi brag og inngang að honum hef ég fengið leyfi höfundar til að birta:

 Fyrir síðustu kosningar varð Bjarna Harðarsyni tiðrætt um fjallagrasapólitík. Þó hann sjálfur hafi fengið nýsköpunarhugmynd sem byggð er á gömlum menningararfi, sem sagt fjallagrasapólitík. Draugasetrið er ekki síðri hugmynd en að setja á fót vatnsverksmiðju, hvort tveggja er gott mótvægi við ál- og virkjanapólitík. Bjarni talaði þar gegn sinni eigin hugmynd, talaði gegn sjálfum sér. Best væri fyrir alla, ekki síst hann sjálfan, að hætta á þingi.

Auglýsingar Alcan og Landsvirkjunar hafa birst undir fyrirsögnunum „Nýtt og betra álver“ og „Ný og betri virkjun“.

Í næstu kosningum mun fjallagrasapólitíkin vinna á, betur en núna í vor. Fjallagrasapólitík er góð.

 Fjallagrasapólitík 

Fjallagrösin firna góð

oss fjörleysinu varna.

Drykkjarvatnið dreymir þjóð

og draugana hans Bjarna.

 

Víst er ennþá von á því

að vænkist hagur betur.

Að „betri“ flytji brátt á ný

Bjarni á draugasetur.

 

Að nýsköpun sé nýt og góð

og náttúran sé fögur

og grandvör þjóðin greind og fróð

um grasafjallasögur.

 

Um lækjarnið og lambaspörð

ei leitt er þá að tala.

Né fjallagrös og frið á jörð

og fjárbændur að smala.

 

Þá allir sitja á Alþingi

í ekta grasafléttu,

með vasapela í vettlingi

og væna lamhúshettu.

 

Í þæfðri brók og þykkum sokk

úr þeli heimaspunnu,

smávegis af sméri úr strokk

þeir smakka að verki unnu.

 

Hrosshársreipi hratt og létt

þeir hressilega hnýta,

kveða rímur kátt og rétt

og kunna í fleira að líta.

 

Norður öll og niður strax

þeir nokkur álver senda,

virkjun hætta, vernda lax

og virt skal Þjórsárlenda.

 

Já, vond ei vistin verður þá

og veröld ei úr skorðum.

Og ennþá gefst þá öllu að ná

er ætluðum við forðum.

 

K.G.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband