Færsluflokkur: Bloggar
Það er ekki rétt að með þessari undirskriftasöfnun sé farið farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn við Magna heldur um eignahald á orkuauðlindum almennt:
"Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra."
Sjá http://www.orkuaudlindir.is/
Vilja þjóðaratkvæði um Magma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2010 | 11:24
Laun skal ákveða með kjarasamningum
Birtist í Fréttablaðinu 16. júni 2010
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 2009 segir: Í nýafstöðnum kosningum veitti meirihluti kjósenda jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að halda áfram og leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Andi yfirlýsingarinnar er á þá leið að hagsmunir alþýðu verði hafðir að leiðarljósi við endurreisn efnahagskerfisins, svo sem með því að verja velferðarkerfið eftir föngum það eigi sem sagt ekki að endurreisa óbreytt það kerfi sem hrundi.
Þannig fer yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar saman við stefnu og markmið verkalýðshreyfingarinnar, að verja kjör alþýðunnar. Hrunið afhjúpaði gífurlegt arðrán auðstéttar á alþýðu. Gagnvart þessari auðstétt þarf verkalýðshreyfingin að veita stjórnvöldum aðhald en jafnframt verða verkalýðshreyfingin og ríkisstjórnin að taka höndum saman.
Vísir að slíku samstarfi varð til með stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í júní 2009. Að honum komu reyndar líka Samtök atvinnulífsins, auk ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar, og sáttmálinn ber þess nokkur merki. Þau sögðu sig frá sáttmálanum 22. mars síðastliðinn. Það þarf varla að fara í grafgötur með það að auðstéttinni með samtök sín og verkfæri, svo sem Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Sjálfstæðisflokkinn, er umhugað að grafa undan þessari ríkisstjórn eða í það minnsta hafa einhverja stjórn á henni.
Eitt af meginatriðum sáttmálans var samkomulag um að ljúka kjarasamningum sem skyldu gilda til nóvemberloka 2010. Í sáttmálanum segir: Forsendur stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði fyrir gerð kjarasamninga eru að ekki verði gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á. Þetta hindrar þó ekki að sett verði lög sem kalla á breytingar á kjarasamningum enda sé um slíkt samið milli aðila kjarasamnings í framhaldinu.
Aðrir aðilar sáttmálans en SA hafa ekki sagt sig frá honum. Það er hins vegar spurning hvort ekki sé kominn tími til að gera nýjan sáttmála milli ríkisstjórnarinnar og hagsmunasamtaka alþýðu, og þá með víðtækari aðild, svo sem Öryrkjabandalagsins. Það er óþolandi að ríkisstjórnin, hvort sem það eru einstakir ráðherrar eða stjórnin í heild, komi með yfirlýsingar um frystingu launa. Vandi almennings er margþættur og það verður að vera sameiginlegt verkefni stjórnvalda og hagsmunasamtaka alþýðu hvernig beri að leysa hann. Laun og lífeyrir er einn þáttur þessa vanda.
Það má benda á að frá 1. júní 2010 eru lágmarkslaun starfsmanna Reykjavíkurborgar samkvæmt kjarasamningum 170.000 krónur. Líklega er engin fastur starfsmaður á þessum launum, en einhverjir eru þar rétt fyrir ofan og allstór hópur er með laun á bilinu 172-190 þúsund krónur á mánuði. Ætli sumum þætti það ekki ansi knappt til að lifa af. Á að frysta slík laun umyrðalaust?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2010 | 18:22
Morfís og skítkast
Íslensk umræðuhefð líkist Morfís-keppni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2010 | 14:43
Tillögur Vinstri grænna frá 2005-2006 um efnahagslegan stöðugleika
Þingmenn Vinstri grænna lögðu þrisvar fram þingsályktunartillögur um efnhagslegan stöðugleika á árunum 2005-2006.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 1. bindi, bls. 32, segir: Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra. Hvorki á því ári né því næsta lögðu stjórnvöld með afgerandi hætti að bönkunum að minnka efnahagsreikning sinn.
Á bls. 33 er meðal annars að gagnrýnt heimilað hafi verið að stunda fjárfestingarbankastarfsemi samhliða hefðbundinni starfsemi viðskiptabanka, ekki hafi verið brugðist á fullnægjandi hátt við hagsveiflum, ofþenslu og vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu, ákveðið að lækka skatta á þenslutíma og bent er á að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi einnig verið þensluhvetjandi.
22. mars 2005 var lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga frá þingmönnum Vinstri grænna um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika (þskj. 1014). Þessi tillaga beindist meðal annars að því að ná niður verðbólgu, halda stöðugleika á vinnumarkaði, tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfskilyrði, draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun, viðhalda stöðugleika í fjármálalífinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna.
Í því skyni er lagt til að þeim tilmælum yrði beint til Fjármálaeftirlitsins að hugað yrði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, þannig að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapaði ekki hættu fyrir efnahagslífið, og farið yrði yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi. Seðlabanki Íslands íhugi vandlega að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum. Þá var lagt til að fallið yrði frá eða frestað eftir atvikum a.m.k. hluta þeirra almennu skattalækkana sem lögfestar voru fram í tímann í desember 2004. Í staðinn kæmu aðgerðir til að bæta stöðu tekjulægstu hópa samfélagsins og barnafjölskyldna.
Í greinargerð var bent á að verðbólga væri yfir þolmörkum (hún fór að vaxa þegar kom fram á árið 2004), en það stofnaði kjarasamningum í hættu. Viðskiptahalli færi ört vaxandi og erlendar skuldir færu hækkandi, gengið væri óeðlilega hátt, mikil umsvif byggingarverktaka kölluðu á aukið lánsfé til nýbygginga og ofan á allt þetta bættust svo stórframkvæmdirnar fyrir austan og stækkun álversins á Grundartanga með tilheyrandi virkjunum. Miklu skipti að stjórnvöld sýni við þessar aðstæður einbeittan vilja í verki til þess að skapa á nýjan leik stöðugleika í efnahagsmálum.
Þessi tillaga var sem sagt lögð fram í mars 2005 en ekki tekin til umræðu.
Um haustið, í nóvember, lögðu þingmennirnir tillöguna fram aftur nánast óbreytta (þskj. 5). Í greinargerð segir að í aðalatriðum séu aðstæður í efnahagsmálum hinar sömu og voru á útmánuðum nema að enn hefði syrt í álinn. Fæstir, nema ráðherrar ríkisstjórnarinnar, neita því lengur að aðstæður í efnahagsmálum eru orðnar ískyggilegar, svo ekki sé sagt beinlínis háskalegar.
Nú var tillagan þó tekin til umræðu og fór hún fram dagana 13., 17. og 18. október. Fyrsta daginn var málið rætt í 45 mínútur og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tók einn stjórnarliða þátt í þeim. Ég tel afskaplega mikilvægt að hér á Alþingi sé umræða um efnahagsmál, hóf hann ræðu sína. Hann lýsti sig sammála markmiðum tillögunar, nema kannski það sem segir í síðasta liðnum að jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt. Ég tel ekki að óskaplegt hættuástand ríki í þjóðarbúskapnum eins og hv. þingmaður heldur fram. Það gengur vel í íslensku efnahagslífi og hv. þingmaður talar um að við sem stöndum fyrir ríkisstjórn landsins séum að senda röng skilaboð. Steingrímur J. Sigfússon, sem mælti fyrir tillögunni, benti á að margir teldu hina gríðarlegu skuldsetningu varhugaverða, en Halldór gerði lítið úr henni, ríkissjóður stæði vel, þetta væru skuldir einstaklinga og fyrirtækja og eignir væru á móti. En ég held að það sé samt rétt að hafa í huga að mikilvægt er að Íslendingar geti tekið þátt í alþjóðavæðingunni. Margir efnast í alþjóðavæðingunni og mikilvægt er að landar okkar séu þar þátttakendur. Niðurstaða hans var að ...í öllum aðalatriðum er allt heldur jákvætt í samfélagi okkar sem betur fer.
Umræðan hélt áfram 17. október og þá var það Einar Oddur Kristjánsson sem tók þátt í umræðunum af hálfu stjórnarflokkanna. Ræða Einars var nokkuð merkileg, hann tók að mörgu leyti undir með þingmönnum Vinstri grænna um leið og hann gerði lítið úr málflutningi þeirra, taldi hann mótsagnakenndan og einkennast af tvískinnungi og hræsni, einkum vegna þess að krafa um lækkun gengisins mundi óhjákvæmilega skerða kaupmátt. Hann viðurkenndi að óvarlega hefði verið farið en: Alla forustu í þessu lauslæti hafa íslenskir bankar haft. Þeir hafa verið mjög kærulausir, sérstaklega í launamálum og útlánamálum. Þeir verða að átta sig á stöðu sinni í nýfengnu frelsi, að þeir bera ábyrgð í samfélaginu og geta ekki verið með jæja, virðulegi forseti þá hegðun sem þeir hafa sýnt fram að þessu. Þeir bera mikla ábyrgð í þessu opna, frjálsa samfélagi. Þeir verða að gæta sín og þau mistök sem hafa verið gerð á undanförnum missirum, menn verða að horfa til þeirra og gæta þess að láta þau ekki endurtaka sig. Það skiptir okkur öllu máli, vegna þess að Ísland hefur þessa glæsilegu stöðu, að geta haldið áfram sem frjáls og sjálfstæð þjóð, öllum öðrum óháð, að efla atvinnulíf sitt meira og betur en aðrir. Við eigum ótæmandi möguleika í þessu landi. Við þurfum bara alltaf að gæta okkar að vera ekki svona óskaplega ja, hvað eigum við að segja, virðulegi forseti vera ekki með þennan óhemjuskap. Þetta er óhemjuskapur sem við Íslendingar eigum að geta komist út úr og vanið okkur af.
Í lokaorðum sínum sagði Steingrímur J. Sigfússon: Þeim mun lengur sem þetta ástand varir þeim mun meiri er hættan á harkalegri brotlendingu, á gengiskollsteypu og verðbólguskoti sem leiði yfir í fjármálakerfið í formi greiðsluerfiðleika o.s.frv. Hitt sem gerir ástandið mjög varhugavert er hin gríðarlega skuldsetning, skuldsetning heimilanna, skuldsetning atvinnulífsins og skuldsetning þjóðarbúsins út á við því að þjóðarbúið og þessir aðilar eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum í gengi og vöxtum vegna þungrar greiðslubyrði af erlendum skuldum. Heimilin eru að vísu sem betur fer ekki í stórum mæli enn farin að taka erlend lán eða lán í erlendri mynt. En lán heimilanna eru nánast að uppistöðu til verðtryggð þannig að um leið og verðbólgan hreyfir sig fer greiðslubyrðin af þeim lánum upp á við og á fulla ferð. Þess vegna er svo mikilvægt að reyna að afstýra þessu þensluástandi, þessu jafnvægisleysi sem allir viðurkenna að er, og að menn fari að reyna að ná tökum á ástandinu, snúa hlutunum við og tryggja að þetta geti aðlagast og komist í eðlileg horf án þess að veruleg brotlending verði.
Tveir þingmenn Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson tóku einnig þátt í þessum umræðum og tóku undir með flutningsmönnum tillögunnar. Tillögunni var síðan vísað til síðari umræðu og efnahags- og viðskiptanefndar en dagaði þar uppi.
En var í meginatriðum sama tillaga lögð fyrir þingið 4. október 2006 (þskj. 14). Hún kom aldrei til umræðu.
Þingmenn Vinstri grænna héldu þó áfram tuði sínu við lítinn fögnuð og 13. mars 2008 var lögð fyrir þingið frumvarp þeirra til laga um ráðstafanir í efnhagsmálum. Um það urðu talverðar umræður en allt er það efni í aðra grein.
Aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. 666. mál þingsályktunartillaga 131. löggjafarþingi.
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=131&mnr=666
Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. 5. mál þingsályktunartillaga 132. löggjafarþingi.
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=132&mnr=5
Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. 14. mál þingsályktunartillaga 133. löggjafarþingi.
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=133&mnr=14
Ráðstafanir í efnahagsmálum. 486. mál lagafrumvarp 135. löggjafarþingi.
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=135&mnr=486
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2010 | 20:58
Fulltrúaráð St.Rv. hafnar því að öll þjóðin hafi spilað með
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundi fulltrúaráðs Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar 14. apríl 2010:
Ályktun
Fundur Fulltrúarráðs St.Rv. haldinn 14. apríl 2010 fagnar því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skuli loks vera komin út. Mikilvægt er að hún verði nýtt vel til að gera upp aðdragandann að hruninu og skoða hvað beri að varast í uppbyggingu samfélagsins.
Fundurinn hafnar þeirri kenningu, sem margir bera nú fram, að öll þjóðin hafi spilað meira og minna með. Þótt mikilvægt sé að horfa til alls samfélagsins, þá er slík kenning einungis til þess fallin að breiða yfir ábyrgð þeirra sem hana bera raunverulega, auk þess sem hún vanvirðir þá fjöldamörgu sem aldrei spiluðu með og sem ýmist gagnrýndu opinberlega þá þróun sem var í gangi eða horfðu á með undrun og vanþóknun.
Þróunin sem leiddi til bankahrunsins var margslungin og auk einkavæðingar bankanna og óábyrgs reksturs þeirra voru fjölmörg önnur fyrirtæki einkavædd og unnið að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og öðrum þáttum almannaþjónustu. Markvisst var unnið að markaðsvæðingu alls samfélagsins. St.Rv. ásamt heildarsamtökunum BSRB gagnrýndi þessa þróun allan tímann.
Meðan hluti þjóðarinnar auðgaðist á tá og fingri og sumir svo undrun sætti þokuðust launakjör almenns launafólks hægt upp á við og margir sátu alltaf uppi með skammarlega lág laun.
St.Rv. hélt uppi ábyrgri baráttu fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna. Nú, þegar laun flestra almennra launamanna hafa farið lækkandi að raungildi frá árinu 2008 og tæpt ár er liðið frá undirritun stöðugleikasáttmálans, horfum við upp á að þeir sem mesta ábyrgð bera á hruninu valsa enn um með fjármagn og fyrirtæki eða sitja í valdastöðum.
Þótt mikilvægt sé að allir taki höndum saman er líka mikilvægt að horfast í augu við að sá hluti þjóðarinnar, sem hefur auðgðast á braski undanfarinna ára, ætlar sér að halda þeim auði og vill endurreisn í sama stíl.
St.Rv. hafnar því að taka á sig byrðarnar meðan arðræningjarnir halda sínu. St.Rv. hafnar endurreisn í gamla stílnum og krefst uppbyggingar samfélags jafnaðar, réttlætis og velferðar fyrir alla.
Ályktun
Fundur Fulltrúarráðs St.Rv. haldinn 14. apríl 2010 lýsir vanþóknun á þeim miklu launa og bónusgreiðslum sem hafa viðgengist innan fjármálakerfisins, fyrirtækja og stofnana íslensks samfélags. Fulltrúaráð St.Rv. kallar eftir að launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækja og stofnana íslensks samfélags verði hógværar og í samhengi við almenn launakjör.
http://www.strv.is/frettasida/nr/626/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2010 | 13:08
Hver eru kjör stjórnenda Icelandair?
Ræða lög á verkfall flugvirkja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2009 | 21:23
Vinstri stjórnin og stéttareðli ríkisins
Birtist í Smugunni 3. desember 2009
Í nýjasta hefti Skírnis (haust 2009) er athyglisverð grein eftir Ólaf Pál Jónsson þar sem hann fjallar um samfélag og stjórnkerfi á Íslandi og það uppgjör sem þarf að verða eftir haustið 2008. Í þessari grein getur hann þess að Alþingi eigi samkvæmt stjórnskipan ríkisins að vera í senn samræðuvettvangur og löggjafi um grundvallaratriði í stjórn ríkisins. Raunin sé hins vegar sú að Alþingi sinni hvorugu hlutverkinu með sómasamlegum hætti. Hvað síðarnefnda hlutverkið snertir segir hann þingið vera vart nema skopmynd af því sem því er þó ætlað að vera og það birtist best í því að málþóf hefur verið helsta leið minnihluta til að hafa áhrif á framgang mála, rök skipti engu máli, gagnrýni sé ekki svarað. Ástæðan sé sú að Alþingi er fyrst og fremst vettvangur valdabaráttu (s. 292-293).
Flokksræði?
Í þessu samhengi er vert að leiða hugann að því að Alþingi skiptist venjulega í meirihluta og minnihluta og yfir minnihlutann er haft sérstakt orð, stjórnarandstaða. Þetta orð segir mikið, í því felst sú hugmynd að Alþingi starfi ekki saman, þar sameinast þingmenn ekki til að vinna samfélaginu sem mest gagn, heldur er minnihlutanum ætlað að vera í andstöðu við meirihlutann og þvælast fyrir honum. Á móti tekur meirihlutinn að sjálfsögðu sem minnst mark á minnihlutanum, andstöðunni, og kemur í veg fyrir að hann komi nokkru máli að. Þetta á raunar líka við um sveitarstjórnir, alla vega í stærri sveitarfélögum, þó að minnihlutinn sé ekki kallaður stjórnarandstaða þar. Um það skrifaði ég litla grein að loknum sveitarstjórnakosningum vorið 2006.
Í búsáhaldabyltingunni síðastliðinn vetur var mjög kallað eftir öðrum vinnubrögðum á Alþingi, það var mjög gagnrýnt sem og stjórnmálaflokkarnir. Margir töldu flokksræði" mikinn skaðvald í íslenskum stjórnmálum og það ráða nokkuð miklu um þessi vinnubrögð á Alþingi, þar sem flokkarnir hugsi mest um eigin hag og sé kappsmál að halda hinum flokkunum niðri. Hafi einhver haldið að ástandið á Alþingi skánaði í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar, þá voru það miklar gyllivonir. Einmitt þegar ætla mætti að þingmenn sneru nú bökum saman til að bjarga þjóðinni upp úr þeirri forarvilpu sem hún var lent í er stjórnarandstaðan hatrammari en nokkru sinni fyrr og umræður á Alþingi hafa að undanförnu einkennst af frammíköllum og stóryrðum sem ekki þekkjast annars á samkomum ódrukkins fólks.
Stéttaskipting
Ég held þó að sökina sé ekki síður og kannski miklu fremur að finna í öðru fyrirbæri íslensks samfélags, fyrirbæri sem hefur verið furðu lítið til umræðu að undanförnu. Það er stéttaskiptingin. Í framhjáhlaupi má geta þess að þegar þessi orð eru gúgluð" á netinu, þá kemur orðið flokksræði" fyrir 15.400 sinnum en stéttaskipting" aðeins 8.350 sinnum (athugað 2.12.2010). Sem sagt nærri helmingi sjaldnar. Og við snögga skoðun virðist í flestum tilfellum ekki vera fjallað um stéttaskiptingu í íslensku samfélagi nútímans.
Í grein sinni vísar Ólafur Páll (s. 298) til umfjöllunar Johns Rawls um fimm þjóðfélagsgerðir með tilliti til hugmyndar hans um réttlátt samfélag. Ein þessara þjóðfélagsgerða er kapítalískt velferðarríki, en Ólafur Páll gerir ráð fyrir að íslenskt samfélag síðustu áratuga fari næst því að falla undir þá þjóðfélagsgerð. Samkvæmt Rawls leyfir kapítalískt velferðarríki að lítill hluti borgaranna sé nær einráður um framleiðslutækin" (s. 298). Það leyfir mjög mikinn ójöfnuð í eignarhaldi á raunverulegum verðmætum (framleiðslutækjum og náttúrulegum auðlindum) þannig að stjórn efnahagslífsins og verulegs hluta af pólitísku lífi hvílir í fárra höndum" (s. 300). Og Ólafur Páll bætir við að efnahagslegur auður er [í kapítalísku velferðarríki] ávísun á áhrif og völd sem ná langt út fyrir mörk efnahagslífsins, m.a. inn á vettvang stjórnmálanna" (s. 301). Þetta minnir óneitanlega á hugmyndir marxista um stéttareðli ríkisins, þótt Ólafur Páll nefni það ekki beinum orðum í grein sinn.
Ríkið verkfæri auðstéttarinnar
Breski stjórnmálafræðingurinn Ralph Miliband skrifaði í bók sinni, The State in Capitalist Society, sem kom út árið 1969:
Jákvæð afstaða ríkisstjórna í þróuðum auðvaldslöndum til hins einkarekna hagkerfis og trú þeirra á að þetta kerfi sé skynsamlegt veldur því fyrst og fremst að svigrúm til að leysa ýmis vandamál verður mjög takmarkað. Raymond Aron hefur skrifað að það er ljóst að í stjórnkerfi, sem byggist á einkaeignarrétti á framleiðsluöflunum, geta þau stefnumið, sem löggjafarsamkoman og ráðherrarnir fylgja, ekki gengið í berhögg við hagsmuni eigendanna." Hann telur þessa fullyrðingu svo augljósa að með henni sé ekki verið að upplýsa neitt. Hún ætti kannski að vera svo augljós, en hún virðist ekki vera það fyrir flesta vestræna stjórnmálafræðinga. Þeir álíta ekki að ríkið dragi taum kapítalískra hagsmuna eins og prófessor Aron fullyrðir.
Þessi tilhneiging hefur geysimiklar afleiðingar fyrir hin pólitísku stefnumið. Ef ríkið á að leysa eða greiða úr langri flækju efnahagslegra eða félagslegra vandamála krefst það einmitt þess að ríkisstjórnir verða að vera viljugar til að ganga í berhögg við þessa hagsmuni. Það hefur gífurlegar afleiðingar fyrir lífið í slíkum samfélögum ef ríkisstjórnirnar hafa ekki vilja til þess. Ef ríkisstjórn stæði frammi fyrir stórum glæpahring og sagt væri að enginn gæti búist við að hún mundi ganga í berhögg við hagsmuni hans, þá þætti væntanlega engum þannig fullyrðing vera svo sjálfsögð að hún segði ekki eitthvað um eðli og hlutverk slíkrar ríkisstjórnar. Það sama á við um fullyrðinguna sem prófessor Aron settur fram svo léttilega og ýtir til hliðar. (bls. 87-88)
Einhverjum lesanda kemur kannski í hug núverandi ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, ríkisstjórn sem hefur kallað sig fyrstu hreinu vinstri stjórnina á Íslandi, stjórn sem hefur norrænt velferðarsamfélag að markmiði. Og hér með sé eitthvað sagt um eðli og hlutverk þeirrar ríkisstjórnar. Það má vel vera, en það er þá ekki eðli og hlutverk þeirrar ríkisstjórnar út af fyrir sig, heldur er það eðli og hlutverk slíkrar ríkisstjórnar, það er hvaða ríkisstjórnar sem fer með stjórnartaumana í íslenska auðvaldsríkinu.
Stjórnmálaflokkar eignastéttarinnar
Í bók sinni færir Ralph Miliband rök fyrir því, með tilvísunum í rannsóknir á samfélögum í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, að auðvaldssamfélög séu stéttskipt samfélög. Það á einnig við um Ísland, þótt það skipi eflaust nokkra sérstöðu vegna fámennis og þess hve ungt það er sem auðvaldssamfélag, fullmótað ekki mikið meira en aldargamalt. Miliband færir líka rök fyrir því að eignastéttin eða borgarastéttin sé valdastétt í auðvaldssamfélaginu og völd hennar séu ekki bara hrein efnahagsleg völd heldur líka pólitísk. Ríkið, sem er ekki bara ríkisstjórnin, er meira og minna aðlagað hagsmunum borgarastéttarinnar, hinum kapítalísku hagsmunum, ríkisstjórnin er háð þessu stéttareðli ríkisins og efnahagslegum og pólitískum völdum borgarastéttarinnar. Borgarastéttin, eignastéttin, ræður framleiðslutækjunum og miklum hluta fjármagnsins í samfélaginu en hún hefur líka sína fulltrúa í pólitíska kerfinu, í löggjafarþinginu gegnum stjórnmálaflokka sína (hér fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkinn en einnig Framsóknarflokkinn) og í stjórnkerfinu gegnum embættismenn. Þetta var mjög augljóst lengst af á síðustu öld þegar stjórnendur Sjálfstæðisflokksins, þingmenn og ráðherrar voru margir hverjir tengdir helstu stjórnendum íslenskra fyrirtækja nánum fjölskylduböndum.
Þessir flokkar, einkum Sjálfstæðisflokkurinn, hafa í raun fyrst og fremst borið hag borgarastéttarinnar, hina kapítalísku hagsmuni, fyrir brjósti. Það var í samræmi við það sem þeir stóðu fyrir innleiðingu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi og víðtækri einkavæðingu og drógu úr ýmsum hömlum á frelsi til fjármálabrasks. Það leiddi til enn meiri stéttaskiptingar á Íslandi, þó svo að aukið svigrúm hafi hleypt ýmsum misjafnlega kúltíveruðum nýgræðingum inn í þokkalega gróinn garð íslenskrar borgarastéttar. En stefna þessara flokka er í þessa átt, þeir fara mismunandi beint og mismunandi hratt eftir aðstæðum, en meginstefnan er þessi. Þeir ætla sér ekki að leyfa fyrstu hreinu vinstristjórninni" á Íslandi að leika lausum hala. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart þótt á Alþingi ríki ekki einhugur um stefnuna upp úr foraði hrunsins. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, alla vega að hluta, ætla sér, og það er beinlínis þeirra hlutverk, að gæta þess að hagmunir eignastéttarinnar, borgarastéttarinnar, verði ekki fyrir borð bornir.
Hinir kapítalísku hagsmunir, norrænt velferðarsamfélag og utanþingsstjórn
En sú varnarbarátta fer ekki aðeins fram inni á Alþingi, hún fer fram úti um allt samfélagið, ekki síst í atvinnulífinu. Reyndar er þessi barátta engin óskapleg varnarbarátta. Stjórnkerfið er fullt af tregðu, oft ómeðvitaðri, gegn því að hinum kapítalísku hagsmunum sé stefnt í hættu og meira að segja gætir þeirrar tregðu í sjálfum stjórnarflokkunum, flokkum hinnar hreinu vinstristjórnar", þótt í mismiklum mæli sé. Upp til hópa gengu sósíaldemókrataflokkar Evrópu, systurflokkar Samfylkingarinnar, nýfrjálshyggjunni á hönd þegar uppgangur hennar var sem mestur.
Flokkur sem ætlar sér frama í hinni opinberu stjórnmálabaráttu, gegnum þing og ríkisstjórn, gengur aldrei til fulls gegn hinum kapítalísku hagsmunum, ekki heldur flokkur eins og Vinstrihreyfingin grænt framboð, hversu almenn skoðun sem það er innan hans að auðvaldsskipulagið sé helsta hindrunin í vegi stefnumála hans. Þess vegna var það rökrétt fyrir síðustu kosningar, kosningar sem búast mátti við að fleyttu Vinstri grænum inn í ríkisstjórn, að flokkurinn byði upp á norrænt velferðarsamfélag" sem valkost. Á kjördag 25. apríl 2009 mátti lesa á heimasíðu flokksins: Í kosningunum í dag veljum við nýja framtíð fyrir Ísland. Við Vinstri græn höfum boðið upp á skýran valkost við þá hugmyndafræði sem beið skipbrot síðastliðið haust. Sá valkostur er norrænt velferðarsamfélag."
Flokkur sem reiknar með að komast í ríkisstjórn í auðvaldsríkinu Íslandi getur ekki gefið mikið stærra kosningaloforð án þess að ganga í berhögg við grunnstoðir auðvaldssamfélagsins. Norrænt velferðarsamfélag er kapítalískt velferðarsamfélag, sem John Rawls segir að leyfi að lítill hluti borgaranna sé nær einráður um framleiðslutækin". Norrænt velferðarsamfélag er kannski með því skásta í flokki þessara samfélaga, og kannski of gott til að íslensk borgarastétt sé tilbúin til að leyfa það núna, hún þyrfti einfaldlega að fórna of miklu við núverandi aðstæður.
Þótt ýmislegt megi finna að íslensku stjórnmálakerfi sem slíku, þá er það ekki göllum þess að kenna, sem slíkum, að ekki gengur betur að bjarga íslenskri alþýðu upp úr foraðinu. Sumir kalla nú eftir utanþingsstjórn, neyðarstjórn utan þings, en slík stjórn væri líka bara ríkisstjórn í stéttarsamfélagi þar sem eignastéttin hefur í sínum höndum hin efnahagsleg völd að mestu leyti, hefur víðtæk pólitísk völd og ríkiskerfið meira og minna á sínu bandi, allavega þegar kemur að því að hrófla eigi við grundvallarhagsmunum hennar. Valdastéttin mundi einfaldlega aldrei leyfa að slík stjórn yrði mynduð nema hún hefði þar veruleg ítök. Nema hún yrði knésett í heiftarlegri stéttabaráttu.
Heimildir:Ólafur Páll Jónsson. 2009. Lýðræði, réttlæti og haustið 2008. Skírnir, 183, 181-307.
Einar Ólafsson. 2006. Lýðræðið á hliðarlínunni. Morgunblaðið, 7. júní 2006. http://notendur.centrum.is/einarol/lydraedi.html (sótt 2.12.2010).
Ralph Miliband. 1969. The state in capitalist society. Hér vitnað til norskrar útgáfu, Statsmakten i det kapitalistiske samfunn, Pax 1970.
Vinstrihreyfingin grænt framboð. Norrænt velferðarsamfélag. http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/4147 (sótt 2.12.2010).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.9.2009 | 14:22
Hvað er svona merkilegt við það – að höndla með aura?
Þetta er athyglisverð frétt. Fjármálaráðherrar G20-ríkjanna þurfa að koma sér sérstaklega saman um hvernig eigi að meðhöndla kaupauka stjórnenda fjármálafyrirtækja. Einhvern veginn hefur þótt sjálfsagt að þeir fái ríflega kaupauka fyrir árangur í starfi, og enn þykir það sjálfsagt þótt nauðsyn þyki að setja einhverjar hömlur á græðgina.
Hvað er merkilegra við árangur fjármálafyrirtækja en annarrar starfsemi? Raunar eru fjármálafyrirtækin ekki að framleiða neitt þó að vissulega skipti þau máli í starfsemi samfélagsins og framleiðslu þess. En þau skipta ekki meira máli en sjálf framleiðslufyrirtækin (þar þekkist auðvitað akkorð og bónusar, en ekki í þeim mæli að fjármálaráðherrar G20-ríkjanna þurfi að eyða tíma í að setja þeim reglur), nú eða skólarnir, sjúkrahúsin og önnur samfélagsleg starfsemi.
Er ekki kominn tími til að endurskoða fjármálakerfið í heild - skipulag þess og ekki síður tilgang? Eins og það er núna, einkum þegar árangurinn er mestur, er það fyrst og fremst afætukerfi, arðránskerfi - eða af hverju sitjum við uppi með æseif? Þar skiluðu kaupaukarnir sér heldur betur (með langtímaárangri)!
http://notendur.centrum.is/~einarol/bankar.html
Samkomulag um kaupauka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2009 | 13:29
Semjum um C Jam Blues
Ég var í gærkvöldi á dýrlegum tónleikum í Iðnó til heiðurs hinum síunga Guðmundi Steingrímssyni áttræðum, sem hefur setið við trommurnar og séð um taktinn í íslensku djassi og dægurlögum í 65 ár. Og hann sat við trommusettið í gærkvöldi og var ekki ellimóður. Yngri menn spiluðu með honum, Gunnar Hrafnsson á bassa, Björn Thoroddsen á gítar, sem ég man eftir kornungum í Stúdentakjallaranum með þeim nöfnum Steingrímssyni og Ingólfssyni, einn af mörgum sem gengu gegnum djassakademíu þeirra, og á píanóið var hollenskur snillingur, Hans Kwakkernaat.
Prógrammið var kannski ekki þaulæft en því meira líf í því. Björn sá um kynningar og gat þess að píanistinn væri hollenskur og það þyrfti svolitlar samningaviðræður um framvindu tónleikana, og nú höfum við náð samkomulagi um C Jam Blues".
C Jam Blues Duke Ellingtons (eða Barney Bigards, sem sumir telja hafa samið lagið) hefur verið leikinn inn á ótal hljómplötur, bæði af hljómsveit meistarans sjálfs og ótal öðrum meisturum. Hlustum á C Jam Blues, þar sem sorgin og sútin eru ofin inni í gáskafullan taktinn og hrist þar til hún gufar upp í yndislegri afslöppun sveiflunnar. Ef við eigum að setja okkur eitthvert markmið, þá ættum við að setja okkur sídjammblús-markmið, sem er einfaldlega það markmið að vera ekki með einhvern rembing og merkilegheit, gróðafíkn og valdagræðgi, heldur finna hina sameiginlegu sveiflu sem hægt er að spinna út frá, hvert á sinn hátt en þó saman, rétt eins og þeir gerðu snillingarnir í Iðnó í gærkvöldi. Og loks verði engar milliríkjadeilur alvarlegri en svo að þær verði hæglega leystar með því að spila C Jam Blues og taka nokkur létt dansspor.
http://www.jazzstandards.com/compositions-1/cjamblues.htm
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2009 | 09:16
Jörðin snoðuð
Eftir síðustu tilfæringar hjá Strætó, þegar allar leiðir voru settar á hálftíma frest, fann ég upp á því að ég kæmist á réttum tíma í vinnuna með því að ganga heiman frá mér úr Trönuhjalla í Kópavogi niður í Mjódd í stað þess að taka vagninn við Nýbýlaveg. Þetta er lengri ganga en á móti kemur meiri hreyfing og auk þess notaleg gönguleið. Leiðin liggur um undirgöng undir Nýbýlaveg og síðan um gróið land milli Smiðjuhverfisins og Reykjanesbrautar og svo undir hana um undirgöng. Dálítill niður frá umferðinni en í þessu gróna landi hafa mér til augnayndis verið að spretta allskonar blómjurtir. Eftir að hafa rennt yfir kreppufréttirnar í dagblöðunum með morgunkaffinu hefur þessi göngutúr lyft anda mínum ofurlítið og þá ekki síst villtur blómgróðurinn: smári, gulmaðra, hvítmaðra, hundsúrur, maríustakkur, rauðsmári, blóðberg og svo er umfeðmingsgras að skríða meðfram gangstígnum með bláu blómin sín. Í gærmorgun var svo allt orðið gult, litlu fíflarnir, hvað heita þeir, undafíflar eða eitthvað svoleiðis, höfðu skyndilega blómstrað. Ekki veitti mér af þessari upplyftingu villiblómanna í morgun, en æ, þá höfðu sláttumennirnir farið þar um. Engin blóm, bara snoðuð jörðin, eins og henni hefði verið refsað fyrir lauslæti. Þó höfðu sláttumennirnir hlíft umfeðmingsgrasinu. Þökk fyrir það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)