Yfirlýsing frá Þingi félagslegra hreyfinga á Aþjóðlega samfélagsvettvangnum 2009

1. febrúar lauk í bænum Belém do Pará í norðanverðri Brasilíu Alþjóðlega samfélagsvettvangnum, World Social Forum, sem hófst 27. janúar. Hátt í hundrað þúsund manns söfnuðust þarna saman til að ræða hvernig hægt er að skapa öðruvísi veröld.

Þessar samkomur spruttu upp úr andófshreyfingunni gegn nýfrjálshyggjunni og hnattvæðingunni sem fór að vaxa upp fyrir rúmum tíu árum. Þetta er ekki beinlínis þing eða ráðstefna heldur vettvangur, „forum“, þar sem ótal samtök og hreyfingar skipuleggja allskonar fundi og samkomur (það má svo deila um hvort þetta sé heppilegasta þýðingin).

Fyrsti Alþjóðlegi samfélagsvettvangurinn var í bænum Porto Alegre í Brasilíu í janúar 2001, en sá tími var valin vegna þess að á sama tíma halda kapítalistarnir og pólitískir þjónar þeirra sína árlegu alþjóðaráðstefnu, World Economic Forum, í bænum Davos í Sviss. Einnig hafa samsvarandi samkomur verið haldnar víðsvegar um heim, fyrir einstök svæði, lönd eða borgir. Þannig var evrópskur samfélagsvettvangur í Malmö í Svíþjóð í september síðastliðnum.

Frá upphafi hefur það verið venja á þessum samkomum að ýmis samtök og hreyfingar koma saman á fundi sem kallast „Þing félagslegra hreyfinga“ (Assembly of Social Movements) og senda frá sér stefnumarkandi yfirlýsingu. Yfirlýsingin birtist hér lauslega þýdd eftir:

DECLARATION OF THE ASSEMBLY OF SOCIAL MOVEMENTS AT THE WORLD SOCIAL FORUM 2009:

We won’t pay for the crisis. The rich have to pay for it !

http://www.cadtm.org/spip.php?article4087

Sjá einnig. http://www.fsm2009amazonia.org.br/

 

fsm2009_jpg_791015.gif

Yfirlýsing frá Þingi félagslegra hreyfinga á Aþjóðlega samfélagsvettvangnum 2009

Við borgum ekki fyrir kreppuna. Auðmennirnir verða að borga fyrir hana!

Við þurfum aðra kosti, sem beinast gegn heimsvaldastefnu og auðvaldstefnu en byggjast á femínisma, umhverfisstefnu og sósíalisma.

Við, félagslegar hreyfingar allsstaðar að úr heiminum, komum saman á áttunda Alþjóðlega samfélagsvettvangnum í Belém í Amazoníu, þar sem alþýðan hefur andæft ránstilraunum á landi hennar og menningu og náttúrunni allri. Við erum hér í Rómönsku Ameríku þar sem félagslegar hreyfingar og hreyfingar frumbyggja hafa  á undanförnum áratug tekið höndum saman og gera út frá heimssýn sinni alvarlegar athugasemdir við auðvaldskerfið. Á undanförnum árum hefur róttæk þjóðfélagsbarátta knésett ríkisstjórnir, sem hafa fylgt nýfrjálshyggjunni, og búið þess í stað í haginn fyrir ríkisstjórnir, sem hafa komið fram ýmsum jákvæðum umbótum, svo sem þjóðnýtingu grundvallarþátta efnahagskerfisins og lýðræðislegum stjórnarbótum.

Í þessu samhengi hafa félagslegar hreyfingar í Rómönsku Ameríku brugðist við með viðeigandi hætti og ákveðið að styðja þær jákvæðu ráðstafanir, sem þessar ríkisstjórnir hafa gert, en samtímis tekið gagnrýna afstöðu til þeirra. Þetta mun styrkja staðfasta andspyrnu alþýðunnar gegn þeirr stefnu ríkisstjórna, fyrirtækja og banka að færa byrðar kreppunnar yfir á herðar hinna kúguðu. Við, félagslegar hreyfingar heimsins, stöndum nú frammi fyrir sögulegu verkefni. Alþjóðleg kreppa auðvaldsins er hættuleg mannkyninu á ýmsa vegu: hún hefur áhrif á fæðuöflun, fjármálakerfið, efnahagskerfið, loftslagið, orkubúskap, fólksflutninga... og sjálfa siðmenninguna, þar sem þetta er einnig kreppa heimsskipunar og stjórnmálakerfa.

Við stöndum frammi fyrir heimskreppu, sem er bein afleiðing auðvaldskerfisins, og þess vegna verður engin lausn fundin innan þess kerfis. Allar ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar til að yfirvinna kreppuna, beinast einungis að því að velta kostnaði hennar yfir á almenning í því skyni að bjarga kerfi, sem byggist á einkavæðingu grunnþátta efnahagslífsins, almannaþjónustu og orkulinda og viðskiptavæðingu lífsins og arðráni vinnunnar og náttúrunnar ásamt því að færa auðinn frá jaðrinum til miðjunnar og frá verkafólki til auðstéttarinnar.

Núverandi kerfi er byggt á arðráni, samkeppni og einkahagsmunum á kostnað almannahagsmuna og á brjálæðislegri uppsöfnun auðs á hendur lítils hóps auðmanna. Það veldur blóðugum styrjöldum, kyndir undir fordómum, kynþáttahyggju og trúarlegum öfgastefnum; það stuðlar að kvennakúgun og ofsóknum á hendur félagslegum hreyfingum. Núverandi kreppa grefur skipulega undan réttindum almennings.

Villimannleg árás ísraelsku ríkisstjórnarinnar á palestínsku þjóðina er brot á alþjóðalögum og jafngildir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og í henni birtist höfnun á þjóðarrétti sem einnig má sjá víðar í heiminum. Það er til skammar að þetta sé látið viðgangast refsilaust og það verður að stöðva. Hinar félagslegu hreyfingar ítreka stuðning sinn við baráttu palestínsku þjóðarinnar sem og við alla baráttu gegn kúgun alþýðu um allan heim.

Í því skyni að sigrast á kreppunni verðum við að komast fyrir rætur vandans og byggja upp eins hratt og frekast er unnt róttækan valkost sem getur rutt auðvaldskerfinu burt. Við verðum að byggja upp samfélag sem uppfyllir samfélagslegar þarfir, virðir náttúruna og styður lýðræðislega þátttöku og fullt pólitískt frelsi. Við verðum að sjá til þess að öllum alþjóðlegum sáttmálum um jöfn borgaraleg, pólitísk, efnahagskeg, félagsleg og menningarleg réttindi, bæði eintaklingsbundnin og almenn, verði komið í framkvæmd.

Í þessu skyni munum við leggja okkar af mörkum til að fylkja fjöldanum saman sem mest má vera til að hrinda í framkvæmd aðkallandi ráðstöfunum, svo sem að:

  • þjóðnýta bankana án skaðabóta og undir fullu eftirliti almennings;
  • stytta vinnutímann án launalækkana;
  • gera ráðstafanir til að tryggja fæðuöruggi og yfirráð yfir orkulindum;
  • binda endi á styrjaldir, flytja hernámslið á brott og leggja niður herstöðvar;
  • viðurkenna fullveldi og sjálfstæði þjóða og tryggja sjálfsákvörðunarrétt þeirra;
  • tryggja rétt til lands, vinnu, menntunar og heilbrigðisþjónustu fyrir alla;
  • tryggja lýðræðisleg samskipti og aðgang að þekkingu.

Hin félagslega frelsisbarátta, sem femínískar og sósíalíkar hreyfingar og umhverfishreyfingar munu heyja á 21. öldinni, miða að því að frelsa samfélagið undan yfirráðum auðvaldsins yfir framleiðslunni, samskiptatækjum og almannaþjónustu. Þróa þarf eignarform sem stuðla að almannahagsmunum: litlar fjölskyldueignir, almannaeignir, samvinnueignir og eignir sveitarfélaga og þjóðfélaga.

Slíkur valkostur mun óhjákvæmilega verða femínískur þar sem útilokað er að byggja upp samfélag sem byggist á félagslegu réttlæti og jafnrétti ef helmingur mannkyns er kúgaður og arðrændur.

Síðast og ekki síst er það ásetningur okkar að stuðla að uppbyggingu samfélags þar sem allt líf fær að njóta sín í samræmi innbyrðis og út á við gagnvart öllum umheiminum og virk þátttaka og framlag frumbyggja er virt.

Við, hinar félagslegu hreyfingar, stöndum frammi fyrir sögulegu tækifæri til að þróa frelsisbaráttu á heimsvísu. Aðeins með félagslegri baráttu fjöldans verður kreppan yfirunnin. Til að stuðla að þessari baráttu er mikilvægt að vinna að vitundarvakningu og virkja grasrótina. Verkefni félagslegu hreyfinganna er að byggja upp fjöldahreyfingu á heimsvísu. Til þess þurfum við að styðja samvinnu allra þeirra hreyfinga sem berjast gegn kúgun og arðráni.

Í því skyni munum við á næstunni vinna að:

  • alþjóðlegri aðgerðaviku gegn kapítalisma og stríði 28. mars til 4. apríl 2009.

Í henni verða meðal annars:

  • aðgerðir vegna G20-fundarins 28. mars;
  • aðgerðir gegn stríði og kreppu 30. mars;
  • samstöðudagur með palestínsku þjóðinni til að hvetja til viðskiptabanns gegn Ísrael 30. mars;
  • aðgerðir gegn NATO 4. apríl.

Stefnt er að öflugum aðgerðum á ýmsum hefðbundum baráttudögum:

  • 8. mars, alþjóðlegum baráttudegi kvenna,
  • 17. apríl, alþjóðlegum baráttudegi fyrir fæðuöryggi,
  • 1. maí, alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins,
  • 12. október, alþjóðlegum baráttudegi fyrir Móður Jörð og gegn nýlendustefnu og viðskiptavæðingu lífsins.

Einnig má nefna aðgerðir vegna G8-fundarins á Sardiníu, loftlagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn, Ameríkuráðstefnunnar á Trinidad og Tobago o.s.frv.

Slíkar aðgerðir og kröfur eru liður í viðbrögðum við kreppunni þar sem leitað er róttækra lausna.

(Einar Ólafsson þýddi lauslega)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Linkurinn http://www.cadtm.org/spip.php?article4088 virkar ekki hjá þér.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.2.2009 kl. 13:14

2 Smámynd: Einar Ólafsson

Þakka þér fyrir Þór, hann var ekki réttur, en er nú kominn í lag.

Einar Ólafsson, 10.2.2009 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband