Styð ég kannski fjöldamorð?

Ég horfði í gær í Friðarhúsinu á býsna fróðlega heimildarmynd um stríðið í Júgóslavíu, Yugoslavia - The Avoidable War. Í myndinni er fjallað um það sem lítið hefur komið fram í fjölmiðlum, þ.e. þátt stórveldanna í þróuninni. Egill Helgason var svo vænn að víkja að myndinni á bloggsíðu sinni, Silfur Egils, 21. ágúst, og vísaði til tilkynningar um hana á Friðarvefnum. Egill varaði reyndar við myndinni og vísaði til gagnrýni á hana, og takk fyrir það. Í þessari gagnrýni er myndin talin mjög hlutdræg og hliðholl Serbum. Það er vissulega rétt að myndin dregur mjög taum Serba. Þannig er ekki rétt að flokka myndina sem hlutlausa heimildamynd (hvenær er svosem hlutleysi algert þegar flóknum atburðum er lýst?), hún bregst við einhliða málflutningi fjölmiðla og helstu valdamanna heims þar sem Serbar voru gerðir að allsherjarblórabögglum í flókinni atburðarrás.

En Egill kemur með ansi djarfmannlega fullyrðingu í bloggi sínu: „Einhver furðulegasta árátta vinstri manna er að reyna stöðugt að bera í bætifláka fyrir morð og grimmdarverk Serba í Bosníustríðinu – kannski í samræmi við þá hugmynd að allir óvinir Nató og Bandaríkjanna séu í rauninni ágætir.“

Ég er kannski eftirtektarlaus, en þessi meinta árátta vinstri manna hefur farið fram hjá mér, og hef ég þó fylgst talsvert með málflutningi vinstri manna um striðið í Júgóslavíu. Vissulega er til eitthvað í þessa átt, en heyrir þó til undantekninga. Egill hins vegar dettur hér í þá gryfju sem hann sakar vinstri menn um, að sjá allt svart og hvítt: Sá sem gagnrýnir aðkomu NATO og Bandaríkjanna eða annarra vestrænna stórvelda að stríðinu í Júgóslavíu og fordæmir loftárásirnar á Júgóslavíu 1991 hlýtur að standa alfarið með Milosevic. Á sama hátt var reynt að segja að þeir sem gagnrýndu innrásina í Írak stæðu með Saddam Hussein, en andstaðan gegn þeirri innrás varð bara svo mikil að það gekk ekki upp. Nú dettur engum í hug að segja andstæðinga stríðins í Írak vera stuðningsmenn Saddams. Og aðeins hörðustu kaldsstríðsdraugar segja að sá sé stalínisti sem er á móti NATO. En, sem sagt, Egill telur þá milosevic-ista!

Um innrásina í Júgóslavíu 1999, sjá hér.

(Ath. einn tengill þar er óvirkur, en sömu grein má fá hér:

http://www.fredsrorelsen-pa-orust.se/usa_myt_om_folkmord.html)


Chavez fær eigið tímabelti

Þetta er fyrirsögn lítill fréttar á forsíðu Blaðsins í dag. Þar segir að Venesúela muni taka upp eigið tímabelti um næstu áramót, klukkan verði færð fram um hálftíma. Chavez forseti segi breytinguna muni bæta líðan þjóðarinnar og styrkja hana í námi og starfi, sólin skíni þegar landsmenn fari á fætur. „Þetta er spurning um efnaskipti, þar sem heilar mannanna stjórnast af sólarbirtu,“ er haft eftir forsetanum.

Af og til birtast í fjölmiðlum svona litlar fréttir af Hugo Chavez, forseta Venesúela, fréttir um einhver skringilegheit af hans hálfu eða ámælisvert háttalag – fréttir um athafnir hans og stefnu eru venjulega settar í neikvætt samhengi – ef þær eru settar í eitthvert samhengi. Fyrir utan svona smáfréttir ýmsar kemur stundum samfelldari fréttaflutningur um átök hans við fjölmiðla (fyrst og fremst eina sjónvarpsstöð) eða viðleitni til að breyta stjórnarskránni þannig að hann geti enn um sinn boðið sig fram til embættis forseta. Svo eru fréttir um þjóðnýtingaráform og þess gætt að geta vandræða sem af þeim hljótast (Fjárfestar flýja frá Venesúela). Allt er þetta sett fram þannig að maðurinn verður mjög tortryggilegur, bakgrunnurinn að átökunum við sjónvarpsstöðina eða ástæður þjóðnýtingaráformanna eru ekki rakin. Við erum aldrei frædd um jákvæð áhrif stjórnarstefnu hans fyrir alþýðuna í Venesúela.

Hvað er eiginlega fréttnæmt við það að til standi að breyta klukkunni í Venesúela? Það kemur ekkert fram í fréttinni – lesandinn dregur sennilega þá ályktun að hér sé á ferðinni enn eitt sérviskulegt og einræðislegt tiltæki hjá Chavez. Það hafa ábyggilega aldrei birst fréttir í fjölmiðlum í Venesúela um áhuga íslenska verslunarráðsins (eða viðskiptaráðsins) á að breyta klukkunni á Íslandi á sumrin (eins og víða er gert – reyndar er hér „sumartími“ að staðaldri eftir að hætt var að breyta klukkunni fyrir mörgum árum) til að samræma hana vinnutíma í öðrum löndum og með þá aukaástæðu „að vinnudagur sumarsins byrjaði einni klukkustund fyrr en nú er og lyki einnig fyrr og þar með nyti fólk sólarinnar, þá daga sem til hennar sést, lengur eftir að komið er heim frá vinnu“  (http://www.capacent.is/Pages/556?NewsID=50) og – eins og ég man eftir að sagt var þegar umræða um þetta stóð sem hæst fyrir nokkrum árum – að notalegra yrði að grilla úti. Er þetta ekki eitthvað svipað og Chavez er að tala um, nema hann minnist ekki á grillið? Já, ekki er öll vitleysan eins – eða hvað?

Ef maður gúglar svo Chavez á íslensku sést vel hver áhrif þessi fréttaflutningur hefur, margir finna hjá sér þörf til að blogga um Chavez en nánast allt er það fullt af fordómum, vandlætingu og hæðni ef ekki reiði og fyrirlitningu. En hvað vita menn um Chavez og stjórn hans? Hvað veldur þessari neikvæðni í hans garð? Hefur hann ráðist inn í önnur lönd? Hefur hann stutt valdarán í öðrum löndum? Hefur hann sett „föðurlandslög“ sem takmarka borgaralegt frelsi? Hefur hann komið upp fangabúðum víða um heim utan við lög og rétt? Hefur hann afhent fjárplógsmönnum heilsugæsluna, vatnsveituna, rafmagnið,  símann og bankana? Hefur hann haft frumkvæði að viðskiptasamningum sem hygla hinum ríku? Eða er það kannski fyrst og fremst þjóðnýtingin sem fer í taugarnar á mönnum, þjóðnýting sem er kannski ekkert róttækari en það sem sósíaldemókratískar og frjálslyndar borgarlegar ríkisstjórnir voru að gera í Evrópu á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina? 

Hér eru nokkur dæmi um fréttaflutning af Chavez:

Vísir, 09. jan. 2007: Fjárfestar flýja frá Venesúela:
Örstutt frétt vegna áforma um þjóðnýtingar. Í lokin kemur þetta og er tæpur helmingur fréttarinnar: „Chavez talaði víst um meira í ræðu sinni í gær því þar kallaði hann aðalritara Bandalags amerískra þjóða „hálfvita" fyrir að hafa gagnrýnt stjórnarhætti sína. Jafnvel Daniel Ortega, sem er verðandi forseti í Níkaragúa og stuðningsmaður Chavez, reyndi í dag að fjarlæga sig frá ræðu Chavez og varaforseti hans sagði enga þjóðvæðingu á döfinni þar í landi.“ 

RÚV: 21.09.2006: Hugo Chavez úthúðar Bush á þingi SÞ:
„Hugo Chavez, forseti Venesúela, jós skömmum og svívirðingum yfir Bush Bandaríkjaforseta úr ræðustóli allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í gærkvöld. Bush, ávarpaði þingið í fyrradag og Chavez sagði að þá hefði djöfullinn sjálfur staðið í ræðustólnum. Enn mætti finna brennisteinsfnykinn sagði Chavez og krossaði sig. Hann sagði að Bush hefði talað eins og hann ætti heiminn. Hann þyrfti á geðlækni að halda. Fundarmenn klöppuðu á köflum ákaft fyrir ræðunni.“

Fréttablaðið 28. júní 2007:
Frétt um álit bandarísks sálfræðiprófessors á Chavez: prófessorinn „segir óöryggi, „neikvæða sjálfsdýrkun“ og þörf fyrir að vera hrósað knýja Hugo Chavez, forseta Venesúela, áfram í að ögra og lenda upp á kant við bandarísk stjórnvöld.“

Blaðið 25. júlí 2006:
Frétt um heimsókn Cavez til Hvíta Rússlands þar sem hann hafði hrósað stjórnvöldum þar í hástert.

Jóhann Björnsson var með svipaðar hugleiðingar í bloggi sínu 25. júlí.
http://johannbj.blog.is/blog/johannbj/entry/270453/

Fáeinar upplýsandi greinar hafa birst á íslensku, fyrst og fremst á netinu:

Pétur Ólafsson: Vinstrið í Suður-Ameríku – Er nýfrjálshyggjan gjaldþrota? Vefritið, 1. desember 2006

María Kristjánsdóttir:
Sósíalismi hvað?
Nokkrar staðreyndir um Chavez og RCTV
Samfylkingin, Björn Bjarnason, Morgunblaðið og ég

Múrinn:
Mogginn finnur sér kaldastríðsandstæðing
Rice finnur rauðu hættuna í suðri

Vert er að benda á vefinn http://www.venezuelanalysis.com



Mótmælum heræfingum

Dagana 13. - 16. ágúst standa yfir heræfingar á vegum NATO og taka þátt í þeim herlið frá Bandaríkjunum, Noregi, Danmörku og Lettlandi. Samtök hernaðarandstæðinga hafa mótmælt þeim (sjá ályktun) og skipuleggja mótmælaaðgerð gegn þeim þriðjudaginn 14. ágúst.

Safnast verður saman við norska sendiráðið (við Fjólugötu), þriðjudaginn 14. ágúst kl. 17. Þaðan verður gengið að sendiráðum Bandaríkjanna, Danmerkur og loks numið staðar við Stjórnarráðið og húsráðendum á hverjum stað tjáð andstaða íslenskra friðarsinna.

 

Sjá nánar Friðarvefinn, www.fridur.is.


Kertafleyting 9. ágúst

kertafleyting1 Kertafleyting í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjanna í Hírósíma og Nagasakí í ágúst 1945 verður við Tjörnina í Reykjavík fimmtudaginn 9. ágúst kl. 22:30.

Friðarvefurinn - www.fridur.is

Bendi á að sama kvöld kl. 20 verður Hinsegin bókmenntaganga á vegum Borgarbókasafns í tilefni Hinsegin daga. Upplagt að byrja í henni og fara svo á kertafleytinguna. Sjá Bókmenntavefinn, http://www.bokmenntir.is


Hneykslanlegur viðskilnaður Dana við Írak

Eftirfarandi skeyti barst mér í dag frá Jan Öberg framkvæmdastjóra Transnational Foundation for Peace and Future Reasearch í Lundi. Birtist líka á Friðarvefnum.

31. júlí 2007

1. Það rignir yfir okkur skýrslum um það hörmulega ástand sem íraska þjóðin býr við – í Írak og í vaxandi mæli utan Íraks. Viðskiptabann okkar kostaði um milljón Íraka lífið, stríðið meira en hálfa milljón. Landið er eyðilagt, tvær kynslóðir hafa ekki fengið tækifæri til heilbrigðis, menntunar og annarrar þróunar.

Hvar er það GÓÐA sem átti að leiða af þeim kostnaði sem Danmörk og fleiri hafa lagt í þetta og dagblaðið Politiken spyr lesendur sína um í dag?

2. Hvernig er hægt að draga sig til baka ÁN ÞESS AÐ leiða hugann að því hvort við eigum að hjálpa Írak að koma undir sig fótunum á ný? Hvar er afsökun Danmerkur? Hvað leggjum við fram til enduruppbyggingar, sátta, friðar, til að koma aftur á eðlilegu ástandi? Skaðabætur vegna viðskiptabannsins og stríðsins?

Þetta er forkastanlegt siðferðilega og skammarlegt út frá sjónarhóli skynseminnar – einsog ég sagði í bók minni frá 2004, „Fyrirsjáanlegar hrakfarir. Um ófriðinn við Írak og Danmörku sem hernámsveldi“.

Það er gott að Danmörk skuli draga sig út úr Írak, en varla var hægt að gera það af meira hugsunar- og tillitsleysi!

Meira hér: http://www.transnational.org/Area_Index_MiddleEast.htm


Mogginn málgagn SHA?

Nú ber nýrra við, Friðarvefurinn tekur undir með Mogganum! Sjá fridur.is

Eftirlit NATO – nei takk!


Birtist á Friðarvefnum, fridur.is, 30. júlí. 2007

Frá því Ísland gerðist aðili að NATO 30. mars 1949 hefur nokkur breyting orðið á stöðu Íslands gagnvart NATO. Eins og Vigfús Geirdal hefur rakið í grein sem má finna annars staðar hér á Friðarvefnum („Hugleiðing um sérstöðu Íslands í Nato og 5. grein Atlantshafssáttmálans“) hafði Ísland í upphafi sérstöðu meðal aðildarríkja NATO sem endurspeglast í orðum Bjarna Benediktssonar þáverandi utanríkisráðherra Íslands í ávarpi sem hann flutti við undirritun Atlatnshafssáttmálans í Washington 4. apríl 1949: „Ísland hefir aldrei farið með hernað gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við nje munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af sameinuðu þjóðunum.“

„Nánast eina skuldbinding Íslendinga við Nató“ segir Vigfús í þessari grein „er að leggja til land (sér að kostnaðarlausu) undir hernaðaraðstöðu með svipuðum hætti og gert var í seinni heimstyrjöld“ og „og það mundi algerlega á valdi Íslands sjálfs hvenær sú aðstaða yrði látin í té.“

Árið 1951 gerði íslenska ríksstjórnin samning við Bandaríkin um herstöðvar hér landi. Þær herstöðvar hafa nú verið lagðar niður án þess þó að herstöðvasamningnum hafi verið sagt upp. Ísland lagði sem sagt til land undir hernaðaraðstöðu en að öðru leyti voru Íslendingar nánast óvirkir í hernaðarstarfsemi NATO þar til 1984 að fulltrúi var skipaður í hermálanefnd NATO. Síðan átti Ísland aðild að ákvörðun um hernað NATO í Bosníu 1994 til 1995 og innrásina í Júgóslavíu 1999. Jafnframt hefur Ísland lagt til mannskap í hersveitir NATO í Bosníu, Kósovó, Afganistan og Írak undir yfirskini friðargæslu.

Nú er bandaríski herinn farinn án þess þó að herstöðvasamningnum hafi verið sagt upp. Hvenær verður að gert? En burtséð frá því, þá stöndum við enn á tímamótum: ætla Íslendingar nú að fara að reka hernaðarmaskínu? Hvað með íslenska ratsjárkerfið sem verður samkvæmt ákvörðun Norður-Atlantshafsráðsins sl. fimmtudag tengt við sameiginlegt loftvarnarkerfi NATO, NATINADS (NATO’s Integrated Air Defence)? Á íslenska ratsjárkerfið að verða í framtíðinni hernaðarlegt loftvarnarkerfi? Verður Ísland nú enn virkari þátttakandi í hernaðarstarfi NATO með þessari áætlun sem nú hefur verið ákveðin – eða að hvaða leyti breytist aðkoma Íslands nú að NATO? Erum við nú komin með aðra aðkomu að NATO? Þarf ekki að ræða það? Er yfirleitt þörf á þessu eftirliti sem ákveðið var sl. fimmtudag? Væri kannski nær að leggja áherslu á eitthvað annað, setja peningana í landhelgisgæsluna og björgunarsveitir - er ekki óblíð náttúran meiri ógn við okkur en ímynduð árás utan að? Er besta vörnin kannski í því fólgin að vera utan við þessa hernaðarmaskínu og óháð þeim heimsvaldahagsmunum sem að baki henni liggja? Er ekki bara löngu tímabært að segja skilið við NATO, þetta hernaðarbandalag sem hefur orðið æ árásargjarnara og uppivöðslusamara allar götur frá því kalda stríðinu lauk og hlutverki þess, hversu sáttur sem maður var við það, hefði átt að vera lokið?

Hvað sem öllu þessu líður, þá hefði í það minnsta verið eðlilegt að ræða þessi mál ítarlega á víðtækum og þverpólitískum vettvangi, svo sem þeim samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál sem boðaður var í stjórnarsáttmálanum, áður en við fengum þær fréttir nú um helgina að Norður-Atlantshafsráðið hefði samþykkt áætlun um reglubundið eftirlit með lofthelgi Íslands. Þetta er nefnilega meira en bara tæknileg ákvörðun.


Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fyrirhuguðum heræfingum

Miðnefnd SHA hefur samþykkt og sent frá sér eftirfarandi  ályktun (www.fridur.is):

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fyrirhuguðum heræfingum NATO-ríkjanna Noregs, Danmerkur, Bandaríkjanna, Lettlands og Íslands sem ætlunin er að halda dagana 13. til 16. ágúst næstkomandi. Ekkert réttlætir misnotkun á íslensku landi og íslenskri land- og lofthelgi til æfinga í meðferð drápstóla. Ekkert réttlætir heldur misnotkun á íslensku almannafé – 45 milljónum króna - til að borga undir slíkt.

Ísland, sem menn vilja á tyllidögum kalla herlaust land, ætti að sjá sóma sinn í því að hafna hvers kyns hernaðarbrölti. Því er það grátlegt að Ísland skuli þess í stað ýta undir það með því að bjóða hingað til æfinga herjum erlendra ríkja, þar á meðal Bandaríkjaher sem er blóðugur upp fyrir axlir vegna þátttöku sinnar í hverju siðlausu stríðinu á fætur öðru.

Æfingar af þessum toga eru ekki aðeins aðferð herveldanna til að þjálfa herlið sitt heldur einnig til að staðfesta áhrifasvæði sitt, berast á gagnvart hugsanlegum andstæðingum og jafnvel ögra þeim. Þeim fylgir mengun, ónæði og hætta. Þær staðfesta hlutverk Íslands sem lítils NATO-peðs sem Bandaríkjamenn geta treyst á að styðji allt hernaðarbrölt
sem þeir taka sér fyrir hendur.


Í minningu Baldvins

Útför Baldvins Halldórssonar fór fram í dag. Ég kynntist Baldvini fyrir hartnær 40 árum þegar hann kom upp á loftið á Íþöku í MR til að segja áhugasömum menntskælingum til í framsögn. Hann setti okkur reglur. Stundum las hann fyrir okkur og þá átti hann til að þverbrjóta reglurnar sem hann hafði rétt áður sett okkur. Það gat hann af því að hann þekkti þær og vissi hvar mátti brjóta þær. Síðan hef ég getað lesið upp nokkuð skammlaust. Kynni okkar héldu áfram og við heilsuðumst alltaf með virktum þegar við hittumst. Þótt það væri ekki nema örstutt spjall hafði það einhver upplyftandi áhrif. Jafnvel aðeins í örfáum setningum og stuttu augnatilliti birtist alvara blandin gamnansemi, jarðbundin menning í bland við hugsjónir, samstaða. Eins og aðrir hreifst ég af honum sem leikara og ekki síður sem upplesara. Leiðir okkar lágu stundum saman  þegar herstöðvum og hernaði var andæft og í því sambandi vil ég taka undir þau orð sem birtust á Friðarvefnum eftir að fréttin af andláti hans barst út: http://fridur.is/2007/07/16/baldvin-halldorsson-kvaddur/ 

Stendur Ísland utan valdablokka – hvað með NATO?

Eftirfarandi grein birtist á Friðarvefnum 19. júlí 2007

Í Morgunblaðinu í dag, 19. júlí, er haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra, sem er stödd í Ísrael - eða líklega Palestínu þegar þetta er skrifað, að nú sé að opnast glufa til samninga milli Ísraels og Palestínu og mikill vilji sé til þess að finna aðila sem geti haft milligöngu. Blaðið hefur eftir ráðherranum: „Ég hef heyrt í dag hjá fulltrúum þeirra sem sitja á ísraelska þinginu að þeir telja að Ísland geti haft hlutverki að gegna ef að við raunverulega viljum og setjum okkur inn í mál og sýnum áhuga. Og þá ekki síst vegna þess – sem er náttúrlega kannski dálítið merkilegt – að við stöndum utan við allar stórar valdablokkir.“

Já. Þetta er óneitanlega merkilegt, að við stöndum utan við allar stórar valdablokkir. Nú veit ég ekki hvort þetta er meining utanríkisráðherra Íslands eða hvort hún er bara að vitna til orða ísraelskra ráðamanna. En óneitanlega er Ísland aðili að Atlantshafsbandalaginu, NATO, hernaðarbandalagi ríkja í Evrópu og Norður-Ameríku undir forystu Bandaríkjanna. Á árum kaldastríðins voru tvær meginvaldablokkir í heiminum sem kristölluðust í NATO og Varsjárbandalaginu. NATO hefur haldið áfram að vera valdablokk þótt hin blokkin hafi breyst og veikst. En það er til marks um að þessar blokkir eru enn til að milli Bandaríkjanna og NATO annars vegar og Rússlands hins vegar hefur verið vaxandi spenna á undanförnum misserum. Valdablokkin Bandaríkin/NATO hefur allt frá lokum kalda stríðsins verið í átökum við ríki sem ekki hafa viljað gangast undir forræði eða inn á hugmyndafræði hennar. NATO gerði innrás í Júgóslavíu árið 1999 og Bandaríkin réðust inn í Írak árið 1991 og aftur árið 2003 og inn í Afganistan árið 2001. NATO hefur verið með herlið og starfsemi bæði í Írak, Afganistan og Júgóslavíu. Vissulega voru mikilvæg NATO-ríki eins og Þýskaland og Frakkland andvíg innrásinni í Írak 2003 en Ísland studdi hana og tók sér þannig stöðu með valdbokkinni innan valdablokkarinnar, Bandaríkjunum og Bretlandi. NATO byggist á ákveðnum hugmyndafræðilegum grundvelli, hugmyndafræði sem hefur verið tekist á um og er enn tekist á um. Það er líka rétt að hafa í huga að NATO hefur á undanförnum árum verið að taka upp æ meiri samskipti við Ísrael (sjá nánar).

Ísland er vissulega fámennasta ríkið í NATO og hefur þá sérstöðu að hafa engan her þótt bandarískar herstöðvar hafi verið hér til skamms tíma. Þessi sérstaða hefur skapað Íslandi meiri hlutleysis- og friðarímynd en við eigum skilið. Og það er kannski ekki óeðlilegt að ráðamenn í Ísrael kjósi að horfa framhjá því að hinn nýi bandamaður, NATO, sé valdablokk, eða að náið samband Íslands og helsta stuðningsríkis Ísraels, Bandaríkjanna, skipi Íslandi í einhverja valdablokk. Það er hins vegar ekki víst að allir í hinum arabíska heimi líti jafn létt framhjá því. Þar vita kannski sumir að Ísland og Ísrael eru í raun í sömu valdablokkinni. Það er því óskandi að utanríkisráðherra Íslands detti ekki ofan í einhverja óskhyggju um að Ísland geti verið í senn aðili að NATO og utan allra valdablokka.

Ef Íslendingar segðu sig úr NATO og hættu hverskyns þátttöku í hernaðarbrölti, þá væri eðlilegt að litið yrði til þess að Ísland hefði hlutverki að gegna við lausn alþjóðlegra deilumála. Það væri óskandi að utanríkisráðherra Íslands sæi það ljós. Það er kannski borin von að slíkt skref verði stigð af stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að, en horfum til þess að önnur stjórn taki við og stigi skrefið. Ef núverandi utanríkisráðherra lætur ekki blekkja sig með fagurgala, þá gæti hún jafnvel verið utanríkisráðherra í ríkisstjórn sem tæki slíkt heillaskref.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband