Var hústakan á Vatnsstíg siðlaust hryðjuverk?

Ég var að líta á frásagnir og myndir af innbroti lögreglunnar í húsið við Vatnsstíg á miðvikudagsmorguninn. Ég held að hér þurfi ýmislegt að athuga. Lögreglan virðist hafa komið fram við fólk, sem einfaldlega hafði búið um sig í mannlausu húsi, sem eigendurnir láta grotna niður, eins og það hafi verið að fremja hryðjaverk, taka gísla eða eitthvað í þá áttina. Stjórnvöld, ríkisstjórn og borgarstjórn, verða að láta málið til sín taka. Þetta segi ég bæði sem almennur borgari og stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og frambjóðandi fyrir VG.

Sjá:

http://this.is/nei/?p=4828

http://aftaka.org/2009/04/17/hustaka-anarkismi-2/

http://this.is/nei/?p=4812


Vonandi í síðasta sinn

"Tilgangurinn hafi verið að æfa aðflug að Akureyrarflugvelli sem sé nauðsynlegt af öryggisástæðum lokist Keflavíkurflugvöllur eða ef upp koma önnur ófyrirséð atvik," er haft eftir utanríkisráðherra. Málið er bara það, að flugvélar af þessu tagi hafa ekkert að gera hvorki til Keflavíkur né Akureyrar. Vonandi verður þetta í síðasta sinn sem svona drápstól verða í hér sveimi undir yfirskini "loftrýmisgæslu".
mbl.is Með vélbyssur og flugskeyti yfir Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirmyndarfólk – í alvöru

Það má kannski segja að það sé alvarlegt mál og lögbrot, að fara inn í autt hús sem einhver annar á og búa þar um sig með starfsemi án arðsemissjónarmiða - rétt eins og á hinn bóginn  þótti ekki tiltökumál og stangaðist ekki á við bókstaf laganna, að fámennur hópur lagði hér undir sig allt í þessu landi, fiskimiðin, bankana, matvöruverslunina og verslun yfirleitt, var byrjaður að sölsa undir sig jarðeignir út um allt land - og lagði undir sig lóðir og heilu hverfin í Reykjavík til að rífa hús og byggja upp aftur undir verslunarmiðstöðvar, skrifstofubyggingar fyrir fjármálabraskið, lúxusíbúðir og - jú, jú eitthvað af íbúðum fyrir venjulegt fólk. Og setti svo allt samfélagið á hausinn. Með þeim afleiðingum meðal annars að húsnæði, hálfbyggt eða fokhelt, eða lóðir með engu nema skolplögnunum, er mannlaust út um allar þorpagrundir meðan fórnalömb arðránsins eru að missa húsnæði sitt, sem þau unnu fyrir með heiðarlegum hætti.

 

Við þessar aðstæður ætti að verðlauna ungt fólk, sem hefur framtak til að setjast að í auðum húsum, sem byggingarfélög hafa keypt til að rífa og braska með (ég tek það reyndar fram að ég þekki ekki til þessa fyrirtækis, sem á umrætt hús við Vatnsstíg). Í umræðum stjórnmálamanna í sjónvarpinu í gærkvöldi - í því kjördæmi sem Vatnsstígur tilheyrir - var mikið talað um að það þyrfti að passa upp á að fólk héldi virkni sinni í þessu atvinnuleysisástandi, sem nú er skollið á, og ýta undir framtaksemi þess. Ef við horfum á samhengið, þá var kannski einmitt hér á ferðinni framtak, sem var á margan hátt til fyrirmyndar. Það ætti kannski að kalla þetta unga fólk suður á Bessastaði næst þegar orðuveitingar fara fram. Það er bara vísast að þau vilji setja á sig önnur barmmerki en fálkaorðuna - og kjósi frekar stuðning venjulegs alþýðufólks. Við ættum kannski að líta á þessa hústöku sem tákn fyrir þá baráttu sem við ættum öll að vera að heyja.


mbl.is Sextán handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað ber enginn ábyrgð

Það ber náttúrulega enginn ábyrgð á þessu í Sjálfstæðislflokknum, og það er alveg rétt, enginn einstaklingur verður hengdur, alla vega enginn smiður, því að þetta var bara viðtekin venja: meðan Kolkrabbinn var og hét hélt hann væntanlega Sjálfstæðisflokknum uppi og þótti ekki tiltökumál, en það er líklega hvergi skráð.

En að öðru. Það var skemmtilegur leitðari í Mogganum í gær, skírdag, og m.a. vitnað í ræðu Geirs H. Haarde, sem hann flutti þegar hann mælti fyrir frumvarpinu um fjármál stjórnmálasamtaka á Alþingi 8. desember 2006. Þetta er yndislegur lítill ræðubútur, og minnir á að það væri verðugt verkefni fyrir stúdent í málvísindum eða bókmenntafræði að greina orðræðu sjálfstæðismanna. Lesið þetta og takið fyrst eftir orðinu viðurhlutamiklu og svo hinu hvernig ræðumaður útlokar það gersamlega að nokkurn tíma hafi verið reynt að hafa áhrif á stjórnmálaflokka með óeðlilegum hætti (ef gengið væri á hann mundi hann þó kannski geta bent á Rússagullið sem sósíalistar áttu að hafa fengið og er líklega það eina sem eitthvað hefur verið reynt að rannsaka í þessum efnum):

 

Ég ítreka það fyrir mína parta að höfuðástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn telur nú brýnt að setja löggjöf af þessu tagi eru þær viðurhlutamiklu breytingar sem orðið hafa á efnahags- og fjármálaumhverfinu á Íslandi sem þó eru í sjálfu sér auðvitað mjög jákvæðar. Við höfum ekki séð nein merki þess í dag að reynt sé með óeðlilegum hætti að hafa áhrif á stjórnmálastarfsemina í landinu af hálfu fjársterkra fyrirtækja eða fjársterkra einstaklinga en við viljum reisa skorður við þeim möguleika áður en slíkt gerði hugsanlega vart við sig og við viljum jafnframt gera flokkunum mögulegt að starfa með öflugum hætti með því að veita þeim eðlilegan stuðning af opinberu fé. Við teljum það nauðsynlegt til þess að flokkarnir geti sinnt því grundvallarlýðræðishlutverki sínu og því sem þeim er ætlað í stjórnskipan landsins. Við teljum nauðsynlegt að verja stjórnmálalífið fyrir þeirri hættu að gerðar verði tilraunir til þess að hafa áhrif á úrslit einstakra mála með óeðlilegum hætti.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=133&mnr=435

 


mbl.is Andri hættir störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað á að greiða fyrir nýjum framboðum

Oft hefur mér fundist talið um flokksræði og ekki síst fjórflokkinn vera yfirborðslegt og byggjast á einföldunum, og það sem verra er, beina athyglinni frá auðræðinu, sem er mesta meinsemdin.

Hins vegar verður því ekki neitað, að þetta tal er hreint ekki ástæðulaust og hér er einmitt eitt dæmi um flokksræði. Sé veittur styrkur vegna framboða eiga öll framboð að sjálfsögðu að sitja við sama borð. Ef eitthvað er, þá ættu ný framboð að fá heldur hærri styrk en þeir flokkar sem hafa átt menn á þingi. 


mbl.is Borgarahreyfingin óskar eftir úthlutun úr sjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamálið er auðræði, ekki flokksræði

 Eftirfarandi grein birtist svolítið stytt í Morgunblaðinu 1. apríl

 Nú er mikið talað um lýðræði og flokksræði gagnrýnt. Þessi umræða er mikilvæg en yfirborðsleg og vægi hennar sérkennilegt í kjölfar efnahagshruns, sem stafar aðallega af því að hópur auðmanna hefur ráðskast með efnahagskerfið og stolið og sólundað þjóðarauðnum. Það er sérkennilegt að þá skuli aðalumræðan um samfélagslegar umbætur snúast um stjórnkerfið, kosningakerfið og stjórnmálaflokkana.

Hverju breytir persónukjör til alþingis? Hefði eitthvað farið öðruvísi þótt „flokksræði" hefði verið minna? Að hve miklu hafa stjórnmálamenn og flokkar ráðið ferðinni og að hve miklu leyti auðstéttin? Þurfum við ekki frekar að huga að auðræðinu en flokksræðinu?

Auðstéttin teflir fram sínum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum hvernig sem kosningakerfið er, og þá er kannski betra en ekki að hafa aðra flokka, eins og Vinstri græna, til mótvægis, hvað sem tali um „fjórflokkinn" líður. En línurnar eru ekki lagðar á vettvangi stjórnmálamanna og flokka. Sókn nýfrjálshyggjunnar var ekki mótuð innan stjórnmálaflokka heldur á æði fjölbreytilegum og flóknum vettvangi, sem auðstéttin hefur til að ráða ráðum sínum og móta þá hugmyndafræði sem henni hentar. Þar spila saman allskyns stofnanir, svokallaðar hugveitur (think tanks), háskólar eða háskóladeildir sem auðmenn fjármagna (hér t.d. Háskólinn í Reykjavík), fjölmiðlar sem auðmenn einoka (hér allir helstu fjölmiðlar nema RÚV), ráðgjafafyrirtæki (í Bretlandi voru t.d. fyrirtækin Price Waterhouse og Coopers & Lybrand meðal helstu ráðgjafa þegar einkavæðingin fór þar á fullt upp úr 1980), klúbbar eins og Bilderberg eða stofnanatengdar ráðstefnur eins og World Economic Forum - eða Viðskiptaþing, svo fátt eitt sé nefnt. Og svo ráða auðmennirnir einfaldlega beint með auðnum: hverjir hafa í raun skipulagt matvælaverslunina á Íslandi, eða uppbyggingu heilla hverfa eins og t.d. Skuggahverfisins í Reykjavík og auðu hverfanna út um alla móa, eða stefnuna í íslenska fjármálakerfinu á undanförnum árum? Fulltrúar þeirra á stjórnmálasviðinu gera það sem þeim er sagt.

Meðan ekki er komið skikk á skiptingu auðsins og lýðræði í eignarhaldi og rekstri fyrirtækja hafa stjórnkerfisbreytingar einar sér lítið að segja. Einblínum ekki á þær meðan auðmennirnir ráða ráðum sínum bak við tjöldin í því skyni að sölsa allt undir sig aftur og hefja leikinn á ný.


Útifundur á Austurvelli, 30. mars, kl. 17

Þann 30. mars árið 1949, fyrir sextíu árum síðan, samþykkti Alþingi inngöngu Íslands í Nató. Að þessu tilefni efna Samtök hernaðarandstæðinga til útifundar á Austurvelli, kl. 17:00, mánudaginn 30.mars. Þar verður haldið á lofti kröfunni um að Ísland standi utan hernaðarbandalaga.

Ármann Jakobsson íslenskufræðingur og María S. Gunnarsdóttir formaður MFÍK flytja stutt ávörp. Fundarstjóri verður Stefán Pálsson formaður SHA.

Síðast en ekki síst verður botninn sleginn úr Nató á táknrænan hátt.

Friðarsinnar eru hvattir til að fjölmenna. Ísland úr Nató!

Sjá: http://www.fridur.is/


St.Rv. ályktar: Launafólk ber ekki ábyrgð á kreppunni

Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar var haldinn í gær, 19. mars. Fundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:

 Ályktun I

Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, haldinn 19. mars 2009, ályktar: Í yfirlýsingu, sem Evrópusamtök verkalýðsfélaga (ETUC) sendu frá sér í lok febrúar, segir að óviðundandi sé að launafólk beri byrðar af efnahagshruni, sem það beri enga ábyrgð á heldur sé framkallað af blygðunarlausri græðgi fjármálafyrirtækja og fjárglæframanna. Fundurinn tekur undir þetta og krefst þess að stjórnvöld hraði sem mest aðgerðum til varnar kjörum almennings og beiti öllum tiltækum ráðum til þess. Meðal nauðsynlegra úrræða má nefna:

  • Standa vörð um heimili og afkomu almennings og stöðva stöðuga hækkun skulda og afborgana.
  • Tryggja atvinnu, treysta rekstrargrundvöll fyrirtækja og hrinda í framkvæmd þjóðhagslega hagkvæmum og atvinnuskapandi verkefnum.
  • Standa vörð um velferðarkerfið og opinberan rekstur almannaþjónustu og jafna kjörin.
  • Koma á árangursríku regluverki, sem komi í veg fyrir að aftur verði snúið til þess spilavítiskapítalisma, sem hefur einkennt efnahagslífið mörg undanfarin ár, og taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum í þá veru.
  • Hraða rannsókn á fjármálahruninu og aðdraganda þessi og gera allt sem hægt er til að ná aftur því sem rænt hefur verið af almenningi.

Fundurinn hvetur verkalýðshreyfinguna til að veita stjórnvöldum stuðning og ekki síður aðhald til þessara verka. Jafnframt er hvatt til þess að ekkert verði gefið eftir í kjaramálum né gengið að frestun kjarasamninga nema tryggt sé að það sé aðeins til bjargar atvinnulífinu en ekki hagnaðar fyrir atvinnurekendur og fjármagnseigendur. Bókhald fyrirtækja verður að vera opið og launaleynd og hverskyns tekju- og eignaleynd afnumin með öllu.

Ályktun II

Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, haldinn 19. mars 2009, hvetur alla vinnuveitendur félagsmanna til þess að virða kjarasamninga og forðast að skerða kjör starfsmanna sinna, enda er almennt ekki um hálaunastörf að ræða. Jafnframt hvetur fundurinn jafnt yfirmenn sem almennt starfsfólk til að standa þétt saman og sýna hvert öðru stuðning á þessum tímum, þegar margir þurfa að takast á við fjárhagslega erfiðleika og jafnvel atvinnumissi fjölskyldumeðlima.

Yfirlýsingu ETUC, sem vitnað er til, má finna hér:

http://www.etuc.org/a/5895

http://www.etuc.org/a/5871

 


Kostnaður við prófkjör

Ég tók þátt í forvali VG í SV-kjördæmi um síðastliðinn laugardag og náði raunar ekki áfram í neitt af þeim sex sætum sem um var kosið og allt í lagi með það. Þetta var góður fimmtán mnanna hópur sem keppti um þessi sex sæti og ég er sáttur við niðurstöðuna.

Ég fékk bréf frá ríkisendurskoðun í gær þar sem ég var beðinn um upplýsingar um útgjöld mín og hef nú gengið frá svari við því. Mér þykir rétt að gera það opinbert og birti það því hér:

 

Ríkisendurskoðun
Skúlagötu 57
105 REYKJAVÍK

 

 

Yfirlýsing frambjóðanda í prófkjöri 2009

 

Ég undirritaður tók þátt í prófkjöri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs  í Suðvesturkjördæmi sem haldið var 14. mars 2009.

Ég lýsi því hér með yfir að viðlögðum drengskap að heildarkostnaður vegna framboðs míns í prófkjörinu var ekki hærri en 300 þús.kr. Með vísan til 10. gr. laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðanda og um upplýsingaskyldu þeirra er ég því undanþegin uppgjörsskyldu vegna prófkjörsins.

Nánar tiltekið voru útgjöld mín einungis hráefni í einn lítinn brauðrétt sem ég lagði með mér á borð á einum kynningarfundi. Þar sem þetta hráefni var nær allt til í eldhúsinu hjá mér veit ég ekki hvað það kostaði en giska á fáein hundruð króna.

 

Kópavogi 18. mars 2009

Einar Ólafsson (sign.)
Trönuhjalla 13
200 KÓPAVOGUR

 

 

 


Losum okkur við kapítalistana

Auðvitað átti aldrei að gera samkomulag um frestun kjarasamninga nema með ströngum skilyrðum um að fyrirtækin færu ekki að greiða út arð eða hygla eigendum sínum og yfirmönnum. Meðal annars átti að gera þær kröfur að allt bókhald fyritækjanna yrði opið og launaleynd og hverskyns tekju- og eignaleynd yrði afnumin.

 

Vandinn er sá að það þarf alltaf að vera að taka tillit til fjármagnseigenda. Það þarf einlægt að tipla á tánum í kringum þá. Ef þeir fá ekki þann arð af fjármagni sínu sem þeir telja viðunandi, þá fara þeir bara með það eitthvert annað. Þegar kreppir að í samfélögum, þá eru stjórnvöld alltaf meira og minna heft í hugsanlegum aðgerðum, af því að þau þurfa að taka tillit til hagsmuna fjármagnseigenda, annars skellur á „fjármagnsflótti", sem er reyndar ekki flótti fjármagnsins, því að fjármagnið er hvorki náttúruafl né persóna með sjálfstæðan vilja, heldur er þetta flutningur fjármagnseigenda á fjármagninu þangað sem það ber meiri arð - fyrir þá.

 

Verkafólkið í Granda getur ekki farið eitthvert annað hvenær sem því hentar. Vegna ótta við gjaldþrot fyrirtækja og enn meira atvinnuleysi sýnir verkalýðshreyfingin ábyrgð, en fjármagnseigendur sýna sjaldnast nokkra ábyrgð. Það er þeirra græðgi sem veldur efnahagskreppum. Efnahagskreppur eru í raun fáránlegt fyrirbæri af því þær stafa ekki af harðæri, þær stafa bara af græðginni og græðgin er drifkraftur kapítalismans. Kapítalisminn er slæmt hagkerfi. Og að er auðvitað óeðlilegt að til séu fjármagnseigendur  eða einstaklingar sem hafa yfirráð yfir fjármagni, án þess að þeir starfi við það í þjónustu samfélagsins og með umboði þess.

 

En ef við getum ekki losað okkur við fjármagnseigendurna, kapítalistana, þá þurfa þeir í það minnsta strangt aðhald. Sumir kalla það höft, ég kalla það varnir gegn arðráni, varnir fyrir lýðræði (gegn alræði fjármagnsins/fjármagnseigenda) og tryggingu fyrir stöðugleika samfélagsins. Spurningin á ekki að vera hvort heldur hvernig við ætlum nú að haga þessari vörnum. Þeirri spurningu er nú varpað fram um allan heim.


mbl.is Vill rifta samkomulagi um frestun samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband