Eftirfarandi grein birtist svolítið stytt í Morgunblaðinu 1. apríl
Nú er mikið talað um lýðræði og flokksræði gagnrýnt. Þessi umræða er mikilvæg en yfirborðsleg og vægi hennar sérkennilegt í kjölfar efnahagshruns, sem stafar aðallega af því að hópur auðmanna hefur ráðskast með efnahagskerfið og stolið og sólundað þjóðarauðnum. Það er sérkennilegt að þá skuli aðalumræðan um samfélagslegar umbætur snúast um stjórnkerfið, kosningakerfið og stjórnmálaflokkana.
Hverju breytir persónukjör til alþingis? Hefði eitthvað farið öðruvísi þótt flokksræði" hefði verið minna? Að hve miklu hafa stjórnmálamenn og flokkar ráðið ferðinni og að hve miklu leyti auðstéttin? Þurfum við ekki frekar að huga að auðræðinu en flokksræðinu?
Auðstéttin teflir fram sínum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum hvernig sem kosningakerfið er, og þá er kannski betra en ekki að hafa aðra flokka, eins og Vinstri græna, til mótvægis, hvað sem tali um fjórflokkinn" líður. En línurnar eru ekki lagðar á vettvangi stjórnmálamanna og flokka. Sókn nýfrjálshyggjunnar var ekki mótuð innan stjórnmálaflokka heldur á æði fjölbreytilegum og flóknum vettvangi, sem auðstéttin hefur til að ráða ráðum sínum og móta þá hugmyndafræði sem henni hentar. Þar spila saman allskyns stofnanir, svokallaðar hugveitur (think tanks), háskólar eða háskóladeildir sem auðmenn fjármagna (hér t.d. Háskólinn í Reykjavík), fjölmiðlar sem auðmenn einoka (hér allir helstu fjölmiðlar nema RÚV), ráðgjafafyrirtæki (í Bretlandi voru t.d. fyrirtækin Price Waterhouse og Coopers & Lybrand meðal helstu ráðgjafa þegar einkavæðingin fór þar á fullt upp úr 1980), klúbbar eins og Bilderberg eða stofnanatengdar ráðstefnur eins og World Economic Forum - eða Viðskiptaþing, svo fátt eitt sé nefnt. Og svo ráða auðmennirnir einfaldlega beint með auðnum: hverjir hafa í raun skipulagt matvælaverslunina á Íslandi, eða uppbyggingu heilla hverfa eins og t.d. Skuggahverfisins í Reykjavík og auðu hverfanna út um alla móa, eða stefnuna í íslenska fjármálakerfinu á undanförnum árum? Fulltrúar þeirra á stjórnmálasviðinu gera það sem þeim er sagt.
Meðan ekki er komið skikk á skiptingu auðsins og lýðræði í eignarhaldi og rekstri fyrirtækja hafa stjórnkerfisbreytingar einar sér lítið að segja. Einblínum ekki á þær meðan auðmennirnir ráða ráðum sínum bak við tjöldin í því skyni að sölsa allt undir sig aftur og hefja leikinn á ný.