Nei, ekki nýjar leiðir - fetum í gamla farið, endurreisum gamla Ísland!

Nú hefði kannski verið tækifæri til að hugsa málin aðeins upp á nýtt. T.d. hvert á að vera hlutverk banka og annarra fjármálastofnana. Þær eru í rauninni meðal grunnstoða samfélagsins, þær veita athafnalífi almennings og fyrirtækja ákveðna grunnþjónustu og þær taka fé þeirra til geymslu og veita þeim lán. Slíkar stofnanir eiga ekki að hafa að markmiði hámarksarð einstaklinga (hluthafa) heldur á að reka þær á félagslegum grundvelli með hagsmuni samfélagsins og einstakra viðskiptavina að leiðarljósi. Það má hugsa sér ýmiskonar form á þeim rekstri, ekki endilega það sama og var á ríkisbönkunum gömlu (sem var þó kannski miklu skárra en eftir að þeir voru einkavæddir). Þar á að hafa að leiðarljósi eins lýðræðislega stjórn og eftirlit og hægt er. Væri nú ekki ráð að þessi vinstri stjórn spáði aðeins í þetta? Og félagar mínir í VG, ráðherrar og þingmenn, ættum við ekki að ræða þetta aðeins í okkar hópi?

Sjá nánar aðra  grein á þessari síðu sem einnig birtist í Smugunni.


mbl.is Bankar einkavæddir innan 5 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er eitthvað að ræða í "okkar hópi"? Fer ekki bara að fækka í "okkar hópi" núna? Ég hef það á tilfinningunni. Ekki langar mig til þess að vera bendlaður við þetta mikið lengur - þessi ríkisstjórn hefur ekki minn stuðning svo mikið er víst. VG hefur brugðist og "stefnir" leynt og ljóst á að bregðast enn frekar.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 13:39

2 identicon

Það er ágætt að bankar séu í einkaeigu. Það sem þarf hinsvegar að tryggja er að það séu ekki vanhæfustu menn heimsins að reka þá og stýra kerfinu.

Í fyrsta lagi þarf að einkavæða þá í dreifða eignaraðild en ekki þjappaða eins og seinast (eftir að vinir Sjálfstæðisflokksins sýndu Dabba Kóngi áhuga).

Í öðru lagi þarf aðeins að fara að pæla í þessari líka biluðu hugmynd að bankar eigi alla hluta af því sem þeir skuldi. Það þýðir á fræðimáli að hafa háa bindiskyldu, en reyndar væri ágætt skref að hafa bindiskyldu yfirhöfuð. Aftur var það Sjálfstæðisflokkurinn sem tók svo snældu-fokking-kolruglaða ákvörðun að afnema bindiskyldu. (Og svo tala þessir apakettir um ábyrgð!)

Í þriðja lagi þarf að byggja upp gjaldeyrisvaraforða til að verja gengið.

Allt af þessu klikkaði, allt fyrst og fremst vegna Sjálfstæðisflokksins. Það má kenna Framsókn um að hafa hangið með, enda gerir Framsókn bara eins og henni er sagt af meðstjórnarflokknum hverju sinni. Samfylkinguna má gagnrýna fyrir að hafa sofið á verðinum þótt hún hafi ekki verið í stjórn nema í 2 ár þegar hrunið kom. Samfó hefði átt að vera skeptískari. Framsókn hefði nú bara ekkert átt að vera í stjórn yfirhöfuð. Sjálfstæðisflokkurinn hefði mátt sleppa því að hanna, setja upp, verja og viðhalda og kerfi sem var gjörsamlega ábyrgðarlaust frá A til Ö.

En ríkisbankar eru alls ekki góð hugmynd. Í gamla daga var þetta þannig að ekkert gat hrunið því það var engin uppbygging. Með einkavæddu kerfi þarf minna að pæla í spillingu en meira að pæla í ábyrgð. Í ríkisvæddu kerfi þarf verulega að pæla í spillingu og ábyrgð samhliða.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 15:50

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Hann er vandrataður hinn gullni meðalvegur. Það má ekki hverfa svo langt aftur að "víkjandi lán" verði regla til að halda "nauðsynlegum" fyrirtækjum á floti. Ekki frekar en að endurreisa Skipaútgerð ríkisins.

Tek undir margt sem Helgi Hrafn segir. Frekar en að útiloka sölu bankanna mætti setja reglur um dreifða eignaraðild, 30% eignarhlut ríkisins, að starfsemi viðskiptabanka og annarrar fjármálaþjónustu sé aðskilin og að settar verði skarpari reglur um starfsemi þeirra.

Þegar meira að segja Alan Greenspan hefur skriðið undan steini og beiðst afsökunar á regluafnámi, er erfitt að standa gegn því að þessari starfsemi séu settar heilbrigðar leikreglur.

Haraldur Hansson, 23.6.2009 kl. 21:05

4 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Minna að pæla í spillingu í einkavæddu bankakerfi segir Helgi Hrafn?!! Í alvöru, hvað hurfu margir milljarðar úr landi á einkareikninga þegar bankakerfið var almenningsvætt? Þetta eru gamlar og úreltar frjálshyggjuklisjur um að einkarekin fyrirtæki geti ekki samkvæmt skilgreiningu verið spillt.

Annars tel ég það lágmark að ríkið reki stóran og öflugan viðskiptabanka sem tryggt gæti undirstöðu fjármálakerfisins (eins og ég bendi á í bloggi mínu). Ástæðan fyrir því að við sitjum uppi með allar fjárhættuspilaskuldir "víkinganna" er að við getum ekki leyft okkur sem samfélag að láta fjármálakerfi landsins rúlla. En með því að reka öflugan ríkisbanka er undirstaða fjármálakerfisins tryggð. Síðan má hugsa sér að leyfa erlendan bankarekstur í landinu (jafnvel selja eitt af þrotabúunum til erlends banka) sem myndi starfa sem útibú frá móðurlandinu. Og líka hægt að hugsa sér rekstur einkabanka sem stundaði áhætturekstur (það þarf reyndar að stokka upp allt alþjóða fjármálakerfið en það er önnur umræða), þar sem slík fjármálastofnun myndi borga í tryggingarsjóð til að tryggja innistæður upp að ákveðnu marki. En þar sem almenningsbankinn rekinn af ríkinu myndi tryggja að fjármálakerfið rúllaði ekki gæti slíkur einkabanki farið á hausinn ef sú staða kæmi upp og almenningur myndi ekki sitja uppi með skuldirnar.

Guðmundur Auðunsson, 24.6.2009 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband