Ísland með 13 hermenn í Afganistan

Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í gær eru nú 13 hermenn í Afganistan á vegum Íslands. Þeir eru auðvitað ekki kallaðir hermenn í blaðinu heldur starfsmenn Íslensku friðargæslunnar. Það breytir því ekki að þeir eru hluti af svokölluðum ISAF-sveitum NATO og NATO stendur í stríði í Afganistan, hvaða nafn sem það stríð hefur opinberlega. Hin svokallaða friðargæsla NATO felst í því að NATO kom inn í Afganistan í kjölfar innrásar Bandaríkjanna og hefur í raun tekið að sér hlutverk hernámsliðs. Ferill NATO í Afganistan hefur orðið æ blóðugri að undanförnu.

Sjá nánar Friðarvefinn, fridur.is


Í íslenskum fiskbúðum fæst bara ýsa!

  Ég komst í dálítinn stafla af mynddiskum með serbneskum og króatískum bíómyndum og gat valið mér eina til að fara með heim í gær. Valdi af handahófi serbneska mynd sem heitir Tango Argentino eftir Goran Paskaljević. Við horfðum á hana tvö saman, hjónin, og þetta var mjög góð mynd, svona gullmoli eins og sagt er, og hefði verið gaman að sjá hana með börnunum okkar þegar þau voru yngri og enn heima á föstudagskvöldum. 

Þegar myndin var búin kíkti ég í Fréttablaðið og leit á sjónvarpsdagskrána þar. Það sem við höfðum misst af í Ríkissjónvarpinu var bandarísk ævintýramynd og svo var bandarísk hasargrínmynd nýbyrjuð. Síðasta myndin á þeirri stöð var bandarísk spennumynd. Á Stöð 2 samanstóð kvölddagskráin af Simpson, þremur bandarískum bíómyndum og einhverju sem heitir „So you think you can dance“. Stöð 2 bíó: fimm bandarískar myndir. Sirkus TV: bandarískir framhaldsþættir hver af öðrum fram á nótt. Skjáreinn: bandarískir framhaldsþættir, bandarískur raunveruleikaþáttur, og svo reyndar tónleikar með breskri söngkonu. Sá þáttur virðist hafa verið eini þátturinn á fimm íslenskum sjónvarpsstöðvum sem ekki var bandarískur. Svo fann ég í blaðinu sjónvarpsstöðina Sýn með þáttum um supercross og póker, Omega með ótilgreindri dagskrá og Fasteignasjónvarpið með þættinum Nýjar eignir. 

Nú hef ég svo sem ekkert á móti bandarískum kvikmyndum, þær eru svona upp og ofan eins og gengur. En þessi einsleitni á íslenskum sjónvarpsstöðvum er sláandi á tímum sem stundum eru kenndir við fjölmenningu. Ég get kannski ekki mikið verið að nöldra út í einkareknu stöðvarnar, get reyndar ekki horft á Stöð 2 af því að ég hef aldrei keypt áskrift að henni. En metnaðarleysi Ríkissjónvarpsins er slíkt að stundum getur verið erfitt að mæla gegn einkavæðingu þess þegar það rær bara á sömu mið og hinar stöðvarnar, mið þar sem fengurinn er alltaf sá sami, - þetta er eins og að éta ýsu í öll mál sem er dálítið einhæft þótt mér þyki ýsa ágæt sé hún ný og fersk. Einstaka sinnum má sjá þar kvikmyndir sem eru framleiddar utan Bandaríkjanna, oftast þá breksar og svo er ein og ein mynd frá öðrum löndum. Þær voru reyndar lengi vel helst sýndar seint á sunnudagskvöldum, of seint fyrir venjulegt vinnandi fólk.

Svo allrar sanngirni sé gætt er dagskrá Ríkissjónvarpsins í kvöld heldur fjölmenningarlegri því að þá verða hvorki meira né minna en tveir breskir framhaldsþættir og skosku löggurnar í Taggart eftir miðnætti auk tveggja bandarískra mynda. Og á sunnudaginn verður franskur framhaldsþáttur auk bandarískrar myndar. Hvað er ég svo að nöldra? Reyndar fékk ég tvo serbneska diska, kannski ég horfi á hinn áður en Taggart byrjar í kvöld.


Eiga einkafyrirtækin að sjá um og kosta framhaldskólana?

Vangaveltur skólameistara MA lýsa miklum metnaði stjórnvalda í skólamálum - eða hitt þó heldur. Stjórnendur annars elsta framhaldsskóla landsins gælir við þá hugmynd að gera skólana að einkaskóla svo hægt sé að betla peninga hjá einkafyrirtækjum til að reka skólanna af því að hann fær ekki nóg rekstrarfé. En þetta er eins og víða í heilbrigðiskerfinu þar sem sífellt fjársvelti og óstjórn hefur ýtt fagfólki út í pælingar um að stofna bara einkafyrirtæki til að reka þetta. Og vo kemur það upp að hið opinbera kunni ekki að reka stofnanir eða fyrirtæki. En kannski hægri stjórnir bara vilji ekki reka sínar stofnanir sómasamlega, þær vilja einkavæða þær.
mbl.is Verður Menntaskólinn á Akureyri gerður að einkaskóla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hernaðarandstæðingar mótmæla herskipum NATO

Við fórum í dag nokkrir hernaðarandstæðingar niður á höfn, fyrst gömlu höfnina og svo inn í Sundahöfn, til að dreifa drefibréfi til fólks sem var að skoða herskipin. Sjá nánar á Friðarvefnum, fridur.is.

Strætó

Nú er komið að því að fjalla um strætó. Ég tek strætó flesta virka daga, oftast tvisvar á dag, og stundum um helgar. Mér líkar vel að taka strætó. Það tekur mig heldur lengri tíma að komast á áfangastað en í einkabíl en á móti kemur að ég fæ svolítinn göngutúr til og frá biðstöðinni, ég slappa af í strætó, hef mann sem keyrir fyrir mig og tek gjarnan með mér tímarit eða bók og les. Stundum hitti ég einhvern sem ég þekki. Ég er orðinn málkunnugur fólki sem bíður oft með mér í biðskýlinu. Ég losna við að leita að bílastæði. Og ég spara heilmikinn pening.

 

Ég keypti í haust svokallað S-kort sem gilti frá 1. september til 1. júní, þ.e. níu mánuði. Það kostaði 27 þúsund krónur. Það gerir 98 kr. á dag. Mér reiknast til að ég hafi farið a.m.k. 300 ferðir. Ferðin kostaði skv. því 90 kr. Meðallengd ferðar var u.þ.b. 7 km. Samtals 2100 km. Á bíl sem eyðir 10 l á 100 km í innanbæjarakstri þýðir þetta að ég hefði eytt 210 l af bensíni. Um miðjan vetur kostaði bensínlíterinn u.þ.b. 112 kr. Þessi vegalengd hefði því kostað 23.520 kr. í bensíni. Mánaðarlegur kostnaður við að leggja á gjaldsvæði 3 er u.þ.b. 4000 kr. eða fyrir allan veturinn 9x4000 = 36 þúsund kr. Kostnaður fyrir mig, sem vinn í miðbæ Reykjavíkur, við að fara á bíl hefði því verið u.þ.b. 59.000 kr. Ég sparaði sem sagt 32.000 kr. með því að taka strætó. Þá er ekki talinn viðhaldskostnaður, olíuskipti o.þ.h. Opinberan starfsmann á miðlungslaunum munar um það. Ég hefði auðvitað sparað enn meira með því að reka ekki bíl, en það geri ég og þarf að bera talsverðan kostnað af honum þótt ég noti hann tiltölulega lítið. En kostnaðurinn er minni með minni notkun. Reyndar erum við tvö um bílinn, það er ekki einn bíl á mann í minni fjölskyldu. Þegar ég bjó í Noregi fyrir um 20 árum var tryggingagjaldið á bílnum miðað við hversu mikið var ekið. Það fannst mér snjallt.

Reyndar er ég á því að svona langtímakort í strætó ætti að kosta minna. Það ætti að vera a.m.k. ódýrara en bensínkostnaður á 5 km langri leið miðað við 8-10 ferðir á viku. Kannski 15000 kr. miðað við 9 mánuði. Snjallara væri þó að hafa árskort. Eina af röksemdunum fyrir því að fækka ferðum í sumar er að farþegum fækki svo mikið þegar skólunum lýkur. Nú er það svo að unga fólkið sem er í skólum þarf líka að komast leiðar sinnar yfir sumarið, það fer að vinna og þarf að komast í vinnu auk annars. En það kaupir sér kannski ekki græna eða rauða kortið 1. júní heldur reynir að komast á bíl, foreldrar keyra aukakrók með þau eða félagarnir sem eiga bíl skutlast með þau. Jú, það er einhver samnýting á bílum en væntalega einhverjir krókar og meiri keyrsla. Ef S-kortið hefði nú gilt áfram yfir sumarið, þá mundu kannski einhverjir nota strætó sem ekki gera það ella. Það hefði nú verið flott í stað þess að fækka ferðum að tilkynna: „Ákveðið hefur verið að S-kortið, sem átti að gilda til 1. júni, gildi til 1. september. Með því er ýtt undir notkun á strætó og tryggir viðskiptavinir fá svolitla umbun. Framvegis mun kortið verða árskort og lækka í verði.“ Þetta hefði verið flott!

En hvað var gert? Jú, það voru gerðar allmiklar breytingar á nýja leiðarkerfinu sem tók gildi í júlí 2005. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. Nýtt leiðakerfi þarf reynslu og endurskoðun í ljósi hennar. En þessi breyting nú í vor, sem var ansi mikil og tók til margra leiða, var sáralítið kynnt. Fastir viðskiptavinir áttuðu sig á þessu á síðustu stundu. Jæja, það voru nú kannski tímabundin vandræði. Kannski svolítil óvirðing við mann. En svo allrar sanngirni sé gætt var lítil tilkynning um breytinguna í vögnunum með nokkrum fyrirvara, en hún var lítil og lítt áberandi.

Breytingar á leiðakerfi koma óhjákvæmilega misjafnlega við fólk, fyrir suma er hún til bóta, fyrir aðra er hún til óþæginda. Það er óhjákvæmilegt. Sumar breytingar eru kannski umdeilanlegar eða jafnvel forkastanlegar eins og mér sýnist það vera að hætta ferðum að Vífilsstöðum. Fyrir mig var breytingin til óþæginda, ég er talsvert lengur áleiðinni eftir hana, en ég bjó reyndar við lúxus fyrir hana.

Hitt var verra að ferðum var fækkað. Notkunin er minni á sumrin, var sagt, en við, sem hittumst á hverjum morgni í biðskýlinu á leið okkar í vinnu, við erum tryggir viðskiptavinir, við erum þetta fólk sem alltaf er verið að segja að þurfi að vera meira af. Fyrir utan það að ferðatíminn lengdist fyrir mig, þá er ég nú kominn annaðhvort 20 mínútum of snemma í vinnuna eða 10 mínútum of seint. Hversu lengi verð ég tryggur viðskiptavinur? Hversu lengi verð ég þetta fólk sem þarf að verða meira af? Jú, ég er reyndar sauðþrár og vil ferðast með strætó. Seinþreyttur til vandræða. En mér finnst einhvern veginn að mér sé ekki sýnd mikil virðing.

Þetta kemur ofan á ýmislegt annað. Biðskýlið á Lækjartorgi varð að einhverju öðru. Í vetur þegar ég ætlaði að fara þar inn einhverntíma var það lokað. Þegar ég ætlaði að kaupa rauða krotið þar 1. júní var það lokað. Mér skilst það sé bara opið yfir nóttina af því að það þjónar nú næturlífi Reykjavíkurborgar. Farþegar strætó norpa í alltof litlu glerskýli sem næðir í gegn. Nógu flott með auglýsingum um girnilegan varning! Í Mjódd er skýli með sjoppu, en bekkirnir fyrir utan eru steinsteyptir bekkir baklausir. Bekkirnir inni á Hlemmi voru líka allt í einu orðnir baklausir, það er dálítið langt síðan. Maður húkir þar eins og hrúga. Kannski til að maður sitji þar ekki lon og don og drekki og dópi.

Einhver úr stjórn Strætó sagði að það hafi verið svo og svo mikið tap á Strætó. Þess vegna hafi þurft að spara. En það er ekki rétt að tala um tap. Strætó er ekki ætlað að standa undir sér. Ef ekki er sett nógu mikið fé í reksturinn er ljóst að endar ná ekki saman. Þá þarf að taka afstöðu til þess hvort eigi að auka framlagið eða skerða þjónustuna. Og þjónustu, sem menn segja á hátíðastundu að sé nauðsynleg og fleiri þurfi að nýta, slíka þjónustu á að bæta þótt það kosti eitthvað. Jú, það á að bæta hana haust. Fram til þess geta þeir sem nýta hana bara bitið gras.

Borgarfulltrúar í Reykjavík voru einhvern tíma í fyrra að tala um að það væri rétt að hætta með byggðasamlagið og endurreisa SVR af því að hin sveitarfélögin vildu ekki leggja fé í strætó. Vinstri græn í Kópavogi lögðu til að Kópavogsbúar fengju frítt í strætó, en meirihlutinn gerði bara gys að því. Síðast á bæjarstjórnarfundi nú um daginn. Svo allt í einu, á næsta bæjarstjórnarfundi var tilkynnt að það ætti að verða frítt í strætó fyrir Kópavogsbúa næsta vetur. Framsóknarmenn voru reyndar með kosningatal í fyrra um það að setja upp einhvern sérstakan innanbæjarstætó í Kópavogi. Allir voru voða miklir strætómenn fyrir þær kosningar. Svo er bara ferðum fækkað. Svo er bara tilkynnt að nú verði frítt í strætó. Við, þessi sauðþráu, sem tökum strætó á hverjum degi, við vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið. Ekki af því að það blási úr öllum áttum inn í flottu glerskýlin heldur af því að við vitum aldrei af hvaða átt hann er frá bæjarstjórnunum eða stjórn strætó. Flott að fá frítt í strætó. En mætti ég biðja um aðeins betri þjónustu, jafnvel þótt ég þurfi að borga svolítið fyrir hana.

Í vetur einhvern tíma heyrði ég talað um hvað mislæg gatnamót á Miklubraut / Kringlumýrarbraut ættu að kosta. Ég man nú ekki töluna, en leitaði uppi hvað Reykjavíkurborg setur árlega í strætó. Sú upphæð nemur á 12 árum kostnaðinum við mislægu gatnamótin. Ef framlagið væri hækkað um þriðjung, þá næmi sú hækkun á 36 árum kostnaðinum við gatnamótin. Og þá verða kannski fleiri farnir að nota strætó og dæmið breytt. Við verðum að líta á almenningssamgöngur í samhengi við aðrar samgöngur. Ríkið á að leggja eitthvað í stofnbrautir og þar með í þessimislægu gatnamót. Kannski mætti það framlag í staðinn fara í að styrkja almennigssamgöngurá höfuðborgarsvæðinu. Og fyrir alla muni: ekki leggja niður byggðasamlagið Strætó bs. Samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu verða að vera sameiginlegt verkefni alls svæðisins.


Herskip í höfn, til hvers?

Þrjú herskip á vegum NATO leggjast að bryggju í Sundahöfn að morgni fimmtudagsins 14. júni. Hér er um að ræða bandaríska skipið USS Normandy, sem kemur að Skarfabakka kl. 08:15, spænska skipið SPS Patino, sem kemur að Korngarði kl. 08:45 og þýska skipið FGS Sachsen, sem kemur að Miðbakka kl. 09:30. Rúmlega 700 sjóliðar eru um borð í skipunum.

Sérstaklega skal bent á USS Normandy, sem sigldi í jómfrúarferð sinni árið 1990 til stríðs í Persaflóa og skaut þar 26 Tomahawk-flaugum. Fimm árum seinna tók skipið þátt í Bosníustríðinu og skaut þar a.m.k. 13 Tomahawk-flaugum. Árið 2001 tók skipið þátt í aðgerðum við innrásina í Afganistan og árið 2005 tók það síðan aftur þátt í aðgerðum á Persaflóa. Sumar heimildir segja að notað sé rýrt úran í eitthvað af þeim skotfærum sem þetta skip ber.

Í tilefni af þessu hafa Samtök hernaðarandstæðinga sent frá sér ályktun, sjá Friðarvefinn, www.fridur.is


Nei, þetta er áreiðanlega ekki grín

Á þetta að vera grín? er spurt. Nei, þetta á ábyggilega ekki að vera grín. Það er eflaust búið að reikna út að af þessu geti orðið hagnaður. En í víðara samhengi er þetta auðvitað sóun. Það er sóun að rífa stórt og væntanlega vel byggt hús sem er aðeins 20 ára gamalt. En sá, sem getur reiknað sjálfum sér gróða, spyr ekki um hvernig dæmið kemur út í víðara samhengi. Það er líka umhugsunarvert hvort það er samfélagslega hagkvæmt að stækka verslunarhúsnæðið í Kringlunni. Er það virkilega hagkvæmt að safna öllum verslunum saman á örfáum stöðum? Vísa til hugleiðinga Maríu Kristjánsdóttur: http://mariakr.blog.is/blog/mariakr/entry/236715/

 


mbl.is Morgunblaðshúsið í Kringlunni rifið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil andstaða í Tékklandi gegn fyrirhugaðri gagnflaugastöð

Birtist á Friðarvefnum 11. júní 2007

Fyrirhugað gagnflaugakerfi Bandaríkjanna hefur valdið spennu milli Bandaríkjanna og Rússlands. Ætlunin er að setja upp stöð fyrir gagnflaugar í Póllandi og radarstöð til að þjóna kerfinu í Tékklandi. Viðræður hófust um þessar áætlanir milli varnarmálaráðuneytis Tékklands og bandarískra stjórnvalda í júní 2002 og í júli 2006 komu bandarískir sérfræðingar til Tékklands til að kanna hvar best væri að koma radarstöð fyrir. Fyrir valinu varð Brdy-herstöðin um 70 kílómetra suðvestan við Prag, en þar höfðu Rússar aðstöðu á sínum tíma. Áætlað er að ákvarðanir um staðsetningu þessara stöðva verði lagðar fyrir þing Póllands og Tékklands fyrir árslok.

Ekki eru allir á eitt sáttir í þessum löndum um ágæti þessara áætlana. Í febrúar var haldin ráðstefna í Prag um kjarnorkuvopn og 5. maí sl. var haldin þar alþjóðleg ráðstefna gegn hervæðingu Evrópu að frumkvæði tékkneskra herstöðvaandstæðinga (NE základnám) eins sagt hefur verið frá á Friðarvefnum.

Bæði í Póllandi og Tékklandi hafa skoðanakannanir sýnt mikla andstöðu gegn þessum fyrirætlunum, í Tékklandi eru 60% andvígir, og auk þess hafa æ fleiri úr hópi ráðamanna í Póllandi og þó enn frekar í Tékklandi farið að láta í ljósi efasemdir um þetta. Í allmörgum sveitarfélögum í nágrenni Brdy hafa verið greidd atkvæði um málið og hvarvetna hefur meirihluti verið á móti. Þessar atkvæðagreiðslur eru þó ekki bindandi.

Sjá nánar:

Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu - Friðarvefurinn

Evrópa án kjarnavopna (um herferð evrópsku húmanistahreyfingarinnar gegn kjarnorkuvopnum) - Friðarvefurinn

Vígvæðing NATO: Bandaríkjamenn koma gagneldflaugum fyrir í Póllandi og Tékklandi – Friðarvefurinn

Nation divided over plan to locate US radar base 70 km from Prague - Radio Praha

Antimissiles: Why Europe Resists (Antimissiles : pourquoi l’Europe résiste) - Le Nouvel Observateur

Czechs Torn Over Missile Defense - Washington Post

Czech villages reject U.S. radar base in local plebiscites – People’s Daily Online

Um ráðstefnuna í Prag í febrúar 2007

Varnarmálaráðuneyti Tékklands

Bandaríska sendiráðið í Prag

NE základnám (tékkneskir herstöðvaandstæðingar – bandalag um 50 samtaka)

 


Elías Mar kvaddur, Jónasar Hallgrímssonar minnst

Í dag kvaddi ég Elías Mar, útför hans var gerð frá Dómkirkjunni. Ég kynntist honum ungur og þekkti hann lengi. Og minning hans er góð.

Annaðkvöld, fimmtudaginn 7. júní, mun ég minnast Jónasar Hallgrímssonar. Við Jónína Óskarsdóttir munum þá leiða fyrstu bókmenntagöngu Borgarbókasafnsins á þessu sumri um slóðir Jónasar í Reykjavík. Þær slóðir liggja raunar ekki víða, aðallega um syðri enda Aðalstrætis og upp á Landakotstún. Við munum samt reyna að ganga heldur meir en það.

Sjá nánar http://www.borgarbokasafn.is/


Mun Ísland halda áfram þátttöku í starfsemi NATO í Írak?

 

Birtist á Friðarvefnum, fridur.is, 5. júní 2007 

Á fundi Alþingis 4. júní beindi þingmaður VG, Katrín Jakobsdóttir, þeirri fyrirspurn til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hvort þær heimildir, sem fyrri ríkisstjórn veitti til að bandarísk stjórnvöld mættu nýta íslenska lögsögu, lofthelgi og flugvelli til flutninga vegna innrásarstríðsins í Írak, hefðu verið teknar aftur eða til stæði að afturkalla þær.

Svar utanríkisráðherra var svohljóðandi: „Eftir því sem mér er best kunnugt voru þessar heimildir veittar þegar Íslendingar studdu innrásina í Írak og voru þá í gildi um ákveðinn tíma en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur. Það eru auðvitað breyttar aðstæður líka í Keflavík eftir að herinn hvarf af landi brott og nú mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni.“ (Tilvitnun eftir bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis).

„Slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur,“ segir utanríkisráðherra. Þessi yfirlýsing er þýðingarmikil þótt ekki komi fram fram hvenær þær voru felldar úr gildi.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu utanríkisráðherra og yfirlýsingu ráðherrans frá 31. maí um að ríkisstjórn Íslands styðji ekki lengur stríðsreksturinn í Írak væri fróðlegt að fá svör við því hvað sé átt við með því að ríkisstjórnin vilji „leggja lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi,“ eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Eins og kunnugt er hefur NATO verið með starfsemi í Írak, þótt ekki sé um formlega „friðargæslu að ræða“ eins og í Afganistan. Íslendingar hafa tekið þátt í þessari starfsemi, m.a með því að leggja til starfsmenn. Augljóslega er starfsemi NATO ekki óháð hagsmunum Bandaríkjanna þar sem Bandaríkin eru ótvírætt forysturíki í NATO. Því hlýtur það að vera rökrétt framhald af þeirri ákvörðun að hætta að styðja stríðsreksturinn í Írak, að Ísland hætti þátttöku í starfsemi NATO í Írak og beini kröftum sínum að öðrum vettvangi, vettvangi sem er óháður Bandaríkjunum.

Einar Ólafsson

Um starfsemi NATO í Írak, sjá:
„NATO’s assistance to Iraq“ á vef NATO.

„Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann“ á Friðarvefnum 21. mars 2007.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband