Í íslenskum fiskbúðum fæst bara ýsa!

  Ég komst í dálítinn stafla af mynddiskum með serbneskum og króatískum bíómyndum og gat valið mér eina til að fara með heim í gær. Valdi af handahófi serbneska mynd sem heitir Tango Argentino eftir Goran Paskaljević. Við horfðum á hana tvö saman, hjónin, og þetta var mjög góð mynd, svona gullmoli eins og sagt er, og hefði verið gaman að sjá hana með börnunum okkar þegar þau voru yngri og enn heima á föstudagskvöldum. 

Þegar myndin var búin kíkti ég í Fréttablaðið og leit á sjónvarpsdagskrána þar. Það sem við höfðum misst af í Ríkissjónvarpinu var bandarísk ævintýramynd og svo var bandarísk hasargrínmynd nýbyrjuð. Síðasta myndin á þeirri stöð var bandarísk spennumynd. Á Stöð 2 samanstóð kvölddagskráin af Simpson, þremur bandarískum bíómyndum og einhverju sem heitir „So you think you can dance“. Stöð 2 bíó: fimm bandarískar myndir. Sirkus TV: bandarískir framhaldsþættir hver af öðrum fram á nótt. Skjáreinn: bandarískir framhaldsþættir, bandarískur raunveruleikaþáttur, og svo reyndar tónleikar með breskri söngkonu. Sá þáttur virðist hafa verið eini þátturinn á fimm íslenskum sjónvarpsstöðvum sem ekki var bandarískur. Svo fann ég í blaðinu sjónvarpsstöðina Sýn með þáttum um supercross og póker, Omega með ótilgreindri dagskrá og Fasteignasjónvarpið með þættinum Nýjar eignir. 

Nú hef ég svo sem ekkert á móti bandarískum kvikmyndum, þær eru svona upp og ofan eins og gengur. En þessi einsleitni á íslenskum sjónvarpsstöðvum er sláandi á tímum sem stundum eru kenndir við fjölmenningu. Ég get kannski ekki mikið verið að nöldra út í einkareknu stöðvarnar, get reyndar ekki horft á Stöð 2 af því að ég hef aldrei keypt áskrift að henni. En metnaðarleysi Ríkissjónvarpsins er slíkt að stundum getur verið erfitt að mæla gegn einkavæðingu þess þegar það rær bara á sömu mið og hinar stöðvarnar, mið þar sem fengurinn er alltaf sá sami, - þetta er eins og að éta ýsu í öll mál sem er dálítið einhæft þótt mér þyki ýsa ágæt sé hún ný og fersk. Einstaka sinnum má sjá þar kvikmyndir sem eru framleiddar utan Bandaríkjanna, oftast þá breksar og svo er ein og ein mynd frá öðrum löndum. Þær voru reyndar lengi vel helst sýndar seint á sunnudagskvöldum, of seint fyrir venjulegt vinnandi fólk.

Svo allrar sanngirni sé gætt er dagskrá Ríkissjónvarpsins í kvöld heldur fjölmenningarlegri því að þá verða hvorki meira né minna en tveir breskir framhaldsþættir og skosku löggurnar í Taggart eftir miðnætti auk tveggja bandarískra mynda. Og á sunnudaginn verður franskur framhaldsþáttur auk bandarískrar myndar. Hvað er ég svo að nöldra? Reyndar fékk ég tvo serbneska diska, kannski ég horfi á hinn áður en Taggart byrjar í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband