Vinstristjórnin stefnir að einkavæðingu bankanna

Fjármálastofnanir eru ein af grunnstoðum samfélagsins

Birtist í styttri útgáfu í Smugunni 24. júní 2009

3. desember 1999 var tekið til umræðu á Alþingi stjórnarfrumvarp um sölu á 15% hlut í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Í ræðu um frumvarpið sagði formaður hinnar nýstofnuðu Vinstrihreyfingar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, meðal annars:

„Kenningar eru settar fram án þess að þær þurfi að rökstyðja, því meiri einkavæðing því betra. Alltaf er talið af hinu góða að koma hlutunum úr eigu ríkisins án tillits til aðstæðna eða hver á í hlut. Þannig er þetta mál rekið. Enginn greinarmunur er gerður á fyrirtæki í samkeppni, prentsmiðju eða ferðaskrifstofu, sem ríkið seldi hér á árum áður og var að mörgu leyti eðlilegur hlutur, eða hvort komið er að undirstöðufjármálastofnunum þjóðarinnar, fjarskiptastofnunum eða jafnvel stofnunum í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Þetta er kredda, ofstæki ættað úr smiðju Margrétar Thatcher og hennar líkra" (leturbreyting mín).

 

Einkavæðingarstefna vinstristjórnarinnar

Rúmum 9 árum seinna, 1. apríl 2009, var Steingrímur J. Sigfússon enn formaður Vinstrihreyfingarininar - græns framboðs, en jafnframt var hann þá orðinn fjármálaráðherra. Þá voru hinir einkavæddu bankar hrundir og rústirnar komnar í hendur ríkisins. Þann dag er sagt í vefmiðlinum Visir.is að þá um morguninn hafi hann í svari við fyrirspurn sjálfstæðismanna á fundi í fjárlaganefnd sagt „engin áform um einkavæðingu bankanna." Dregur þó kannski aðeins úr, því haft er eftir honum orðrétt: „Og alls ekki með sama hætti og árið 2002. Sú hörmungarsaga verður ekki endurtekin."

22. júní 2009 mælti hann svo sem fjármálaráðherra fyrir frumvarpi til laga um Bankasýslu ríkisins. Í vefmiðlinum Mbl.is 23. júní er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra „að ríkið eigi ekki að eiga bankana deginum lengur en nauðsynlegt sé vegna endurskipulagningar þeirra" og stefnt sé „að því að búið verði að einkavæða bankana aftur" þegar Bankasýsla ríkisins verði lögð niður eftir fimm ár.

Þessa stefnu má reyndar lesa út úr frumvarpinu.

Í 4. grein frumvarpsins, lið i, segir um fyrirhuguð verkefni Bankasýslu ríkisins: „Að gera tillögur til fjármálaráðherra um hvort og hvenær tilteknir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum verða boðnir til sölu á almennum markaði..." og í lið j „Að undirbúa og vinna tillögur um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum."

Samkvæmt 9. grein er gert ráð fyrir að stofnunin hafi „lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður," og í athugasemd með þessari grein er sagt: „Ekki er ætlunin að þetta fyrirkomulag verði til frambúðar heldur ráðgert að ríkið losi um eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum þegar tækifæri gefst og að eignarráð og eftirlit með eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum sem hugsanlega verða áfram á hendi ríkisins eftir þessi tímamörk verði með hefðbundnum hætti." Sem sagt: hugsanlega verða einhverjir eignarhlutar skildir eftir.

Þessi stefna, að einkavæða bankana, hugsanlega að einhverjum eignarhlutum undanskildum, er áréttað víðar í athugasemdum við frumvarpið.

 

Hlutverk og eðli fjármálastofnana

Það var munurinn á afstöðu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna til einkavæðingar bankanna að síðarnefndi flokkurinn var á móti einkavæðingunni en sá fyrrnefndi einungis á móti aðferðinni við einkavæðinguna. Væntanlega á nú að standa einhvern veginn öðru vísi að einkavæðingunni og verður nú æ minna sem greinir þessa tvo flokka að.

En hefði ekki verið tækifæri nú til að greina hlutverk og eðli fjármálastofnana og síðan út frá því að móta stefnu um hvernig eignarhaldi og rekstri er best fyrirkomið?

Mín meining er að fjármálastofnanir séu ein af grunnstoðum samfélagsins, eins og við sjáum best af því að endurreisn fjármálakerfisins er forgangsatriði hjá stjórnvöldum. Fjármálastofnanir sinna mikilvægri grunnþjónustu í samfélaginu. Þær veita athafnalífi almennings og fyrirtækja ákveðna grunnþjónustu og þær taka fé þeirra til geymslu og veita þeim lán. Slíkar stofnanir eiga ekki að hafa að markmiði hámarksarð einstaklinga (hluthafa) heldur á að reka þær á félagslegum grundvelli með hagsmuni samfélagsins og einstakra viðskiptavina að leiðarljósi.

Bankarnir sýsla með peninga, geyma þá, lána, flytja. Mikilvægt markmið fyrirtækja í einkaeigu, einkum og sér í lagi stórfyrirtækja sem eru í eigu hluthafa, sem eingöngu eiga hlut í fyrirtækinu vegna gróðavonar, en ekki til dæmis vegna áhuga á bankastarfsemi, er að hámarka hagnað. Þótt sú viðleitni skapi kannski ákveðinn kraft, þá hefur hún líka sínar neikvæðu hliðar, ekki síst hjá fjármálastofnunum þar sem fjármálabrask er nærtæk leið til hagnaðar. Slíkur hagnaður er í raun ekki annað en gripdeildir í það fjármagn sem bankarnir hafa aðgang að umfram aðra.

Af þessum sökum er mikilvægt að bankarnir séu reknir á félagslegum grunni þar sem almannahagsmunir eru í fyrirrúmi. Vissulega er hægt að setja einkareknum bönkum ýmsar skorður með regluverki en tilhneigingin verður eigi að síður að setja hagsmuni hluthafanna í fyrirrúm - og liðka svo regluverkið þeim í hag.

 

VG hefur aldrei samþykkt að einkavæða bankana

Hefði ekki verið nær að gera ráð fyrir því í frumvarpinu að þessi Bankasýsla starfaði meðan verið væri að vinna að framtíðarskipan bankamála og taka sér tíma í það. Ef niðurstaðan yrði, eftir slíka skoðun, að rétt væri að einkavæða bankana, þá væri það á grundvelli mótaðrar stefnu sem tæki mið af framtíðarhagsmunum samfélagsins. En ég er hræddur um að margir kjósendur núverandi stjórnarflokka hafi ekki ætlast til að það yrði eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar að lögfesta 5 ára áætlun um einkavæðingu bankanna.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem lögð var fyrir flokksráðsfund VG 10. maí, er hvergi getið um að fyrirhugað sé að einkavæða bankanna þó ýjað sé að þeim möguleika að einkaaðilar komið að einhverju leyti að rekstri banka: „Jafnframt mun ríkisstjórnin marka skýra eigendastefnu þar sem fram komi framtíðaráherslur ríkisins sem eiganda bankanna og hvernig henni verður framfylgt. Markmið þess er að styrkja faglegan, gagnsæjan og traustan grunn undir aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu. Meðal annars verði kveðið á um hvernig eignarhaldi bankanna verður hagað, hugsanlegri eignaraðild erlendra kröfuhafa og sýn á dreift eignarhald á bönkunum til framtíðar."

Í ályktun landsfundar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs 20.-22. mars 2009 var ekki sagt beint að allir bankar skyldu vera í almannaeigu en lagt til að „ríkisbönkunum verði fækkað með sameiningu og verði hluti bankakerfisins í eigu ríkisins til að tryggja hagsmuni almennings" og ennfremur að „bankarnir móti sér samfélagslega ábyrga stefnu."

Mér finnst ekki ólíklegt að einhverjir flokksmenn vildu fá að ræða það áður en formaður flokkins leggur fram frumvarp um einkavæðingu bankana. Seint verður sagt að reynslan af einkavæðingu bankanna hvetji til stefnubreytingar flokksins í þessum efnum. Við skulum vona að þetta frumvarp verði ekki samþykkt fyrir boðaðan flokksráðsfund 28.-29. ágúst.

 

Umræður á alþjóðavettvangi um fyrirkomulag bankastarfsemi

Víða um heim eru í gangi umræður um breytt fyrirkomulag bankastarfsemi og fjármálakerfa. Ég er ekki svo kunnugur þeim umræðum að ég geti farið í saumana á þeim. En ég get t.d. bent á ályktun sem gerð var í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu í Beijing í Kína um miðjan nóvember síðastliðinn, Asia-Europe People's Forum, undir heitinu „Alþjóðlega fjármálakreppan: sögulegt tækifæri til umsköpunar".   Þar er bent á eftirfarandi atriði varðandi starfsemi fjármálafyrirtækja:

  • Full félagsvæðing (socialisation) bankanna, ekki bara þjóðnýting tapsins.
  • Gegnsæi í fjármálakerfinu.
  • Eftirlit þings og almennings með bankakerfinu.
  • Félagslegar og umhverfislegar forsendur fyrir lánastarfsemi.
  • Almannasparisjóðir (citizen investment funds).

 

Almenningur fái bankana upp í fórnir sínar

Ef einhverjir einkaaðilar hér á landi ráða yfir svo miklu fjármagni að þeir geti keypt bankana, þá má kannski spyrja: Væri ekki nær að gera þetta fjármagn hreinlega upptækt án þess að afhenda handhöfum þess bankana fyrir það, meðan hluti tekna venjulegs launafólks, öryrkja og ellilífeyrisþega er gerður upptækur með ýmis konar aðgerðum í skatta- og lífeyrismálum, verðhækkunum, niðurskurði og frestun umsaminna kauphækkana, jafnvel kauplækkunum, án þess að nokkuð komi í staðinn annað en óljós von um að landið rísi einhvern tíma í framtíðinni?

Væri ekki nær að gera fjármuni stóreignamannanna upptæka en láta almenning halda bönkunum sem smáþóknun upp í fórnir hans?

Sjá einnig grein mína Bankar í þágu samfélags hér á síðunni og í Smugunni 29. maí 2009.

 

Nei, ekki nýjar leiðir - fetum í gamla farið, endurreisum gamla Ísland!

Nú hefði kannski verið tækifæri til að hugsa málin aðeins upp á nýtt. T.d. hvert á að vera hlutverk banka og annarra fjármálastofnana. Þær eru í rauninni meðal grunnstoða samfélagsins, þær veita athafnalífi almennings og fyrirtækja ákveðna grunnþjónustu og þær taka fé þeirra til geymslu og veita þeim lán. Slíkar stofnanir eiga ekki að hafa að markmiði hámarksarð einstaklinga (hluthafa) heldur á að reka þær á félagslegum grundvelli með hagsmuni samfélagsins og einstakra viðskiptavina að leiðarljósi. Það má hugsa sér ýmiskonar form á þeim rekstri, ekki endilega það sama og var á ríkisbönkunum gömlu (sem var þó kannski miklu skárra en eftir að þeir voru einkavæddir). Þar á að hafa að leiðarljósi eins lýðræðislega stjórn og eftirlit og hægt er. Væri nú ekki ráð að þessi vinstri stjórn spáði aðeins í þetta? Og félagar mínir í VG, ráðherrar og þingmenn, ættum við ekki að ræða þetta aðeins í okkar hópi?

Sjá nánar aðra  grein á þessari síðu sem einnig birtist í Smugunni.


mbl.is Bankar einkavæddir innan 5 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ábyrgð verkalýðsins

Dreifum vinnunni, styttum vinnutímann

Birtist í Smugunni 3. júní 2009

Skopmynd teiknarans Halldórs í Morgunblaðinu 29. maí var umhugsunarverð. Myndin sýnir strák sem segist nú bara vera lítill strákur, enginn hagfræðingur, en hann heldur að þetta eigi eftir að reddast og heldur uppi blaði merktu „Kreppan 2008“ og á því er listi með orðunum „matur“, „menntun“, „húsnæði“, „orka“, „bílar“ og fleira. Aftan við þann dálk eru tveir aðrir, annar með yfirskriftina „nóg“, yfir hinum stendur „ekki nóg“. Og allsstaðar er krossað í fyrri dálkinn. Á gólfinu liggur samskonar listi merktur „Kreppan 1929-1933“ og þar eru allir krossar í seinni dálknum, „ekki nóg“.

Það er þarft verk hjá teiknaranum að halda þessu til haga. Kreppan stafar ekki bara af því að braskarar og útrásarvíkingar hafi framið á okkur stærsta þjófnað Íslandssögunnar, þótt við skulum ekki gera lítið úr því. Hér var líka stunduð uppbygging og innflutningur sem fór langt fram úr greiðslugetunni. Við erum með nánast nóg af öllu í landinu, við bara skuldum sumt af því.

Dreifum vinnunni

Það er lítil þörf á byggingum íbúða- og skrifstofuhúsnæðis á næstunni. Það þýðir að störfum í byggingariðnaði fækkar. Verslun dregst líka saman, væntanlega mest með innfluttan varning, t.d. bíla. Það er gott að því leyti að það sparar gjaldeyri. En störfum fækkar.

En það er ýmislegt annað sem krefst áfram sama mannafla. Ýmis konar þjónusta heldur áfram. Einnig allskyns framleiðsla til útflutnings og á ýmiskonar neysluvörum, svo sem matvælum og ýmsu öðru, þ.e.a.s. ef fyrirtækin í þeim greinum geta starfað áfram.

Atvinnuleysi kostar mikið. Atvinnulausir þurfa að lifa eins og aðrir, þeir fá atvinnuleysisbætur og hugsanlega félagslega aðstoð, auk þess sem búast má við að atvinnuleysi valdi ýmsum öðrum kostnaði, svo sem vegna félagslegra vandamála og sjúkdóma.

Það er því mjög mikilvægt, hreint efnahagslega, að halda atvinnuleysi niðri. Því ætti að gera allt sem hægt er til að halda allskyns þjónustu gangandi, bæði opinberri og annarri. Að fækka störfum í þeim greinum er glapræði. Það sem sparast með því tapast að miklu leyti aftur í atvinnuleysisbætur og annan kostnað vegna hinna atvinnulausu og auk þess er viðbúið að niðurskurður á sumri þjónustu og opinberri starfsemi, svo sem í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og félagslegri þjónustu valdi auknum kostnaði þegar frá líður.

Nú er auðvitað svo að mönnum verður ekki einfaldlega svissað úr einu starfi í annað, atvinnulaus byggingaverkamaður fer ekki að kenna eða stunda sérhæfð heilbrigðisstörf. En bent hefur verið á að hægt væri að leggja nú áherslu á ýmiskonar viðhald, sem kannski hefur verið setið á hakanum. Síðastliðið haust bárust fréttir af því að nemar í bifvélavirkjun hafi hrökklast frá námi á Akureyri vegna þess að aðstöðu skorti. Við eigum nú bílaflota sem dugar sennilega í mörg ár, en að því kemur að þessir bílar þarfnast viðgerðar. Kannski kemur nú að því að hætt verði þeirri sóun að endurnýja bílana eftir örfá ár og farga þeim gömlu. Þess í stað verði reynt að láta þá endast heldur lengur með viðgerðum. Þannig ætti nú að mennta bifvélavirkja í stórum stíl, kannski sumir þeirra sem eru að missa vinnuna núna hefðu áhuga á slíkri menntun.

En að auki er sú leið að dreifa vinnunni meira með því að stytta vinnutímann. Styttri vinnutími er kjarabót og kannski gæti stytting hans komið á móti launahækkunum. Kannski fyrirtækin mundu spara meira á því hreinlega að segja upp fólki, en á móti kemur að atvinnuleysisbætur sparast og þann sparnað mætti nota til að styrkja stöðu fyrirtækjanna. Stytting vinnutímans þýðir líka að margir þurfa þá á minni þjónustu að halda, t.d. styttri tíma fyrir börnin í leikskóla.

Og vel að merkja, auðvitað ætti að nýta bensínskattinn nýja til að efla almenningssamgöngur, sem mundi veita mörgum þann valkost að spara bílinn og bensínkaup, draga úr innflutningi bensíns og, síðast en ekki síst, draga úr atvinnuleysi meðal bílstjóra.

Þessar leiðir verða auðvitað ekki farnar nema í samráði allra aðila, atvinnurekenda, stéttarfélaga, ríkis og sveitarfélaga.

Dreifum tekjunum

Ef stéttarfélögin sætta sig við hóflegar kjarabætur, þótt á móti kæmi styttri vinnutími, þá er líka grundvallaratriði að allt bókhald fyrirtækjanna verði opið og öll laun og tekjur verði uppi á borðinu. Það hlýtur líka að vera skilyrði fyrir opinberri aðstoð við fyrirtækin, hvernig svo sem henni yrði hagað.

Það er ekki nóg að dreifa vinnunni. Það þarf líka að dreifa tekjunum. Það mætti hugsa sér, þó ekki væri nema sem kreppuráðstöfun, að setja sér það viðmið að hæstu nettólaun, þ.e. að frádregnum skatti, í fyrirtækjum og stofnunum yrðu aldrei hærri en tvöföld lægstu nettólaun. Þetta næði til allra starfsmanna, einnig stjórnenda, og líka á einhvern hátt til eigenda varðandi arðgreiðslur. Ef forstjórinn hefði t.d. 600 þúsund að frádregnum skatti, þá yrðu lægstu laun í fyrirtækinu aldrei lægri en 300 þúsund eftir skatt. Að öðrum kosti yrðu laun forstjórans að lækka.

Hjá Reykjavíkurborg, þar sem ég starfa, er lægsti launataxti sem nú er borgað eftir 150.203 kr. Af þessum launum fara 13.671 kr. í skatt. Eftir standa 136.532 kr. Svo eru menn að væla yfir hóflegum hátekjuskatti! Að vísu eru fáir á þessum allra lægstu töxtum, en það er líka fólk sem þarf að lifa – og hefur sama rétt og aðrir á mannsæmandi lífi. Sjálfur er ég, háskólamenntaður starfsmaður í hæsta launaþrepi hjá Reykjavíkurborg, á launataxta sem gefur 289.617 kr. á mánuði, skattur 65.533, laun eftir skatt 224.084 kr. Ég er sem sagt með 64% hærri nettólaun en sá lægsti hjá Reykjavíkurborg. Ég segi ekki að ég hafi það neitt ósköp gott á þessum launum árið 2009 og finnst óþarfi að gefa neitt eftir meðan aðrir eru með margfaldar tekjur á við mig, en ég skrimti, allavega betur en þeir lægst launuðu. Verkalýðurinn ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins, síst þeir lægst launuðu og valdaminnstu. Ef það er kreppa, þá verða hinir betur stæðu bara að gefa eftir. Svo einfalt er það.


Enga meðvirkni með kínversku stjórninni

Það nær ekki nokkurri átt að menn séu einlægt á tánum gagnvart kínverskum stjórnvöldum um leið og Dalai Lama fer í ferðalag. Eina leiðin gagnvart kínversku stjórninni er að hvar sem Dalai Lama kemur, þá hitti hann einhverja fulltrúa stjórnvalda, helst í æðstu stöðum. Þannig getur kínverska stjórnin á endanum lítið gert annað en nöldra. Það er því gott fordæmi hjá ráðherrum og Alþingi að hitta Dalai Lama, sama er að segja um danska forsætisráðherrann. Ef menn hafa áhyggjur af viðskiptum við Kína, þá verða menn bara að líta á það raunsæjum augum að viðskipti við þá sem beita kúgun og brjóta mannréttindi eru alltaf annmörkum háð - þau eiga hreinlega að vera annmörkum háð.
mbl.is Mótmælum komið á framfæri við sendiherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar í þágu samfélags

Höldum bönkunum í samfélagslegri eigu

Birtist í Smugunni  29. maí 2009

Óheft einkaeign fjármagns er samfélagsleg meinsemd. Ólýðræðisleg yfirráð yfir fjármagninu skerða lýðræðið verulega. Í samanburði við það er misvægi atkvæða milli  kjördæma tittlingaskítur. Lýðræðisumbætur, sem ekki taka á þessum vanda, eru hálfkák.

Sjaldan hefur þessi lýðræðishalli verið jafn greinilegur og að undanförnu, hvort sem litið er til Íslands eða heimsins alls: skipulag bæja miðast við hagsmuni fyrirtækjanna, sókn einstaklinga eftir hámarksgróða skekur heilu byggðarlögin, tvær verslanakeðjur umbreyta skipulagi matvöruverslunarinnar, lítill hópur manna ræður nær öllum fjölmiðlum, allskyns menningarstarfsemi verður meira og minna háð framlögum auðmanna – á undanförnum árum var nánast hægt að tala um einkavæðingu fjárveitingavaldsins.

Og nú, þegar stjórnvöld leitast við að reisa hagkerfi Íslands við eftir kollsteypu þess – vegna einkavæðingar bankanna, segja sumir, þá eru það handhafar fjármagnsins sem valda stöðugum vandræðum, og þó er tilhneiging til að fela þá og persónugera fjármagnið: áhættusækið fjármagn, þolinmótt eða óþolinmótt fjármagn, fjármagnið flýr land. Jafnframt verður fjármagnið náttúrukraftur, það streymir, það þarf að virkja það, en þó tekst aldrei að ná almennilegum tökum á því, það líkist frekar vindum loftsins en jökulám. En fjármagnið  er hvorki sjálfstæð persóna né óháður náttúrukraftur, það er verkfæri manna, verkfæri sem fáir ráða yfir og nota til að skara eld að sinni köku.

Nýfrjálshyggjan ekki læknuð


Varla var ríkið búið að taka yfir bankana í fyrrahaust og þar með þjóðnýta tapið en farið var að tala um nauðsyn þess að selja þá aftur. Furðu fáir hafa orðið til að andmæla þessu, það er eins og nýfrjálshyggjan sitji enn eins og mallandi veira í þjóðinni. Þeir sem lengst eru til vinstri leyfa sér að tala um að ríkið haldi kannski einum banka. Annars virðast flestir sammála um að það sé ekki í verkahring ríkisins að reka banka.

Fæstir rökstyðja það, þetta er einskonar ritningargrein, en sumir vísa þó með hryllingi til þess þegar bankarnir voru undir hæl stjórnmálaflokkanna sem skiptu með sér áhrifum og nýttu í þágu flokkgæðinga meðan almenningur þurfti nánast að leggjast á hnén fyrir framan bankastjórana til að særa út smálán. Sömu menn segja svo, þegar bent er á að einkavæðing bankanna eigi stærstan þátt í efnahagshruninu, að það hafi bara verið vegna þess hvernig staðið var að einkavæðingunni og hvernig bankarnir voru reknir. En rétt eins og hægt er að haga einkarekstri á ýmsan hátt, þá er líka hægt að haga samfélagslegum rekstri á ýmsan hátt. Og ríkisrekstur er ekki eini valkosturinn við einkarekstur, þar má líka hugsa sér ýmis form samvinnurekstrar án gróðasjónarmiða.

Ég ætla ekki að leggja til að hver einasta króna á sparireikningum landsmanna verði þjóðnýtt eða sett undir stalínískt eftirlit. Ég ætla heldur ekki að leggja til að ríkið taki yfir öll fyrirtæki og komi í veg fyrir allt einkaframtak. Þvert á móti. Það er einmitt hin óhefta einkaeign á fjármagni og yfirráð einkaaðila yfir því sem hafa leikið einkaframtakið verst hér á landi sem annars staðar. Stórfyrirtækin hafa sölsað undir sig hvert sviðið af öðru og rutt framtakssömum einstaklingum – eða hópum – úr vegi þannig að einkaframtakið hefur í æ ríkari mæli orðið að einkaframtaki hinna fáu.

Hagnaður einstaklinga má ekki ráða


En starfsemi banka er að því leyti sérstök að þar er eingöngu sýslað með fjármagn. Og yfirráðum yfir fjármagni fylgir vald. Þess vegna eiga fjármálastofnanir og fyrirtæki að vera í einhverskonar samfélagslegri eigu og lúta lýðræðislegri stjórn og eftirliti. Hagnaðarsjónarmið einstaklinga mega alls ekki ráða rekstri þeirra. Og almenningur, sem felur þeim sparifé sitt til vörslu eða fær hjá þeim lán til nauðsynja, verður að geta treyst þeim.

Með opinberum eða samfélagslegum rekstri bankanna vinnst tvennt: Annarsvegar er dregið úr þeim lýðræðishalla sem einkayfirráð yfir fjármagninu veldur. Hinsvegar er þá hægt að reka bankana út frá sjónarmiðum almannaþjónustunnar, sem tekur fyrst og fremst mið af almannahagsmunum í stað gróðasjónarmiða sem ýta undir fjármálabrask og valda efnahagslegum óstöðugleika og á endanum bankakreppum. En verði hagnaður skilar hann sér til samfélagsins, enda kemur hann þaðan.

 


Ríkisstjórnarsamstarf með beisku bragði

Klukkan rúmlega 9 í morgun hófst flokksráðsfundur Vinstri grænna. Fyrir þennan fund var lögð samstarfsyfirlýsing Vinstri grænna og Samfylkingar - yfirlýsing um ríkisstjórnarsamstarf. Eftir miklar umræður var hún samþykkt með meirihluta atkvæða á þriðja tímanum.

Um þessa yfirlýsingu má hafa ýmis orð, hún er auðvitað málamiðlun og í henni er margt gott, ýmislegt sem betur mætti fara og einhvers er kannski að sakna sem þar ætti að vera. Ein ríkisstjórn á ekki - og getur ekki - starfað eftir einhverri fullkominni starfskrá, mörg verkefni ríkisstjórna eru þess eðlis að hún verður að vinna úr þeim eftir því sem aðstæður leyfa. Og því er  það með þessa yfirlýsingu, að þótt inntak hennar sé mikilvægt svo langt sem það nær, þá er hitt jafnmikilvægt hvernig spilað verður úr því.

Eitt mál var það sem helst stóð í mörgum fundarmönnum. Það var ESB-málið. Á landsfundi Vinstri grænna í mars var samþykkt afdráttarlaust að VG teldi „að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins".  Jafnframt sagði í yfirlýsingu fundarins: „Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Margir félagar í VG telja að með þessu hafi fundurinn hafnað því að VG standi að aðildarumsókn, en verði umsókn lögð fram verði niðurstaðan lögð undir þjóðaratkvæði.

Í samstarfsyfirlýsingunni, sem flokksráð VG samþykkti í dag, var sagt eitthvað á þá leið (ég er ekki með hana við höndina þegar ég skrifa þetta), að utanríkisráðherra muni leggja fyrir vorþingið (þ.e. nýhafið þing) tillögu um aðildarumsókn. Síðan er sagt að báðir flokkar virði sjónarmið hins og með því er opnað fyrir að þingmenn VG geti greitt atkvæði gegn tillögunni án þess að setja stjórnarsamstarfið í uppnám.

Þetta er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að VG standi að þessari aðildarumsókn, jafnvel þótt allir þingmenn greiði atkvæði gegn henni. Með þessari yfirlýsingu hefur VG einfaldlega, ásamt Samfylkingunni, falið utanríkisráðherra að leggja tillögu um aðildarumsókn fyrir þingið.

Sjálfur er ég eindregið á móti aðild að ESB og ég tel mótsögn í því fólgna að standa að aðildarumsókn ef ég er fyrirfram á móti aðild, ef ég sem sagt hef ekki trú á því að aðildarviðræður mundu skila einhverju sem ég gæti stutt. Þetta á við um mig persónulega og þetta tel ég að eigi líka að eiga við um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Hér tel ég að Samfylkingunni hafi tekist að þvinga forystu VG til að samþykkja þessa málsmeðferð þar sem stjórnarsamstarf hefði ella ekki verið í boði.

Þetta atriði í samstarfsyfirlýsingunni gat ég ekki samþykkt og greiddi því atkvæði gegn henni. Það var mér svo sem ekki ljúft, því að ég styð ég hana að öðru leyti og þessa ríkisstjórn.

 

Sjá líka: Þingið greiði atkvæði - til þess er það

 

 

Vinstri menn, alþjóðahyggjan og ESB

Í grein sem birtist í dag, 2. maí, á vefrritinu Nei. fjallar Viðar Þorsteinsson um vinstri hreyfinguna, alþjóðahyggju og þjóðernishyggju, hann setur þetta í sögulegt samhengi, hann fjallar um alþjóðlega andkapítalíska hreyfingu nútímans, gagnrýnir íslenka vinstri menn fyrir að sitja utan við hana og sjá ekki lengra en að landamærum Evrópusambandsins um leið og hann skýrir eðli þess.

 Upplýsandi grein og mikilvæg brýning til vinstri manna:

http://this.is/nei/?p=5394

 

 

 


1. maí: baráttudagur! Fjölmennum með fána, kröfuspjöld og potta og pönnur!

Þökk sé kröfum og virkni almennings í vetur, búsáhaldabyltingunni, urðu stjórnarskipti og síðan kosningar. Þetta var sjálfsprottin virkni. Hagsmunasamtök almennings, svo sem stéttarfélögin, komu hvergi nærri. Og almenningur mundi ekki heldur eftir þessum samtökum sínum. Fólkið sem safnaðist saman á Austurvelli og víðar nefndi varla stéttarfélögin, ég man ekki eftir nema á einum fundi í Háskólabíói sem forystumenn stéttarfélaganna voru kallaðir til, annað var eitthvað óverulegt. Afl stéttarfélaganna, afl verkalýðshreyfingarinnar var ekki nýtt.

 Hin sjálfsprottna hreyfing kyrrðist nokkuð eftir stjórnarskiptin, en hún skilaði sér auðvitað í kosningunum með gjörbreyttu fylgi stjórnmálaflokkanna, einkum miklu fylgistapi þess flokks sem höfuðábyrgð bar á hruninu og mikilli fylgisaukningu þess flokks sem einarðast hafði gagnrýnt þróunina auk mikils fylgis þess nýja framboðs sem spratt upp úr þessari hreyfingu.

 En hefur búsáhaldabyltingin skilað meiru? Ætluðum við bara að fá aðra ríkisstjórn sem hagaði sér skár, virti betur reglur lýðræðisins, kæmi okkur yfir kreppuna og dreifði byrðum hennar, byrðum ránsins, jafnar á okkur? Eða viljum við halda áfram og ná þeim sem frömdu ránið, ná ránsfengnum og búa svo um hnútana að slíkt rán verði ekki framið aftur? Það er ansi miklu stærra verkefni en að skipta um stjórn og gera einhverjar  umbætur í stjórnsýslunni.

 Það verkefni þýðir óhjákvæmilega árekstra, harða árekstra, við auðvaldið. Engin ríkisstjórn ræður við slíkt verkefni nema hún hafi almenning með sér og fæstar ríkisstjórnir leggja í slíkt verkefni nema þær búi við þrýsting frá almenningi. Og í öllu þessu skiptir verkalýðshreyfingin líka miklu máli, stéttarfélögin eiga að standa vörð um kjör almennings og þau þurfa líka að standa sig. Hinir almennu félagar verða að standa að baki forystunni, hvetja hana, knýja á hana, og ganga fram fyrir skjöldu ef því er að skipta, rétt eins og í búsáhaldabyltingunni.

 Byltingunni er ekki lokið. Tökum fram pottana og pönnurnar 1. maí, rauða fána og öll spjöldin með þeim kröfum sem enn hafa ekki verið uppfylltar. Fram til baráttu félagar, látum til okkar sjást og í okkur heyra ! 1. maí er baráttudagur - allir dagar eru baráttudagar!


Þingið greiði atkvæði - til þess er það

Ég skil ekki þetta ESB-vesen varðandi stjórnarmyndun.

Þarf endilega að hafa eitthvað um það í stjórnarsáttmála? Er ekki einfaldast að þeir sem vilja sækja um aðild beri upp tillögu um það á Alþingi og svo bara ráði meirihluti þingsins? Er það ekki lýðræðislegast? Það er svo hægt að hafa það annað hvort þannig að þingið taki afstöðu beint til aðildarumsóknar eða hvort eigi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingið sjái sem sagt um þetta og þar með er hægt að drífa í að mynda stjórn og snúa sér að þeim aðkallandi verkum sem bíða. Og svo sætta stjórnarflokkarnir sig bara við niðurstöðuna, hver sem hún verður, og stjórnin framkvæmir það sem þingið ákveður.

 Þetta hlýtur að vera lýðræðislegra og eðlilegra en að Samfylkingin nýti sér stöðuna í samfélaginu til að þröngva Vinstrigænum til einhvers sem þau eru ósátt við - nú, eða öfugt, ef einhver vill orða það svo.

 


mbl.is Evrópumálið sett í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum VG – en látum ekki þar við sitja. Baráttan heldur áfram!

Fyrir rúmum tíu árum tók ég þátt í að stofna Vinstrihreyfinguna - grænt framboð vegna þess að í þeim hópi var ákveðin gagnrýni á nýfrjálshyggjuna, sem þá sótti mjög á hér sem víðar, og þar kom fram ákveðin umhverfisstefna og gagnrýni á þá tæknirökhyggju sem hafði gegnsýrt iðnvædd samfélög undanfarin tvö hundruð ár, bæði kapítalísk og sósíalísk. Að mínu mati var brýn þörf fyrir slíkan flokk til mótvægis við hina flokkana, sem allir sátu meira og minna fastir í nýfrjálshyggju og tæknirökhyggju með tilheyrandi einkavæðingu bankakerfisins og stóriðjulausnum. Og þar sá ég tækifæri fyrir mig að hafa áhrif - flokkurinn varð sem sagt lýðræðislegt tækifæri fyrir mig, hvað sem öllu „flokksræði" líður.

 Í tíu ár var þessi flokkur síðan einn innan þings til að andæfa þeirri stefnu sem leiddi til hrunsins í haust. Við máttum sitja undir háðsglósum á borð við „fjallagrasaflokk" og „lopapeysulið", við vorum kölluð þröngsýn og afturhaldssöm o.s.frv. En við létum það ekki á okkur fá.

 Eftir að það kom fram, sem við vöruðum alla tíð við, megum við svo sitja undir að vera spyrt saman við hina flokkana, sem hæddu okkur fyrir viðvaranir okkar, við erum kennd við „fjórflokkinn" og sökuð um flokksræði og nú þykir brýnt að gefa okkur frí eins og hinum.

 Vandamálið er ekki flokksræði heldur auðræði og þeir flokkar sem hafa meira og minna þjónað auðræðinu.

 Vandi VG núna, einkum ef hann heldur áfram þátttöku í ríkisstjórn í málamiðlun við annan flokk, einn eða fleiri, er að standa í lappirnar gegn auðvaldinu, sem mun gera allt sem hægt er til að halda sínu. Góð kosning og svo áfram öflugur stuðningur - og aðhald - úti í samfélaginu, skiptir miklu máli. Stuðningur við VG er skilaboð um að við viljum ekki lengur láta hagsmuni auðvaldsins ráða för.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband