19.11.2008 | 09:10
Innganga í ESB yrði skref til baka
Birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2008
Segja má að í því felist mótsögn að ætla að banka á virkishlið Evrópusambandsins nú þegar óheftur kapítalismi hefur lagt íslenska hagkerfið í rúst. ESB er í grundvallaratriðum kapítalískt verkefni, hagsmunir stórauðvaldsins liggja því til grundvallar. Sá grundvöllur er sameiginlegur markaður sem byggist á fjórfrelsinu svokallaða, sem tryggir frjálsa för fólks, varnings, þjónustu og fjármagns innan sambandsins. Sameiginlega markaðnum er ætlað að auka stærðarhagkvæmni, sérhæfingu og samkeppni, sem getur t.d. þýtt takmarkanir á félagslegum eða opinberum rekstri. Þetta er í raun grundvöllur hinnar kapítalísku hnattvæðingar eða hnattvæðingar stórfyrirtækjanna, sem aftur byggist á nýfrjálshyggju, nokkuð sem margir telja nú fulla þörf á að snúa frá. ESB er að þróast úr sambandi ríkja í sambandsríki, sem greinist frá flestum öðrum ríkjum með því að það byggist beinlínis á ákveðinni efnahagsstefnu.
Innan ESB er stöðugt sótt að réttindum launafólks og verkalýðshreyfingin er í sífelldri vörn. Skemmst er að minnast baráttu verkalýðshreyfingarinnar gegn Bolkestein-tilskipuninni svokölluðu, sem ætlað var að koma á frelsi í viðskiptum með þjónustu. Tilskipunin var ógnun við kjör og réttindi launafólks, en með hatrammri baráttu tókst þó að koma í veg fyrir hina upphaflegu tillögu. Einnig má t.d. nefna Laval-dóminn svokallaða, sem setti rétt verkalýðsfélaga til að verja launakjör skör lægra en ákvæði ESB um frjálst flæði verkafólks.
Það er sérkennilegt að sjá kröfu um inngöngu í ESB samtímis því sem stjórnvöld hér eru harðlega gagnrýnd fyrir skort á lýðræði, samráð og gegnsæi. Í ESB er virkt lýðræði afar takmarkað. Ákvarðanataka innan þess er fjarri almenningi. Mikill hluti ákvarðana er tekinn af stofnunum sambandsins sem ekki eru kosnar og hagsmunaaðilar leggja mikla áherslu á að ota sínum tota gagnvart þeim, en í því totaoti standa stórfyrirtækin í krafti auðs síns hvað best að vígi. Almenningur hefur enda litla tilfinningu fyrir því að hann geti haft nokkur áhrif á yfirstjórn sambandsins, sem sést best af ákaflega lítilli þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins. Í kosningunum 2004 var þátttakan innan við 50%.
Auðvitað er ESB ekki alvont og vissulega má reikna út staka plúsa og mínusa við aðild að sambandinu. En hvernig sem sú útkoma verður, þá er þessi kapítalíski grundvöllur þess og þunglamalegt og takmarkað lýðræði innan þess staðreynd. Þannig yrði aðild að sambandinu í raun skref til baka miðað við þá stefnu sem við þurfum nú að taka frá nýfrjálshyggjunni, óheftum kapítalisma og hnattvæðingu hans, stefnu sem æ fleiri eru nú að taka um allan heim.
Að lokum: Í ESB eru 27 ríki en utan þess eru 165 ríki. Þarf Ísland að vera eitthvað einangraðra utan þess en innan?
Athugasemdir
flott grein, já er ekki rétt að fara varlega hér, hef á tilfinningunni að ESB sé eins og risastór svört hola sem sogar allt til sýn og fær aldrei nóg
Jón Snæbjörnsson, 19.11.2008 kl. 09:27
Góð grein hjá þér. Það má líka minnast á hvernig Evrópusambandið horfir á þjóðaratkvæðagreiðslur, sem eru taldar lýðæðislegustu ákvaraðanatökur sem völ er á. Gott dæmi er Írland þar sem Lissabonsáttmálanum var hafnað. ESB sagði einungis að um smá bakslag væri að ræða, og þar með gefið skít í lýðræðislega atkvæðagreiðslu. Það er ekki til neitt nei í orðabók ESB bara kannski..
Daði Rúnar (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 13:56
Fínasta lesning og ein setning sérlega flott: "ESB er að þróast úr sambandi ríkja í sambandsríki". Kannski er þetta hin sanna lýsing.
Haraldur Hansson, 19.11.2008 kl. 14:51
Og þú meinar virkilega að lýðræðið í ESB löndum sé minna en á Íslandi !!!
Thor Svensson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 18:35
ha ha góður Einar :-)
Thor Svensson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 21:45
Ég þakka þessi viðbrögð. Varðandi lýðræðið, þá er formlegt lýðræði á Íslandi svona svipað og í öðrum þjóðríkum víðast hvar í þessum heimshluta, hvorki meira né minna. Það er þess vegna ekki því að kenna ef Íslendingar kjósa yfir sig ólýðræðislegri, þröngsýnni og óhæfari stjórnendur en aðrar þjóðir. Sumir segja að við þurfum að fara í ESB af því að okkar stjórnendur séu svo lélegir og hér séu ekki teknar upp alls kyns góðar reglur og siðir sem viðgangast innan ESB. Það er auðvitað mikil uppgjöf.
Í Þýskalandi eru ekki allir jafnánægðir með ESB, ég hef hitt þar fólk sem varar eindregið við inngöngu í ESB. Varðandi titilinn: Undir lok greinarinnar segir að aðild að sambandinu sé í raun skref til baka miðað við þá stefnu sem við þurfum nú að taka. Kannski má líka segja að það yrði bara skref til hliðar meðfram veggnum.
Einar Ólafsson, 19.11.2008 kl. 23:34
Ísland er stoppu stöð á leið frá Noregi til Vínlands hins góða. Við erum útrásar víkingar, en við verðum að rasa út í rétta átt! Leifur Heppni var ekki áttavilltur. Nú er komið að því að þjóðin sæki um inngöngu í Kanada/USA/NAFTA. Þar eigum við “Fyrsta Veðrétt”, samkvæmt Leifi Heppna. Þarna er mestur fjöldi íslenskra afkomenda, sem er okkar eigið blóð. Þeir afkomendur hafa dreyft sér um alla Norður Ameríku og gert það gott. Evrópa er búin að fá alveg nóg af okkur, eins og Noregur forðum. Vesturheimur bíður okkar án nokkurra fordóma.
Nonni (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 08:16
Menn tala stundum um svokallað fjórfrelsi sem neikvætt, þe. frjáls för fólks, varnings, þjónustu og fjármagns innan sambandsins o.s.frv.
Þeta útaf fyrir sig er auðvitað ekki endilega neikvætt. Miklu frekar að líta á sem skynsemi. Tökum dæmi. Segjum að Ísland sé Evrópa. Þá væri það þannig td. að Vestfyrðingar hefðu ekki frjálsan aðgang að atvinnu nema á Vestfjarðarkjálkanum. Sunnlendingar þyrftu að borga sérstakan toll á allri vöru er færi til annara landshluta o.s.frv.
Þar að auki hefðu Vestmannaeyingar sérgjalmiðil "Heimaaurinn"
Þetta væri ekki sérlega gáfuleg ráðstöfun.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.11.2008 kl. 23:24
Takk fyrir góða lesningu. Þetta var gott betur málefnalegra en ræða Styrmis í vikunni, og vakti mig til umhugsunar.
Kári Harðarson, 3.12.2008 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.