Friðarverðlaun Nóbels 2007 – meiri háttar mistök

Birtist á Friðarvefnum 13. okt. 2007

 

Eftir að tilkynnt var 12. október hverjir fengju friðarverðlaun Nóbels 2007 sendi Jan Øberg, framkvæmdarstjóri friðarstofnunarinnar Transnational Foundation for Peace and Future Research í Lundi í Svíþjóð, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu, sem hér er birt með góðfúslegu leyfi hans.

Friðarverðlaun Nóbels 2007 – sérstaklega hlutur Al Gores – ber vott um tækifærisstefnu og mun óhjákvæmilega draga úr trúverðuleika verðlaunanna.

Alfreð Nóbel skrifaði í erfðaskrá sína að friðarverðlaunin skyldu veitt „þeim sem mest hafa lagt fram til að skapa bræðralag milli þjóða, uppræta eða draga úr þeim herafla sem fyrir hendi er og halda eða hvetja til friðarþinga“ (den som har verkat mest eller best för folkens förbrödrande och afskaffande eller minskning af stående armeer samt bildande och spridande af fredskongresser).

Án þess að draga úr mikilvægi hlýnunar jarðar eða verka þeirra sem nú hljóta verðlaunin – ,,Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar“ (Intergovernmental Panel on Climate Changes -IPCC) og Al Gores – þá er það í hæsta máta umdeilanlegt hvort þeir verðskulda FRIÐARverðlaun – jafnvel þótt það sé túlkað út frá núverandi aðstæðum en ekki aðstæðum ársins 1895 þegar Nóbel lagði fram sína hugsjón.

Hugmyndin um frið og skilgreining friðar ætti raunar að vera víð. En hvorugur verðlaunahafanna hefur lagt fram meira í þeim efnum en þúsundir einstaklinga og samtaka sem hafa helgað líf sitt baráttu gegn hernaðarstefnu, kjarnorkustefnu, styrjöldum, ofbeldi eða fyrir friði, umburðarlyndi, sáttum og samlyndi – þeim grundvallargildum sem eru forsendur friðarverðlauna Nóbels.

Það er líka leitt til þess að vita veita að verðlaunin eru veitt fyrir verk sem tengjast stjórnvöldum og fela í því í sér þau skilaboð að það séu stjórnvöld frekar en fólkið sjálft sem skapa frið.

Sérstaklega verður að líta til þess að sem varaforseti Bills Clintons kom Al Gore aldrei fram sem friðflytjandi. Ríkisstjórn Clintons og Gores rak stefnu sem miðaði að hernaðaruppbyggingu og myndun hernðarbandalaga allt í kringum Rússland – og glataði stærsta tækifæri sögunnar til nýrrar heimsskipunar.

Þvert á alþjóðleg lög og án umboðs Sameinuðu þjóðanna stóðu þeir fyrir loftárásum á Serbíu og Kósovó, ákvörðun sem byggðist á ófullnægjandi skilningi á Júgóslavíu og fullyrðingum um þjóðarhreinsanir, nokkuð sem hefur stuðlað að hörmulegu ástandi núna í Kósovó (sem hugsanlegt er að sjóði upp úr á þessu eða næsta ári) og þeir stóðu líka fyrir árásum á Afganistan og Súdan.

Það hefði mátt tengja verðlaunin umhverfismálum ef þau hefðu verið veitt einhverjum sem hafa barist gegn hernaði eða öðrum ofbeldisáhrifum á alþjóðlegt umhverfi: mengun af völdum hernaðar, þúsundum herstöðva sem valda umhverfisspjöllum, meðvituðum hernaði gegn umhverfinu, vígvæðingu í geimnum og á höfunum, og – að sjálfsögðu – kjarnorkuvopnum sem mundu valda enn meiri hitabreytingum en núverandi hlýnun jarðar ef þeim yrði beitt.

Í norsku Nóbelsnefndinni á sæti fólk sem hefur lítinn ef nokkurn bakgrunn í starfi eða kenningum um friðarmál. Það er samt ekki hægt að nota sem afsökun fyrir að gera málefni friðar og friðarverlaunin sjálf að aðhlátursefni.

Í dag hafa friðarverðlaun Nóbels verið gerð enn lítilvægari – til viðbótar við þá skömm að þau voru aldrei veitt Gandhi heldur fólki eins og Kissinger, Shimon Peres og Arafat.

Nagoya, Japan, 12. október, 2007

Með vinsemd

Jan Øberg


Ég fagna friðarsúlunni í Viðey

Ég fagna friðarsúlunni í Viðey. Ég fagna henni af því að henni er ætlað að minna á mikilvægi friðar og að við beitum okkur fyrir friði. Ég fagna henni sem minnismerki um John Lennon, sem var bæði stórkostlegur listamaður og baráttumaður fyrir friði.  

Friðartáknið getur verið ópólitískt í sjálfu sér, frammi fyrir því getum við sameinast um markmiðið, en á leiðinni verður margt sem taka þarf afstöðu til. Það gerði Lennon. Friðarbarátta hans tengdist baráttu fyrir réttlæti, baráttu gegn kúgun. Það nægir að nefna heiti nokkurra laga hans til að gefa hugmynd um boðskap hans: Give Peace a Chance, Power to the People, Woman Is the Nigger of the World, Working Class Hero. Því fór boðskapur hans fyrir brjóstið á bandarískum ráðamönnum á myrkum tíma Víetnamstríðsins. Þeir buðu hann ekki velkominn til Bandaríkjanna. Nú er aftur kominn myrkur tími í Bandaríkjunum, tími Íraksstríðsins. 

Það voru líka myrkir tímar fyrr í Bandaríkjunum, svo sem tími McCarthy-ismans á sjötta áratug síðustu aldar. Þá voru margir miklir listamennn illa séðir. Listamenn sem börðust fyrir réttindum verkafólks, kvenna, blökkumanna – og fyrir friði, gegn kjarnorkuvopnum, gegn heimsvaldastefnu. 

Það var á þeim tíma sem Ísland bast Bandaríkjunum æ sterkari böndum, en ekki fyrst og fremst bandarísku þjóðinni eða þeirri mannréttindahugsjón sem öðrum þræði tengdist upphafi Bandaríkjanna, heldur bandaríska herveldinu, bandaríska heimsveldinu. Ísland gerðist aðili að hernaðarbandalaginu NATO undir forystu Bandaríkjanna, tók við bandarísku herliði og lagði til land undir bandaríska herstöð. Þessi herstöð var hér á tímum Víetnamstríðsins, íslensk stjórnvöld létu undir höfuð leggjast að gagnrýna vini sína í Washington fyrir þetta stríð sem mótmælt var á götum úti um allan heim. Íslensk stjórnvöld tóku aldrei frumkvæði í baráttunni gegn kjarnorkuvopnum, enn hefur ekki náðst samstaða um kjarnorkuvopnalaust Ísland. Það samrýnist ekki veru okkar í NATO, sagði utanríkisráðherra síðustu ríkisstjórnar, Halldór Ásgrímsson, þeirrar ríkisstjórnar sem samþykkti innrásina í Írak. 

Það er því fagnaðarefni þegar borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu tveggja þeirra flokka sem framar öðrum stóðu að inngöngu Íslands í NATO, herstöðvum á Íslandi og stuðningi Íslands við loftárásirnar á Júgóslavíu og innrásina í Írak og hafa hafnað tillögum um kjarnorkuvopnlaust Ísland, býður nú Yoko Ono, ekkju Johns Lennons og baráttufélaga, velkomna til Reykjavíkur til að setja upp þetta friðartákn í Viðey meðan þingmannasamtök hernaðarbandalagsins sitja bakvið luktar dyr í Laugardalshöllinni.  

Fyrrverandi borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti árið 2002, eins og flest önnur sveitarfélög hafa gert, að umferð og geymsla kjarnorku-, efna- og sýklavopna verði bönnuð í borgarlandinu. Sú ákvörðun stendur enn og væntanlega mun núverandi borgarstjórn ekki víkja frá henni frammi fyrir friðarsúlunni í Viðey. Og vonandi mun borgarstjórn Reykjavíkur stíga enn frekari skref í friðarbaráttunni, svo sem með því að setja reglur um að herskip kom ekki í höfn í Reykjavík, eða að borgarstjórinn í Reykjavík sameinist um 1800 öðrum bæjarstjórum í friðarsamtökum bæjarstjóra (Mayors for Peace) sem borgarstjórarnir í Hírósíma og Nagasakí komu á fót árið 1982. 

Það er þá aukaatriði þótt gleymst hafi að bjóða út í Viðey fulltrúum virkustu friðarsamtaka Íslands, Samtaka hernaðarandstæðinga og Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, sem hafa t.d. í hátt á þriðja áratug staðið fyrir árlegri friðargöngu í Reykjavík á Þorláksmessu og kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjanna í Hírósíma og Nagasaki. Má vera að þessi samtök þyki of pólitísk, en látum það liggja milli hluta.


Frá fyrrum smala við Kálfá

Þegar ég kom heim úr sumarfríi seint í september og heimsótti móður mína sagði hún mér að illa hefði gengið hjá fjallmönnum á ættarslóðum mínum í Árnessýslu og meðal annars hefðu Flóamenn misst fjölda kinda í Kálfá þar sem þær drukknuðu. Kálfá er afskaplega sakleysileg á og alla jafna saklaus, mamma er alin upp í næsta nágrenni við hana og sjálfur þekki ég hana vel frá árlegri sumarvist minni í Gnúpverjahreppi. En sakleysislegustu vatnsföll geta orðið skaðræðisfljót í miklu vatnsveðri. Móðir mín var slegin yfir þessu enda voru hinar löngu haustferðir til smalamennsku inn í óbyggðir alltaf tvísýnar þegar hún var að alast upp fyrir 70 árum. Og enn geta þær verið tvísýnar þótt aðstæður séu orðnar allt aðrar. Það er líka grínlaust fyrir bændur að tapa fjölda fjár á þennan hátt, það er bæði efnahagslegt og tilfinningalegt áfall. Móður minni var því ekki síður brugðið að heyra gert lítið úr þessu í umræðuþætti í Ríkisútvarpinu skömmu seinna, "...átti ekki hvort sem var að slátra þeim?" 

Mér hefur borist svolítill bragur af þessu tilefni frá fyrrverandi smala við Kálfa og birti hann hér með góðfúslegu leyfi höfundar:

 

 

Frá fyrrum smala við Kálfá

 

Í vikulokin er vandaður þáttur

sem virðingar nýtur hjá þjóð.

Fréttir að skoða er frómur háttur

og fráleitt er níð og hnjóð.

 

Dátt var og gaman og dásamlegt þar

yfir drukknuðu fé sem þannig var metið:

Átti ekki að drepa það allt hvort sem var

og éta svo af því mörinn og ketið?

 

Blindfullir stóðu á bakkanum, hvar

menn brenndu á vað heim að kránni.

Svo kepptust þeir við að komast á bar

að þeir káluðu fénu í ánni.

 

Já svona varð fréttin úr sveitinni helst;

- „sveiattan!“ dreifbýlisvargi.

En Lúkas hann lifir og lukka það telst,

að lokið er Lúkasarþvargi.

 

Sem troðfyllti fjölmiðla trúlega, því

að „trendið“ er ekki það sama.

Sko eigandinn sat ekki sveitinni í

með sauðshaus og öllum til ama.

 

-----------------------------------------------

 

Auman fyrir illskukvitt

sem oss vill níða og fleka;

flissaðu skökk í fjárans pytt

með fimm þúsund Lúkasa að reka.

 

Þar einsömlum er att til leiks

ábúandans gesti

með svartan munn í svælu reyks

- en sviðakjamma í nesti!

 

 

Kristín Guðmundsdóttir

 
Höfundur ólst upp við Kálfá og er fyrrum smali

 


SHA um fund NATO-þings og friðarsúlu

Ég  birti hér tvær ályktanir frá Samtökum hernaðarandstæðinga, sjá nánar Friðarvefinn. Bendi í leiðinni á vef friðarstofnunarinnnar Transnational Foundation í Svíðþjóð. Þar er að finna mikið af áhugaverðum greinum um friðarmál og alþjóðamál: 

Ályktun frá SHA í tilefni af vígslu friðarsúlu í Viðey

9. október. 2007

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa ánægju sinni með þá ákvörðun að vekja athygli á mikilvægi friðarbaráttu í heiminum sem felst í því að sérstök friðarsúla listakonunnar Yoko Ono sé afhjúpuð í Viðey. Sömuleiðis fagna SHA vilja borgaryfirvalda til að kynna Reykjavík sem miðstöð friðar.

Til að slík stefnumörkun sé trúverðug verður þó fleira að koma til. Eigi Reykjavík að geta staðið undir nafni sem friðarborg er fráleitt að bjóða þangað hernaðarbandalögum til fundarhalda, þar sem lagt er á ráðin um
vígvæðingu og stríðsrekstur. Fundir á borð við þingmannaráðstefnu NATO geta ekki samrýmst stöðu Reykjavíkur sem friðarmiðstöðvar.

Á sama hátt er fráleitt að finna friðarsúlu af þessu tagi stað nokkur hundruð metra frá þeim stað í Sundahöfn þar sem stærstu og voldugustu herskip NATO liggja við bryggju á hverju sumri. Er ef til vill ætlunin að friðarsúlan í Viðey gegni hlutverki innsiglingarljóss fyrir herskip sem hingað koma?

SHA hvetja borgaryfirvöld til þess að nota tækifærið við vígslu friðarsúlunnar og lýsa því yfir að herskipakomur í Sundahöfn verði ekki heimilaðar í framtíðinni. Þannig gæti Reykjavíkurborg stigið raunverulegt skref í átt til friðar og afvopnunar.

 

Ályktun SHA vegna fundar NATO-þingsins í Reykjavík

4. október. 2007

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla því að til standi að halda þingmannafund NATO hér á landi um komandi helgi. Íslendingar eru herlaus og friðelskandi þjóð, sem ekki á að taka að sér gestgjafahlutverk fyrir slíkar samkomur. Að þessu tilefni vilja SHA minna á eftirfarandi staðreyndir um hlutverk og eðli NATO:

• NATO er hernaðarbandalag sem hefur yfir að ráða gríðarlegum hernaðarmætti. NATO hefur ekki útilokað beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði.

• NATO hefur tekið þátt í árásarstríðum, s.s. á Balkanskaga. Um þessar mundir tekur bandalagið virkan þátt í hernámi Afganistan og hefur með aðgerðum sínum leitt til dauða fjölda saklausra borgara.

• Aðildarríki NATO eru ásamt Rússlandi langstærstu vopnaframleiðslulönd í heimi. Með vopnasölu sinni til stríðshrjáðra svæða bera þau ábyrgð á þjáningum fólks um víða veröld,

• NATO og einstök NATO-ríki hafa staðið gegn gerð og samþykkt fjölmargra afvopnunarsamninga á liðnum árum og áratugum, þar á meðal á sviði kjarnorkuafvopnunar.

• Það er innbyggt í skipulag NATO að Bandaríkjamenn hafi með höndum hernaðarlega stjórn þess. Bandarríkjastjórn hefur ítrekað notað NATO sem verkfæri eftir innrásir sínar, bæði í Afganistan og í Írak, undir yfirskini friðargæslu eða uppbyggingarstarfs.

• Ein af röksemdum Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, gegn tillögum um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum árið 2004 var að það samrýmdist ekki skuldbindingum Íslands gagnvart NATO.

• Hinar umdeildu áætlanir Bandaríkjanna um gagneldflaugakerfi eru gerðar með fullu samþykki NATO og eru í raun liður í áætlunum NATO. Þessar áætlanir eru taldar spilla mjög fyrir viðleitni til afvopnunar.

• Einstök aðildarríki NATO bera höfuðábyrgð á stríðinu í Írak sem kostað hefur hundruð þúsunda Íraka lífið og hrakið milljónir á flótta.

Um leið og Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fundarhöldum þessum, hvetja þau íslensk stjórnvöld til að taka upp sjálfstæða og friðsama utanríkisstefnu. Úrsögn úr NATO er rökrétt fyrsta skref í þá átt.


NATO eftir kalda stríðið: árásargjarnt hernaðarbandalag heimsvaldasinna

Dagana 5. til 9. október verður haldinn í Reykjavík ársfundur NATO-þingsins. Ástæða er til að líta á hvað NATO er í raun og hver þróun bandalagsins hefur verið að undanförnu. Eftirfarandi grein birtist líka á Friðarvefnum.

Með lokum kalda stríðsins breyttist staða NATO. Það var sagt vera varnarbandalag Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku gegn yfirvofandi hættu frá Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra. Af hinum yfirlýsta óvini er nú vart meira en skugginn eftir. 

Opinbert hlutverk NATO

 Samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum er hlutverk bandalagsins að leysa milliríkjadeilumál sem aðilar kunna að lenda í (1. gr.) og standa saman gegn vopnaðri árás á einn eða fleiri aðila samningsins í Evrópu, Norður-Ameríku, Tyrklandi (eftir að það varð aðili) og Norður-Atlantshafi, þ.e. því svæði sem aðildarríkin eru á (5. og 6. gr.). Auk þess er sagt í 2. gr. að aðilar skuli „styrkja frjálsar þjóðfélagsstofnanir sínar, með því að koma á auknum skilningi á meginreglum þeim, sem þær stofnanir eru reistar á“. Hverjar þessar „meginreglur“ eru er ekki skilgreint, en væntanlega átt við kapítalískt skipulag. Hins vegar ná þær varla í raun til lýðræðislegra stjórnarhátta, þrátt fyrir orðalagið „frjálsar þjóðfélagsstofnanir“, í ljósi þess að bæði Portúgal og Grikkland áttu aðild að bandalaginu meðan þar voru við völd ólýðræðislegar herforingjastjórnir. 

Helstu breytingar á NATO eftir lok kaldastríðsins

 Það sem gerst hefur eftir lok kalda stríðsins er einkum tvennt: Í fyrsta lagi:  NATO stækkar til austurs. Frá 1999 hafa tíu fyrrverandi austantjaldslönd gengið í NATO og þrjú eru í svokölluðu inngönguferli.  Þótt einnig hafi verið tekin upp jákvæð samskipti við Rússland og fleiri fyrrverandi Sovétlýðveldi sem enn standa utan NATO (Partnership for Peace 1994) er Rússlandi líka ögrað, annars vegar með þessari stækkun til austurs (áður voru austantjaldsríkin milli NATO og Svétríkjanna, nú er NATO komið að landamærum Rússlands) og hinsvegar með uppsögn Bandaríkjanna á ABM-sáttmálanum um takmörkun eldflaugavarna árið 2002, uppsetningu gagneldflaugastöðva í Póllandi og Tékklandi og bandarískum herstöðvum og hernaðarlegri aðstöðu í ríkjum Austur-Evrópu og fyrrverandi Sovétlýðveldum í Asíu.  Í öðru lagi:  NATO er farið að starfa utan þess svæðis sem afmarkast af aðildarrríkjunum. Þróunin er þessi: 
  • 1992: NATO tekur að sér það hlutverk í fyrrverandi Júgóslavíu árið 1992 að hafa eftirlit með vopnasölubanni Sameinuðu þjóðanna og sérstökum efnahagslegum refsiaðgerðum gagnvart Serbíu og Svartfjallalandi. Með því tekur NATO í fyrsta sinn að sér hlutverk utan svæðis aðildarríkjanna.
  • Ágúst til september 1995: NATO stendur í fyrsta skipti að meiriháttar hernaðaraðgerðum með Operation Deliberate Force í Bosníu.
  • Desember 1995. Eftir Dayton-samkomulagið felur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna NATO að hafa umsjón með alþjóðlegu friðargæsluliði í Bosníu og Hersegóvínu (Evrópusambandið tók við þessu hlutverki í desember 2004).
  • Mars 1999. NATO gerir í fyrsta sinn beina innrás með loftárásunum Júgóslavíu. 
  • Apríl 1999. Á leiðtogafundi NATO í Washington er friðargæslu og mannúðarhjálp bætt á hlutverkaskrá NATO.
  • Maí 2002: Á utanríkisráðherrafundi NATO í Reykjavík í maí 2002 er tekin ákvörðun um að nauðsynlegt sé að mæta og takast á við ógnanir við öryggi aðildarríkjanna, hvaðan sem þær stafa. (Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra kallaði þetta í skýrslu vorið 2004 „grundvallarbreytingu á afstöðu bandalagsins frá því sem verið hefur“.)
  • Ágúst 2003: NATO tekur í fyrsta sinn að sér hlutverk utan þess svæðis sem á NATO-máli er kallað Evrópu-Atlantshafssvæðið. Þetta hlutverk er umsjón friðargæslu í Afganistan (ISAF).
 NATO hefur ekki enn komið að „friðargæslu“ í Írak, en árið 2004 var hins vegar ákveðið að NATO tæki að sér að aðstoða Írak við þjálfun öryggissveita sinna og jafnframt nýtur pólska herliðið, sem er í Írak, aðstoðar NATO.  Í samræmi við ákvörðunina frá 1999 um friðargæslu og mannúðarhjálp sendi NATO hjálparsveitir til Pakistan eftir jarðaskálftana þar í október 2005 og sumarið 2005 hóf NATO friðargæslu í Darfúr að beiðni Afríku-bandalagsins. Rétt er að hafa í huga að Bandaríkin vinna markvisst að því að treysta stöðu sína á horni Afríku og hafa nýtt sér ástandið í Sómalíu í því skyni. Það hlýtur að vekja spurningar um hvers eðlis friðargæsla NATO er þegar hún kemur í kjölfar innrásar forysturíkis bandalagsins í viðkomandi landi (Afganistan), þess ríkis sem fer samkvæmt skipuriti bandalagsins með hernaðarlega stjórn þess, og felst í raun í að verja þá stjórn sem innrásarliðið kom upp í landinu (vegna ástandsins í landinu hafa kosningar í raun aðeins verið málamynda). Er þetta þá friðargæsla eða einfaldlega hernám? Getur virkilega verið að NATO sé ekki að ganga erinda Bandaríkjanna í Afganistan? Það er ekki síður umhugsunarvert að eftir innrás sína í Júgóslavíu tók NATO að sér í umboði Sameinuðu þjóðanna að sjá um öryggismál í Kósovó og hefur haft þar hátt í 20 þúsund manna „friðargæslulið“ (KFOR). Rétt er að geta þess að það sem fyrst og fremst var óaðgengilegt fyrir Júgóslavíu í Rambouillet-samningunum var krafan um hersetu NATO í Júgóslavíu.  

Skipulagsbreytingar á NATO – skilvirkara hernaðartæki

 Í samræmi við þetta nýja hlutverk NATO hafa verið gerðar breytingar á innra skipulagi  NATO til að gera það skilvirkara. Farið var að ræða þessar breytingar fljótlega eftirlok kalda stríðsins en eftir 11. september 2001 var farið að drífa í þeim. Bandarískum stjórnvöldum þótti NATO ekki nógu skilvirkt tæki í hinum nýja veruleika. Það sem hér er einkum ástæða til að nefna eru hinar svokölluðu viðbragðssveitir (Nato Response Force – NRF) sem eiga að gera herafla NATO viðbragðsfljótari og nýtilegri í hernaðaraðgerðum. Áður var hlutverk NATO fyrst og fremst að samhæfa varnir og herafla NATO ríkjanna. Í þessu felst mjög mikilvæg breyting. Rétt er líka að minna á að kjarnorkuvopn eru enn sem áður hluti af viðbúnaði NATO, og gegn tillögum um kjarnorkuvopnalaust Ísland hefur verið bent á að það samræmist ekki aðildinni að NATO. 

Samvinna NATO út á við – m.a. aukin samvinna við Ísrael

 Á undanförnum áratug hefur NATO lagt áherslu á aukna samvinnu út á við: Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace - PfP) hófst árið 1994 og í kjölfarið var sett á fót Evró-Atlantshafsráðið (EAPC) sem er samráðsvettvangur 46 ríkja, þ.e. NATO-ríkjanna og annarra ríkja í Evrópu og á svæði fyrrum Sovétríkjanna. Stefnt er að því að styrkja tengslin við Kákasus-svæðið og Mið-Asíu, sem og Norður-Afríku og Miðausturlönd. Sama ár var einnig komið á laggirnar samráði við Miðjarðarhafsríki, Mediterranean Dialogue, en aðild að því eiga Alsír, Máritanía, Marokkó, Túnis, Egyptaland, Jórdanía og Ísrael.  Á leiðtogafundinum í Istanbúl í júní 2004 var samþykktur nýr samráðsvettvangur með Istanbúl-samstarfsáætluninni (Istanbul Cooperation Initiative) og þar með frekari starfsemi NATO í Miðausturlöndum. Í umfjöllun í NATO-fréttum veturinn 2005, er komist svo að orði: „... nú má skipta stefnu NATO gagnvart Miðjarðarhafssvæðinu og nágrenni þess niður á þrjár stoðir, þ.e.a.s. Miðjarðarhafssamráðið, Istanbúl-samstarfsáætlunina og afskipti af Írak.“  Í umfjöllun um samstarfsverkefni NATO í NATO-fréttum vorið 2004 segir svo um Miðjarðarhafssamráðið: „Í dag hefur landfræðilegt umfang öryggissamstarfs NATO og samráðsríkjanna stækkað til austurs, allt til Afganistan og jafnvel lengra. Hinni svonefndu „Clinton-nálgun” gagnvart suður- og austur-Miðjarðarhafssvæðinu, þar sem áhersla var lögð á viðræður, samninga, byggingu trausts og efnahagslega hvatningu, hefur verið varpað fyrir róða og í staðinn tekin upp stefna sem felst meðal annars í hindrunaraðgerðum og íhlutun. Íhlutunarstefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum fylgir viðleitni til þess að breyta gildismati í þessum heimshluta og færa það nær lýðræðishugsun Vesturlanda.“ Í kjölfar loftárásanna á Júgóslavíu ákvað leiðtogafundurinn í Washington 1999 að koma á laggirnar samstarfi í Suðaustur-Evrópu og kæmu að því öll ríki á svæðinu nema Júgóslavía, en henni yrði hleypt að þegar aðstæður leyfðu. Þá hefur komið fram t.d. í máli framkvæmdastjóra NATO, Jaap de Hoop Scheffer, og sendiherra Bandaríkjana hjá NATO, Victoriu Nuland, áhugi á nánara samstarfi við ríki eins og Ástralíu, Nýja Sjálandi, Suður Kóreu eða Japan, og Aznar, fyrrum forsætisráðherra Spánar, lagði beinlínis til haustið 2005 að Ísrael, Japan og Ástralíu verði boðin aðild og tekið upp náið samstarf við Kólumbíu og Indland. Að undanförnu hafa tengsl milli NATO og Ísraels verið að styrkjast. Nánast engin tengsl voru þarna á milli þar til samráðshópnum við Miðjarðarhafið var komið á 1994. En árið 2001 varð Ísrael fyrst ríkja Miðjarðarhafssamráðsins til að undirrita samkomulag um öryggismál við NATO og í mars 2005 sama ár fór fyrsta sameiginlega heræfing Ísrael og NATO fram á hafinu undan ströndum Ísraels. Í maí fékk Ísrael aðild að þingmannasamkomu NATO og í júní tóku ísraelskar hersveitir þátt í heræfingum NATO bæði á Miðjarðarhafinu og í Úkraínu. Það hefur verið til umræðu að NATO taki þátt í friðarferlinu í deilu Palestínu og Ísraels og í NATO-fréttum veturinn 2005 er komist svo að orði að „álitsgjafar og sérfræðingar [hafa] bæði lagt til að NATO veiti Ísrael öryggistryggingu og að bandalagið gegni hlutverki í friðargæslu milli fullvalda palestínsks ríkis og Ísrael.“ Það virðist vera meðvitaður ásetningur í hinni nýju stefnu NATO að líta framhjá mótsögninni sem felst í því að taka að sér friðargæsluhlutverk á svæði þar sem bandalagið er í beinu bandalagi við annan aðila átakanna ef ekki sjálft beinlínis annar aðilinn. 

Eftir hrun Sovétríkjanna: hnattvæðing kapítalismans og Bandaríkin sækjast eftir ítökum í Austur-Evrópu, Mið-Austurlöndum og Mið-Asíu

 Það þarf að hyggja að tvennu sem fer í gang eftir lok kaldastríðsins. Í fyrsta lagi hnattvæðingin: Eftir lok kalda stríðsins, þ.e.a.s. eftir að Sovétríkin og önnur kommúnistaríki austantjalds hrundu kringum 1990, varð til hugtakið „hin nýja heimsskipan“ (new world order). Það var líka þá sem hugtakið „alþjóðasamfélagið“ skaust inn í umræðuna en vilji þess er í raun dulnefni fyrir vilja Bandaríkjanna. Hin nýja heimskipan var kapítalískt alþjóðasamfélag á forsendum heimsvaldaríkjanna og auðstétt þeirra, einkum Evrópusambandsins, Japans og Bandaríkjanna og undir forystu þess síðastnefnda. Þetta er megininntak hnattvæðingarinnar. Alþjóðaviðskiptastofnuninn varð til til að setja reglur fyrir hið alþjóðlega kapítalíska efnahagskerfi og ryðja úr vegi þeim reglum sem einstök ríki höfðu sett og hindruðu frjálst fjármagnsflæði og óheft aðgengi stórfyrirtækjanna um allan heim. Allur heimurinn skyldi undirgangast hina nýju heimsskipan, sem var ekkert annað en kapítalismi án undantekninga. Þá fyrst yrði kominn tími fyrir friðsamlega sambúð ríkja. Í öðru lagi skapaðist með hruni Sovétríkjanna færi á því fyrir Bandaríkin og með samþykki og stundum stuðningi annarra heimsvaldasinnaðra ríkja að ná tökum á Austur-Evrópu, Mið-Asíu og Mið-Austurlöndum – með allri olíunni sem þar beið neðanjarðar. Austantjaldsríkin komu hvert af öðru yfir til NATO og Evrópusambandsins, yfir í hið kapítalíska samfélag. Serbíu/Júgóslavíu þurfti að tukta til og hernema Afganistan og Írak – og Íran. NATO er verkfæri í þessu ferli.  Sjá einnig:Bandaríkin, NATO og stríðið gegn hryðjuverkum

 


Hverjir eiga að skipuleggja miðbæinn?

Ég hef löngum undrast það að ekki skuli fyrir löngu vera búið að byggja á þessum auðu reitum efst við Hverfisgötuna – og reyndar stöku reit neðar líka. Það sýnir kannski best hversu tilviljanakennd skipulagsmál í Reykjavík hafa gjarnan verið. Og ekki verða þau síður tilviljanakennd með söfnun auðs og valda á færri hendur. Áratugum saman gerist ekkert og svo allt í einu á örfáum misserum er upp risið einhvað sem hinn almenna borgara hafði ekki órað fyrir, kannski jafnvel óskapnaður eins og í Skuggahverfinu (því það er sannarlega óskapnaður að mínum smekk).

 

Ég ætla ekki í bili að taka afstöðu til hugmynda Samson Properties um uppbyggingu á Barónsreitnum, ég hef ekki skoðað þær nógu vel (finnst þó að okkur vanti kannski eitthvað annað en jökla inn í miðbæinn með norðangarra sinn!) Hins vegar er það mjög umhugsunarvert að einstök fyrirtæki, kannski að mestu í eigu tveggja einstaklinga, geti keypt upp stóra reiti í miðborginni, á svæði sem virkilega kemur öllum borgarbúum við og jafnvel öllum landsmönnum (þetta er jú höfuðborgin) og hefur með ímynd og sögulegt, húsagerðarlegt og skipulagslegt samhengi borgarinnar að gera (- fyrir alla muni, hættið nú að rífa eða flytja til hús á þessu svæði), og síðan dembt yfir okkur sínum hugmyndum sem þeir hafa í krafti auðs síns getað látið útfæra og kynnt með brauki og bramli. Vissulega geta þeir ekki ráðið því einhliða hvort hugmyndir þeirra verða að veruleika, en í krafti auðs síns og stöðu, sem ekki hefur orðið til á nokkurn lýðræðislega hátt, hafa þeir ólíkt meiri slagkraft en aðrir borgarar. Það er merkilegt hversu mörgum finnst þetta léttvægt sem þó þykjast miklir lýðræðissinnar.

 

Í rauninni ættu að vera takmörk fyrir hversu stór samfelld svæði einstakir aðilar geta keypt í bæjum og það fari svo eftir staðsetningu hversu stór þessi svæði eru, þannig að því nær sem dregur miðbænum eða elsta bæjarhlutanum verði þessi svæði minni. Skipulag miðbæjarsvæðis á ekki að vera undir því komið hvort einstakir lóðareigendur geti hagnast svo og svo mikið á lóðum sínum. Auðvitað þarf að huga að því að starfsemi og rekstur húsa í miðbænum geti staðið undir sér, en það er eins og með margt annað, svo sem hálendi Íslands, að það er ekki sjálfgefið að skyndigróði, stórfyrirtæki, stórhýsi eða stórvirkjanir séu þegar til lengdar lætur besti kosturinn.

 

Enn einu sinni heyrist tal um að það þurfi meira líf í miðbæinn. Það má vera að verslunareigendur eigi bágt með að keppa við Kringluna og Smáralind. En ég á oft leið um miðbæinn, allt ofan frá Hlemmi og vestur fyrir Ingólfstorg, og ég verð að segja að oftast nær, jafnvel á köldum vetrardegi, er furðu mikið líf í miðbænum. Og á sumardögum er beinlínis iðandi mannlíf. Getur verið að þeir sem telja að vanti líf í miðbæðinn komi þangað aldrei rétt eins og þeir sem telja ófært að ferðast með strætó koma aldrei í strætó? En það er spurning hvort miðbærinn geti eða eigi að keppa við Smáralind og Kringluna. Verðum við ekki einfaldlega að hugsa miðbæinn einhvern veginn öðruvísi? Sjáið Skólavörðustíginn. Þar hefur einhvern veginn orðið til eitthvað sem aldrei gæti orðið til í Kringlunni eða Smáralind. Kannski væri betra að  lagfæra gömlu húsin  á þessu svæði og byggja smekkleg lágreist hús inn á milli og skapa grundvöll til að margt smátt geti þrifist þarna - og, vel að merkja, að þarna verði virkilegt almannasvæði. Því að Kringlan  og Smáralind standa ekki undir því nafni. Þegar þú ert kominn þangað inn ertu á einkasvæði sem lýsir sér t.d. í því að þú getur ekki staðið þar inni og dreift dreifibréfi án þess að fá leyfi húsráðanda til þess.


mbl.is Hugmyndir að nýjum miðborgarkjarna í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan gegn nýfrjálshyggjunni í Noregi og rauð-græna ríkisstjórnin

Össur Skarphéðinsson stendur sig vonandi með vatnalögin, en eflaust veitir ekki af að styðja við bakið á honum. Samtímis því sem hann kemur fram með það mál berst sú frétt út að til standi að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag. Þrátt fyrir allt tal um þetta sé bara spurning um breytt og hagkvæmara rekstarform, þá er þetta auðvitað fyrsta skrefið í einkavæðingu, hvort sem mótuð áætlun er um það eða ekki. Auðvitað er hægt að hagræða í rekstri og stjórnun án þess að breyta stofnunum í hlutafélög en hins vegar er einkavæðingin miklu léttari eftir hlutafélagavæðinguna.

Hér hefur tekist að mynda almenna hreyfingu í umhverfismálum, en því miður hefur það ekki tekist í velferðarmálunum. Það veldur því að stjórnmálamenn hafa lítið aðhald og lítinn bakhjarl þegar þeir sýna lit. Í sveitarstjórnum eiga t.d. margir erfitt þegar upp kemur sú hugmynd að bæta lélegan fjárhag með því að selja hitaveituna.

Í Noregi tókst að mynda sterka hreyfingu til varnar velferðarkerfinu og gegn óheftri einkavæðingu, hreyfingu sem verkalýðsfélögin tóku þátt í og einnig mörg sveitarfélög auk annarra samtaka. Þessi hreyfing og ekki síst öflug barátta verkalýðshreyfingarinnar átti stóran þátt í myndun rauð-grænu ríkisstjórnarinnar árið 2005.

Ég hef tekið saman grein um þetta sem lesa má hér:

http://notendur.centrum.is/~einarol/noregur-wahl.html


Íhaldsöm róttækni, nútímavæðing og fúakofar

Á UNDANFARINNI öld þótti það nokkurt last að vera kallaður íhaldsamur. Einn stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, mátti sæta því að vera uppnefndur „íhaldið". Það skýtur því nokkuð skökku við, að þeir sem helst börðust fyrir varðveislu Bernhöftstorfunnar fyrir hartnær fjörutíu árum tilheyrðu margir þeim hópi sem kenndur var við róttækni, og var það reyndar líka skammaryrði í munni sumra. Það þótt hins vegar í meira lagi íhaldsöm afstaða að vilja vernda þessa fúakofa, nútíminn kallaði á að þeir vikju fyrir nýtísku glæsihúsum. Framtíðarsýn hinna íhaldssömu róttæklinga hefur þó sannað sig og fáir eru þeir nú sem amast við Bernhöftstorfunni. Þótt svokallaðir róttæklingar hafi kannski borið hitann og þungann í þeirri baráttu höfðu þeir líka stuðning einstaklinga úr röðum hins svokallaða „íhalds".

Margir töldu að eftirleiðis þyrfti ekki jafn hatramma baráttu í húsfriðunarmálum. En undir aldarlok varð mjög í tísku að vera sem „nútímalegastur". Hugtakið nútímavæðing varð til, en í því felst meðal annars að helst skuli engu eirt sem geti hamlað hverskyns vexti og er þó alkunna að ekki er allur vöxtur góðkynja, stundum veldur hann hreinlega banvænum æxlum. Það var á þessum gróskutíma nútímavæðingar sem Reykjavíkurlistinn steypti „íhaldinu" af valdastóli í Reykjavík. R-listinn gerði margt gott en var stundum einum of hallur undir nútímavæðingu og er eitt æxlið sem af henni leiddi orðið ansi sýnilegt í Skuggahverfinu í Reykjavík. Og þetta æxli virðist vera illkynja og ætla breiða úr sér upp yfir Hverfisgötu og allt upp á Laugaveg og tjóar ekki þótt „íhaldið" sé aftur komið til valda ásamt Framsóknarflokknum, sem oft hefur verið kallaður íhaldsamastur ef ekki afturhaldsamastur allra flokka en hefur á undanförnum árum nútímavæðst öðrum flokkum fremur. Nei, íhaldsamir eru þeir kallaðir sem vilja vernda gömul hús við Laugaveginn en „íhaldið" er jafnnútímalegt og R-listinn var, framfarirnar felast enn í tortímingu gamalla húsa nema þegar dramatískir eldvoðar hræra við tilfinningunum.

Hugtökin „íhaldsemi" og „róttækni" eru í ljósi sögunnar mótsagnakennd. Hugtakið „nútímavæðing" virðist hins vegar nokkuð einfalt, í því skiptir nútíminn einn máli, fortíðin er hvort sem er liðin, framtíðin takmarkast við uppskerutímann, handan hans er tóm. Nú skal byggt, nú skal rifið og byggt, nú skal fyllt út í fjöru og byggt, nú skal byggt og byggt. Þessi hugsun virðist ráðandi um allar trissur, í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, að ekki sé nú talað um óbyggðirnar. Í Reykjavík og Kópavogi er íhaldið svokallaða við völd með litla nútímavædda íhaldsflokkinn Framsókn sér við hlið. Mætti ég kannski benda þessum valdhöfum á að gera uppnefnurum sínum skömm til og sýna að í íhaldsemi getur falist hin besta framtíðarsýn. Varðveisla gamalla húsa við Laugaveginn eða varfærnisleg umgengni á Kársnesinu í Kópavogi yrðu þeim kannski til virðingarauka seinna meir, ef það er þeim nokkurs virði.

Birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2007


Allt skal einkavætt sem hægt er að hagnast á

Að breyta opinberu fyrirtæki eða stofnun í hlutafélag er auðvitað ekki einber spurning um rekstrarform. Það er hægt að haga stjórnun og rekstri stofnana á ýmsan hátt og þarf enga breytingu í hlutafélag til þess, enda hef ég aldrei heyrt trúverðugan rökstuðning fyrir því. Breyting í hlutfélag er einfaldlega fyrsta skrefið til einkavæðingar og samfélagsleg reynsla af einkakvæðingu orkufyrirtækja er almennt ekki góð. En það er öruggt að bakvið tjöldin er gífurlegur þrýstingur og totaot (lobbíismi) í gangi.
mbl.is Hlutafélagavæðing OR rædd á stjórnarfundi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargið lífi Kenneth Foster

Til stendur að taka af lífi í Texas 30. ágúst ungan mann, Kenneth Foster. Foster var 19 ára fyrir 11 árum þegar vinur hans skaut mann. Þeir voru afbrotaunglingar. Foster var með þremur vinum sínum þegar einn þeirra skaut mann, en samkvæmt vitnisburði hafði Foster ekkert með það að gera, hann gat ekki einu sinni vitað hvað þessi vinur hans hafði í hyggju.  Sá var sjálfur tekinn af lífi fyrir einu ári, en blóðþyrstum yfirvöldum Texas er það ekki nóg.

 Ég fékk í dag meðfylgjandi skeyti með tilvísanir í nánari upplýsingar og hvernig hægt er að senda yfirvöldum í Texas áskorun um að þyrma lífi Kenneth Fosters. Jafnframt er hægt að nálgast  upplýsingar hjá Amnesty International í Bandaríkjunum.

 

Urgent: Stop the execution of Kenneth Foster

Texas, the state that has executed 400 people, has three executions scheduled for this week. One of these men, Kenneth Foster, is innocent based on indisputable evidence. Even the state of Texas admits that he killed no one.

Kenneth was convicted because of Texas' law of parties, although what happened doesn't even fall under this law since Kenneth did not plan or conspire to commit the murder that took place. And he could not have foreseen what happened. Under the Texas Law of Parties a person can be found responsible for a crime committed by another person if they encouraged, aided or conspired to commit the crime or if they could have anticipated the crime was to be committed. Texas is the ONLY state that a person can be sentenced to death if they intended to kill or anticipated that someone would be killed.

So on August 30 Texas wants to execute a man who never touched the gun, who killed no one, and who was 80 feet away in a car with the windows rolled up and the radio blaring while a man was shot by another young man who has already been executed.

Kenneth Foster's case is important not just because he is innocent; not just because the death penalty targets people of color and the poor. Kenneth is also an activist and a leader on death row. He help found the DRIVE Movement which has held numerous hunger strikes and protests on death row. Right now he and Johnny Amador, who is also scheduled to be executed this week, are both on a hunger strike. Neither will go willingly to their death and neither will cooperate with the executioners.

Please go to www.freekenneth.com  and click on the third "HERE" where it says:
"Write Governor Perry, Members of the Board of Pardons and Paroles and Members of the Texas Legislature to Stop the Execution of Kenneth  HERE"

Make phone/fax calls to Gov. Rick Perry’s Office: Call 800-252-9600 (Texas callers) or 512-463-1782 (Austin and out of state), and send faxes to 512-463-1849. Governor's Citizen's Assistance and Opinion Hotline: (512) 463-1782 Office of the Governor Main Switchboard: (512) 463-2000 [office hours are 8:00 a.m. to 5:00 p.m. CST]

Contact the Texas Board of Pardons & Paroles and tell them to grant Kenneth Foster clemency: Phone (512) 406-5852 Fax (512) 467-0945

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband