Friðargæsla í skiptum fyrir herþotur

Eftirfarandi grein birtist líka á fridur.is

Í 2. grein hinna nýju varnarmálalaga segir að meðal markmiða laganna sé „að greina á milli varnartengdra verkefna og borgaralegra verkefna sem lúta að löggæslu og innra öryggi ríkisins“. Í umsögn sinni um frumvarpið lýstu SHA ánægju sinni með hin almennu markmið laganna, en við nánari skoðun virðast hin góðu áform þó vera mest á yfirborðinu.

Í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins 21. maí var viðtal við nýráðinn forstjóra Varnarmálastofnunar, Ellisif Tinnu Víðisdóttur. Aðspurð sagði hún Varnarmálastofnun eiga að „sjá um borgaralega hlið varnarmálanna“, eins og fréttamaðurinn orðaði það. Hún lagði áherslu á það í viðtalinu að varnarmál þyrftu ekki að vera eingöngu hernaðarleg, varnarmál gætu verið skilgreind borgaralega.

Helstu verkefni Varnarmálastofnunar sagði hún vera að sjá um rekstur íslenska loftvarnarkerfisins, þátttöku í samræmdu loftrýmiseftirliti NATO, rekstur, umsjón og hagnýtingu öryggissvæðanna og mannvirkja sem NATO á hér, undirbúning og umsjóin varnaræfinga hérlendis, þátttöku í starfi nefnda og undirstofnana NATO og fleira. Allt er þetta eins og tilgreint er í lögunum.

„Varnarmál í dag og hlutverk NATO hefur verið að taka á sig nýja mynd, varnarmál snúast ekki eingöngu um þetta, varnir eru líka borgaralegar, ógnirnar í dag eru aðrar og framlag til NATO þarf ekki að vera hernaðarframlag sem slíkt í þeirri merkingu, það getur verið borgaralegt framlag, og það sem kannski margir vita ekki er að NATO er líka með fullt af borgaralegri starfsemi…“

Spurð nánar út í þetta með tilvísun til þeirrar gagnrýni, að hér sé í raun um hernaðarstarfsemi að ræða, sagði hún:

„Menn átta sig ekki á að framlag Íslendinga til NATO þarf ekki að vera í formi hermennsku, við sem hluti NATO þurfum að uppfylla ákveðnar skyldur. Það þýðir ekki að það sem við leggjum inn hjá NATO sé eins og það sem við fáum til baka. Það að við fáum loftrýmiseftirlit í formi herflugvéla og hermanna, það þýðir ekki að við þurfum að leggja hermennina á móti. Við getum lagt inn í borgarlega hluta NATO á móti, með t.d. lögrelgumönnum í störf í Afganistan.“

Hinn nýskipaði forstjóri Varnarmálastofnunar leggur þannig mikla áherslu á að starfsemi stofnunarinnar sé borgaraleg og eigi lítið skilt við hernaðarstarfsemi. Í athugasemdum við frumvarpi til varnarmálalaga segir: „Frumvarp þetta lýtur að verkefnum sem varða varnarviðbúnað ríkisins og ytra öryggi þess. Þessi verkefni eru flest skilgreind sem stoðþjónusta við hernaðarstarfsemi en ekki sem hreinræktuð borgaraleg starfsemi. Sé hernaðarstarfsemi ekki til að dreifa falla þessi stoðþjónustuverkefni sjálfkrafa niður.“ (Aths. við 1. gr.).

Í þessum athugasemdum er reyndar lögð mikil áhersla á aðskilnað borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi og er það vel. En veruleikinn virðist grafa undan þessum góðu áformum. Vandinn er nefnilega sá að „hlutverk NATO hefur verið að taka á sig nýja mynd“, eins og forstjórinn lýsir svo prýðilega, og í þeirri nýju mynd blandar hernðarbandalagið æ meir saman hernaðarlegri og borgaralegri starfsemi. Þetta er raunar í samræmi við tilhneiginguna eftir að „stríðið gegn hryðjuverkum“ hófst fyrir alvöru haustið 2001, en var þó byrjað fyrr á vettvangi NATO, enda þurfti að finna því verkefni og tilverurétt eftir lok kalda stríðsins.

Utanríkisráðherrann, sem lagði svona mikla áherslu í frumvarpi sínu á að að skilja að borgarlega og hernaðarlega starfsemi, talar í raun tungum tveim með því að tönnlast á frasa sem hljómar einhvern veginn svona: „Öryggishugtakið sjálft er gjörbreytt og nær nú til miklu fleiri þátta en áður var“ (sjá t.d. ræðu um utanríkismál á Alþingi 8.11.2007). Þessi frasi mun ættaður frá NATO og Halldór Ásgrímsson notaði hann talsvert líka. En þessi frasi gengur einmitt út á það að rugla saman borgaralegri og hernaðarlegri starfsemi, ýmist gera það hernaðarlegt sem áður var borgarlegt eða kalla það borgaralegt sem í raun er hernaðarlegt.

Þetta kemur einkar vel fram í sambandi við friðargæsluverkefni NATO og þátttöku Íslendinga í þeim. Gagnrýni á hervæðingu friðargæslunnar, ef svo má segja, varð til þess að í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur var farið að gera þessa hervæðingu minna áberandi. Þó er enn haldið áfram að taka þátt í þessari mjög svo vafasömu friðargæslu NATO. Skilningur forstjóra Varnarmálstofnunar á stöðu íslensku friðargæslunnar gagnvart NATO er mjög athyglisverður: Íslensku friðargæsluliðarnir þjóna sem endurgjald til NATO fyrir hernaðarlega þjónustu.

Einar Ólafsson


Til hvers???

Þetta er undarleg forgangsröðun varðandi öryggismál Íslendinga. Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu? Hvílík sóun! Björgunarsveitir þurfa að eyða tíma sínum í sölu á flugeldum og annað fjáröflunarstúss til að fjármagna starfsemi sína meðan milljónatugum er eytt í tilgangslaust eftirlitsflug. Og hvað svo - eiga rússnesku herflugvélarnar svo að fljúga hér í grenndinni eftirlitslaust eftir 20. júni þar til næsta holl af orrustuþotum kemur? Það er ekki heil brú í þessu. (Sem betur fer!)


mbl.is Frakkar vakta loftrýmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta fólk með fullu viti?

Hvaða heilvita manni dettur í hug að láta rándýrar orrustuþotur (verð á einni orrustuþotu mælist í milljörðum króna) fljúga hér um lofthelgina undir því yfirskini að um eftirlit sé að ræða, súpandi rándýrt bensín og spúandi eiturlofti aftur úr sér, og hverju eiga þær að hafa eftirlit með sem ekki verður greint á radar-skjám - jú einhver möguleiki er víst á að eitthvað geti verið á kreiki sem ekki kemur fram á þeim, en hvað ætti það að vera? - talíbani að renna yfir öldutoppana á orrustuþotunni sinni- eða hvað!? Miðað við kostnað, mengun og þá hernaðarhyggju sem þetta ýtir undir er þetta, já miðað við hvað sem er, þá er þetta auðvitað snargalin forgangsröð.  
mbl.is Franskar herþotur vakta landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskólinn setur enn niður

Eftirfarandi birtist á Friðarvefnum 29. apríl:

 

Undir fyrirsögninni Háskólann setur niður [á kannski að vera Háskólinn... - sbr. aths. hér að neðan - eó] var fjallað um það hér á Friðarvefnum síðastliðinn sunnudag hvernig Alþjóðastofnun Háskóla Íslands hefur hvað eftir annað efnt til málstofa þar sem embættismenn eða ráðgjafar í utanríkisþjónustum Bandaríkjanna og Bretlands eða á vettvangi Nató hafa haft orðið, síðast nú á mánudaginn.

En þjónkun Háskóla Íslands við Nató ríður ekki við einteyming. Klukkutíma áður en málstofan „Mikilvægi Afganistan fyrir NATO“ hófst í Háskóla Íslands á mánudaginn var eftirfarandi rafpóstur sendur frá Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins til stúdenta:

Titill: [Hi-nem] NATO starfsþjálfun - NATO Internship Programme
Frá: Áslaug Jónsdóttir
Dagsetning: mán, apríl 28, 2008 2:29 pm
Til: hi-nem@hi.is
————————————————————————–

Heilir og sælir stúdentar,

Alþjóðaskrifstofan vill vekja athygli á að kynning verður á STARFSÞJÁLFUN HJÁ NATO - NATO Internship Programme.

Kynningin verður haldin þriðjudaginn 6. maí 2008 frá kl. 12:00 - 13:00 í stofu 101 á Háskólatorgi.
Sjá nánar á eftirfarandi vefslóð og í viðhengi.

http://www.nato.int/structur/interns/

Dear students,

The International Office likes to bring to your attention an introduction meeting about NATO Internship Programme, which will be held Tuesday 6th May 2008, 12:00 - 13:00 in room 101 at Háskólatorg.
See here: http://www.nato.int/structur/interns/ and see attachment.

Áslaug Jónsdóttir
Upplýsingastofa um nám erlendis
Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins
Háskólatorg v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

sími 525 4997 aslaugj@hi.is
http://www.ask.hi.is/page/nam
http://www.ask.hi.is


HUGMYNDIR UM AFNÁM LANDBÚNAÐARTOLLA ÚRELTAR?

  Þessi pistill birtist líka á ogmundur.is

Nú berast fréttir utan úr heimi af hækkandi matvælaverði, jafnvel svo að til uppþota hefur komið. Talað er um að brjóta þurfi ný lönd til ræktunar, jafnvel fórna regnskógum.

Ég hef ekki haft tök á að leita nánari upplýsinga eða skýringa á þessu. Það hvarflar hins vegar að mér, og ég hef það eiginlega sem vinnutilgátu, ef svo má segja, að þetta tengist eitthvað hnattvæðingunni.

Margir hafa gagnrýnt mjög áhrif hnattvæðingarinnar á landbúnað víða um heim, þar sem lögð er ofuráhersla á heimsviðskipti með landbúnað. Fjölþjóðleg fyrirtæki hafa keypt upp stór landsvæði í þróunarlöndunum og komið þar upp stórbúskap með tilheyrandi umhverfislegum og félagslegum afleiðingum, svo sem hrakningi smábænda af jörðum sínum á sorphauga stórborganna. Þá eru lönd t.d. rudd til að framleiða soja til útflutnings en landbúnaðarvörur, sem fólk fékk frá sínu heimahéraði, þarf að flytja langt að með tilheyrandi kostnaði og mengun. Gagnrýnendur hafa bent á að frekar ætti að efla landbúnaðarframleiðslu til neyslu á heimamarkaði eftir því sem hægt er. Um þetta hripaði ég eitt sinn svolitla grein: http://notendur.centrum.is/~einarol/landbunadur.htm  

Hugmyndir Samfylkingarinnar um breytingar á innflutningi og viðskipti með landbúnaðarvörur er kannski herfileg tímaskekkja og hreinlega úreltar. Kannski er, þegar allt er sett í samhengi, betra fyrir neytendur að fara sér hægt í þessum efnum.

Og vel að merkja: hverjir eru neytendur? Þeir eru allur almenningur, þ.á.m. bændur og starfsfólk í matvælaframleiðslu, og líka skattgreiðendur, sem þyrftu að bera þann samfélagslega kostnað sem gæti hlotist af snöggum og róttækum breytingum í þessa veru.

Einmitt nú er kannski ekki rétti tíminn til að leggja íslensk tún í órækt eða grafa undan fæðuöryggi þjóðarinnar.


Samhengisleysi í almenningssamgöngum

Í DV í dag er viðtal við ferðaþjónustumann að norðan sem bendir á það hversu önugt það sé fyrir ferðamenn, sem koma fljúgandi til Keflavíkurflugvallar, að komast áfram í flug út á land. Það sé eiginlega óyfirstíganlegt. Og ég get vel ímyndað mér það. Flugrútan fer á Umferðarmiðstöðina og svo að einhverjum hótelum, en einhversstaðar vestarlega á þessu nesi, sem Reykjavík stendur á, er flugstöð innanlandsflugs.

Viðmælandi DV telur því réttast að færa innanlandsflugið til Keflavíkur. En burtséð frá því, þá leiðir þetta hugann að því hversu margt er illa skipulagt hér, ekki síst í sambandi við almenningssamgöngur.

Lengi vel lenti maður suðrundir Nauthólsvík þegar maður tók flugrútuna í bæinn. Þaðan þurfti maður svo að taka leigubíl heim. Heldur lagaðist það þegar hún fór að stoppa við Umferðarmiðstöðina. En Umferðarmiðstöðin er svo ekkert í sérstaklega góðu sambandi við strætó, þó ekki mjög langt upp á gömlu Hringbraut, en eins gott að vera þá ekki með mikinn farangur. Þar fer reyndar leið 15 út í Skerjafjörð, en ég sé nú ekki erlendu túristana baksa við að fara þar á milli nema þá sprækustu unglinga með bakpoka.

Flugrútan stoppar í Hafnarfirði og Garðabæ, en einhvern tíma þegar ég var að koma úr skottúr frá útlöndum með litla handtösku spurði ég bílstjórann hvort ég gæti ekki hoppað af á Kópavogshálsinum svo ég gæti tekið strætó heim, þar sem ég bý í austanverðum Kópavogi. Nei, það var ekki hægt. Ég lenti suðrí Vatnsmýri og þurfti að taka leigubíl til baka þá leið sem ég hafði farið. Það er sjálfsagt hallærislegt að ætla að taka strætó heim þegar komið er frá útlöndum. En ég hefði þá líka getað þegið að taka leigubíl heldur styttri leið. Af hverju fer flugrútan ekki Reykjanesbrautina og kemur við í Mjódd?

Og afhverju var Umferðarmiðstöðin sett út í Vatnsmýri en ekki einhverstaðar nærri miðstöð strætisvagnasamgangna?

Afhverju er flugstöðin í Reykjavík suðrí Skerjafirði, þannig að farþegar þurfa alltaf að fara umferðarþyngstu götu bæjarins nærri á enda og svo áfram suðreftir, í stað þess að hafa hana við austurenda flugvallarins - eða norðurenda hans, nær miðbænum og Umferðarmiðstöðinni og strætóleiðum?

Afhverju í ósköpunum þarf að hafa þetta allt svona óskipulagt, samhengislaust og önugt?

 


Undirskriftasöfnun gegn bandarískum herstöðvum í Tékklandi

Í Tékklandi hefur á undanförnum misserum verið háð hörð barátta gegn áformum tékkneskra og bandarískra stjórnvalda um að koma þar upp bandarískri herstöð í tengslum við hið umdeilda gagneldflaugakerfi sem Bandaríkin eru að koma sér upp. Öflug hreyfing hefur myndast gegn þessum áformum og margar sveitarstjórnir á því svæði, þar sem herstöðinni er ætlaður staður, hafa ályktað gegn henni. Brýnt er að andstæðingar þessara áforma í Tékklandi fái sem víðtækastan stuðning.

Húmanistahreyfingin í Tékklandi hefur nú hafið hafið söfnun undirskrifta gegn þessum áformum og er hægt að skrá sig rafrænt á vefsíðinni

http://petice.nenasili.cz/?lang=en

Sjá líka CommonDreams.org.


Járnbrautastöð í Grindavík?

Ég rakst á ansi vitrænt blogg í dag, sem er þetta hér: http://veffari.blog.is/blog/veffari/

Greinin sem er þar nú efst er athyglisverð. En svo fór ég að gramsa í þessu bloggi og lenti á þessu hér:

http://veffari.blog.is/blog/veffari/entry/445693/

 Ég hef aldrei verið mjög sannfærður um að það sé einhver nauðsyn að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, ekki séð að það mundi endilega bjarga Reykjavík, finnst satt að segja undarlegt þetta stöðuga tal um Vatnsmýrina meðan verið er að stórskemma miðbæinn á ýmsan hátt.

En einhvern tíma varð mér að orði, þegar var verið að tala um hversu einkennilegt væri að vera með þennan flugvöll inni í miðjum bæ, að ég heyrði aldrei talað um að það væri eitthvað að því að vera járnbrautastöðvar inni í miðjum borgum. Þær taka kannski ekki alveg jafnmikið pláss og flugvöllurinn, en ansi drjúgt pláss samt.

Og vitna nú í bloggarann nýuppgötvaða:

"Mér dettur fyrst í hug þessi samlíking: Ef á Íslandi væri lestarkerfi sem tengdi saman landsbyggðina og að endastöðin væri í Reykjavík... Hverjir myndu staðsetja aðal lestarstöð Reykjavíkur í Grindavík?"

 


Mótmælastaða við kínverska sendiráðið mánudaginn 17. mars kl. 5

Mótmælastaða verður við kínverska sendiráðið Víðimel 29 klukkan 5 í dag, 17. mars, til stuðnings Tíbet. Friðarvefurinn hvetur lesendur sína til að mæta. Ekki væri verra að vera í einhverju gulu ef fólk hefur tök á því.

Sjá nánar grein Birgittu Jónsdóttur, Hver á Tíbet?


15. mars: Stríðinu verður að linna!

15mars2008a

Útifundur á Ingólfstorgi kl. 13

laugardaginn 15. mars

Allt frá því að Bandaríkin stóðu fyrir innrásinni í Írak 20. mars 2003 hafa verið árlegar mótmælaaðgerðir víða um heim upp úr miðjum mars, en veturinn 2002 til 2003 voru einhverja mestu og víðtækustu mótmælaaðgerðir sögunnar, og meðal annars voru nánast stöðugar mótmælaaðgerðir vikum saman í Reykjavík.

Enn er stríðinu í Írak mótmælt dagana 15.-24. mars.

 Nánar á Friðarvefnum - fridur.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband